Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Almenn atriði
Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.
Efni kaflans
Skráningarskyld ökutæki
Skráningarskyld eru flest þau vélknúnu ökutæki sem hönnuð eru til hraðari aksturs en 30 km/klst (bifreiðir) og 25 km/klst (bifhjól), auk allra dráttarvéla og langflestra eftirvagna sem notaðir eru á opinberum vegum.
Bifreið
Skráningarskylt vélknúið ökutæki sem er yfir 400 kg að eigin þyngd og hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst. Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum. Er aðallega ætlað til fólks- eða farmflutninga eða til að draga annað ökutæki.
Bifreið fellur undir ökutækisflokkana M1-M3 og N1-N3.
Bifhjól (tví-, þrí- eða fjórhjól)
Skráningarskylt vélknúið ökutæki að hámarki 4 m langt, 2 m breitt og 2,5 m að hæð og hannað til hraðari aksturs en 25 km/klst. Getur verið á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, á þremur eða fjórum hjólum. Er aðallega ætlað til fólks- eða farmflutninga.
Bifhjól fellur undir ökutækisflokkana L1e-L7e og flokkast að auki í létt bifhjól og bifhjól í íslensku regluverki.
Eftirvagn
Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af vélknúnu ökutæki.
Eftirvagnar sem eru yfir 750 kg að leyfðri heildarþyngd eru skráningarskyldir ásamt öllum ferðavögnum (hjólhýsi, fellhýsi og tjaldvagnar) óháð leyfðri heildarþyngd þeirra. Eigi er þó skylt að skrá eftirvagn dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega.
Eftirvagn fellur undir ökutækisflokkana O1-O4, R1-R4 og S1-S2.
Dráttarvél
Skráningarskylt vélknúið ökutæki á hjólum og/eða beltum sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki.
Dráttarvél fellur undir ökutækisflokkana T1-T4 og C3.
Torfærutæki
Skráningarskylt vélknúið ökutæki sem er aðallega ætlað notkunar utan vega (fólks- eða farmflutninga og/eða til að draga annað ökutæki) og er að hámarki 400 kg að eigin þyngd (þó 550 kg ef til farmflutninga). Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum.
Þetta er séríslenskur ökutækisflokkur fyrir þau tví-, þrí-, fjór- og sexhjól sem uppfylla ekki skilyrði til skráningar í almenna umferð vegna hönnunar (til notkunar utan vega) og/eða tæknilegra vankanta (uppfylla ekki tæknikröfur).
Athuga að sé slíkt ökutæki yfir 400 kg að eigin þyngd (og eftir atvikum 550 kg), flokkast það sem skráningarskyld bifreið til utanvega- eða undanþáguaksturs eða sem skráningarskyld dráttarvél.
Vinnuvél til aksturs á opinberum vegum
Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til sérstakra verka, er búið áfestum tækjum eða vélum og er á loftfylltum hjólum.
Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða farmflutninga eða til að draga annað ökutæki og er á loftfylltum hjólum og eigi er hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst.
Vinnuvélar eru alltaf skráðar hjá Vinnueftirliti ríkisins og sér stofnunin um að skrá þau til aksturs í almenna umferð í ökutækjaskrá að ósk eiganda (umráðanda).
Ökutæki sem eru ekki skráningarskyld í ökutækjaskrá
Þegar ökutæki fellur ekki undir skráningarskyldu í ökutækjaskrá eða hjá Vinnueftirliti ríkisins, þá gilda samt sem áður viðeigandi tæknilegar kröfur og oft skilyrði um hönnun eða notkun. Þær kröfur þarf að uppfylla svo að innflutningur og notkun sé heimil. Hér eru nokkur tilvik sem geta verið að koma upp og veitir Samgöngustofa nánari upplýsingar og úrskurðar í vafatilvikum.
Vinnuvél sem ætluð er til aksturs utan opinberra vega. Þær eru skráðar hjá Vinnueftirlitinu. Í einhverjum tilvikum getur verið vafamál hvort ökutæki flokkast sem vinnuvél eða sem skráningarskylt ökutæki í ökutækjaskrá, eða hvorttveggja. Í slíkum tilfellum er heimilt að skrá ökutækið hvort sem er í ökutækjaskrá eða vinnuvélaskrá, svo framarlega sem ökutækið hljóti viðeigandi skráningu.
