Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Forskráningar og upphafsviðurkenningar
Forskráning ökutækis í ökutækjaskrá byggir á viðurkenningu þess til markaðssetningar á Íslandi. Framleiðendur og umboð gegna þar hlutverki og geta þau fengið viðurkennda fulltrúa í samskiptum við Samgöngustofu.
Fulltrúi umboðs/framleiðanda er aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja. Fulltrúi öðlast viðurkenningu og hefur bæði ábyrgð og skyldur.
Efni kaflans
Umboð
Umboð er aðili sem kemur fram fyrir hönd framleiðanda ökutækja á tilteknu svæði (oftast öllu Íslandi) og sinnir sölu og oft líka þjónustu á ökutækjum frá honum.
Samkvæmt Evrópureglum um markaðssetningu bifreiða og eftirvagna þeirra (2018/858/ESB), bifhjóla (tví-/þrí-/fjóhjóla) (168/2013/ESB) og dráttarvéla og eftirvagna þeirra (167/2013/ESB), er þessi skilgreining á dreifingaraðila (umboð fyrir ökutæki frá framleiðanda í ESB):
Dreifingaraðili er söluaðili eða hver annar einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem gerir ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hlut eða búnað aðgengilegan á markaði.
Í sömu reglum er eftirfarandi skilgreining á innflytjanda, en þar er átt við innflutning frá landi utan evrópska efnahagssvæðisins (umboð fyrir ökutæki frá framleiðanda utan ESB):
Innflytjandi er einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á evrópska efnahagssvæðinu sem setur ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hlut eða búnað frá þriðja landi á markað.
Fulltrúar umboðs
Fulltrúi er einstaklingur sem starfar hjá umboði og ábyrgist það gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja umboðsins. Fulltrúinn skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu og skráður á lista yfir viðurkennda fulltrúa (US.350). Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og vera vel að sér um þá ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér.
Fulltrúaréttindi og kröfur til fulltrúa
Fulltrúaréttindi skiptast í þrjá flokka, A, B og C.
Fulltrúi A hefur rétt til að annast gerðarviðurkenningu, forskráningu og nýskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.
Fulltrúi B hefur rétt til að framkvæma fulltrúaskoðun og annast nýskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.
Fulltrúi C hefur rétt til að annast fulltrúaskoðun og skráningu á gerðarviðurkenndum tengibúnaði.
Til að öðlast fulltrúaréttindi þarf umsækjandi að sitja námskeið á vegum Samgöngustofu og standast skriflegt próf að því loknu með einkunnina 7,0 að lágmarki. Fulltrúaréttindi gilda í tvö ár. Að loknu hverju námskeiði skal fulltrúi undirrita staðfestingu á því að hann hafi setið námskeið, að hann gangist við þeirri ábyrgð sem fylgir starfi fulltrúa og þeim viðurlögum sem Samgöngustofu er unnt að beita séu reglur brotnar.
Fulltrúi, sem endurnýjar réttindi sín og hefur ekki fengið athugasemd(ir) frá Samgöngustofu frá síðasta námskeiði, fær réttindi sem gilda í þrjú ár. Til að viðhalda fulltrúaréttindum þarf fulltrúi að sækja upprifjunarnámskeið annað hvert ár og standast skriflegt próf/verkefni að því loknu.
Alvarleg eða ítrekuð mistök af hálfu fulltrúa í starfi getur leitt til sviptingar á fulltrúaréttindum. Ef fulltrúi hefur verið sviptur réttindum sínum tvisvar sinnum, mun hann ekki geta öðlast réttindin á nýjan leik.
Verkefni fulltrúa umboða
Verkefni fulltrúa umboða eru m.a. þessi:
Frumskráning gerðar í ökutækjaskrá.
Nýskráning ökutækis sem byggir á gerð.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir fulltrúanámskeið er 8.521 króna fyrir hvern fulltrúa.
Skyldur dreifingaraðila (frá framleiðanda innan ESB)
Skyldum dreifingaraðila er lýst með eftirfarandi hætti í 18. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Áður en ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining er boðin fram á markaði skulu dreifingaraðilar sannprófa að ökutækið, kerfið, íhluturinn eða aðskilda tæknieiningin hafi þá lögboðnu merkiplötu eða gerðarviðurkenningarmerki sem gerð er krafa um, að þeim fylgi þau skjöl sem krafist er sem og leiðbeiningar og öryggisupplýsingar, eins og krafist er í 59. gr. um upplýsingar ætlaðar notendum, á opinberu tungumáli eða tungumálum viðeigandi aðildarríkisins og að innflytjandinn og framleiðandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í annars vegar 8. mgr. 13. gr. um almennar skyldur framleiðenda og 5. mgr. 16. gr. um skyldur innflytjenda hins vegar.
Dreifingaraðilar skulu tafarlaust upplýsa viðeigandi framleiðanda um allar kvartanir sem þeir hafa fengið varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum varðandi ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa boðið fram á markaði.
Dreifingaraðilar skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
Skyldur innflytjenda (frá framleiðanda utan ESB)
Skyldum innflytjenda er lýst með eftirfarandi hætti í 16. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Innflytjendur skulu einungis setja á markað þau ökutæki, kerfi, íhluti eða aðskildar tæknieiningar sem fara að þessari reglugerð.
Áður en að gerðarviðurkennt ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining er sett á markað skal innflytjandi sannprófa að það falli undir gilt ESB-gerðarviðurkenningarvottorð og að kerfið, íhluturinn eða aðskilda tæknieiningin hafi það gerðarviðurkenningarmerki sem krafist er og uppfylli kröfur 8. mgr. 13. gr. um almennar skyldur framleiðenda. Ef um er að ræða ökutæki skal innflytjandi sannprófa að því fylgi það samræmisvottorð sem krafist er.
