Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Samantektir og tilkynningar

    Sérstakar tímabundnar tilkynningar, svokallaðar öryggistilkynningar, ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra.

    Reglur um skráningu og breytingu ökutækisflokka, notkunarflokka og veigamikilla breytinga á ökutækjum má sjá í skráningareglum ökutækja.

    Tilvísanir til þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi.

    Leiðbeiningaskjöl og ítarefni fyrir reglubundnar skoðanir er að finna undir þeirri verklagbók.

    Efni kaflans

    Skoðun bifhjóla

    Sérstök áhersluatriði við skoðun bifhjóla en ekki er um tæmandi upptalningu á skoðunaratriðum að ræða (sjá nánar verklagsbók reglubundinna skoðana). Sjá einnig yfirlit ökutækisflokka bifhjóla.


    K0: Auðkenni

    Skráningarmerki (Atriði 0.1)

    Skráningarmerki skal komið fyrir á þar til gerðum fleti þar sem það sést vel og tryggilega fest. Athuga sérstaklega við skoðun:

    • Staðsetning skráningarmerkis skal vera aftan á ökutæki þannig að ytri brúnir skráningarmerkis fari ekki út fyrir breidd ökutækisins. Borið hefur á því að skráningarmerki hafi verið fært af tæknilegri ástæðuleysu (er á hlið þótt það snúi samt aftur).

    • Skráningarmerki skal vera í lóðréttri eða sem næst lóðréttri stöðu og áletrun lárétt. Borið hefur á því að skráningarmerki halli of mikið og jafnvel því sé ekki snúið rétt (sé upp á rönd).

    • Skráningarmerki má ekki vera heimatilbúið eða búið að klippa utan af því eða eiga við það á annan hátt. Litið er svo á að skráningarmerki vanti sé á því heimatilbúið merki og þá skal skoðun hafnað.

    • Hafi þurft að færa skráningarmerki til af tæknilegri ástæðu (t.d. önnur gerð eða útfærsla hjólhlífar) þá skal skráningarmerkið uppfylla allar reglur, þ.e. vera aftan á, vera lóðrétt (mest 5° frá lóðréttum ás), snúa rétt (áletrun lárétt), sýnilegt án takmarkana í sjónsviði innan 30° geisla ofan við og til hliða.


    K1: Hemlabúnaður

    Þegar framkvæma á hemlapróf á bifhjóli þarf annað hvort að mæla hemlun í þar til gerðum bremsuprófara eða að mæla hemlun í akstri.

    Mæling á hemlun í akstri (Atriði 1.2.2.3)

    Mæla má helmun í akstri með notkun hemlaklukku eða á mælisvæði. Gæta skal fyllstu varúðar með tilliti til annarrar umferðar og sömuleiðis að aðstæður séu fullnægjandi hvað varðar veggrip.

    Sé notuð hemlaklukka er það gert á eftirfarandi hátt:

    1. Framkvæmdin skal fara fram á láréttum vegi með föstu yfirborði.

    2. Festa skal hemlaklukkuna við bifhjólið og núllstilla hana.

    3. Síðan skal ekið á að lágmarki 30 km/klst og hemlum beitt til bifhjólið stöðvast. Mæla skal bæði hemlakerfin í einu með hæfilegu átaki á hvort þeirra. Einnig skal mæla afturhemlakerfið sérstaklega.

    4. Þetta getur þurft að endurtaka með auknu átaki ef nægileg hemlun hefur ekki náðst.

    5. Lesið er af hemlaklukkunni (hámarksgildi hemlunar).

    Einnig er hægt að útbúa sérstakt mælisvæði (keilubraut) þar sem vegalengd hraðaminnkunar frá tilteknum hraða niður í núll er mæld. Út frá vegalengd og upphafshraða er hemlunin reiknuð. Þetta er gert á eftirfarandi hátt:

    1. Prófun skal fara fram á malbikuðu, steyptu eða hellulögðu opnu svæði þar sem hámarkshraði er a.m.k. 30 km/klst. Yfirborð skal vera þurrt.