Eftirvagn bifreiðar á beltum og eftirvagn dráttarvélar, sem nær eingöngu eru notaðir utan opinberra vega (eigandi/umráðandi ákveður það, t.d. til notkunar í landbúnaði). Er skráningarskyldur annars (ef notkunin er á opinberum vegum).
Keppnistæki með hæð ökumannssetu undir 750 mm frá jörðu sem ætluð eru til notkunar á lokuðu keppnissvæði, t.d. "go-kart" bílar.
Vélknúin ökutæki með minni hönnunarhraða en 25 km/klst, t.d. rafknúin hlaupahjól, reiðhjól með hjálparafli, lítil vélknúin bifhjól, golfbílar eða leiktæki ýmiskonar (hvergi skráð en þurfa mörg hver að hafa CE merkingu).
Efni kaflans
Skoðunarmiðar
Aðilar sem hafa samninga um meðhöndlun skoðunarmiða (þjónustuaðilar) kaupa skoðunarmiða sem þeir þurfa að nota af Samgöngustofu og annast álímingu þeirra á skráningarmerkja eða afhendingu þeirra, eftir því sem við á. Miðar fást í afgreiðslu Samgöngustofu.
Ekki er hægt að skila ónotuðum skoðunarmiðum og fá þá endurgreidda.
Notkun og álíming skoðunarmiða
Óheimilt er að nota skoðunarmiða í öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í skráningareglum þessum. Álíming eða afhending skoðunarmiða fer þannig fram:
Við skráningarskoðun og aðalskoðun ökutækja og endurskoðun vegna þeirra. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni.
Við samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun ökutækja. Skoðunarmiði sem endurspeglar gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni eða fulltrúa B hjá umboði, eftir því sem við á.
Við auka aðalskoðun ökutækja, þ.e. þegar reglubundinnar skoðunar er krafist í sérstökum tilvikum óháð því hvort ökutækið er með gilda skoðun eða ekki (skráð sem hefðbundin aðalskoðun á skoðunarvottorð). Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni.
Við breytingaskoðun ökutækja og endurskoðun vegna hennar. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu skoðunarinnar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á af skoðunarmanni. Séu breytingar sem hafa í för með sér nýja skoðunarreglu samþykktar í breytingaskoðuninni og tilkynntar á US.111 samhliða, skal passað að skoðunarmiði endurspegli hina nýju reglu.
Við umsókn um notkunarflokksbreytingu sem ekki krefst breytingaskoðunar en breytir skoðunarreglu. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og nýja skoðunarreglu er límdur á af skoðunarmanni. Sé ökutækið ekki á staðnum er skoðunarmiði afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.
Við úttekt skráningarmerkja (skráning í umferð eftir innlögn). Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á skráningarmerkin af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.
Við skráningu í umferð með endurnýjun skoðunarmiða. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu er afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda. Heimilt er að senda miða í umslagi með pósti (þarf ekki að vera í ábyrgð). Með miðanum þurfa að fylgja skýr skilaboð um meðferð (sjá neðar).
Við skráningu úr umferð með yfirlímingu skoðunarmiða. Akstursbannsmiði er afhentur eiganda (umráðanda) af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda. Heimilt er að senda miða í umslagi með pósti (þarf ekki að vera í ábyrgð). Með miðanum þurfa að fylgja skýr skilaboð um meðferð (sjá neðar).
Við afhendingu skráningarmerkja, þ.e. þegar skráningarmerki eru afhent við nýskráningu, endurskráningu eða í skiptum fyrir önnur skráningarmerki sem eru á ökutækinu. Skoðunarmiði sem endurspeglar niðurstöðu síðustu skoðunar og gildandi skoðunarreglu skal límdur á skráningarmerkin af skoðunarmanni eða öðrum starfsmanni skoðunarstofu sem hefur til þess heimild frá tæknilegum stjórnanda.
Einnig gildir:
Í þeim tilvikum sem skráningarmerki sem bera skoðunarmiða eru ekki á ökutækinu við skoðun er ekkert aðhafst varðandi álímingu skoðunarmiða, þ.e. ekki á að leita uppi skráningarmerkin í geymslu og skipta um skoðunarmiða á þeim þá. Tryggt á að vera að við úttekt eða afhendingu skráningarmerkjanna verði réttur skoðunarmiði límdur á þau.
