Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Samantektir og tilkynningar

    Sérstakar tímabundnar tilkynningar, svokallaðar öryggistilkynningar, ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra.

    Reglur um skráningu og breytingu ökutækisflokka, notkunarflokka og veigamikilla breytinga á ökutækjum má sjá í skráningareglum ökutækja.

    Tilvísanir til þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi.

    Leiðbeiningaskjöl og ítarefni fyrir reglubundnar skoðanir er að finna undir þeirri verklagbók.

    Efni kaflans

    Skoðun bifhjóla

    Samantekt á kröfum sem gerðar eru til bifhjóla auk sérstakra áhersluatriða við skoðun. Sjá einnig yfirlit ökutækisflokka bifhjóla.


    K0: Auðkenni

    Skráningarmerki (Atriði 0.1)

    Staðsetning skráningarmerkis skal vera aftan á ökutæki þannig að ytri brúnir skráningarmerkis fari ekki út fyrir breidd ökutækisins. Skráningarmerki skal vera hornrétt á lengdarása ökutækisins og má halla allt að 30° upp og allt að 5° niður þegar ökutækið er óhlaðið, sjá mynd K0.1.

    Skortur hefur verið á dæmingum á þennan lið og beinir Samgöngustofa því til skoðunarstofa að skoða vel hvort átt hafi verið við skráningarmerki, það uppfylli skilyrði um sýnileika, o.s.frv.

    bifhjol-09

    Mynd K0.1. Lóðrétt staðsetning skráningarmerkis.

    Skráningarmerki þarf að vera sýnilegt 30° til beggja hliða, sjá mynd K0-2.

    bifhjol-10

    Mynd K0.2. Láréttur sýnileiki skráningarmerkis.


    K1: Hemlabúnaður

    Þegar framkvæma á hemlapróf á bifhjóli þarf annað hvort að mæla hemlun í þar til gerðum bremsuprófara eða að mæla hemlun í akstri.

    Mæling á hemlun í akstri (Atriði 1.2.2.3)

    Ef mæla á hemlun í akstri er hemlaklukka notuð. Einnig er hægt að útbúa sérstakt mælisvæði þar sem vegalengd hraðaminnkunar frá tilteknum hraða niður í núll er mæld. Út frá vegalengd og upphafshraða er hemlunin reiknuð. Þetta er gert á eftirfarandi hátt:

    1. Prófun skal fara fram á malbikuðu, steyptu eða hellulögðu opnu svæði þar sem hámarkshraði er a.m.k. 30 km/klst. Yfirborð skal vera þurrt.

    2. Merkingar eru settar á götuna þar sem hemlun hefst (og þar þarf ökutækið að geta náð hraðanum 30 km/klst) ásamt viðeigandi merkingu þar sem bifhjólið á að vera stöðvað miðað við hvaða hemill hjólsins er notaður (sjá töflur K1.1 og K1.2).

    3. Skoðunarmaður eða ökumaður bifhjólsins ekur hjólinu á 30 km/klst (8,33 m/s) skv. mæli bifhjólsins eða skv. staðsetningartæki (GPS) skoðunarstofu, og beitir hemlum frá því merki sem hemlun hefst.

    4. Þegar bifhjól hefur stöðvast sést innan hvaða marka (merkinga) hemlunarvegalengd hjólsins er, sbr. töflur K1.1 og K1.2.

    5. Hemlapróf er endurtekið fyrir aðra hemla bifhjólsins eftir því sem við á (framhemla eða afturhemla/samtengda hemla).

    6. Hemlun viðkomandi hemla lesnir úr töflum K1.1 og K1.2 og dæmt eftir því sem við á.

    Tafla K1.1. Jafngildi hemlunarvegalengda (d) og hemlunar (a) m.t.t. dæminga í skoðunarhandbók, útg 20 frá 2017.