    2. Merkingar eru settar á svæðið þar sem hemlun hefst (og þar þarf bifhjólið að geta náð hraðanum 30 km/klst) ásamt viðeigandi merkingu þar sem bifhjólið á að hafa stöðvast (sjá vegalengd í töflunni).

    3. Skoðunarmaður eða ökumaður bifhjólsins ekur hjólinu á 30 km/klst (8,33 m/s) samkvæmt mæli bifhjólsins eða staðsetningartæki (GPS) skoðunarstofu og beitir hemlum frá því merki sem hemlun hefst.

    4. Þegar bifhjól hefur stöðvast sést innan hvaða marka (merkinga) hemlunarvegalengd hjólsins er. Mæla skal bæði hemlakerfin í einu með hæfilegu átaki á hvort þeirra. Einnig skal mæla afturhemlakerfið sérstaklega.

    5. Þetta getur þurft að endurtaka með auknu átaki ef nægileg hemlun hefur ekki náðst.

    6. Hemlun viðkomandi hemla lesnir úr töflunni og dæmt eftir því sem við á.

    Atriði 1.2.2

    Vegalengd dæm2

    Hemlun dæm2

    Vegalengd dæm3

    Hemlun dæm3

    L1e

    9,2 m

    42%

    18,4 m

    21%

    L2e, L6e

    9,6 m

    40%

    19,3 m

    20%

    L3e

    7,7 m

    50%

    15,4 m

    25%

    L4e

    8,4 m

    46%

    16,8 m

    23%

    L5e, L7e

    8,8 m

    44%

    17,5 m

    22%

    Allir fl, afturhjól*

    15,4 m

    25%

    30,8 m

    12,5%

    Til útskýringa á samhengi hemlunarvegalengdar (d í metrum) og hemlunar (a í m/s2), þá er eftirfarandi jafna notuð (reiknað er með að núningsstuðull (µ) milli yfirborðs og hjólbarða sé u.þ.b. 0,9 og upphafshraði (v) sé 8,33 m/s: d = v2 / (2 x µ x a).

    * Við mat á hemlun afturhjóls/afturhjóla allra flokka er miðað við heildarþyngd. Yfirleitt er prófunarþyngd nálægt heildarþyngd og því ætti ekki að þurfa frekara mat.


    K4: Ljósker, glitaugu og rafbúnaður

    Mæling á stillingu aðalljósa (Atriði 4.1.1)

    Framkvæmd mælingar og áhersluatriði eru þessi:

    • Setið skal á bifhjóli á meðan á mælingu á ljósastillingu fer fram.

    • Mæling er gerð á sama hátt og fyrir bifreið. Mæld eru efri mörk, neðri mörk, lögun geisla og hliðarstefna eins og venjulega.

    Afturljós og tilfærsla þeirra (Atriði 4.2.3, 4.3.3 og 4.5.1)

    Áhersluatriði eru þessi:

    • Stöðuljós, hemlaljós og þokuafturljós skulu vera aftan á bifhjólinu (ekki aftarlega á hlið). Borið hefur á því að þau hafi verið færð af tæknilegri ástæðuleysu (framar/innar á bifhjólinu í stað þess að vera aftast eða aftaná) og jafnvel samhliða ástæðulausri tilfærslu skráningarmerkis.

    • Áskilin staðsetning ljóskera er mismunandi eftir ökutækisflokkum bifhjóla, sjá um áskilin og leyfð ljós.

    Stefnuljósker (Atriði 4.4)

    Áhersluatriði eru þessi:

    • Fjarlægð á milli stefnuljóskera og dreifing ljóssins innávið er ákvæðum bundin. Borið hefur á því að við endurnýjuð stefnuljósa hafi ekki verið gætt að réttri staðsetningu þeirra (jafnvel kominn óviðurkennd afturljósasamstæða með öllum ljósum) og þarf þá að skoða það vel.

