Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Breytingasaga
Efnislegar breytingar sem orðið hafa á texta skjalsins og dagsetning þeirra.
Ekki er getið smávægilegra breytinga á orðalagi, leiðréttinga eða breytinga á uppsetningu skjalsins.
15. desember 2024
Ökutæki til farþega- eða farmflutninga í atvinnuskyni (rekstrarleyfi):
- Nýr notkunarflokkur fyrir ökutæki sem notuð eru undir rekstrarleyfi (tekur gildi 1. janúar 2025). Kallast "Atvinnurekstur (RL)" eða hefur "(RL)" í nafninu ef ökutækið þarf að vera í öðrum notkunarflokki líka.
- Mun koma í stað notkunarflokka fyrir ferðaþjónustuleyfi og skólabifreið og svo þarf að skrá bifreiðir í akstri undir rekstrarleyfi hópbifreiða, farmflutninga og sérútbúinna bifreiða í notkunarflokkinn.
- Leyfishafar sjá sjálfir um að skrá ökutæki sín í og úr notkunarflokkinum hjá Samgöngustofu.
- Ekki verður lengur gerð krafa um leyfisskoðun eftir þessa breytingu.
15. desember 2024
Eyðublöð og form fagaðila:
Nýr kafli sem inniheldur tilvísun í eyðublöð og form fagaðila (til hagræðis).
Breytingalásar í ökutækjaskrá:
Nýr kafli með reglum um skráningu breytingalása og yfirliti yfir eiginleika allra lása sem Samgöngustofa hefur skilgreint.
Skráning ökutækis í og úr umferð:
- Texti um álestur af löggiltum ökumæli við skráningu í og úr umferð gerður skýrari, þ.e. tiltekið að eigandi (umráðandi) beri ábyrgð á álestrinum og skilum til Skattsins og að hann skuli upplýstur um það (hvorugt tiltekið áður).
- Texti um innheimtu þungaskatts við skráningu í umferð ef komið er fram á næsta gjaldatímabil tekinn út.
- Við afklippingu lögreglu, bætt við að minnt sé á að lögregla þurfi að skila inn tilkynningu um tjónaökutæki sé afklippt vegna tjóns. Einnig, að hafi ökutæki þegar verið skráð úr umferð vegna tjóns og skráningarmerki sögð í vörslu lögreglu, er geymslustað bara breytt.
- Texti um skráningu í umferð eftir tjón gerður skýrari, þ.e. tiltekið að Samgöngustofa ógildi tjónaskráningu (en felli hana ekki niður) og að sjást verði í ferli ökutækisins að það hafi verið gert (nýr texti til áréttingar).
Gerðir og notkun skráningarmerkja:
Bætt við nánari lýsingu á því hvernig stöfum er raðað í áletrun skráningarmerkis (gildir fyrir skráningarmerki smíðuð eftir 1. janúar 2025);
(a) áletrun í röð skuli miðjusett á þann flöt sem er ætlaður fyrir áletrunina (milli svæða sitt hvoru megin eða milli svæðis og ramma, eftir því sem við á), megi þó miðjusetja miðað við ytri brúnir einkamerkis af stærð A að ósk rétthafa,
(b) bil á milli stafa skuli vera samsvarandi breidd stafleggjar, þó skuli breidd sitt hvoru megin við stafina 1, I og Í vera sem næst tvöfaldri breidd stafleggjar, og
(c) bil á milli ysta stafs í röð og svæðis (upphleyfts flatar) eða ramma skuli að lágmarki vera breidd stafleggjar og skal vera jafn stórt beggja megin.
Við mælingu á ofangreindu bili skuli miða við það bil sem er milli lóðréttra lína sem liggja sitt hvoru megin við útmörk stafa.
Nýskráning ökutækis:
- Krafan um að ekki megi líða fleiri en 3 virkir dagar frá skoðun vegna skráningar þar til nýskráning er gerð gildir ekki hafi Samgöngustofa sett nýskráningarlás við forskráningu (Samgöngustofa þarf mögulega meiri tíma til að tryggja að öll skilyrði nýskráningar séu uppfyllt).
Skilgreining ökutækjaflokka og reglur um breytingu:
Nú tilgreint að óheimilt sé að breyta bifhjóli í dráttarvél, eða öfugt.
