Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. mars 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Skráningar opinberra stofnana o.fl.

    Opinberar stofnanir geta hafa tiltekinn skráningaraðgang í ökutækjaskrá vegna starfsemi sinnar eða tilkynnt Samgöngustofu um skráningar með öðrum hætti. Sama getur átt við um aðra aðila sem samkvæmt lögum og reglum skulu tilkynna Samgöngustofu um tiltekin atriði er varða ökutæki.

    Efni kaflans

    Vigtun ökutækja

    Samgöngustofa gerir kröfu um að vigtun á eigin þyngd og ásþyngdum ökutækja sem notaðar eru til skráningar í ökutækjaskrá sé gerð af löggiltum vigtarmanni. Vigtarseðillinn verður hluti af skráningargögnum sem liggja í opinberri ökutækjaskrá.

    Skilgreining umferðarlaga á eigin þyngd er þessi:

    Eigin þyngd er þyngd ökutækis sem tilbúið er til notkunar, að meðtöldum búnaði sem því fylgir að jafnaði, eldsneyti, smurolíu, kælivatni, varahjóli, verkfærum og þess háttar.

    Gert er ráð fyrir að sömu skilyrði um útbúnað og ástand ökutækis gildi varðandi vigtun á sérhverjum ás eða ásasamstæðum, eftir atvikum.

    Athugun á útbúnaði og ástandi ökutækis

    Þegar ökutæki er tekið til vigtunar gengur Samgöngustofa út frá því að eftirfandi athuganir og skráningar séu gerðar af vigtarmanni:

    Auðkenni ökutækisins út frá skráningarmerki lesið og skráð á vigtarseðilinn.

    • Ekki er gerð krafa um að ökutæki sé flett upp í ökutækjaskrá eða borið saman við skráningarskírteini. Séu ekki skráningarmerki á ökutækinu verður að finna verksmiðjunúmer þess og skrá það á vigtarseðilinn.

    Magn eldsneytis í aðal eldsneytisgeymum fyrir fljótandi eldsneyti hreyfils lesið og skráð á vigtarseðilinn.

    • Almenna reglan er sú að eldsneytisgeymar ættu að vera með fullir við vigtun.

    • Hafi verið komið fyrir aukaeldsneytisgeymum ættu þeir að vera tómir (sést helst á breyttum torfærubifreiðum). Ekki þarf þó að gera athugasemd við það þótt eitthvað sé í þeim en rétt er að vara við því vegna þess að þessi aukaþyngd dregst frá burðargetunni.

    • Heimilt er að vigta vöru- og hópbifreið (ekki fólks- eða sendibifreið) þótt eldsneytisgeymar þeirra séu ekki fullir, enda leggi vigtarmaður þá mat á magn eldsneytis út frá eldsneytismæli (75%, 50%, 25% eða bara lögg á geymi).

    • Hafi vöru- eða hópbifreið verið vigtuð án þess að eldsneytisgeymar séu fullir, fæst vigtarseðill ekki móttekinn hjá skoðunarstofu nema eigandi (umráðandi) framvísi upplýsingum um stærð eldsneytisgeymanna frá umboði ökutækis, framleiðanda, tækniþjónustu eða frá sambærilegum aðila. Rétt er því að vara við að þetta sé gert og því oft betra að fylla geymana fyrir vigtun.

    • Sé verið að vigta eftirvagn eða vélknúið ökutæki sem er ekki með eldsneytisgeyma fyrir fljótandi eldsneyti (t.d. rafbíl), er merkt við að svo sé.

    • Sé ljóst að eldsneytismælir er bilaður er merkt við að svo sé. Í þessum tilvikum ætti mælir ekki að sýna neina hreyfingu eða nokkur merki um virkni við ræsingu ökutækisins, og yfirleitt að standa í núlli.

    Varahjól ætti að vera til staðar við vigtun þegar um óbreytt ökutæki er að ræða og greinilegt er að framleiðandi gerir ráð fyrir því (greinilegar festingar fyrir varahjól).

    • Ekki er skylda að vera með varahjól á breyttum torfærubifreiðum (enda hafa hjólbarðar þá verið stækkaðir og passa ekki í festingu fyrir varahjól).

    Smurolía, kælivatn, verkfæri og þess háttar er ekki skoðað sérstaklega. Þó má benda á að fjarlægja má fyrir vigtun búnað og hluti sem þurfa almennt ekki að vera í ökutækinu og ættu ekki að teljast með í vigtun eiginþyngdar.

    • Athuga þarf sérstaklega hvort einhver búnaður hafi mögulega verið fjarlægður fyrir vigtun, sem augljóslega að vera til staðar, til dæmis farþegasæti tekin úr.

    Vigtun og útgáfa vigtarseðils

    Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á vigtarseðli fyrir eigin þyngd og ásþyngdir ökutækja vegna skráningar í ökutækjaskrá (mælt er með að nota form US.114):

    • Auðkenni ökutækis: Fastanúmer, skráningarnúmer eða verksmiðjunúmer ökutækis sem vigtað var.

    • Auðkenni vigtar: Nafn vigtar.

    • Auðkenni vigtarmanns: Nafn löggilts vigtarmanns og fyrstu sex tölurnar í kennitölu hans.

    • Dagsetning vigtunar.

    • Akstursmælir: Staða akstursmælis ökutækisins (sé það búið akstursmæli).

    • Eldsneytismagn: Staðfesting vigtarmanns á magn eldsneytis í geymum (samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda, frekari upplýsingar á vigtarseðli).

    • Eiginþyngd: Eigin þyngd ökutækisins (allt ökutækið á voginni, án ökumanns og farþega).

    • Ásþyngdir: Vegna vigtunar á hópbifreið og breyttri bifreið þarf að vigta ásþyngdir. Ef ekki er hægt að vigta staka ása í ásasamstæðum má vigta alla samstæðuna. Strikað skal yfir reitina séu þeir ekki notaðir.

    • Staðfesting vigtarmanns: Undirskrift og/eða stimpill löggilts vigtarmanns.

    • Staðfesting umbeiðanda: Nafn og undirskrift þess sem fór með ökutækið í vigtun. Hér þarf að koma skýrt fram nafn umbeiðanda (þess sem færir ökutækið til vigtunar), skrifað með prentstöfum, og undirritun hans.