Óheimilt er við skoðun að líma skoðunarmiða á ökutæki eða skráningarmerki miðað við væntanlega skoðunarreglu, þ.e. nýjan notkunarflokk eða ökutækisflokk sem eigandi (umráðandi) hyggst sækja um síðar. Annað hvort þarf skoðunarreglan að vera í gildi þegar skoðun fer fram eða skoðunarstofa eða fulltrúi umboðs er samhliða skoðun að tilkynna inn breytingu á ökutæki eða annan notkunarflokk sem hefur í för með sér nýja skoðunarreglu.
Skilaboð til eiganda (umráðanda) um meðferð miða
Þegar eiganda (umráðanda) eru afhentir skoðunarmiðar til álímingar á viðeigandi stað á ökutækinu (eða komið til hans í umslagi með öðrum leiðum, t.d. pósti), þurfa að fylgja eftirfarandi skilaboð:
Skoðunarmiðar skulu strax við móttöku límdir á viðeigandi stað á ökutækinu, þ.e. yfir skoðunarmiðana sem eru á skráningarmerkjum eða í stað skoðunarmiða sem er í rúðu.
Ökutæki sem skráð eru úr umferð er óheimilt að nota, hvort sem það eru bifreiðir, eftirvagnar eða önnur ökutæki. Óheimilt er að nota ökutæki sem er með akstursbannsmiða.
Lögregla hefur heimild til að klippa skráningarmerki af ökutæki sem skráð eru úr umferð ef ekki hefur verið límdur akstursbannsmiði á þau. Þetta gildir líka þótt ökutækið sé ekki í neinni notkun (standi óhreyft).
Geymsla og förgun ónotaðra miða
Flutningur og varðveisla skoðunarmiða verður að vera með öruggum hætti hjá þjónustuaðila, s.s. geymdir í læstum geymslum, svo tryggt sé að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim.
Þegar farga þarf skoðunarmiðum sem ekki er hægt að nota lengur ber að gera það með öruggum hætti þannig að tryggt sé að þeir verði ekki nothæfir lengur.
Eftirfarandi einstaklingar bera þessa ábyrgð fyrir hönd aðila:
Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu fyrir hönd skoðunarstofu ökutækja.
Tæknilegur stjórnandi endurskoðunarverkstæðis fyrir hönd endurskoðunarverkstæðis.
Fulltrúi umboðs fyrir hönd umboðs.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir skoðunarmiða er 39 krónur fyrir hvern miða.
Efni kaflans
Tæknideild ökutækja
Á umferðarsviði Samgöngustofu er tæknideild sem hefur það hlutverk meðal annars að fara yfir og samþykkja gögn í tengslum við viðurkenningu ökutækja eða breytingar á þeim. Tæknideild veitir einnig upplýsingar um tæknimál ökutækja og um skoðunarhandbók ökutækja.
Umsóknir og öll gögn sem fylgja með umsóknum eru vistuð í skjalakerfi Samgöngustofu. Sá hluti þeirra sem metið er að eigi líka heima í opinberri ökutækjaskrá er vistaður þar líka.
Fyrirfram samþykki vegna breytinga
Samgöngustofu er falið í lögum og reglugerðum að setja nánari reglur er varða skráningu og skoðun ökutækja og varðandi samþykktarferli breytinga á ökutækjum. Í skráningareglum þessum og í skoðunarhandbók er þjónustuaðilum gefin heimild til að framkvæma slík verk í ákveðnum tilvikum en annars þarf fyrirfram samþykki Samgöngustofu.
Eigandi (umráðandi) eða fulltrúi hans (yfirleitt sá sem framkvæmir breytinguna) skilar inn rafrænni umsókn til Samgöngustofu og lætur viðeigandi fylgigögn fylgja með umsókn. Þegar breytingin þarfnast staðfestingar og skoðunar hjá skoðunarstofu eru upplýsingar um samþykkið settar í rafrænt hólf viðkomandi skoðunarstofu og tilkynning send eiganda (umráðanda) um framhald málsins. Þegar svo er ekki eru upplýsingar um endanlega afgreiðslu umsókna sendar beint til eiganda (umráðanda) og breytingin afgreidd í ökutækjaskrá.
Umsókn um þjónustu tæknideildar vegna breytinga má nálgast hér. Mikilvægt er að umsókn sé rétt útfyllt og innihaldi áskilin fylgigögn eins og lýst er í köflum hér að neðan.