Ef að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfyllir ekki kröfur þessarar reglugerðar, og er einkum ekki í samræmi við gerðarviðurkenningu skulu innflytjendur ekki setja ökutækið, kerfið, íhlutinn eða aðskildu tæknieininguna á markað, heimila notkun þeirra eða skráningu fyrr en samræmi við kröfur hefur verið tryggt.
Ef alvarleg áhætta skapast af ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilinni tæknieiningu, hluta eða búnaði skulu innflytjendur ennfremur tilkynna um það til framleiðanda og markaðseftirlitsyfirvalda. Fyrir ökutæki, kerfi, íhluti og aðskildar tæknieiningar með gerðarviðurkenningu skulu innflytjendur einnig tilkynna það til viðurkenningaryfirvaldsins sem veitti gerðarviðurkenninguna.
Innflytjendur skulu tilgreina nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem ná má í þá, á ökutækinu, íhlutnum, aðskildu tæknieiningunni, hlutanum eða búnaðinum eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðunum eða í skjali sem þeim fylgja.
Innflytjendur skulu tryggja að ökutækinu, kerfinu, íhlutnum eða aðskildu tæknieiningunni fylgi leiðbeiningar og upplýsingar, eins og krafist er í 59. gr. um upplýsingar ætlaðar notendum, á opinberu tungumáli eða tungumálum hlutaðeigandi aðildarríkis.
Til að vernda heilsu og öryggi neytenda skulu innflytjendur halda skrá yfir kvartanir og innkallanir varðandi ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildar tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað og skulu upplýsa dreifingaraðila sína um slíkar kvartanir og innkallanir.
Innflytjendur skulu tafarlaust upplýsa viðeigandi framleiðanda um allar kvartanir sem þeir hafa fengið varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við þau ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað.
Innflytjendur skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í reglugerðinni.
Efni kaflans
Framleiðandi
Framleiðandi er sá sem hannar og framleiðir ökutæki að aðskildar tæknieiningar í ökutæki, og ber ábyrgð á því að sýna fram á viðurkenningu þess vegna markaðssetningar þess. Hann ber einnig framleiðendaábyrgð næstu árin og getur verið gerður fjárhagslega ábyrgur fyrir göllum sem upp kunna að koma og afleiðingum þeirra, t.d. vegna slysa eða óhappa.
Samkvæmt Evrópureglum um markaðssetningu bifreiða og eftirvagna þeirra (2018/858/ESB), bifhjóla (tví-/þrí-/fjóhjóla) (168/2013/ESB) og dráttarvéla og eftirvagna þeirra (167/2013/ESB), er þessi skilgreining á framleiðanda:
Framleiðandi er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur gagnvart viðurkenningaryfirvaldinu [Samgöngustofu] fyrir öllum þáttum gerðarviðurkenningar- eða heimildarferlisins, fyrir samræmi framleiðslunnar og sem ber einnig ábyrgð á málefnum varðandi markaðseftirlit með ökutækjum, kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem framleiddar eru, hvort sem einstaklingurinn eða lögaðilinn kemur með beinum hætti að öllum þrepum hönnunar og smíði ökutækis, kerfis, íhlutar eða aðskilinnar tæknieiningar sem háð er gerðarviðurkenningu.
Aðskilin tæknieining er þannig skilgreind í sömu reglum (t.d. sérstakur tengibúnaður):
Aðskilin tæknieining er búnaður sem verður að uppfylla kröfur reglugerðanna og sem er ætlaður til að vera hluti af ökutæki og sem má gerðarviðurkenna sérstaklega en einungis í tengslum við eina eða fleiri tilteknar gerðir ökutækis, ef skýrt er kveðið á um það í slíkum gerðum.
Fulltrúi framleiðanda
Fulltrúi framleiðanda er einstaklingur eða lögaðili með staðfestu í aðildarríki EES sem framleiðandi tilnefnir sem fulltrúa sinn gagnvart Samgöngustofu og kemur fram fyrir hans hönd í málum sem reglugerð um gerð og búnað ökutækja tekur til (822/2004). Þar sem vísað er til hugtaksins "framleiðandi" ber að skilja það sem framleiðandi eða fulltrúi hans samkvæmt þessari skilgreiningu. Fulltrúi framleiðanda ber ábyrgð á heildargerðarviðurkenningu, gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja fyrir hönd innflytjanda eða framleiðanda ökutækis.
Sem dæmi um verkefni sem fulltrúi framleiðanda hefur heimild til að vinna:
Tilkynna um breytingu á hámarksafköstum bifhjóla (sem eru gerðarviðurkennd til að vera stillt fyrir mismunandi bifhjólaökuréttindi).
Almennar skyldur framleiðenda
Almennum skyldum framleiðenda er lýst með eftirfarandi hætti í 13. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Framleiðendur skulu tryggja að ökutækin, kerfin, íhlutirnir og aðskildu tæknieiningarnar sem þeir hafa framleitt og sem sett eru á markað hafi verið framleidd og viðurkennd í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í reglugerðinni, þá sérstaklega í samræmi við kröfurnar í 5. gr. um tæknilegar kröfur.
