Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Mæling á útblástursmengun

    Mæling á CO- og λ-gildi í útblæstri (St2.3.3.1)

    A. Notkunarsvið

    Þessi mæling er til þess að athuga magn mengandi efna í útblástri bensínökutækja og annarra ökutækja sem eru með hreyfli búnum rafkveikju. Útblástur ökutækja með tvígengisvél skal ekki mældur.

    Mælt er kolsýrlingsmagn (CO) allra ökutækja í hægagangi og kolsýrlingsmagn (CO) og λ-gildi bifreiða með bensínvél sem eru búnar þrívirkum hvarfakúti og lambdanema við >2000 sn/mín.

    Hafi ökutæki verið breytt til þess að brenna einnig metan gas skal vera rofi í mælaborði til að aftengja búnaðinn á meðan afgasmæling fer fram.

    B. Undirbúningur fyrir CO- og λ-gildis mælingu
    1. Fyrir mælingu skal gengið úr skugga um að útblásturskerfi leki ekki verulega en það getur breytt niðurstöðu mælingarinnar. Ef um mikinn leka er að ræða skal ekki mæla og skrá frávik á skoðunarvottorð. Þegar bifreið eða bifhjól er fært til endurskoðunar vegna slíks leka á útblásturskerfi skal í öllum tilfellum mæla og skrá CO-innihald (óháð niðurstöðu þeirrar mælingar í undangengnum skoðunum). (St2.2.2.2)

    2. Hreyfill ökutækja skal ganga við eðlilegan vinnuhita. Ef þörf er á skal búa hreyfil undir mælingu með því að láta hann ganga hraðar nokkrar sekúndur fyrir mælingu. Reynist hreyfill ekki kominn upp í eðlilegan vinnuhita verður að láta hann ganga lengur til þess að hita sig. Ekki skal mæla ökutæki þar sem innsogs- eða kaldræsibúnaður hefur enn áhrif eftir að hreyfill er orðinn heitur. Sjá einnig sértækar upplýsingar um of háan hita í blöndungi.

    3. Hreyfill ökutækis skal ganga annars vegar á eðlilegum hægagangshraða og hinsvegar við >2000 sn/mín þegar mælt er. Ekki skal mæla hreyfil sem gengur óeðlilega hratt í hægagangi.

    4. Beinskipt ökutæki skulu vera í hlutlausum gír með tengslisfetil uppi. Ökutæki með sjálfskiptingu skulu settar í stöðugír.

    C. Mæling
    1. Áður en mæling er framkvæmd skal tengja sogbarka þétt við útblástursrör. Hafa skal sogbarka í beinni stöðu, þ.e.a.s. úttak fyrir afgasmæli skal vísa upp.

    2. Ef mörg útblástursrör eru á sömu bifreið skal mæla útblástur frá hverju röri. Mæliniðurstaða verður þá hæsta gildið.

    3. Að uppfylltum skilyrðum í kafla B: „Undirbúningur fyrir CO-og λ- gildis mælingu” er mæling á CO-gildi framkvæmd á öllum bifreiðum í hægagangi og CO- og λ-gildi við >2000 sn/mín. á bifreiðum sem eru með þrívirkan hvarfakút og lambdastýringu. Lesa skal af mæli eftir að hann er kominn í jafnvægi.

    4. Þegar mæling hefur farið fram skal mælir aftengdur.

    Mæling á reykþykkni (St2.3.3.2)

    A. Notkunarsvið

    Við mælingu er dæmt um reykþykkni frá díselhreyflum. Mældur er svonefndur K-stuðull (m-1) í útblæstri hreyfils.

    B. Undirbúningur fyrir mælingu reykþykktar

    Fyrir mælingu skal þess gætt að hreyfill ökutækis hafi náð u.þ.b. 80°C vinnuhita. Þetta er mælt með skynjara í röri fyrir olíukvarða eða með innrauðum geislamæli á hreyfilblokkinni. Ef ekki er hægt að mæla hitastigið með þessum aðferðum vegna byggingar ökutækisins verður að meta hitastig hreyfilsins á annan hátt, t.d. með því að láta hreyfilinn ganga þar til kælivifta fer í gang eða vatnslás opnar. Auk þess skal þess gætt að útblásturskerfi leki ekki verulega en það gæti þynnt reykinn.

    C. Mæling
    1. Mæliskynjara skal stungið inn í útblástursrörið svo djúpt að samsvari a.m.k. þreföldu þvermáli þess. Jafnframt skal þess gætt eftir föngum að skynjarinn liggi samhliða straumstefnu útblástursins og jafnframt þannig að op skynjarans sé í miðju rörinu. Aldrei skal þó stinga skynjaranum grynnra en 20 cm inn. Ef ekki er unnt að stinga skynjara nægilega djúpt skal bæta framlengingu við útblástursrörið af hæfilegri stærð og skal hún falla þétt að stútnum.

    2. Bifreiðin skal höfð í hlutlausum gír. Með hreyfilinn í lausagangi skal auka inngjöf snögglega, en þó ekki harkalega í fulla gjöf á innan við einni sekúndu, til að ná hámarksskammti frá eldsneytisdælu. Þessari stöðu skal haldið þar til hámarkssnúningshraða (2/3 af snúningshraða ef ökutækið er sjálfskipt) er náð og gangráðurinn slær af. Þá skal sleppa eldsneytisgjöfinni. Eftir þetta skal K-gildið lesið af reykþykknismæli.