Breyting yfir í og á hópbifreið
Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaða skráningu á ökutæki í ökutækisflokkinn hóbifreið eða breytingu á skipan fólks- eða farmrýmis í skráðri hópbifreið. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við skráningu eða breytingaskráningu bifreiðarinnar.
Við forskráningu á nýrri hópbifreið sem skráð er á skráningarviðurkenningu. Þarf ekki ef bifreiðin er heildargerðarviðurkennd sem hópbifreið eða hefur áður verið skráð sem hópbifreið á evrópsku skráningarskírteini.
Við breytingu á fólks-, sendi- og vörubifreið yfir í hópbifreið (sem breytt er eftir nýskráningu).
Við breytingu á skipan fólks- eða farmrýmis hópbifreiða. Til dæmis verið að fjölga sætum, fækka sætum eða breyta staðsetningu sæta. Einnig að koma fyrir stæðum eða fjölda standandi farþega breytt.
Ekki þarf fyrirfram samþykki þegar verið er að breyta bifreið til baka í áður samþykkta skipan heildargerðarviðurkenndrar hópbifreiðar (ekki skiptir máli hvort bifreiðin var áður orðin að fólks- eða sendibifreið eða var hópbifreið með annarri skipan). Skoðunarstofa tekur breytinguna út og setur athugasemd á US.111 að svo sé.
Þarf ekki fyrirfram samþykki þegar verið er að fækka stæðum (eða taka þau alveg út) í hópbifreið í undirflokki II. Skoðunarstofa tekur breytinguna út og setur athugasemd á US.111 að svo sé.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.
Fylgigagn með umsókn - teikning
Meðal fylgigagna í umsókn skal vera teikning af hópbifreiðinni. Hún skal vera málsett og í mælikvarðanum 1:20 eða 1:25, sýna bifreiðina að lágmarki frá hægri hlið og ofanvarp, sýna skipan farþegasvæðis, stærð og staðsetningu farangursgeymslna, ásamt fyrirkomulagi og stærð útganga. Ef áskilinn útbúnaður er að aftanverðu eða á vinstri hlið ber að sýna þær líka. Teikningar þurfa ekki að vera frá framleiðenda eða tækniteiknara. Á teikningum (bæði hliðar- og ofanvarpi) skal vera hægt að sjá, lesa eða mæla nákvæmlega upplýsingar um eftirfarandi:
Auðkenni ökutækis, þ.e. fastanúmer bifreiðar (eða verksmiðjunúmer ef fastanúmeri hefur ekki verið úthlutað).
Samantektartölur um heildarfjöldi farþega í föstum sætum, í hjólastólum og í stæðum, og hvort sé gert ráð fyrir leiðsögumanni.
Lengd, breidd og hjólhaf bifreiðarinnar.
Miðja framáss á bæði hliðar- og ofanvarpi. Mælingar á þyngdardreifingu miðast við miðjulínuna.
Staðsetning sæta, og þegar við á, afmörkun svæða fyrir standandi farþega og svæða fyrir hjólastóla. Tilgreina á stærð svæða fyrir standandi farþega í fermetrum (m2).
Breidd, dýpt og mesta hæð setu yfir gólfi. Auðvelt á að vera að mæla minnsta bil á milli sæta frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan á miðju sæti í hæðinni frá hæsta punkti setu upp í 620 mm hæði yfir gólfi, og frjálsa hæð yfir hæsta punkti álagslausrar setu.
Breidd og hæð gangs. Auðvelt á að vera að sjá hvar og hvernig breidd og hæð gangs breytist, ef um slíkt er að ræða.
Stærð og staðsetningu farangursgeymslna, séu þær til staðar. Tilgreina á stærð hverrar geymslu í rúmmetrum (m3). Sé gert ráð fyrir geymslum fyrir farangur á þaki ber að tilgreina staðsetningu og stærð þeirra í fermetrum (m2).
Fjöldi dyra, staðsetning og mál þeirra. Þetta á við um aðaldyr, neyðardyr, neyðarglugga og neyðarlúgur.
Teikningar af bifreið gætu verið til í skjalasafni Samgöngustofu þegar verið er að breyta bifreið til baka. Ef þær eru til má merkja við þá ósk á umsókn að fyrri teikningar verði notaðar, enda séu þær í samræmi við ökutækið í dag. Greitt er sérstaklega fyrir leit í skjalasafni og afritun teikninga.