Framleiðendur skulu vera ábyrgir gagnvart viðurkenningaryfirvaldinu fyrir öllum þáttum viðurkenningaraðferðarinnar svo og fyrir samræmi framleiðslunnar. Þegar um er að ræða fjölþrepa gerðarviðurkenningu skulu framleiðendur einnig vera ábyrgir fyrir viðurkenningu og samræmi framleiðslu þeirra kerfa, íhluta eða aðskildu tæknieininga sem þeir hafa bætt við á smíðaþrepi ökutækisins. Framleiðendur sem breyta íhlutum, kerfum eða aðskildum tæknieiningum sem þegar hafa verið samþykkt á fyrri þrepum, skulu ábyrgir fyrir gerðarviðurkenningunni og samræmi framleiðslu þessara breyttu íhluta, kerfa eða aðskildu tæknieininga. Framleiðendur á fyrra þrepi skulu leggja fram upplýsingar til framleiðenda á síðari þrepum varðandi hvers konar breytingu sem getur haft áhrif á gerðarviðurkenningu íhlutar, gerðarviðurkenningu kerfis eða gerðarviðurkenningu aðskilinnar tæknieiningar eða á heildargerðarviðurkenningu ökutækis. Slíkar upplýsingar skal veita um leið og nýja rýmkunin á heildargerðarviðurkenningu ökutækis hefur verið veitt og eigi síðar en á fyrsta framleiðsludegi ófullbúna ökutækisins.
Framleiðendur sem breyta ófullbúnu ökutæki með þeim hætti að það fari í annan ökutækisflokk, með þeim afleiðingum að kröfurnar sem þegar hafa verið metnar á fyrra gerðarviðurkenningarstigi breytast, skulu einnig bera ábyrgð á að kröfurnar sem eiga við flokkinn sem breytta ökutækið er í séu uppfylltar.
Að því er varðar ESB-gerðarviðurkenningu á ökutækjum, kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum skal framleiðandi með staðfestu utan Sambandsins tilnefna einn fulltrúa með staðfestu í Sambandinu sem fulltrúa sinn í samskiptum sínum við viðurkenningaryfirvaldið. Framleiðandinn skal einnig tilnefna einn fulltrúa með staðfestu innan Sambandsins fyrir markaðseftirlit, sem getur verið sami fulltrúinn og sá sem tilnefndur er fyrir ESB-gerðarviðurkenningu.
Framleiðendur skulu sjá til þess að ökutæki þeirra, kerfi, íhlutir og aðskildar tæknieiningar séu ekki hönnuð fyrir áætlanir eða aðrar aðferðir sem breyta frammistöðunni sem kemur fram meðan á prófun stendur þannig að þau fari ekki að reglugerðinni þegar þau eru notuð við aðstæður sem búast má við með sanngjörnum hætti í venjulegri notkun.
Framleiðendur skulu koma á fót verklagsreglum til að tryggja að raðframleiðsla ökutækja, kerfa, íhluta og aðskilinna tæknieininga samræmist áfram viðurkenndu gerðinni.
Framleiðendur skulu rannsaka allar kvartanir sem þeir fá varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við þau ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað. Framleiðendur skulu halda skrá yfir slíkar kvartanir, þ.m.t. lýsingu á vandamálinu fyrir hverja kvörtun og þær upplýsingar sem þörf er á til að auðkenna nákvæmlega viðkomandi gerð ökutækis, kerfis, íhlutar, aðskildu tæknieiningar, hluta eða búnaðar, og ef um er að ræða rökstuddar kvartanir skulu framleiðendur upplýsa dreifingaraðila og innflytjendur sína um slíkt.
Til viðbótar við lögboðna merkiplötu sem framleiðendur festa á ökutæki sín og gerðarviðurkenningarmerki sem þeir festa á íhluti sína eða aðskildar tæknieiningar í samræmi við 38. gr. um lögboðnar merkiplötur og aukaplötur framleiðanda, merkingar og gerðarviðurkenningarmerki íhluta og aðskilinna tæknieininga, skulu þeir tilgreina nafn, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang sitt í Sambandinu þar sem ná má í þá, á ökutækjum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem þeir setja á markað eða, ef það er ekki mögulegt, á pakkningum eða í skjölum sem fylgja íhlut eða aðskilinni tæknieiningu.
Framleiðendur skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
Án þess að hafa áhrif á ákvæði 5. mgr. 9. gr. um sannprófun framkvæmdastjórnarinnar á að farið sé að tilskildum ákvæðum, og með fyrirvara um vernd viðskiptaleyndarmála og varðveislu persónuupplýsinga skv. lögum Sambandsins og landslögum skulu framleiðendur gera aðgengileg gögn sem nauðsynleg eru þriðju aðilum til að framkvæma prófanir á að hugsanlega sé ekki farið að tilskildum ákvæðum, þ.m.t. mæliþætti og stillingar sem eru nauðsynleg til að líkja nákvæmlega eftir prófunarskilyrðunum sem voru í gildi þegar gerðarviðurkenningarprófunin var framkvæmd.
Að því er varðar fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdargerðir sem tilgreina þau gögn sem á að gera aðgengileg án endurgjalds, ásamt þeim kröfum sem þriðju aðilar eiga að uppfylla til að sýna fram á að þeir hafi lögmæta hagsmuni á sviði almannaöryggis eða umhverfisverndunar og að þeir notist við viðunandi prófunaraðstöðu. Samþykkja skal þessar framkvæmdargerðir í samræmi við rannsóknarmálsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 8 um skyldur markaðseftirlitsyfirvalda.