    3. Aðferðin sem lýst er í b. lið hér að framan skal framkvæmd a.m.k. sex sinnum með a.m.k. 10 sek. millibili. Fyrstu þrjár mælingarnar er ekki lögð til grundvallar niðurstöðu mælingarinnar, heldur notuð til að hreinsa útblásturskerfið. Niðurstaðan er meðaltal þriggja síðustu mælinga, nema mæligildi annarrar mælingar sé K<1,8 m-1 fyrir hreyfil án forþjöppu og K<2,1 m-1 fyrir hreyfil með forþjöppu. Þá telst mæligildi vera innan viðmiðunarmarka.


    Mæling á hávaðamengun

    Mæling á hljóðstyrk

    Mælingar á hljóðstyrk (nálægðarmæliaðferð) (St2.2.3.3). Í vafatilvikum skal mæling á hljóðstyrk framkvæmd eins og hér er lýst.

    A. Mælisvæði

    Til að draga úr áhrifum umhverfis er nauðsynlegt að mælisvæði sé opið svæði með a.m.k. 3 m til allra átta frá jöðrum ökutækis. Ef á mælisvæðinu er einhvers konar upphækkun, t.d. tröppur, þá verður hún að vera í a.m.k. 1 m fjarlægð frá jaðri ökutækisins. Vegna hættu á truflunum skulu hvorki menn né hlutir vera á mælisvæðinu meðan á mælingu stendur fyrir utan skoðunarmann og umráðamann ökutækisins. Sjá mynd 1.

    havadamaeling1

    Mynd 1. Mælisvæði og mælistaður.

    B. Umhverfishávaði og áhrif vinds

    Til þess að mælingar séu marktækar þarf umhverfishávaði (þar með talinn vindur) að vera a.m.k. 10 dB lægri en mæld gildi á hvaða mælistað sem er. Mælingar skulu ekki gerðar í óhagstæðri veðráttu því vindur og þoka getur haft áhrif á mælingar.

    C. Undirbúningur mælingar

    Staðsetja skal ökutækið í miðju mælisvæðisins í hlutlausum gír og með stöðuhemil á. Ekki má stíga á tengslisfótstig meðan á mælingu stendur. Í þeim tilvikum þar sem bifhjól hefur engan hlutlausan gír skal mæling fara fram með afturhjólið í lausu lofti.

    Áður en mæling á sér stað skal þess gætt að vél ökutækisins hafi náð eðlilegum vinnuhita.

    Hljóðnemi er staðsettur þannig að hæð hans frá jörðu skuli í öllu falli vera sú sama og hæð útblástursrörs ökutækisins en þó ekki minni en 0,2 m. Fjarlægð milli hljóðnemans og enda rörsins skal vera 0,5 m og mynda 45 ± 10° horn við lóðrétt plan frá endastefnu útblástursrörsins (sjá mynd 1). Í þeim tilvikum þar sem ökutæki hefur fleiri en eitt útblástursrör sem tengjast í einum hljóðdeyfi með fjarlægð minni en 0,3 m milli röranna skal eingöngu nota einn mælipunkt. Hljóðneminn skal staðsettur við það op sem næst er annarri hvorri hlið ökutækisins, en ef slíkt op er ekki fyrir hendi skal miða við það op sem hæst er yfir jörðu. Hins vegar ef fjarlægðin er meiri en 0,3 m skal taka mælingu á öllum útblástursrörum og hæsta gildi lagt til grundvallar. Í ökutækjum með lóðrétt útblástursrör skal hljóðneminn staðsettur í hæð þess í 0,5 m fjarlægð frá rörinu fjærst ökutækinu.

    D. Framkvæmd mælinga

    Snúningur vélar ökutækisins við mælingu skal vera 75% af þeim snúningshraða vélar sem framkallar hámarksafköst samkvæmt upplýsingum framleiðanda. Fyrir bifhjól gildir sú regla að mælt skal við helming þess snúnings sem gefur hámarksafköst ef sá snúningur er meiri en 5000 sn/mín, en á sama hátt og fyrir bifreið ef snúningur við hámarksafköst er minni en 5000 sn/mín. Strax eftir að þessum snúningshraða er náð er eldsneytisgjöfinni sleppt snögglega og hæsta gildi mælingar alls ferlisins lagt til grundvallar.

    Á hverjum mælistað skal taka a.m.k. þrjú mæligildi hvert á eftir öðru. Mæling er marktæk ef mismunur milli mæligilda er minni en 2 dB. Meðaltal þessara þriggja mæligilda gefur niðurstöðu mælingarinnar.


    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Útblástursmengun bensínhreyfils - fjórgasmælir: Mælingar á útblæstri bensínvéla.

    • Útblástursmengun díselhreyfils - reykþykknimælir: Mælingar á útblæstri díselvéla.

    • Snúningshraðamælir (valkvæður): Mat á snúningshraða hreyfils vegna mælinga á útblástursmengun eða hávaðamengun.

    • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

    • Hávaðamælir: Mælingar á hávaða frá vélknúnum ökutækjum.

    Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Tilskipun um skoðun ökutækja nr. 2014/45/EU.