Fara beint í efnið

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Í verklagsbókinni er lýst allri framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Lýsing á skoðunar­aðferðum, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunaratriðin og dæmingar þeirra ásamt stuttri lýsingu á skoðunaraðferðum, verklýsingum, athugasemdum og túlkunum er að finna í pdf-skjali. Ítarlegri leiðbeiningar um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, öktækjaflokka eða einstakra hluta ökutækja, er svo að finna þessum köflum.

    Efni kaflans

    Öryggisbelti

    Skilgreiningar á orðum og hugtökum

    Skilgreiningar á orðum: (St3.4.2.1)

    • Tveggjafestu: Mjaðmarbelti, fest á tveimur stöðum.

    • Þriggjafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á þremur stöðum (fer yfir aðra öxlina).

    • Fjögurrafestu: Mjaðmar- og axlarbelti, fest á fjórum stöðum (fer yfir báðar axlirnar). Ekki er heimilt að hafa eingöngu fjögurraafestu belti í ökumannssæti ef ökumaður nær ekki til allra stjórntækja með beltið spennt. Sæti fyrir farþega mega vera búin fjögurrafestu beltum án sérstakra skilyrða

    • Rúllubelti: Útdraganlegt belti á rúllu sem sjálfkrafa dregur beltið inn eins og hægt er hverju sinni (myndar ekki slaka). Rúllan læsist þegar reynt er að draga beltið snögglega út.

    • Framvörn: Höggmildandi afturhluti sætisbaks, eða sambærileg höggmildandi vörn fyrir framan viðkomandi sæti, sem er í innan við 100 cm láréttri fjarlægð frá sætiskverk.

    • Frambil: Frítt bil frá sætiskverk að einhverjum hlut innréttingar eða bifreiðar sem ekki telst höggmildandi (t.d. stýrishjól, framrúða, skilveggir eða ófóðraðar slár).

    • Fellisæti: Sæti sem jafnan takmarka gangpláss og eru felld niður þegar þau eru í notkun (seta felld niður til hliðar og baki lyft upp til að taka í notkun).

    • Veltisæti: Sæti sem mögulegt er að velta fram til að ganga um dyr.

    Öryggibelti - samantekt krafna um áskilin öryggisbelti

    Öryggisbelti eiga að vera í eftirtöldum sætum (miðað við fyrsta skráningardag og leyfða heildarþyngd). (St3.4.2.1) Athuga að þetta eru lágmarkskröfur og því er ætíð heimilt að nota öruggara belti og búa fleiri sæti beltum en áskilið er.

    Fólksbifreið ≤ 3.500 kg
    • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum.

    • Eftir 01.01.1989: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum fólksbifreiða, og tveggjafestu belti í öðrum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisæti. Verði rúllubeltum ekki komið fyrir er heimilt að nota þriggjafestu belti án rúllu, og verði þeim ekki heldur viðkomið skal nota tveggjafestu belti.

    • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum sem snúa fram, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.

    • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.

    Fólksbifreið > 3.500 kg
    • Eftir 01.03.1994: Tveggjafestu belti í framsætum.

    • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum og ytri aftursætum, og tveggjafestu belti í öðrum sætum.

    • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu belti í afturvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.

    Sendibifreið
    • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum sendibifreiða fyrir allt að 1000 kg. farm.

    • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.

    • Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum sem snúa fram. Ekki er krafist belta í veltisætum.

    • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum sætum.

    • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í ytri framsætum og tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum. Hliðarvísandi sæti eru óheimil.

    Hópbifreið ≤ 3.500 kg
    • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum.

    • Eftir 01.07.1990: Tveggjafestu belti í öllum sætum

    • Eftir 01.10.2001: Hópbifreið B: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum, sætum sem liggja að hlið og sætum án framvarnar, og tveggjafestu rúllubelti í öðrum sætum. Ekki er krafist belta í fellisæti.

    • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í öllum framvísandi sætum og a.m.k tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.

    Hópbifreið > 3.500 kg
    • Eftir 01.03.1994: Undirflokkur B: Tveggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framvísandi sætum án framvarnar.