Skyldur fulltrúa framleiðanda
Skyldum fulltrúa framleiðenda er lýst með eftirfarandi hætti í 15. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Fulltrúi framleiðanda skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu frá framleiðandanum. Þetta umboð skal a.m.k. kveða á um að fulltrúinn:
a) hafi aðgang að ESB-gerðarviðurkenningarvottorðinu og fylgiskjölum þess sem um getur í 1. mgr. 28. gr. um ESB-gerðarviðurkenningarvottorð ásamt aðgangi að samræmisvottorðinu á einu af opinberum tungumálum Sambandsins; slík gögn skal gera aðgengileg viðurkenningaryfirvaldinu og markaðseftirlitsyfirvöldunum í 10 ár eftir lok gildistíma ESB-gerðarviðurkenningar fyrir ökutæki og í fimm ár eftir lok gildistíma ESB-gerðarviðurkenningar fyrir kerfi, íhlut eða aðskilda tæknieiningu,
b) afhendi viðurkenningaryfirvaldi, gegn framvísun rökstuddrar beiðni frá því yfirvaldi, allar upplýsingar, öll gögn og allar aðrar tækniforskriftir, þ.m.t. aðgang að hugbúnaði og reikniritum, sem þörf er á til að sýna fram á samræmi framleiðslu á ökutæki, kerfi, íhlut eða aðskilinni tæknieiningu,
c) eigi samstarf við viðurkenningaryfirvöldin eða markaðseftirlitsyfirvöldin, að beiðni þeirra, um allar aðgerðir sem gripið er til í því skyni að uppræta þá alvarlegu áhættu sem skapast af ökutækjum, kerfum, íhlutum, aðskildum tæknieiningum, hlutum eða búnaði sem falla undir það umboð,
d) upplýsi framleiðandann þegar í stað um kvartanir og skýrslur sem varða áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildar tæknieiningar, hluti eða búnað sem falla undir það umboð,
e) hafi rétt til að fella umboðið úr gildi án viðurlaga ef framleiðandinn fer í bága við skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð.Fulltrúi framleiðanda sem fellir umboðið úr gildi á grundvelli ástæðnanna sem um getur í e-lið 1. mgr. skal án tafar tilkynna það bæði til viðurkenningaryfirvaldsins sem veitti gerðarviðurkenninguna og til framkvæmdastjórnarinnar. Þær upplýsingar sem leggja skal fram skulu innihalda a.m.k.:
a) dagsetningu uppsagnar umboðsins,
b) til hvaða dags megi tilgreina fráfarandi fulltrúa framleiðanda í upplýsingum sem framleiðandi lætur í té, þ.m.t öllu kynningarefni,
c) skjalaflutning, þ.m.t. trúnaðarkvaðir og eignarréttur,
d) skyldur fulltrúa fráfarandi framleiðandans eftir lok umboðsins til að áframsenda til framleiðanda eða fulltrúa framleiðandans sem við tekur allar kvartanir og skýrslur um áhættu og atvik sem grunur er um varðandi ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hluta eða búnað sem falla undir tilnefningu fulltrúa fráfarandi framleiðandans sem hans fulltrúa.
Efni kaflans
Forskráning ökutækis
Fulltrúi A hefur heimild til að sækja um forskráningu gerðarviðurkennds ökutækis og öðlast svo heimild til að nýskrá ökutækið að lokinni fulltrúaskoðun, að uppfylltum öllum skilyrðum.
Forskráning ökutækis byggir alltaf á gerð (Ekjugerð) sem umboð hefur sótt um og fengið samþykkta. Eigi að forskrá ökutæki sem er af nýrri útfærslu þá verður umboðið að sækja um nýja Ekjugerð til Samgöngustofu.
Umsókn fulltrúa um forskráningu ökutækis
Þegar fulltrúi A sækir um forskráningu á ökutæki þá þarf hann að tiltaka þá Ekjugerð sem ökutækið tilheyrir. Þrjár aðferðir eru notaðar við umsókn um forskráningu:
Rafræn umsókn með pappírs CoC vottorði: Umboð með samning um skeytaþjónustu sendir umsókn um forskráningu með skeyti til Samgöngustofu. Þessi leið er notuð fyrir heildargerðarviðurkennd ökutæki. Í umsókn er verksmiðjunúmer ökutækisins tilgreint ásamt Ekjugerðarnúmeri og afriti CoC vottorðs (ásamt fleiru). Frumriti CoC vottorða er svo komið til Samgöngustofu innan 5 virkra daga.
Rafræn umsókn með eCoC vottorði: Umboð með samning um innsendingu eCoC vottorða sendir umsókn með skeyti til Samgöngustofu. Þessi leið er notuð fyrir heildargerðarviðurkennd ökutæki með rafrænu eCoC vottorði. Í umsókn fylgir allt eCoC vottorðið og er það sjálfkrafa tengt við Ekjugerð sem þarf að vera til og umboðið þarf að eiga. Ekki þarf að senda nein fylgigögn til Samgöngustofu.
Umsókn á pappír: Í öllum öðrum tilvikum er sótt um forskráningu á eyðublaði US.106 sem skilað er til Samgöngustofu. Með ökutækjum með evrópska heildargerðarviðurkenningu þurfa CoC vottorðin að fylgja umsókn í frumriti. Með þjóðargerðarviðurkenndum torfærutækjum þurfa upprunavottorð að fylgja umsókn í frumriti.
Þegar umsókn um forskráningu er samþykkt fær fulltrúi tölvupóst frá Samgöngustofu um að forskráning hafi verið framkvæmd og hvaða fastnúmeri var úthlutað.
Hafna þarf forskráningu ef í ljós kemur að útfærsla ökutækisins er önnur en Ekjugerðin sem var tiltekin í umsókninni. Í þeim tilvikum gefst fulltrúa tækifæri á að leiðrétta Ekjugerðina (eða sækja um nýja Ekjugerð ef hún er ekki til fyrir þessa útfærslu ökutækis).
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu vegna umsóknar um forskráningu með rafrænum er 674 krónur fyrir sérhvert ökutæki.
Gjald Samgöngustofu vegna umsóknar um forskráningu á pappírsformi er 4.730 krónur fyrir sérhvert ökutæki.
Gjald Samgöngustofu fyrir leiðréttingu á forskráningu þegar röng gerð er valin er greitt í tímagjaldi 11.008 krónur fyrir hverja klukkustund.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar skrá í eigin tölvukerfi sem svo eiga í samskiptum við ökutækjaskrá með skeytaþjónustum.