    • Áskilin staðsetning stefnuljósa er mismunandi eftir ökutækisflokkum bifhjóla, sjá um áskilin og leyfð ljós.


    K5: Ásar, fjöðrun, felgur, hjólbarðar

    Hjólbarðar (Atriði 5.2.3)

    Áhersluatriði eru þessi:

    • Áríðandi er að skoða hjólbarða vel allan hringinn með tilliti til misslits og skemmda. Borið hefur á missliti vegna rangs loftþrýstings.

    • Krafa er um lágmarksmynstur 1,6 mm á aðalmynstri allan ársins hring (og má hvergi fara niður fyrir það).

    • Rangur loftþrýstingur í hjólbörðum hefur verið talin meðal orsaka í alvarlegum slysum á bifhjólum. Horfa sérstaklega eftir því að hvort lítill loftþrýstingur sé í hjólbörðum.

    Höggdeyfar (Atriði 5.3.2)

    Áhersluatriði eru þessi:

    • Meta þarf virkni höggdeyfa, horfa sérstaklega eftir leka. Á flestum bifhjólum eru höggdeyfar að framan innbyggðir í framgafflana og ættu þeir báðir að hafa sömu dempunareiginleika. Yfirleitt er virkni framhöggdeyfa metin á meðan framhjólinu er haldið í bremsu. Þegar bifhjól hafa kerfi sem takmarka hreyfingu framhöggdeyfa þegar hemlað er þarf að setja framhjólið upp við vegg til að þurfa ekki að hemla á meðan athugað er hvernig virkni höggdeyfanna er.

    Gafflar (hjólspyrnur) (Atriði 5.3.3)

    Áhersluatriði eru þessi:

    • Leitast ætti við aflesta liði eins og hægt er til að skoða hvort er að finna óeðlilegt slag í fóðringum fram- og afturgaffla. Á bifhjólum án miðjustands þarf helst að lyfta hjólum frá jörðu með viðeigandi tjakki þannig að þau hangi (ekki má toga bifhjól yfir á hliðarstandi). Ástand fjöðrunarliða, fóðringa og festinga er skoðað með því að reyna að hreyfa fjöðrunina til hliðar og upp og niður.


    K6: Undirvagn og viðfestur búnaður

    Drifskaft, hjöruliðir, reim- og tannhjóladrif (Atriði 6.1.7)

    Framkvæmd skoðunar og áhersluatriði eru þessi:

    • Þetta atriði er notað þegar þegar keðju- eða reimahlíf er laus, brotin, vantar eða skemmd með áhrifum á örugga notkun (dæming 6.1.7.a).

    • Þetta atriði er notað til að dæma á slit eða los í drifskafti og hjöruliðum bifhjóla (verklýsing í 6.1.7).

    • Skoða þarf hvort slit eða skemmdir finnast í tannhjólum. Á myndunum sjást dæmi um slit og skemmdir sem nota má til viðmiðunar við dæmingar (dæming 6.1.7.c).

    bifhjol-05

    Slitin tannhjól.

    bifhjol-06

    Slitin og skemmd tannhjól.

    bifhjol-07

    Slitin tannhjól og keðja. Svona hreyfing er merki um að tannhjól og keðja séu slitin.

    • Fríhlaup keðju er mælt þegar bifhjól er á miðjustandi eða lyft upp (með afturhjól hangandi). Keðjunni er ýtt í báðar áttir (upp/niður) á miðjum neðri hluta keðjunnar og fríhlaupið (útslagið) mælt þar. Fríhlaupið á að vera á bilinu 20-35 mm (hjól með stutt fjöðrunarsvið eru með minna fríhlaup en hjól með mikið fjöðrunarsvið). Fríhlaup má einnig mæla þegar bifhjól er lestað þannig að miðja fram- og afturtannhjóls eru í láréttri línu og skal fríhlaupið þá vera um 12 mm (dæming 6.1.7.c).

    bifhjol-08

    Fríhlaup keðju mælt.

    • Hvað varðar drifreimar og reimahjól sem eru slitin eða morkin, skal nota sambærilega aðferðir.