    • Eftir 01.10.1999: Undirflokkur B: Þriggjafestu rúllubelti í ökumannssæti og framsætum án framvarnar og tveggjafestu rúllubelti í öðrum framvísandi sætum (ekki er krafist belta í fellisæti).

    • Eftir 10.11.2006: Undirflokkar II, III og B: Þriggjafestu rúllubelti í framvísandi sætum (tveggjafestu rúllubelti þó leyfileg sé framvörn eða yfir 130 cm frambil) og tveggjafestu rúllubelti í afturvísandi sætum.

    Vörubifreið
    • Eftir 01.01.1969: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða fyrir allt að 1000 kg farm.

    • Eftir 01.01.1989: Tveggjafestu belti í framsætum vörubifreiða < 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd (eru nú flokkaðar til sendibifreiða).

    • Eftir 01.01.1999: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum sætum án framvarnar.

    • Eftir 10.11.2006: Þriggjafestu rúllubelti í framsætum (tveggjafestu belti þó leyfileg sé frambil yfir 100 cm), tveggjafestu belti í öðrum framvísandi sætum án framvarnar. Hliðarvísandi sæti eru óheimil

    Aðrir ökutækisflokkar
    • Séu öryggisbelti í ökutækjum sem eru skráð í aðra flokka en bifreið skulu þau vera í lagi.

    Öryggisbelti - ýmsar upplýsingar

    Merking um sætisbeltaskyldu í hópbifreiðum

    Í reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum er kveðið á um að merking um sætisbeltaskyldu sé sýnileg úr öllum sætum hópbifreiðar sem búin eru öryggisbeltum. Miðarnir sem Samgöngustofa hefur látið útbúa eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm, sjá mynd 1.

    Þar sem krafan er að þessi miði skuli vera sýnilegur úr öllum sætum hópbifreiða, þá er í sumum tilfellum nægjanlegt að í minni hópbifreiðum sé fullnægjandi að hafa einn stóran miða fremst í bifreiðinni en nauðsynlegt er að merkja stærri bifreiðar einnig með minni miðanum. Ekki er tilgreint hvar miðinn skal vera – en sem dæmi væri hægt að setja hann á sætisbak, hliðarrúðu eða gluggapóst

    oryggisbeltamidi1

    Mynd 1. Límmiðar sem setja skal í hópbifreið og sýnir hvernig spenna skal öryggisbelti. Miðarnir eru í tveimur stærðum, ferkantaður miði í stærðinni 210 x 150 mm og kringlóttur með þvermálið 98 mm. Hvít mynd og stafir á bláum grunni.

    Öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum (St3.4.2.1)

    Séu öryggisbelti í bifhjólum og dráttarvélum skulu þau vera í lagi. Dæmi um ökutæki sem skráð er sem bifhjól er af gerðinni Reva (er í flokknum L7e) og kemur með beltum.

    Öryggisbeltafestingar á snúningsstólum (St3.4.2.3)

    Í nokkrum útfærslum amerískra „Van”-bifreiða með snúningsstólum fyrir framsæti eru neðri festur öryggisbeltanna í stólunum sjálfum. Ef snúningurinn undir þessum stólum er upprunalegur (sívalningurinn u.þ.b. 15 til 20 cm í þvermál) og stólarnir hafa komið útbúnir á þennan hátt frá framleiðanda, er slík útfærsla samþykkt.

    Ef snúningurinn hefur hins vegar verið smíðaður hér á landi (grennri sívalningur og minni festiplata) er aðeins ein festa öryggisbeltis leyfð í stólinn sjálfan, þ.e. innri festan að neðan. Ytri festuna verður í þeim tilfellum að færa niður í dyrastaf.

    Öryggisbeltafestingar í sætisbekkjum (nýtt)

    Óheimilt er að festa öryggisbelti í sætisbekki bifreiðar nema sú smíði hafi verið viðurkennd af framleiðanda bifreiðarinnar eða af viðurkenndri tækniþjónustu. Enginn íslenskur framleiðandi hefur hlotið viðurkenningu til að smíða eða framleiða sætisbekki í bíla sem heimilt er að festa belti í.