Efni kaflans
Gerð í ökutækjaskrá (Ekjugerð)
Til að fulltrúi umboðs (fulltrúi A) geti lagt inn umsókn um forskráningu ökutækis á grundvelli gerðar, og fengið heimild til að nýskrá ökutækið á grundvelli fulltrúaskoðunar, þarf umboðið að hafa fengið samþykkta umsókn um frumskráningu gerðar. Við samþykkt er stofnuð svokölluð Ekjugerð með Ekjugerðarnúmeri og Ekjuviðurkenningarnúmeri sem notað er í samskiptum vegna forskráningar ökutækja á viðkomandi gerð.
Ástæður þess að stofna þarf nýja Ekjugerð
Stofna þarf nýja Ekjugerð þegar nýjar útfærslur ökutækis verða til. Það þekkist á því að eitthvert eftirfarandi gilda er öðruvísi á evrópskri heildargerðarviðurkenningu:
Gerðarheiti (Type)
Afbrigði (Version)
Útgáfa (Variant)
Gerðarviðurkenningarnúmer (allt e-númerið)
Dagsetning á útgáfu gerðarviðurkenningarinnar (þessa e-númers)
Ef um íslenska þjóðagerðarviðurkenningu torfærutækja er að ræða þá þekkist ný gerð á því að eitthvert eftirtalinna gilda er öðruvísi milli ökutækja:
Tegund
Undirtegund
Gerðarheiti (Type), ef uppgefið af framleiðanda (modelkóði)
Ökutækisflokkur
Hreyfill (gerð, orkugjafi og afköst)
Lengd og breidd
Afar áríðandi er að umboð láti stofna fyrir sig nýja gerð þegar einhverjar breytingar hafa átt sér stað. Uppgötvist það að forskráning eða nýskráning hafi verið framkvæmd á rangri gerð gæti þurft að aftukalla forskráningu eða nýskráninguna.
Umsókn um frumskráningu Ekjugerðar
Umsókn um frumskráningu gerðar er með tvennum hætti:
Ökutækið er með evrópska heildargerðarviðurkenningu: Fulltrúi A sendir afrit af CoC vottorði ökutækis af hinni nýju gerð á netfangið forskraning hjá Samgöngustofu (ásamt upplýsingum um sig og umboðið).
Ökutækið er torfærutæki: Sótt er um nýja þjóðargerðarviðurkenningu eða viðbót við áður útgefna þjóðargerðarviðurkenningu á eyðublaði US.400. Eyðublaðinu þarf að skila á pappír ásamt öllum umbeðnum fylgigögnum til Samgöngustofu (sjá neðar).
Sé umsókn samþykkt er ný Ekjugerð stofnuð og stofnkostnaður skuldfærður á viðkomandi umboð. Þá verða til tvö auðkennisnúmer í Ekju sem nota þarf við forskráningu ökutækja á viðkomandi gerð:
Ekjugerðarnúmer: Notað þegar sótt er um forskráningu á ökutæki með rafrænum hætti (skeytakerfi umboða). Þetta er 12 stafa númer þar sem 8 fyrstu stafirnir eru úr verksmiðjunúmeri ökutækisins.
Ekjuviðurkenningarnúmer: Notað þegar sótt er um forskráningu á pappírsformi (US.106). Þetta er fjögurra stafa raðnúmer viðurkenningar og svo raðnúmer viðbótar með bandstriki á milli.
Í báðum tilvikum verður umboð að halda sjálft utan um samþykktar gerðir sem það getur notað í þessum samskiptum, þ.e. hvaða útfærsla ökutækis er fyrir hverja gerð.
Eignarhald gerðar
Umboð með fulltrúa sem fær samþykkta umsókn um stofnun Ekjugerðar hefur heimild til að nota hana og sækja um nýskráningu á grundvelli fulltrúaskoðunar. Um notkun annarra aðila gildir eftirfarandi:
Stofnun Ekjugerðar á grundvelli evrópskrar heildargerðarviðurkenningar veitir umboði ekki einkarétt á afnotum af henni. Ef aðrir aðilar óska eftir skráningu á ökutæki á grundvelli sömu gerðar er það heimilt, enda sé framvísað CoC-vottorði og ökutækið fært til samanburðarskoðunar fyrir nýskráningu. Ef annað umboð með fulltrúa vill geta framkvæmt fulltrúaskoðun á grundvelli sömu gerðar verður það að láta stofna gerðina fyrir sig á venjulegan hátt.
Stofnun Ekjugerðar á grundvelli íslenskrar þjóðagerðarviðurkenningar á torfærutæki veitir umboðinu einkarétt á afnotum af henni.
Umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu
Með umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis (US.400) þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:
Teikning með öllum aðalmálum.
Myndir sem sýna ökutækið annars vegar á ská framan frá og aðra hliðina og hins vegar á ská aftan frá og hina hliðina.
Leiðbeiningarbók eða sambærilegar upplýsingar frá framleiðanda.
Upplýsingar um merkingu hvers tákns eða samstöðu tákna í verksmiðjunúmeri og gerðarnúmeri.
Upplýsingar um burðargetu einstakra ása og leyfða heildarþyngd ökutækisins.
Upplýsingar um orkugjafa og afköst hreyfils (og um slagrými ef brunahreyfill).
Eftir að sótt hefur verið um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis þarf að framkvæma gerðarskoðun:
Gerðarskoðun er gerð af Samgöngustofu og í húsakynnum umboðs eða framleiðanda. Við gerðarskoðun þarf að vera til staðar að lágmarki eitt eintak af viðkomandi gerð ökutækisins og aðstaða til að skoða það, gangsetja og prófa ljós og hemla.