Fylgigagn með umsókn - styrkur farmrýmis
Þegar farþegarými hópbifreiðar hefur ekki verið viðurkennt í tengslum við upphafsviðurkenningu bifreiðarinnar, er krafist staðfestingar og/eða útreikninga sem sýnir fram á að farþegarýmið uppfylli kröfur um styrk. Þetta á til dæmis við þegar yfirbygging hefur verið smíðuð á bifreið sem hafði ekki slíkt farþegarými (til dæmis þegar farþegarými er smíðað ofan á vörubílagrind). Sýna verður fram á að álag sem nemur leyfðri heildarþyngd á þak bifreiðarinnar valdi ekki verulegri aflögun. Staðfestingin skal koma frá óháðum rannsóknaraðila (yfirleitt viðurkenndri tækniþjónustu) eða með verkfræðilegum útreikningum. Mat á þessu fer fram í tæknideild.
Breyting á afköstum bifhjóla
Mögulegt er að breyta afköstum heildargerðarviðurkenndra bifhjóla, sem þannig eru upphafsviðurkennd, vegna ökuréttinda, en við slíka breytingu færist bifhjólið milli ökutækisflokka.
Um er að ræða möguleikann á að þeir sem hafa bifhjólaréttindi í A1-flokki eða A2-flokki geti stjórnað viðkomandi bifhjóli. Kröfur til réttinda í A1-flokki eru þessar (sem má veita þeim sem orðnir eru 17 ára):
Að bifhjólið sé á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, með slagrými sem er ekki yfir 125 cm3, með afl sem er ekki yfir 11 kW (14,75 hö) og með afl/þyngdarhlutfall sem er ekki yfir 0,1 kW/kg.
Að bifhjólið sé á þremur hjólum með afl sem er ekki yfir 15 kW (20,12 hö).
Kröfur til réttinda í A2-flokki eru þessar (sem má veita þeim sem orðnir eru 19 ára):
Að bifhjólið sé á tveimur hjólum, með eða án hliðavagns, með afl sem er ekki yfir 35 kW (46,93 hö) og með afl/þyngdarhlutfall sem er ekki yfir 0,2 kW/kg.
Afl/þyngdarhlutfall er hlutfall á milli skráðra afkasta í kW og þyngdar bifhjólsins tilbúins til aksturs eins og það er skráð í ökutækjaskrá. Þetta er reitur Q á skráningarskírteini.
Aðeins er hægt að framkvæma þessa breytingu á bifhjólum sem hafa þennan möguleika skráðan í samræmisvottorð sín (CoC). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá Samgöngustofu (ekki þarf að færa bifhjólið til breytingaskoðunar). Við samþykkt umsóknar heimilar Samgöngustofa viðurkenndum breytingaaðila að gera breytinguna og tilkynna hana til Samgöngustofu.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.
Fylgigagn með umsókn - viðurkenning breytingaaðila
Aðeins viðurkenndur fulltrúi framleiðanda eða annar aðili sem hann viðurkennir, hefur heimild til að framkvæma þessa breytingu. Skila þarf staðfestingu frá framleiðanda sem stílað er á Samgöngustofu um að tiltekinn aðili (yfirleitt hérlendis) hafi heimild til að framkvæma þessa breytingu (vísa til bifhjólagerða eða viðurkenninganúmera).
Fylgigagn með umsókn - staðfesting á breytingunni
Eftir að umsókn hefur verið samþykkt fær viðurkenndi breytingaaðilinn heimild til að gera breytinguna og sendir að því henni lokinni yfirlýsingu til Samgöngustofu um að svo sé. Æskilegt er að skýrsla eða sambærilegar upplýsingar úr kerfum bifhjólsins fylgi með (lesið úr hjólinu).
Breyting á ásafjölda bifreiða
Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaðar breytingar á ásafjölda bifreiða. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu eftirvagnsins.
Við fjölgun á ásum. Yfirleitt er þessi breyting gerð í tengslum við aukinn burð og hækkun á leyfðri heildarþyngd vörubifreiðar sem er í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
Við fækkun á ásum. Skoða þarf sérstaklega slík tilvik því ekki ætti að fækka ásum og draga úr burði bifreiða frá því sem er við upphafsviðurkenningu en þó geta komið upp tilvik bifreiða í sérstakri atvinnunotkun sem þetta gæti átt við.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.