    Hættulegir útstæðir hlutir (Atriði 6.2.1)

    Borið hefur á því að á bifhjól hafi verið bætt allskyns aukahlutum. Áhersluatriði eru þessi:

    • Dæma skal á hluti sem búið er að koma fyrir eða breyta og standa út frá yfirbyggingu og/eða hluti sem auka hættu á meiðslum, t.d. hluti með hvössum brúnum, oddhvassa bifhjólastýrisenda og fóthvíluenda. Einnig þá hluti sem hafa ekki augljósan tilgang og hafa óheppilega lögun eða staðsetningu með tilliti til slysahættu.

    Hjólhlífar (Atriði 6.2.10)

    Setið skal á bifhjóli þegar skermun hjóla er skoðuð. Reglur um skermun og áhersluatriði eru þessi:

    • Hjól bifhjóls skulu vera búin hjólhlífum sem skerma hjólbarða á fullnægjandi hátt. Borið hefur á því að skermuninni hefur verið breytt, sérstaklega að aftan, ásamt því að staðsetning skráningarmerkis og ljóskera er önnur en upphaflega, og þá þarf að skoða vel og mæla.

    • Hjólhlíf á bifhjólum skal skerma afturhluta allra hjóla (fyrir aftan lóðrétta línu í gegnum hjólmiðjuna). Í a.m.k. 50° aftur fyrir skal hún ná yfir fulla breidd hjólbarðans. Á afturhjólum skal svo framlengja hana þannig að hún nái a.m.k. niður að línu sem er 150 mm ofan við hjólmiðjuna en þarf ekki að ná yfir alla breidd sólans í framlengingunni.

    • Hjólhlíf á bifhjólum þarf ekki að skerma framhluta hjóla (fyrir framan lóðrétta línu í gegnum hjólmiðjuna). Algengt er samt að hún nái um 30° fram fyrir lóðrétta línu í gegnum hjólmiðjuna.

    • Áskilin hjólhlíf skal vera a.m.k. 30 mm djúp (með því að brúnir hennar sveigist inn á við að hjólmiðju). Dýptin má smáminnka við endana sitt hvoru megin.

    • Áskilin hjólhlíf (ytri brún hennar) má ekki vera lengra frá hjólmiðju en sem nemur þvermáli hjólanna.

    Standari, halli bifhjóls (Atriði 6.2.11)

    Standari skal geta haldið bifhjóli stöðugu á hallandi yfirborði. Skoðun fer fram á láréttu yfirborði og er framkvæmd hennar þessi:

    • Að hjólið hallist hæfilega mikið á hliðarstandara, um 8°-12° telst eðlilegur halli.

    • Að hjólið renni ekki auðveldlega fram af miðjustandara á láréttum fleti. Hjólið látið vera á standaranum og svo er ýtt aðeins við því áfram og það athugað.

    • Standarar eiga að haldast vel uppi þegar þeir eru teknir af. Engin hætta á að vera á að þeir falli niður eða fari á í akstri. Gormur eða búnaður til að halda standara uppi prófaður með því að ýta honum niðurávið (þegar hjólið er ekki á standaranum) og ætti hann að toga standarann beint upp í hvíldarstöðu án þess að sveiflast.


    K7: Hraðatakmörkun léttra bifhjóla

    Hraðatakmörkun (Atriði 7.10)

    Létt bifhjól má ekki geta farið hraðar en 45 km/klst. Prófa þarf hraðatakmörkun á léttu bifhjóli í eftirfarandi tilvikum og dæma á 7.10.c ef hraði mælist of mikill:

    • Við reglubundna skoðun léttra bifhjóla ef tilefni er til, svo sem ef upplýsingar liggja fyrir um að það komist hraðar eða augljóslega er búið að eiga við raf- eða vélbúnað sem bendir til þess að hraðatakmörkun virki ekki lengur.

    • Við skráningarskoðun léttra bifhjóla þarf í öllum tilvikum að framkvæma hraðapróf.