    Séu óviðurkenndir sætisbekkir settir í bíl (t.d. við breytingu úr sendibíl í fólksbíl) verða beltafestingar fyrir öll sæti bekkjarins að festast með traustum hætti ofan í gólf bílsins og hliðar (þriggjafestu belti). Þó er heimilt að axlarfestan sé í bekkinn sjálfan ef ekki er hægt að festa í hlið bílsins (gildir um miðjusæti og endasæti ef hliðarhurðir eða hliðargluggar koma í veg fyrir festu í hlið bílsins). Að auki gildir að bekkurinn sjálfur verður að vera festur í gólf bílsins með traustum hætti.

    Ofangreint gildir fyrir bifreiðir með fyrstu skráningu eftir 01.03.2023 eða er breytt eftir þennan tíma. Þetta er ráðstöfun eftir ábendingar Rannsóknarnefndar samgönguslysa í skýrslu um alvarlegt umferðarslys. Skoða ber sérstaklega vel festingar sætisbekkja ofan í gólf í bifreiðum sem breytt var fyrir þessa dagsetningu og gera athugasemdir við styrkleikamissi ef minnsta ástæða er til.

    Öryggisbeltastrekkjari

    Tilgangur öryggisbeltastrekkjara er að ganga úr skugga um að öryggisbeltið sitji þétt að líkama einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra. Öryggisbeltastrekkjarinn virkjast yfirleitt bara í hörðum árekstrum. Hann er í þremur megin útfærslum.

    • Vélrænn öryggisbeltastrekkjari. Hann er í grunninn öflugur gormur sem læst í samþjappaðri stöðu. Í árekstri losnar lásinn og gormurinn þrýstist út og þrengir beltið sem snöggvast. Eftir að vélrænn strekkjari hefur virkjast verður að skipta um búnaðinn.

    • Rafrænn öryggisbeltastrekkjari. Hér er það rafmótor sem er látinn þrengja beltið þegar til áreksturs kemur. Hann er tengdur við tölvu bílsins. Hröðunarskynjari, oft sá sami og virkjar loftpúðana, gefur skilaboð í gegnum tölvuna til mótorsins þegar árekstur verður og hann þrengir þá beltið í skyndi. Ekki þarf að skipta um búnaðinn þótt hann hafi virkjast en komi fram bilun í honum ætti gaumljós bilanavísis að sýna það.

    • Gasþrýstingsknúinn öryggisbeltastrekkjari. Þetta er algengasti búnaðurinn í dag, hann þykir áreiðanlegastur og virkar hraðar en hinar útfærslurnar. Um er að ræða litla gassprengingu sem virkjar vélræna herðingu beltisins. Búnaðurinn er tengdur við tölvu bílsins og nýtir sér ytri hröðunarskynjara. Skipta þarf um þennan búnað ef hann hefur virkjast og sýnir gaumljós bilanavísis það.

    Öryggisbeltaslakari

    Ákveðin sætisbeltakerfi nota öryggisbeltaslakara (álagstakmarkara) til að lágmarka meiðsli af völdum sætisbelta. Grunnhugmyndin er sú að álagstakmarkari losi aðeins á beltinu þegar mikið álag myndast á beltinu við árekstur. Þar með minnki álag á brjóstkassa þess sem spenntur er í beltið.

    Einfaldasti álagstakmarkarinn er felling sem er saumuð í efni sætisbeltisins. Saumarnir sem halda fellingunni á sínum stað eru hannaðir til að rifna þegar ákveðinn kraftur togar í beltið. Allt þetta veldur skemmdum á beltinu sem þýðir að skipta skal um belti.

    Álagstakmarkari getur svo verið flóknari búnaður og virkjaður í gegnum öryggiskerfi ökutækisins og þar með verður ástand hans raflesanlegt.


    Öryggispúðar og öryggispúðakerfi (SRS)

    SRS stendur fyrir Supplemental Restraint System, eða öryggispúðakerfi. SRS kerfið er viðbót (e. supplemental) við öryggisbeltakerfið sem eykur öryggi einstaklingsins í ákveðnum tegundum árekstra með því að tengja saman virkni öryggispúða, öryggisbelta og jafnvel annarra kerfa og hámarka virkn allra kerfa sem heildar.