Fylgigagn með umsókn - fyrirmæli framleiðanda
Fyrirmæli frá framleiðanda um breytinguna verða að fylgja og áhrif hennar á leyfða heildarþyngd ökutækis (myndir eða lýsingar á því hvaða áhrif breytingin hefur á búnað bifreiðarinnar, einnig tengingu við drifása og dreifingu þyngdar).
Breyting á ásafjölda og stærð eftirvagna
Samgöngustofa þarf að yfirfara og samþykkja fyrirhugaða fjölgun ása og meiriháttar breytingar á stærð eftirvagna. Breytingarnar þarfnast samþykkis Samgöngustofu fyrirfram til að tryggt sé að fyrirhugaðar breytingar séu ekki í raun smíði á nýjum eftirvagni á grunni eldri skráningar, en slíkt er ekki heimilt (skrá verður slíkan eftirvagn sem nýjan). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu eftirvagnsins.
Við fjölgun á ásum. Yfirleitt er þessi breyting gerð til að auka akstursöryggi eftirvagnsins eða í tengslum við viðhald. Ekki verður þó heimilt að hækka leyfða heildarþyngd eftirvagnsins (nema frekari samþykktir komi til).
Við verulega breytingu á breidd eða lengd eftirvagns. Miða skal við að hámarki 5% stærðarbreytingu frá upprunalega skráðri stærð.
Athygli er vakin á því að heimilt er að breyta yfirbyggingu eða útfærslu eftirvagns, svo fremi að um eðlilegt viðhald sé að ræða, án þess að sækja um það fyrirfram til Samgöngustofu (en færa þarf eftirvagninn til breytingaskoðunar ef breyta þarf einhverju í skráningarskírteini), til dæmis í eftirfarandi tilvikum:
Skipta má um ás til að fá nýtt og betra hemlakerfi eða til endurnýjunar á hemlum eða útfærslum fjaðra og dempunarbúnaði. Nýi ásinn og fjaðrabúnaðurinn þarf að hafa sama eða meira burðarþol en sá eldri.
Ferðahýsi (tjaldvagni eða fellihýsi) má breyta í hefðbundinn eftirvagn fyrir farmflutning (undirvagninn og kassinn notaður áfram). Skoðunarstofa tekur breytinguna út og tilkynnir notkunarflokkbreytingu.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.
Fylgigagn með umsókn - gögn um burðarþol ása
Gögn um burðarþol ása og fjaðrabúnaðar, ef við á, þurfa að vera frá framleiðanda ássins og tiltaka leyfða heildarþyngd hans. Æskilegt er að fylgi mynd af ásnum og leiðbeiningar um ásetningu.
Fylgigagn með umsókn - teikning af helstu málum
Teikning af eftirvagninum sem sýnir fyrirhugaða útlits- og/eða stærðarbreytingu. Heildarlengd og breidd komi fram ásamt lengd og breidd yfirbyggingar (beisli ekki meðtalið og hjólhlífar ekki meðtaldar ef þær standa út fyrir yfirbygginguna).
Breyting á leyfðri heildarþyngd
Leyfð heildarþyngd ökutækis er ákveðin af framleiðanda við skráningu ökutækis og verður almennt ekki breytt. Það er þó heimilt í örfáum tilvikum og þarf Samgöngustofa að yfirfara og samþykkja umsókn um slíka breytingu fyrirfram (hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar). Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu ökutækisins. Setja verður nýtt upplýsingaspjald í ökutækið samkvæmt fyrirmælum Samgöngustofu.
Framleiðandi má heimila breytingu á leyfðri heildarþyngd gerðarviðurkennds ökutækis þegar mismunandi heildarþyngdir eru hluti af hönnun þess og viðurkenningu vegna mismunandi útfærslu. Þetta getur bæði átt við bifreiðir og eftirvagna.
Viðurkennd tækniþjónusta má heimila breytingu á leyfðri heildarþyngd skráningarviðurkennds ökutækis til lækkunar ef um er að ræða bifreið knúna 100% vistvænum orkugjafa sem flokkast í ökutækisflokk N2 ef sambærileg bifreið frá sama framleiðanda knúin hefðbundnum orkugjafa flokkast í ökutækisflokk N1 (vistvæna bifreiðin er þyngist vegna orkugjafans). Lækkun leyfðrar heildarþyngdar leiðir þá til þess að bifreiðin kemur til með að flokkast í ökutækisflokk N1 eða M1, eftir því sem við á.