Sé um innflutt torfærutæki að ræða gefur Samgöngustofa heimild til innflutnings hæfilegs magns tækja til að notast við í gerðarskoðun (gefur út fastanúmer á þau og setur á nýskráningarlás).
Gjaldtaka
Fyrir stofnun á nýrri gerð (Ekjugerð) á grundvelli evrópskrar heildagerðarviðurkenningar greiðir umboð 12.770 krónur. Fyrir stofnun á viðbót er greitt 8.521 króna.
Fyrir stofnun á nýrri gerð (Ekjugerð) á grundvelli íslenskrar þjóðargerðarviðurkenningar torfærutækja greiðir umboð 23.377 krónur. Fyrir stofnun á viðbót er greitt 4.722 krónur.
Fyrir gerðarskoðun í tengslum við umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis greiðir umboð eða framleiðandi tímagjald, 11.008 krónur á hverja klukkustund.
Tölvuvinnsla
Umboð senda beiðni um stofnun nýrrar gerðar með tölvupósti eða á pappírsformi.
Efni kaflans
Þjóðargerðarviðurkenning á aðskilinni tæknieiningu
Samgöngustofa má gefa út þjóðargerðarviðurkenningu á gerðum aðskilinna tæknieininga af ýmsu tagi, t.d. tengibúnaði. Tæknieiningin þarf að vera raðsmíðuð og hafa tæknieiginleika sem ráða útfærslu hennar.
Þjóðargerðarviðurkenningu má veita nýjum, raðsmíðuðum tengibúnaði fyrir bifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna.
Umsókn um nýja gerð tengibúnaðar
Fulltrúi C hefur heimild til að sækja um nýja þjóðargerðarviðurkenningu tengibúnaðar fyrir hönd umboðs (US.402). Viðurkenningin er gefin út fyrir tiltekna útfærslu tengibúnaðar og tilteknar útfærslur bifreiða sem hann passar við.
Framvísa skal eftirfarandi upplýsingum frá framleiðanda tengibúnaðar:
mynd (merki eða ljósrit) af merki tengibúnaðar,
teikningu af tengibúnaði,
mestu leyfðu heildarþyngd eftirvagns/tengitækis.
Framvísa skal eftirfarandi upplýsingum frá framleiðanda bifreiðar:
staðsetning og festur tengibúnaðar við bifreið (nægir þó að þessar upplýsingar komi fram frá framleiðanda tengibúnaðarins),
mesta leyfða heildarþyngd eftirvagns,
heimiluð þyngd á tengibúnað í lóðrétta og lárétta stefnu.
Við yfirferð umsóknar metur Samgöngustofa hvort færa skuli bifreið til sérstakrar skoðunar með þeirri gerð tengibúnaðar sem sótt er um gerðarviðurkenningu fyrir. Í þeim tilvikum er faggiltri skoðunarstofu heimilt að taka út tengibúnaðinn og gefa út vottorð (US.407).
Staðfestingar, vottorð og önnur gögn frá framleiðendum skal fulltrúi undirrita og stimpla með nafni umsækjanda. Þau þurfa ekki að vera í frumriti.
Heimilt er að samþykkja þjóðargerðarviðurkenningu frá öðru aðildarríki EES sem íslenska gerðarviðurkenningu, ef gerðarviðurkenningin er framkvæmd á fullnægjandi hátt að mati Samgöngustofu.
Ástæður þess að stofna þarf nýja gerð tengibúnaðar
Stofna þarf nýja gerð fyrir tengibúnað þegar einhverjar breytingar verða á þeim útfærslum sem innifaldar eru í fyrri viðurkenningum (ekki er boðið upp á stofnun viðbóta við fyrri gerðarviðurkenningu). Þetta meðal annars verið:
Nýjar gerðir bifreiða fyrir sama tengibúnað
Ný afbrigði af tengibúnaðinum
Afar áríðandi er að umboð láti stofna fyrir sig nýja gerð þegar einhverjar breytingar hafa átt sér stað. Uppgötvist það að forskráning eða nýskráning hafi verið framkvæmd á rangri gerð tengibúnaðar gæti þurft að aftukalla skráningu hans eða krefjast sérstakrar úttektar skoðunarstofu á tengibúnaðinum.
Eignarhald gerðar
Stofnun Ekjugerðar á grundvelli íslenskrar þjóðagerðarviðurkenningar á aðskilinni tæknieiningu veitir umboðinu einkarétt á afnotum af henni.
Gjaldtaka
Fyrir stofnun á nýrri gerð fyrir tengibúnað greiðir umboð 23.377 krónur.
Tölvuvinnsla
Umboð senda beiðni um stofnun nýrrar gerðar á pappírsformi.
Efni kaflans
Síðasta ökutæki gerðar
Þetta eru heildargerðarviðurkennd ökutæki sem framleidd eru áður en nýjar reglur taka gildi sem framleiðslan tók ekki mið af. Nýskráning slíkra ökutækja eftir að nýjar reglur taka gildi er óheimil nema framleiðandi eða fulltrúi framleiðanda hafi fengið undanþágu hjá Samgöngustofu áður en skráningarheimildin rann út.
Skilyrði til veitingar undanþágu
Síðustu ökutæki gerðar (e. end-of-series vehicles) eru ökutæki sem eru hluti af birgðum (e. part of a stock) sem ekki er hægt eða er ekki lengur hægt að setja á markað, skrá eða taka í notkun vegna þess að nýjar tæknilegar kröfur hafa tekið gildi sem ökutækin hafa ekki verið viðurkennd samkvæmt.