    Gaumljós bilanavísis öryggispúðakerfis er gjarnan tákn eða merki sem sýnir manneskju með spennt sætisbelti og stóran skyggðan hring í fanginu (púðann), ásamt jafnvel stöfunum “SRS”. Bilanavísir öryggispúðakerfis getur gefið til kynna að það sé bilun í öryggisbeltaslakara, öryggisbeltastrekkjara, öryggispúða og/eða einhverjum skynjurum kerfisins.


    Slökkvitæki

    Krafa um gerð

    Öll slökkvitæki skulu viðurkennd gerð fyrir A, B og C brunaflokka (A-föst efni, B-olía og bensín, C-gas).

    Samkvæmt reglugerð um slökkvitæki og fyrirmælum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eiga slökkvitæki að vera af viðunandi gæðum, þeim skal viðhaldið þannig að þau séu að fullu virk á hverjum tíma, þau skuli merkt með auðskildum íslenskum leiðbeiningum og skulu yfirfarin eða þjónustuð reglulega.

    Áskilnaður m.v. ökutæki

    Slökkvitæki eiga að vera í eftirtöldum ökutækjum. Þetta eru lágmarkskröfur um stærð (slökkvimátt) tækja. Strangasta krafan um slökkvitæki gildir ef bifreið tilheyrir fleiri en einum flokki. Lágmarks slökkvimáttur sérhvers slökkvitækis skal samsvara 2 kg slökkvimætti dufts (ekki er þó dæmt á lágmarksstærð fyrr en eftir 01.01.2025).

    • Hópbifreið A og B: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 4 kg duftslökkvitæki.

    • Hópbifreið I: Eitt eða tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki.

    • Hópbifreið II og III: Tvö slökkvitæki sem samsvara að lágmarki 6 kg duftslökkvitæki hvert um sig.

    • Breytt bifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.

    • Í notkunarflokki Húsbifreið, Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið: Samsvarandi að lágmarki 2 kg slökkvimætti dufts.

    Krafa um staðsetningu og festingar

    Í hópbifreið M3 má staðsetning slökkvitækis ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.

    Festingar slökkvitækja skulu vera traustar þannig að ekki sé hætta á að slökkvitæki losni úr festingum sínum við eðlilega notkun ökutækisins. En um leið á að vera auðveldlega hægt að losa tækið úr festingum sínum þegar á því þarf að halda.

    Krafa um merkingar

    Slökkvitæki á að vera merkt skráningarnúmeri bifreiðar (eftir 01.03.1994).

    Slökkvitæki á að vera merkt með íslenskum leiðbeiningum. Gildir um hópbifreiðir eftir 01.03.1993 og breyttar bifreiðir og húsbifreiðir eftir 01.03.1994.

    Krafa um reglubundna úttekt

    Ný slökkvitæki í bifreiðum skulu úttekin í fyrsta sinn áður en gildistími frá framleiðanda á fyrstu vottun fellur úr gildi. Gerð er athugasemd ef fyrsta vottun er fallin úr gildi eða ef upplýsingar um fyrstu vottun eru ekki auðlæsilegar eða sýnilegar.

    Eftir það skal slökkvitæki í bifreiðum úttekið eigi sjaldnar en árlega (gerð er athugasemd ef meira en 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu úttekt). Samanber fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og reglugerð um slökkvitæki sem segir (8. gr): „Tæki sem eru geymd við breytilegt hitastig eða aðrar aðstæður sem geta haft áhrif á virkni þeirra þjónustuð oftar í samræmi við fyrirmæli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða annarra þar til bærra stofnana.“.