Tækniþjónusta eða breytingaaðili, sem Samgöngustofa hefur viðurkennt í þessum tilgangi, mega reikna út nýja og hærri leyfða heildarþyngd breyttrar torfærubifreiðar. Liggja skulu fyrir skýrslur um raunprófanir á sambærilegu ökutæki frá viðurkenndri tækniþjónustu og sannprófanir á virkni hermilíkans sem notað er miðað við raunprófanir. Viðurkenningar beggja aðila skulu hafa farið fram áður en sótt er um breytingar á leyfðri heildarþyngd í þessum tilvikum.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum og hver hin nýja leyfða heildarþyngd ætti að verða miðað við þær breytingar.
Fylgigagn með umsókn - ný leyfð heildarþyngd
Staðfesting frá viðeigandi aðila og skýrslur, eftir atvikum.
Breyting á orkugjafa
Orkugjafi ökutækis er hluti af framleiðslu vélknúins ökutækis og verður almennt ekki breytt. Það er þó heimilt í örfáum tilvikum og þarf Samgöngustofa að yfirfara og samþykkja umsókn um slíka breytingu fyrirfram. Endanleg samþykkt umsóknar fer fram hjá skoðunarstofu í tengslum við breytingaskráningu ökutækisins.
Breyting orkugjafa úr bensín í dísel eða öfugt. Ef skipta á um brunahreyfil í ökutæki og sá nýi er ólíkur þeim sem var áður þá þarf Samgöngustofa að samþykkja þá breytingu fyrirfram (meðal annars til að athuga hvort mengunarkröfur eru uppfylltar). Ef nýr brunahreyfill hefur verið settur í ökutæki sem er eins og sá sem var áður, þ.e. hann breytir engu varðandi skráningu ökutækisins (orkugjafi, slagrými, afl) þá þarf ekki að skrá breytinguna eða fara í breytingaskoðun.
Ísetning og úrtaka viðbótareldsneytiskerfis og eldsneytisþrýstigeyma fyrir metan (CNG). Samgöngustofa viðurkennir ísetningaraðila metanbúnaðar og hafa þeir einir heimild til að setja slíkt eldsneytiskerfi í og taka úr. Sé úrtaka samþykkt þarf að lágmarki að fjarlægja alla þrýstigeyma.
Úrtaka metankerfis (CNG) sem hefur verið hluti af framleiðslu bifreiðar af þeirri ástæðu að það svarar ekki kostnaði við viðhald (yfir 8 ára gamlar bifreiðir eingöngu). Eftir breytingu mun bifreiðin því eingöngu ganga fyrri bensíni eða dísel, eftir atvikum. Sé úrtaka samþykkt þarf að lágmarki að fjarlægja alla þrýstigeyma.
Breyting orkugjafa í rafmagn (og vél og geymar fyrir aðra orkugjafa fjarlægð). Fara verður yfir hvert tilvik fyrir sig með umsækjanda.
Lýsing í umsókn
Í umsókn þarf að segja frá því í hverju fyrirhuguð breyting felst í nokkrum orðum.
Fylgigögn með umsókn
Við fyrirhugaða breytingu orkugjafa úr bensín í dísel eða öfugt: Fram fomi upplýsingar um þann hreyfil sem fyrirhugað er að verði settur í (slagrými, afköst hreyfils kW og orkugjafi). Einnig þarf að koma fram hverju munar á þyngd nýja hreyfilsins með öllum búnaði miðað við þann sem er í. Einnig fastanúmer ökutækisins sem hreyfillinn var tekinn úr sé um það að ræða.
Við ísetningu viðbótareldsneytiskerfis fyrir metan: Útfyllt vottorð um ísetningu metanbúnaðar í bifreið (US.184) frá viðurkenndum metanbreytingaraðila.
Við fyrirhugaða úrtöku metankerfis: Rökstuðningur fyrir beiðninni þar sem fram kemur hvert virði ökutækis er og kostnaðaráætlun verkstæðis um endurnýjun á því sem þarfnast endurnýjunar. Einnig kostnaðaráætlun við að fjarlægja þrýstikúta.