Yfirferð og skráning tækniupplýsinga vegna nýskráningar (nýtt/notað):
- Bætt við að það teljist frávik ef skráðum sætafjölda á forskrá (þegar sætafjöldi hefur verið skráður) ber ekki saman við raunverulegan sætafjölda í ökutækinu. Þó megi muna einu sæti ef sú breyting hefur ekki áhrif á skráningu ökutækisins að öðru leyti (t.d. ökutækisflokkun þess eða varðandi burðargetu).
- Bætt við að Samgöngustofa geti vikið frá kröfu um teikningu fyrir hópbifreið og upplýst skoðunarstofuna fyrirfram um það.
- Bætt við að það teljist frávik ef tilkynnt leyfð heildarþyngd ökutækis og/eða eiginþynd þess gefa ekki nægilega burðargetu (fyrir ökumann, farþega og farm, eftir því sem við á) og/eða leyfð heildarþyngd er í ósamræmi við þann ökutækisflokk sem forskráður hefur verið.
Notkunarflokkurinn "Ökutæki til neyðaraksturs":
Leiðrétting: Heimild innviðaráðuneytisins þarf að liggja fyrir áður en sjúkrabifreiðir (m.a. í eigu Rauða kross Íslands) og bifreiða til björgunarstarfa (m.a. í eigu björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar) eru skráðar í neyðaraksturs (ranglega var ekki gerð krafa um að heimild ráðuneytisins lægi fyrir í þessum tilvikum).
Notkunarflokkurinn "Ökutæki í undanþáguakstri":
- Kröfur um að ökutæki í undanþáguakstri skuli bera sérstakt skilti teknar út (enda úreltar). Settar inn almennar upplýsingar um tilgang með undanþágum.
Tilkynningar og skráningar lögreglu:
- Allar tilkynningar frá lögreglu berist nú á netfangið afgreidsla hjá Samgöngustofu (voru áður önnur netföng).
- Bætt við (í texta um tilkynningu um tjónaökutæki og texta um afklippingu), að best fari á því að tilkynning um tjónaökutæki fylgi með afklipptum skráningarmerkjum en megi einnig senda í tölvupósti til Samgöngustofu (en hafi skráningarmerki ekki verið skráð afklippt þegar tilkynning berst í tölvupósti verða þau skráð í vörslu lögreglu þar til þeim verður skilað til geymsluaðila).
1. nóvember 2024
Nýskráning ófullgerðs ökutækis:
Þegar nýskráning er heimil: (a) Athugasemdin sem skráð er hljóðar nú svo: "Notkun aðeins heimil í tengslum við lokasmíði, þó aldrei lengur en í 6 mánuði frá nýskráningu" (ákveðin dagsetning var tiltekin áður). (b) Bætt við takmörkun um að nýskráningarlás sé nú skráður í þessum tilvikum ef líkur eru á, að mati Samgöngustofu, að byrjað verði á næsta smíðaþrepi fyrir nýskráningu.
Skráning á US.111 - valið og merkt við:
Um skráningu yfirbygginga: Bætt við að heimilt sé að skrá yfirbyggingar á N1 og O2, sérstaklega þær sem eru til sérstakra nota, og R3 og R4 (var áður bara heimilt að skrá yfirbyggingu á N2, N3, O3 og O4).
Heiti yfirbyggingar (032) verður "Úðunarbúnaður v/vegamálningar" (v/vegamálningar bætt við). Einnig útskýrt betur: "Búnaðurinn samanstendur af dælum, slöngum, stútum, geymslurýmum (palli) fyrir málningu og mögulega litlum hífingarkrana fyrir efni. Ekki skal skrá slíka geymslupalla og smákrana sem sérstakar yfirbyggingar."
Við yfirbyggingu (006) "Flatpallur" bætist skýring: "Getur verið með eða án skjólborða. Nær einnig yfir skúffu lítilla vörubíla (pallbíla).".
Yfirbygging (036) heitir núna "Árekstrarpúði" (en var Öryggi v/vegavinnu).