Til er undanþáguákvæði í reglugerðum fyrir þessi ökutæki sem heimila skráningu og sölu á þeim á Íslandi séu þau með evrópska heildargerðarviðurkenningu. Þetta undanþáguákvæði felur í sér bæði takmörkun á fjölda ökutækja og tímalengd. Í 3 gr., liðar 03.01 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004, segir:
Þegar nýjar reglur taka gildi hjá Evrópusambandinu getur Samgöngustofa, að fenginni umsókn, ef þörf krefur og það gengur ekki gegn markmiðum reglugerðar þessarar varðandi umhverfis- og umferðaröryggissjónarmið, veitt leyfi til að skrá síðustu ökutæki gerðar í samræmi við 10% reglu B-hluta viðauka XII tilskipunar 2007/46/EB. Ákvæði þetta gildir eingöngu um bifreiðar og eftirvagna.
Einnig gildir að sé fjöldi ökutækja samkvæmt ofangreindum reglum undir 100 má heimila að allt að 100 ökutæki séu skráð.
Sambærileg ákvæði er að finna í reglugerð 167/2013/ESB um viðurkenningu á dráttarvélum og reglugerð 168/2013/ESB um viðurkenningu á bifhjólum (tví-/þrí-/fjórhjólum), og hafa báðar þessar reglugerðir verið innleiddar í íslenskt regluverk.
Framleiðendur eða fulltrúar þeirra (e. manufacturer‘s representative), eins og fjallað er um í gildandi Evrópugerðum er lúta að skráningu síðustu ökutækjum gerðar, geta sótt um undanþágu fyrir skráningu þeirra. Undanþágan er veitt á grundvelli þess að framleiðendur eða fulltrúar þeirra, hafi lent í efnahagslegum eða tæknilegum erfiðleikum með að uppfylla komandi kröfur til ökutækjanna og fái því lengri tíma til að selja birgðir sem hannaðar og framleiddar eru samkvæmt eldri kröfum. Einnig gildir að samræmisvottorð viðkomandi ökutækja skal hafa verið útgefið og í gildi í a.m.k. 3 mánuði áður en hinar nýju reglur taka gildi.
Samgöngustofa sem skráningaryfirvald veitir aðeins undanþágu til skráningu síðustu ökutækja gerðar á Íslandi (ekki til skráningar í öðrum löndum).
Undanþágutímabil (tímarammi)
Ef ökutækið er framleitt fullgert (e. complete vehicle) er undanþágan takmörkuð við 12 mánaða tímabil. Þetta þýðir það, ef umsókn um skráningu ökutækis síðustu gerðar er heimiluð, skal nýskráning þess fara fram innan 12 mánaða frá því að nýjar reglur taka gildi. Ökutæki sem framleidd eru af fleiri en einum framleiðanda og eru samþykkt þannig (e. multi-stage approval vehicle/completed vehicles) skulu skráð innan 18 mánaða frá því að nýjar reglur taka gildi. Þessi tímamörk koma fram í evrópskum reglum og tilskipunum um gerðarviðurkenningar ökutækja.
Takmörkun á fjölda – fólksbílar, bifhjól og dráttarvélar
Fyrir fólksbifreiðir, bifhjól (líka á tveimur og þremur hjólum) og dráttarvélar má fjöldi síðustu ökutækja gerðar ekki vera fleiri en 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu síðastliðna 12 mánuði eða á síðasta almanaksári eða allt að 100 ökutæki.
Fyrir önnur ökutæki (hópbifreiðir, vörubifreiðir og eftirvagna) þá má fjöldi síðustu ökutækja gerðar ekki vera fleiri en 30% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu síðastliðna 12 mánuði eða á síðasta almanaksári eða allt að 100 ökutæki.
Samantekt
Ökutækisflokkur | Undanþágutímabil | Fjöldi ökutækja síðustu gerðar |
Fólksbifreið (M1), framleitt fullgert á einum stað (e. complete vehicle) | 12 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 12 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Fólksbifreið (M1), framleitt á fleiri en einum stað (e. completed vehicle/multi-stage approval) | 18 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 12 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Hópbifreið (M2/M3), vörubifreið (N2/N3) og eftirvagn (O2/O3/O4), framleitt fullgert á einum stað (e. complete vehicle) | 12 mánuðir | 30% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 12 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Hópbifreið (M2/M3), vörubifreið (N2/N3) og eftirvagn (O2/O3/O4), framleitt á fleiri en einum stað (e. completed vehicle/multi-stage approval) | 18 mánuðir | 30% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 12 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Bifhjól, framleitt fullgert á einum stað (e. complete vehicle) | 24 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 24 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Bifhjól, framleitt á fleiri en einum stað (e. completed vehicle/multi-stage approval) | 30 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 24 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Dráttarvél, framleitt fullgert á einum stað (e. complete vehicle) | 24 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 24 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Dráttarvél, framleitt á fleiri en einum stað (e. completed vehicle/multi-stage approval) | 30 mánuðir | 10% af fjölda þeirra ökutækja sömu gerðar sem fengið hafa nýskráningu sl. 24 mánuði eða allt að 100 ökutæki. |
Umsókn og afgreiðsla
Framleiðandi eða fulltrúi framleiðanda getur sótt um undanþáguskráningu á síðustu ökutækjum gerðar. Umsóknin skal innihalda eftirfarandi upplýsingar og hana skal senda á netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu:
Nafn og kennitala umsækjanda.
Heiti framleiðanda og gerðarheiti (e. make and type) ökutækis/ökutækja sem um ræðir.
Heildarfjöldi ökutækja sem um ræðir ásamt verksmiðjunúmerum þeirra.
Evrópskt heildargerðarviðurkenningarnúmer (e. type approval number).
Afrit af samræmisvottorðum (CoC) ökutækjanna.
Tilvísun í þær kröfur og reglugerðir sem ökutækið uppfyllir ekki og skilgreinir ökutækið sem síðasta ökutæki gerðar.