    Flokkar bifhjóla

    Hemlunarvegalengd d (m)

    Samsvarar hemlun a (m/s2)

    Þungt bifhjól (D2)

    7,7 ± 0,32

    5,0 ± 0,2

    Þungt bifhjól (D3)

    12,9 ± 0,92

    3,0 ± 0,2

    Þungt bifhjól framan (D2)

    11,0 ± 0,67

    3,5 ± 0,2

    Þungt bifhjól aftan / samtengdir hemlar (D2)

    12,9 ± 0,92

    3,0 ± 0,2

    Létt bifhjól (D2)

    9,6 ± 0,51

    4,0 ± 0,2

    Létt bifhjól (D3)

    12,9 ± 0,92

    3,0 ± 0,2

    Létt bifhjól aftan / samtengdir hemlar (D2)

    19,3 ± 2,14

    2,0 ± 0,2

    Tafla K1.2. Jafngildi hemlunarvegalengda (d) og hemlunar (a) m.t.t. dæminga í verklagsbók reglubundinna skoðana (ný bók). Hemlun afturhemla einna og sér (eða samtengds hemlakerfis sem virkjað er með hemlafetli fyrir afturhemil) skal ná a.m.k. 25% hemlum m.v. heildarþyngd (verður að reikna sérstaklega eða lesa milli línanna).

    Flokkur

    D2 vegal (d)

    D2 hemlun (a)

    D3 vegal (d)

    D3 hemlun (a)

    L1e

    9,2 m

    42%

    18,4 m

    21%

    L2e, L6e

    9,6 m

    40%

    19,3 m

    20%

    L3e

    7,7 m

    50%

    15,4 m

    25%

    L4e

    8,4 m

    46%

    16,8 m

    23%

    L5e, L7e

    8,8 m

    44%

    17,5 m

    22%

    Til útskýringa á samhengi hemlunarvegalengdar (d) og hemlunar (a), þá er eftirfarandi jafna notuð (reiknað er með að núningsstuðull (µ) milli yfirborðs og hjólbarða sé u.þ.b. 0,9 og upphafshraði (v) sé 8,33 m/s): d = v2 / (2 x µ x a)


    K4: Ljósker, glitaugu og rafbúnaður

    Mæling á stillingu aðalljósa (Atriði 4.1.1)

    Skoðun með ljósaskoðunartækjum með ljós fyrir lágljós tendruð. Setið skal á bifhjólinu á meðan á mælingu á ljósastillingu fer fram.Mæling miðast við eftirfarandi efri og neðri mörk (en þó má nota stilligildi framleiðanda ef merkt á eða við ljósker):

    • Efri mörk: Ljósker skal ekki lýsa lengra en 80 m fram á akbrautina og ekki hafa minni niðurvísun en 1%. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það og má geislinn ekki lýsa ofan við hana. Ef hæð ljóskers er meiri en 80 cm verður niðurvísunin að vera meiri (80 m og 80 cm þýðir 80/80=1% niðurvísun, 80 m og 90 cm hæð þýðir 90/80=1,1% o.s.frv.).

    • Neðri mörk: Ljós skal lýsa að lágmarki 40 m fram á akbrautina. Viðmiðunarlína ljósaskoðunartækis er stillt miðað við það (hæð tækis í cm / 40 m = niðurvísun %) og þá má ljósgeislinn ekki lýsa fyrir neðan hana.

    Mismunandi er eftir ljósaskoðunartækjum hvernig viðmiðunarlína er stillt.

    Afturljós og tilfærsla þeirra

    Í einhverjum tilvikum hefur skráningarmerki bifhjóla verið fært og komið fyrir við hlið afturhjóls (framar/innar á bifhjólinu í stað þess að vera aftast eða aftaná). Ljós aftan á bifhjólinu eru þá færð líka og komið fyrir á sama stað hjá skráningarmerkinu. Að öllum líkindum uppfylla hvorki ljóskerin eftir tilfærslu ekki lengur kröfur um sýnileika eða dreifingu, né skráningarmerkið kröfu um staðsetningu og læsileika.

    Sé eitt afturvísandi stöðuljós (og hemlajós) skal það staðsett aftan á ökutæki og vera sýnilegt í 80° til beggja átta (lárétt) og 15° upp og niður (lóðrétt), sjá mynd 1 (2009/67/EC). Ef afturvísandi stöðuljós eru tvö, skal innvísandi sýnileiki vera a.m.k. 45°. Sjá mynd K4.1.

    bifhjol-02 (1)

    Mynd K4.1. Stöðu- og hemlaljós og sýnileiki þeirra.

    Stefnuljósker (Atriði 4.4)

    Einnig er algengt að sjá bifhjól með önnur stefnuljós en þau sem upprunalega komu með en þá skal athuga hvort fjarlægð ljóskera sé uppfyllt.