    Framkvæmd hraðaprófs er þessi:

    1. GPS tæki komið fyrir í mælaborði þannig að ökumaður sjái á það eða tækið stillt þannig að það skrái hámarkshraðann sem ekið verður á (og þá má hafa það í vasa).

    2. Hjólinu ekið á öruggu svæði sem leyfir a.m.k. 50 km/klst hámarkshraða.

    3. Mesti hraði lesinn af GPS tæki.


    K8: Umhverfis- og mengunarmál

    Hljóðstyrkur (hávaðamengun) (Atriði 8.1.1)

    Hávaðamengun er mæld ef ástæða þykir til, sjá leiðbeiningaskjal um framkvæmd mælingar á hávaðamengun.

    Skoðunarhandbók ökutækja - bifhjól - hávaðamæling 01

    Gott er að nýta tækifærið til mælinga sem oftast, bæði til að skoðunarmenn geti betur gert sér grein fyrir því hvenær ástæða gæti verið til dæmingar og til að viðhalda góðri þjálfun í mælingum á hávaða.

    Hávaðamengun má ekki fara yfir eftirfarandi mörk:

    • Létt bifhjól (L1e, L2e), dæmt ef:

      • Hljóðstyrkur >73 dB (eftir 01.07.1990).

    • Bifhjól (L3e-L7e), dæmt ef:

      • Hljóðstyrkur >100 dB (eftir 01.07.1990)

      • Hljóðstyrkur >105 dB (fyrir 30.06.1990)


    Breytingar á bifhjólum

    Ekki má breyta bifhjóli á þann veg að aksturseiginleikar, akstursöryggi eða eiginleikar hreyfils þess versni. Nokkur dæmi:

    • Ekki má breyta mótor þannig að útblástursmengun frá því vaxi verulega frá því sem var á nýju hjóli. Ekki má fjarlægja búnað sem er til að draga úr útblástursmengun.

    • Ekki má breyta útblásturskerfi svo að það valdi auknum hávaða. Ekki má vera hægt að taka hljóðdeyfi úr sambandi í akstri.

    • Ekki má breyta vélarafli til aukningar. Leyfilegt getur þó verið að breyta eiginleikum heildargerðarviðurkenndra minni mótorhjóla þannig að þau uppfylli annan ökuréttindaflokk (milli A1 og A2). Um slíka breytingu gilda ýmis skilyrði og sækja þarf um hana fyrirfram til tæknideildar Samgöngustofu.

    • Ólöglegt er að breyta hraðatakmörkun léttra bifhjóla (sem hafa hámarkshraða 25 og 45 km/klst).

    • Upprunalegum stýrisbúnaði má ekki breyta án samþykkis Samgöngustofu. Á þetta meðal annars við stýrisstöngina sjálfa. Samgöngustofa samþykkir engar breytingar á henni nema staðfestingar og gögn frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu liggi fyrir um að það sé öruggt og leyfilegt.

    • Upprunalegum ljósabúnaði, hjólhlífum eða fleti fyrir skráningarmerki má ekki breyta eða hliðra nema slíkar breytingar teljist nauðsynlegar samhliða öðrum breytingum og allar kröfur verði áfram uppfylltar eins og áður var.

    Ekki er heldur leyfilegt að skipta um ökutækisflokk á bifhjóli og breyta því í til dæmis torfæruhjól. Fyrir því liggja þau rök að samkvæmt umferðarlögum er torfærutæki (torfæruhjól) skilgreint sem ökutæki sem er ekki bifhjól.

    Leiki vafi á því við skoðun hvort átt hafi verið við mótorhjól með ofangreindum hætti hefur skoðunarmaður heimild til að gera athugasemdir við þau frávik (eða hafna skoðun) og getur eigandi (umráðandi) þurft að sýna Samgöngustofu fram á það með gögnum að breyting brjóti ekki í bága við reglurnar.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð ESB um gerð og búnað bifhjóla nr. 168/2013/ESB.