1. september 2024
Skráning úr og í umferð: Settur inn nýr texti um að skrá stöðu akstursmælis vegna kílómetragjalds við skráningu ökutækis úr og í umferð (vegna rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla). Segir að það megi gjarnan skrá stöðuna í öðru hvoru tilvikinu, en sé það ekki gert þá heldur Skatturinn áfram að áætla mánaðarlega og rukka þótt ökutæki sé skráð úr umferð, alveg þar til staðan verður skráð inn (þá leiðréttist það sem áður hefur verið áætlað og álagning er stöðvuð þar til ökutækið verður skráð í umferð á ný). Æskilegt að benda viðskiptavini á að senda inn stöðuna hafi það hvorki verið gert við skráningu úr umferð né í umferð.
1. ágúst 2024
Nýskráning ófullgerðs ökutækis:
Nýr texti um að við fulltrúaskoðun eða samanburðarskoðun ófullgerðs ökutækis skuli skoðun og skráningu ekki hafnað á grundvelli þess að reitir séu óútfylltir í ökutækjaskrá (t.d. lengd, breidd, eigin þyngd og farþegafjöldi), enda þyki ljóst að gildi reitanna sé háð því sem gerist á næstu smíðaþrepum og verði skráð að loknu síðasta smíðaþrepinu. Ófullgert ökutæki þekkist á því að það er skráð í notkunarflokkinn "Ófullgert ökutæki".
Yfirferð og skráning tækniupplýsinga vegna nýskráningar (nýtt/notað):
Skoðunarstofa beðin um að skrá í textareitinn "Athugasemdir" á US.111 skýringar á breytingum sem ekki teljast alveg augljósar (til að koma í veg fyrir óþarfa misskilning og tafir við eftirlit og samþykkt Samgöngustofu).
Skráning á US.111 - valið og merkt við:
Ný yfirbygging, (029) "Sérhæfður flutningavagn", skilgreind. Þetta er eftirvagn sem er sérstaklega hannaður til að flytja ákveðnar farmeiningar sem ekki verða fluttar (með góðu móti) á hefðbundnum eftirvagni, s.s. til flutnings á húseiningum. Hönnun vagnsins felur það í sér að gólf er t.d. lægra að hluta, sérhvert hjól getur verið sjálfstætt (ekki á heilum ásum) og á honum eru sérhæfðar festingar fyrir farminn (ætlaðar til þess).
Skráning á US.111 - talnareitir:
Breidd og lengd ökutækis: Upplýsingar um hámarkslengd og hámarksbreidd sem heimilt er að skrá í ökutækjaskrá án þess að undanþágu þurfi til. Einnig til fróðleiks um hámarkshæð og lengd vagnlesta. Upplýsingar teknar úr skoðunarhandbók og uppfærðar m.v. reglugerð um stærð og þyngd ökutækja.
Notkunarflokkurinn "Skoðunarskyld dráttarvél":
Tiltekið að dráttarvél sem skráð er í þennan notkunarflokk má ekki vera stærri (lengd, breidd og hæð) en heimilt er fyrir notkun á opinberum vegum. Einnig að skráningarmerki hennar þarf að vera almennt merki þannig að ef dráttarvélin er á utanvegamerkjum þarf að skipta um.
Notkunarflokkurinn "Ökutækjaleiga":
Kafli um þennan notkunarflokk settur inn (vantaði).
Notkunarflokkurinn "Ófullgert ökutæki":
Nýr notkunarflokkur. Er fyrir heildargerðarviðurkennd ökutæki sem forskráð eru sem ófullgerð á grundvelli CoC vottorðs. Tilgangurinn er að auðkenna þessi ökutæki í ökutækjaskrá á meðan smíði þeirra er ólokið til að tryggja rétta skráningu þeirra og úttekt að smíði lokinni.
Vigtun löggiltra vigtarmanna:
Bætt við þeirri leiðbeiningu um útfyllingu vigtarseðils að vigtarmaður striki yfir ásþyngdareitina séu þeir ekki notaðir.
5. júlí 2024
Yfirferð og skráning tækniupplýsinga vegna nýskráningar (nýtt/notað):
Heimild til að breyta yfir í annan ökutækisflokk innan yfirflokka ökutækisflokkanna tekin út (mátti áður tilkynna breytingu í þessum tilvikum ef ökutækið uppfyllti annan flokk miðað við gildandi reglur).
1. júní 2024
Ný handbók með skráningareglum ökutækja.