    Sjúkrakassi

    Krafa um innihald

    Innihald sjúkrakassa skal vera að fyrirmælum landlæknis. Samkvæmt þeim fyrirmælum skal innihald sjúkrakassa vera sem hér segir:

    • Verkjatöflur

    • Heftiplástur

    • Grisjuplástur

    • Sárabindi

    • Sáraböggull

    • Silicongrisjur (fyrir skafsár) eða sambærilegar grisjur

    • Saltvatn til sárahreinsunar (einnota) eða sambærilegt

    • Teygjubindi

    • Skæri

    Innihald sjúkrakassa skal vera í kassa eða púða sem hægt er að loka með traustum hætti. Sjúkrakassinn skal vera merktur skráningarnúmeri bifreiðarinnar. Innihald sjúkrakassans og merking skráningarmerkis gildir fyrir allar hópbifreiðir óháð skráningardegi þeirra.

    Áskilnaður m.v. ökutæki

    Sjúkrakassi á að vera í eftirtöldum bifreiðum:

    • Hópbifreiðir.

    • Breyttar bifreiðir. Gildir frá 01.01.1993, bifreiðir sem samþykktar voru fyrir þann tíma með sjúkrakassa sem ekki uppfylla þessar kröfur, þurfa ekki að endurnýja hann.

    • Bifreiðir í notkunarflokki Leigubifreið, Ferðaþjónustuleyfi og/eða Skólabifreið.

    Krafa um staðsetningu

    Í hópbifreið II má staðsetning sjúkrakassa ekki vera lengra en 2 m frá ökumannssæti.

    Kröfur um merkingar

    Áskilinn sjúkrakassi á að vera merktur skráningarnúmeri bifreiðar.


    Hraðamælir

    Skoðunarstofur ökutækja mega gefa út staðfestingu á hraðamæli (valkvætt). Ekki þarf að krefjast staðfestingar um réttan hraðamæli vegna bifreiða þar sem breyting hjóla er undir 10%. Þegar breyting hjóla er orðin meiri en 10% skal krefjast staðfestingar um að hraðamælir sé réttur óháð því hvort um breytingaskoðun vegna breyttar bifreiðar er að ræða eða ekki.

    Ferli staðfestingar á hraðamæli, útgáfa vottorðs og skil til Samgöngustofu er lýst í skráningareglum ökutækja.


    Ökuriti

    Kröfur til ökurita

    Gerð og virkni ökurita skal vera samkvæmt reglugerð ESB um ökurita í ökutækjum. Úttekt þeirra er gerð á viðurkenndum verkstæðum samkvæmt reglugerð um prófun á ökuritum.

    Notkunarskylda ökurita

    Eftirfarandi ökutæki gætu þurft að vera búin ökurita:

    • Vörubifreiðir yfir 3.500 kg (N2, N3).

    • Hópbifreiðir skráðar fyrir 16 farþega eða fleiri (M2, M3).

    • Allar hópbifreiðir í atvinnurekstri skráðar eftir 01.07.2011 (M2, M3).

    Gerðir ökurita:

    • Ökuritaskyld bifreið skráð fyrir 01.09.2006 má vera búin skífuökurita.

    • Ökuritaskyld bifreið skráð eftir 01.09.2006 skal búin rafrænum ökurita.

    Skoðunarskylda ökurita

    Þar sem notkun ökurita er bæði háð gerð og notkun bifreiða getur skoðunarstofa ekki ákveðið hvort ökuriti er áskilinn í ákveðnum bifreiðum eða ekki. Því verður það á ábyrgð eigenda/umráðamanna að ákveða hvort ökuriti eigi að vera í bifreiðinni. Skoðun á ökurita skal því ekki fara fram nema að báðum eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

    1. hann sé í ökutækinu, og

    2. á honum sé uppsetningarplata.

    Ekki er skylt að nota ökurita sé um að ræða:

    • bifreið sem fer ekki yfir 40 km/klst hámarkshraða, þó unnt sé að aka henni hraðar,

    • bifreið hins opinbera sem notuð er í almannaþjónustu,

    • bifreið í reynsluakstri eða ökukennslu, eða

    • bifreið til neyðaraksturs.

    Skoðun uppsetningarplötu

    Uppsetningarplata er plata eða miði sem festur er á ökuritann (venjulega undir lokið). Hún skal vera föst á og vel læsileg. Á henni skal eftirfarandi koma fram:

    • Nafn, heimilisfang eða viðskiptaheiti samþykkts viðgerðarmanns eða verkstæðis.