Yfirlit yfir þau ökutæki sömu gerðar frá sama framleiðanda (e. make and type) sem hlotið hafa skráningu sl. 12 mánuði og á síðasta almanaksári.
Afgreiðslufrestur umsókna getur verið allt að þrír mánuðir (samanber heimildir í gildandi Evrópugerðum er lúta að þessu).
Framleiðanda eða fulltrúa framleiðanda tilkynnt um niðurstöðuna. Sé umsókn samþykkt er viðkomandi ökutæki forskráð með fyrirvara í kerfi Samgöngustofu. Eftir það er forskráningar- og nýskráningarferli þeirra óbreytt. Sé umsókn ekki samþykkt er nýskráning ökutækjanna óheimil hérlendis.
Efni kaflans
Reynslumerki
Umboðum er heimilt að fá og nota reynslumerki til að flytja óskráð ökutæki milli staða í eftirfarandi tilvikum:
Í tengslum við skráningu: Flytja má ökutækið frá höfn á geymslustað innflytjenda, milli geymslustaða og í skoðun.
Til reynsluaksturs: Nota má reynslumerki á ökutæki í reynsluakstri en þá er átt við reynsluferðir í eðlilegri fjarlægð frá umboði. Ekki er heimilt að nota ökutæki með reynslumerki utan opnunartíma umboðs og ekki er heimilt að geyma ökutækið við íbúðarhús yfir nótt. Óheimilt er að flytja farþega og farm en starfsmanni umboðs og aðstandendum ökumanns er þó heimilt að sitja í ökutækinu við reynsluakstur.
Við kynningarstarfsemi: Nota má reynslumerki á ökutæki sem notuð eru í kynningarstarfsemi, við auglýsingargerð og í blaðamannalán. Óheimilt er að flytja farþega og farm en starfsmanni umboðs er þó heimilt að sitja í ökutækinu við reynsluakstur.
Með blaðamannaláni er átt við þegar umboð lánar blaðamanni ökutæki á reynslumerkjum til kynningar vegna starfs hans á vegum fjölmiðla við umfjöllun um ökutæki á almennum vettvangi. Blaðamaðurinn skal hafa sérstaka heimild frá Samgöngustofu til að nota ökutæki með reynslumerki með þessum hætti og er heimildin gefin út á nafn hans og númer viðkomandi reynslumerkis í 3 samfellda daga í senn. Blaðamaður skal að jafnaði áður en heimild er veitt, framvísa blaðamannaskírteini eða með öðrum hætti sýna fram á starfstengsl sín við tiltekinn fjölmiðil. Heimildin skal ávallt vera meðferðis við akstur og sýnileg í ökutækinu þegar það er ekki í notkun. Notkun blaðamanns á ökutæki sem ber reynslumerki skal einskorðast við það sem nauðsynlegt er vegna umfjöllunar í fjölmiðli. Ökutæki á blaðamannaláni er heimilt að standa við íbúðarhús að næturlagi á meðan á leigutímanum stendur, enda sé heimildarbréf sýnilegt í ökutækinu.
Bifreið skal ávallt bera tvö reynslumerki, að framan og að aftan, en önnur ökutæki, s.s. dráttarvélar, bifhjól og eftirvagnar, skulu bera reynslumerki að aftan. Heimilt er að setja fremra merkið í framrúðu bifreiðar og skal það staðsett þannig að það sjáist greinilega inn um framrúðuna. Aftara merkið skal fest á áberandi stað aftan á ökutækið og er heimilt að nota bráðabirgðafestingar t.d. segulfestingar.
Leiga á reynslumerki
Umboð sækir um reynslumerki til Samgöngustofu. Umboði er úthlutað áletrun og númeraplötur útbúnar (segulmerki).
Samgöngustofa leigir umboðum reynslumerki í eitt almanaksár í senn. Alltaf er greitt fyrri heilt ár í senn, jafnvel þótt leiga hefjist á miðju ári. Settur er gildismiði á merkin sem sýnir leyfilegan gildistíma og þarf umboð að endurnýja rétt sinn árlega fyrir árslok hverju sinni og uppfærir þá gildismiðann. Við útleigu og endurnýjun þarf umboð að sýna fram á ábyrgðartryggingu reynslumerkisins með staðfestingu frá tryggingafélagi.
Við leigu á reynslumerkjum fær leigutaki afhenta heimild til notkunar reynslumerkis. Í heimildinni koma fram upplýsingar um rétthafa, leigutíma, leigustað og reglur um heimila notkun reynslumerkis. Heimild til notkunar reynslumerkis skal ávallt geyma í ökutæki sem ber reynslumerki.
Ef umboð endurnýjar ekki leigu skal það skila reynslumerkjunum inn til Samgöngustofu.
Ef reynslumerki glatast skal tilkynna um það til Samgöngustofu og eru þá pantað nýtt merki á kostnað umboðs í stað þess glataða. Ef merki finnst skal það tilkynnt Samgöngustofu og því skilað.
Misnotkun
Það telst misnotkun á reynslumerki ef
skortur er á heimild til notkunar reynslumerkis á ökutæki,
notkun reynslumerkja er í andstöðu við ofangreind skilyrði um notkun,
bifreið ber aðeins eitt reynslumerki,
merkin eru ekki fest á áberandi stað á ökutæki,
merki er skráð á lista yfir eftirlýst reynslumerki,
reynslumerki bera ekki réttan gildismiða.
Ef umboð verður uppvíst að misnotkun reynslumerkja þá fellir Samgöngustofa niður rétt þess til að hafa reynslumerki á leigu.
Gjaldtaka
Greitt er árgjald fyrir reynslumerki 11.140 krónur.