    • Létt bifhjól: Bil milli framvísandi stefnuljóskera skal vera a.m.k. 220 mm og bil milli afturvísandi stefnuljóskera skal vera a.m.k. 140 mm.

    • Þungt bifhjól: Bil milli framvísandi stefnuljóskera skal vera a.m.k. 300 mm og bil milli afturvísandi stefnuljóskera skal vera a.m.k. 240 mm. Ljós frá stefnuljóskeri skal vera sýnilegt a.m.k. 20° innan við ljóskerið.

    Sýnileiki stefnuljósa á að vera eins og sýnt er á mynd K4.2.

    bifhjol-01

    Mynd K4.2. Stefnuljós og sýnileiki þeirra (2009/67/EC).


    K5: Ásar, fjöðrun, felgur, hjólbarðar

    Hjólbarðar (Atriði 5.2.3)

    Áríðandi er að skoða hjólabarða vel með tilliti til misslits og skemmda. Krafa er um lágmarksmynstur 1,6 mm á aðalmynstri allan ársins hring (og má hvergi fara niður fyrir það).


    K6: Undirvagn og viðfestur búnaður

    Hjólhlífar (Atriði 6.2.10)

    Hjól bifhjóls skulu vera búin hjólhlífum í flokki I samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Algengt er að sjá bifhjól þar sem skermuninni hefur verð breytt, ásamt því að staðsetning skráningarmerkis og ljóskera er önnur en upphaflega. Setið skal á bifhjóli þegar hjól- og aurhlífar eru mældar.

    Um hjólhlíf í flokki I gildir (sjá mynd K6.1):

    • Hún skal ná yfir breidd sóla hjólbarðans 30° fram fyrir og 50° aftur fyrir lóðrétt þverplan gegnum hjólmiðjuna. Þó þarf hjólhlíf bifhjóls ekki að ná lengra fram en að lóðréttu þverplani gegnum hjólmiðju

    • Á bilinu frá 30° framan við að 50° aftan við lóðrétt þverplan gegnum hjólmiðju skulu brúnir hjólhlífar sveigjast inn á við að hjólmiðju. Brúnirnar skulu þannig gerðar að dýpt hjólhlífar verði a.m.k. 30 mm mælt upp á við í lóðréttu plani gegnum hjólmiðju. Sjá myndir hér að aftan. Dýpt þversniðsins má smáminnka þannig að 30° framan við og 50° aftan við lóðrétt þverplan sé dýptin orðin 0. Sjá mynd

    • Að aftanverðu skal hjólhlífin a.m.k. ná niður að láréttu plani 150 mm yfir hjólmiðju. Á þessu bili má hlífin mjókka, en skal a.m.k. ná yfir innri helming hjólbarðans 150 mm ofan við hjólmiðju.

    • Fjarlægð frá ytri brún hjólhlífar að hjólmiðju má ekki vera meiri en þvermál hjólbarða á bilinu frá 30° framan við og 50° aftan við lóðrétt þverplan gegnum hjólmiðju.

    bifhjol-04

    Mynd K6.1. Skermun hjólhlífa í flokki I.

    Hættulegir útstæðir hlutir (Atriði 6.2.1)

    Ökumenn bifhjóla eru margir hverjir að breyta hjólum sínum og bæta á allskyns aukahlutum. Dæma skal á hluti sem standa út frá yfirbyggingu og/eða hluti sem auka hættu á meiðslum, t.d. hlutir með hvössum brúnum, oddhvassir bifhjólastýrisendar og fóthvíluendar o.s.frv.

    Drifskaft og hjöruliðir (Atriði 6.1.7)

    Í nýrri skoðunarhandbók er þetta atriði notað til að dæma á slit eða los í drifskafti og hjöruliðum bifhjóla.

    Drifbúnaður (t.d. reim- og tannhjóladrif) (Atriði 6.1.7)

    Lítið hefur verið dæmt á keðjur, tannhjól, drifreimar og reimahjól á bifhjólum í gegnum tíðina vegna skorts á dæmingum. Í nýrri handbók er tekið á þessu í atriði 6.1.7 Gírbúnaður og aflrás út í hjól (gat áður helst fallið undir atriði 706 og 709). Í þessu atriði er líka dæmt á það þegar keðju- eða reimahlíf er laus, brotin, vantar eða skemmd með áhrifum á örugga notkun.