    • Einkennisstuðull ökutækisins, sýnt sem w = ... snún/km,

    • Virkt ummál hjólbarða, sýnt sem I = ... mm. Mælt er með málbandi frá miðju hjóls lóðrétt niður á jörð (mm) og sú tala margfölduð með 6,28.

    • Dagsetning(ar) þegar w og I voru ákveðin.

    Skoðun innsigla

    Þau innsigli sem skal skoða eru á eftirfarandi stöðum:

    1. Innsigli á uppsetningarplötu (nema hún sé fest á þann hátt að ekki sé mögulegt að fjarlægja hana án þess að eyðileggja merkingarnar).

    2. Innsigli um tenglaenda milli gírkassa og hraðastýribúnaðar og/eða mælabarka.

    3. Skiptirofar ökutækja með tvö eða fleiri áshlutföll.

    4. Fjögur innsigli inni í ökuritanum á bakvið kortið sem innsigla eftirfarandi:

      1. lokið sem lokar af innri búnað ökuritans,

      2. stilliskrúfu / kvörðunarbúnað,

      3. teljarann,

      4. tengi fyrir prófunarbúnað.


    Hraðatakmarkari

    Gerð hraðatakmarkara

    Gerð og virkni hraðatakmarkara skal vera samkvæmt reglugerð ESB um uppsetningu og notkun hraðatakmarkara í tilteknum ökutækjaflokkum, reglugerð ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja, og UN-ECE-reglum um samræmdar kröfur til hraðatakmarkara. Úttekt þeirra er gerð á viðurkenndum verkstæðum samkvæmt reglugerð um frágang á hraðatakmarkara (sjá þó sérákvæði um létt bifhjól).

    Búnaðarskylda hraðatakmarkara

    Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun við 45 km/klst (L1e, L2e):

    Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun við 90 km/klst (N2, N3):

    • Vörubifreiðir skráðar eftir 01.01.1994 yfir 10 t heildarþyngd.

    • Vörubifreiðir skráðar eftir 27.04.2007 yfir 7,5 t heildarþyngd.

    • Vörubifreiðir skráðar eftir 01.01.2008 yfir 3,5 t heildarþyngd.

    Eftirfarandi ökutæki skulu hafa takmörkun 100 km/klst (M2, M3):

    • Hópbifreiðir skráðar eftir 01.01.1994 yfir 10 t heildarþyngd.

    • Hópbifreiðir skráðar eftir 27.04.2007 yfir 7,5 t heildarþyngd.

    • Hópbifreiðir skráðar eftir 01.01.2008 yfir 5 t heildarþyngd.

    • Allar hópbifreiðir skráðar eftir 02.07.2009.

    Ekki er skylt að hraðatakmörkun sé um að ræða:

    • bifreið til neyðaraksturs,

    • bifreið með lægri tæknilegan hámarkshraða en sem nemur takmörkunarhraðanum,

    • bifreið sem eingöngu er ætluð til að veita opinbera þjónustu í þéttbýli, eða

    • bifreið sem notuð er í tengslum við vísindalegar tilraunir.

    Skoðun uppsetningarplötu

    Uppsetningarplata er plata eða miði sem festur er oftast í hurðarstaf. Hún skal vera föst á og vel læsileg. Á henni skal eftirfarandi koma fram:

    • Nafn, heimilisfang eða viðskiptaheiti samþykkts viðgerðarmanns eða verkstæðis.

    • Einkennisstuðull ökutækisins, sýnt sem w = ... snún/km,

    • Virkt ummál hjólbarða, sýnt sem I = ... mm. Mælt er með málbandi frá miðju hjóls lóðrétt niður á jörð (mm) og sú tala margfölduð með 6,28.

    • Dagsetning(ar) þegar w og I voru ákveðin.

    Skoðun innsigla

    Þau innsigli sem skal skoða eru á eftirfarandi stöðum:

    1. Innsigli á uppsetningarplötu (nema hún sé fest á þann hátt að ekki sé mögulegt að fjarlægja hana án þess að eyðileggja merkingarnar).


    Akstursmælir

    Skilgreining krafna

    Út frá eftirfarandi kröfum er unnið:

    • Úr reglugerð um gerð og búnað ökutækja: Hvorki eru gerðar kröfur um að ökutæki sé búið akstursmæli, né til nákvæmni hans eða útfærslu sé hann til staðar.

    • Úr reglugerð um skoðun: 21. grein reglugerðarinnar um niðurstöðu skoðunar hljóðar svo: Komi í ljós við skoðun að óeðlileg breyting hefur orðið á akstursmæli ökutækis og þá helst að akstursmælir sýni lægri kílómetrastöðu en í fyrri skoðun, skal skoðunarstofa upplýsa eiganda ökutækisins um það og skrá sem athugasemd í ferilskrá. 19. grein reglugerðarinnar um það sem er til skoðunar: b) athuga hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis.

    • Úr reglugerð ESB um skoðun ökutækja: Annmarki við skoðun (sjónskoðun eða með rafrænum aflestri): Augljóslega hefur verið átt við kílómetramælinn (svik), ef hann er til staðar, til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana.

    • Ályktun Evrópuþingsins: Í ályktun Evrópuþingsins EU-þingsins (31.05.2018) er bent á ýmsar leiðir til að spyrna við sviksamlegum breytingum á stöðu akstursmælis, enda eru þær jafnan gerðar með hagnaðarsjónarmið í huga. Helsta leiðin er að skrá stöðu akstursmælis í miðlægar skrár sem oftast, hvort sem það er við reglubundna skoðun, í verkstæðisheimsóknum eða í tengslum við hefðbundið viðhald. Einnig að skilgreina kröfur til akstursmæla, reyna að hindra það að átt sé við þá og gera athæfið refsivert.

    Framkvæmd skoðunar og skráningar

    Akstursmælir er í flestum vélknúnum ökutækjum. Sé hann ekki til staðar er staðan 1 (talan einn) skráð á skoðunarvottorð.

    Sé akstursmælir til staðar er ætlast til að staða hans lesin og skráð í ökutækjaskrá í öllum skoðunum ökutækisins. Vanda verður til verka við aflestur og skráningar svo sem minnst hætta sé á mistökum. Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (km eða mílum), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).

    Eðlilegt telst að akstursmælir hækki á milli skoðana (þó getur verið eðlilegt að mælir gangi yfir, þ.e. vélrænn mælir fari í botn og byrji að telja upp á nýtt). Eðlileg hækkun er mismunandi eftir notkun ökutækisins og tímans sem liðið hefur frá síðustu skoðun. Ekki er gerð athugasemd við hækkun en skoðunarmaður er hvattur til að yfirfara aflestur sinn sé hækkun óeðlilega mikil að hans mati og upplýsa eiganda (umráðamann) ef svo er.

    Hafi akstursmælir ekkert hækkað milli aflestra (staðið í stað) eru ekki heldur gerðar athugasemdir. Rétt er samt að skoðunarmaður hafi orð á því við eiganda (umráðamann) til að hann sé upplýstur.

    Hafi akstursmælir lækkað milli skoðana (og ekki gengið yfir) er fyrsta skrefið að yfirfara aflestur til að tryggja að ekki hafi verið rangt lesið af. Ef aflestur er réttur er síðustu skráningum akstursmælis flett upp í ökutækjaskrá og metið hvort einhverja skýringu megi finna þar (t.d. síðasta skráning akstursmælis augljóslega röng). Ef skýringa er að leita í röngum eldri skráningum er eigandi (umráðamaður) upplýstur um það án þess að aðhafast frekar í málinu gagnvart honum. Eðlilegt er þó að skoðunarstofan athugi svo hvort skoðunarmaður hennar hafi skráð rangt í fyrri skoðun og leitist þá við að leiðrétta mistökin í samræmi við ferla hennar þar um.

    Á þessum tímapunkti er orðið ljóst að staða akstursmælis er lægri en við síðustu skráningu akstursmælis (og í ósamræmi við síðustu skráningar akstursmælis ef þær eru fleiri). Eigandi (umráðamaður) skal þá upplýstur um stöðuna og beðinn um að staðfesta að aflestur við þessa skoðun sé réttur.