    Á myndum K6.2-4 er gerð tilraun til að lýsa sliti og skemmdum í tannhjólum sem nota má til viðmiðunar við dæmingar.

    bifhjol-05

    Mynd K6.2. Slitin tannhjól

    bifhjol-06

    Mynd K6.3. Slitin og skemmd tannhjól.

    bifhjol-07

    Mynd K6.4. Slitin tannhjól og keðja. Svona hreyfing er merki um að tannhjól og keðja séu slitin.

    Fríhlaup keðju skal mælt þegar að bifhjólið er á miðjustandi, þ.e. með afturhjólið hangandi. Togað skal í keðjuna í báðar áttir og mæla skal fríhlaupið (útslagið) á miðjum neðri hluta keðjunna. Þetta fríhlaup er yfirleitt á bilinu 20-35 mm (hjól með stutt fjöðrunarsvið eru með minna fríhlaup en hjól með mikið fjöðrunarsvið), sjá mynd K6.5.

    bifhjol-08

    Mynd K6.5. Fríhlaup keðju.

    Þegar bifhjólið er lestað þannig að miðja fram og afturtannhjólsins séu í lóðréttri línu, skal fríhlaupið vera um 12 mm.Hvað varðar drifreimar og reimahjól sem eru slitin eða morkin, skal nota sambærilega aðferðir.

    Standari, halli bifhjóls (Atriði 6.2.11)

    Standari skal geta haldið bifhjóli stöðugu á hallandi yfirborði eins og lýst er á mynd K6.6 og í töflu K6.1. Af þeim má ráða að helst þarfa að hafa tvennt í huga til að meta þetta:

    • Að hjólið hallist hæfilega mikið á hliðarstandara, a.m.k. 2-3° meira en uppgefinn hliðarhalli samkvæmt töflunni (svo það geti staðið stöðugt þegar standarinn vísar upp í hallann).

    • Að hjólið renni ekki auðveldlega fram af miðjustandara á láréttum fleti (sem myndi þá þýða að það gæti ekki staðið stöðugt með framhalla niður).

    bihjol-standari01

    Mynd K6.6. Krafa er um að bifhjól geti haldist stöðug þegar þeim er stillt upp á standaranum á hallandi yfirborði (sjá töflu K6.1 um gráðuhalla yfirborðanna). Á myndunum lengst til vinstri og í miðju er sýndur hliðarhalli og á myndunum lengst til hægri er sýndur framhalli (upp á efri mynd og niður á neðri mynd).

    Tafla K6.1. Gráðuhalli yfirborðanna, sbr. mynd K6.6.

    Halli

    Hliðarstandari

    Hliðarstandari

    Miðjustandari

    Miðjustandari

    Létt bifhjól

    Bifhjól

    Létt bifhjól

    Bifhjól

    Hliðarhalli

    5%

    6%

    6%

    8%

    Framhalli upp

    5%

    6%

    6%

    8%

    Framhalli niður

    6%

    8%

    12%

    14%


    K7: Hraðatakmörkun léttra bifhjóla

    Hraðatakmörkun (Atriði 7.10)

    Framkvæmd skoðunar á hvort hraðatakmörkun léttra bifhjóla sé virk er gerð samkvæmt lýsingu í leiðbeiningaskjali um hraðamæli.


    K8: Umhverfis- og mengunarmál

    Hljóðstyrkur (hávaðamengun) (Atriði 8.1.1)

    Hávaðamengun er mæld ef ástæða þykir til, sjá leiðbeiningaskjal um framkvæmd mælingar á hávaðamengun. Gott er að nýta tækifærið til mælinga sem oftast, bæði til að skoðunarmenn geti betur gert sér grein fyrir því hvenær ástæða gæti verið til dæmingar og til að viðhalda góðri þjálfun í mælingum á hávaða. Hljóðmengun má ekki fara yfir eftirfarandi mörk:

    • Létt bifhjól (L1e, L2e), dæmt ef:

      • Hljóðstyrkur >73 dB (eftir 01.07.1990).

    • Bifhjól (L3e-L7e), dæmt ef:

      • Hljóðstyrkur >100 dB (eftir 01.07.1990)

      • Hljóðstyrkur >105 dB (fyrir 30.06.1990)


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð ESB um gerð og búnað bifhjóla nr. 168/2013/ESB.