    Dæming á akstursmæli

    Sé orðið ljóst við skoðun og skráningu á stöðu akstursmælis (sbr. fyrri kafla) að hann sýnir lægri stöðu en í fyrri skoðun, er það túlkað sem svo að átt hafi verið við mælinn til lækkunar. En hvort það hafi verið gert með sviksamlegum hætti er annað mál. Mögulegt er t.d. að skipt hafi verið um akstursmæli eða mælaborð af eðlilegum ástæðum og mælir ekki stilltur rétt eftir viðgerð. Ekki er heldur víst að núverandi eigandi (umráðamaður) hafi upplýsingar um það.

    Skoðunaratriði 7.11 er dæming 2 ef augljóslega hefur verið átt við akstursmælinn (svik) til að stytta skráða vegalengd ökutækis eða gefa rangar upplýsingar um hana. Slík augljós breyting á akstursmæli, með sviksamlegum hætti, þarf að túlka þröngt og gerir í raun kröfu um játningu eiganda (umráðamanns) eða að önnur staðfest sönnun liggi fyrir svo beita megi dæmingunni. Liggi slík sönnun fyrir er dæmingunni beitt, annars ekki og ekki frekar aðhafst.

    Framkvæmd endurskoðunar vegna dæmingar á akstursmæli

    Hafi verið dæmt á akstursmæli, dæming 2, í fyrri skoðun eru tvær leiðir til að lagfæra þann annmarka:

    1. Að breyta stöðu akstursmælis til hækkunar. Ekki er hægt að leggja mat á hvað telst eðlileg hækkun í þessu tilviki. Ný staða er skráð í endurskoðuninni og annmarki telst vera lagfærður.

    2. Eigandi (umráðamaður) skilar skriflegum útskýringum á hinu sviksamlega athæfi. Skoðunarstofa leggur ekki sérstakt mat á innihaldið. Hafi orðið eigendaskipti á ökutækinu, og fyrri eigandi þar með ekki lengur tiltækur, þarf nýi eigandinn að skila yfirlýsingu um að hann sé upplýstur um þennan annmarka (enda markmiðinu náð um að við eigendaskipti sé eigandi upplýstur um gjörninginn). Þessi gögn skulu merkt fastnúmeri ökutækisins og skilað til Samgöngustofu.


    Kröfur til mælitækja

    Kröfum til allra skoðunartækja er lýst í skjali kröfur um aðstöðu og búnað á skoðunarstofu, þar með talið mælitækja. Við skoðun þeirra atriða sem lýst er í þessu skjali eru eftirfarandi mælitæki notuð:

    • Handverkfæri - mælar: Lengdarmæling (málband, skífmál o.þ.h.).

    • GPS-tæki: Vegna staðfestingar á hraðamæli, sjá kröfur til tækisins í skjalinu (valkvætt fyrir skoðunarstofu að stunda þessa starfsemi).

    Lýsingar á mælingum í skjalinu eru almennar (ekki leiðbeiningar fyrir einstakar gerðir mælitækja) og gengið út frá því að skoðunarstofur útbúi eigin notkunarleiðbeiningar fyrir mælitækin sem þær nota.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.

    • Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum nr. 348/2007.

    • Reglugerð um slökkvitæki nr. 1068/2011.

    • Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010.

    • Reglugerð um prófun á ökuritum nr. 572/1995.

    • Reglugerð um frágang á hraðatakmarkara í bifreið nr. 71/1998.

    • Reglugerð ESB um ökurita í ökutækjum nr. 2014/165/ESB.

    • Tilskipun ESB um uppsetningu og notkun hraðatakmarkara í tilteknum ökutækjaflokkum nr. 1992/6/ESB.

    • Reglugerð ESB um gerðarviðurkenningu ökutækja nr. 2019/2144/ESB

    • Regla UN-ECE-89 um samræmdar kröfur til hraðatakmarkara.

    • Tilskipun ESB um skoðun ökutækja nr. 2014/45/ESB.

    • Ályktun Evrópuþingsins með tillögum til Evrópuráðsins varðandi sviksamlegar breytingar á akstursmælum ökutækja nr. 2017/2064(INL).