Við fyrirhuguð skipti yfir í rafknúið ökutæki: Lýsing á því hvernig fyrirhugað er að skipta yfir í rafknúið ökutæki og hvað verður fjarlægt af eldri vél- og drifbúnaði.
Gjaldtaka
Greitt er tímagjald 11.008 krónur á klukkutíma til Samgöngustofu fyrir afgreiðslu umsókna, að lágmarki þarf að greiða fyrir hálftíma.
Greitt er tímagjald 13.528 krónur á klukkutíma til Samgöngustofu sérstaklega fyrir leit í skjalasafni og afritun teikninga eða annarra gagna um ökutæki, að lágmarki þarf að greiða fyrir hálftíma.
Efni kaflans
Eftirlit með skráningarstarfsemi
Samgöngustofa hefur eftirlit með skráningarstarfsemi þeirri sem þjónustuaðilar inna af höndum.
Eftirlit með skráningum (ný-/endur-/af-/breytinga-)
Ef upp koma annmarkar á skráningu er eftirfarandi ferli aðgerða fylgt í megindráttum. Þjónustuaðili er sá sem sendir inn tilkynningu um skráningu til Samgöngustofu:
Þjónustuaðila er tilkynnt um annmarkann, honum er lýst og úrbóta krafist sem allra fyrst. Tilkynningin er send í tölvupósti eða sem viðbrögð í viðkomandi skráningarkerfi, eftir atvikum.
Ef úrbætur á annmarka hafa ekki verið gerðar þegar þrjár vikur eru liðnar frá því hann uppgötvaðist er þjónustuaðila og eiganda (umráðanda) sent aðvörunarbréf í pósthólf á island.is. Í bréfinu er annmarka á skráningunni lýst á ný og tilkynnt að verði úrbætur ekki verið gerðar innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins verði skráningin felld niður eða bakfærð, eftir atvikum.
Ef úrbætur hafa ekki verið gerðar þegar tvær vikur eru liðnar frá annarri beiðni um úrbætur er þjónustuaðila og eiganda (umráðanda) sent niðurfellingabréf í pósthólf á island.is. Í bréfinu er tilkynnt að skráningin verði nú felld niður eða bakfærð eftir 5 virka daga vegna þess að úrbætur hafa ekki verið gerðar. Í bréfinu er skorað á eiganda (umráðanda) að skila strax inn skráningarmerkjum ökutækisins, hafi verið um ný- eða endurskráningu að ræða.
Hafi ekki verið gerðar úrbætur þegar lokafrestur er liðinn er skráningin felld niður eða bakfærð, eftir atvikum. Tilkynning um það er þá send, eftir því sem við á, til Skattsins (vegna opinberra gjalda), tryggingafélags (vegna ábyrgðartryggingar) og lögreglu (ef klippa þarf skráningarmerki af ökutæki).
Skilgreind eftirlitskerfi með skráningum eru nokkur.
Eftirlit með ný- og endurskráningum
Fylgst er með því að skráningargögn vegna nýskráningar hafi borist með eðlilegum hætti frá skoðunarstofum og umboðum, þau uppfylli öll sett skilyrði um útfyllingu og að skráningar í ökutækjaskrá séu í samræmi við þau. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:
Að skráningargögn berist frá þjónustuaðila innan 10 virkra daga frá skráningu.
Að skráningargögn og skráning beri það með sér að öll skilyrði skráningar hafi verið uppfyllt.
Eftirlit með breytingaskráningum
Farið er yfir allar tilkynningar um skráningu sem berast á US.111 frá skoðunarstofum og þær rýndar fyrir samþykkt. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:
Að tilkynning frá þjónustuaðila hafi verið send sama dag og skoðun vegna breytingarinnar fór fram.
Að tilkynningin uppfylli öll formskilyrði, meðal annars að tilkynning sé send af réttu tilefni og heimild til breytinganna sé til staðar (þurfi fyrirfram samþykki Samgöngustofu).
Að öll nauðsynleg gildi vegna viðkomandi breytingar séu tilgreind og þau séu innan eðlilegra marka.
Að öll nauðsynleg fylgigögn berist með tilkynningu og þau séu í lagi.
Eftirlit með umskráningum (eigenda-/meðeiganda-/umráðenda-)
Farið er yfir allar tilkynningar um eigendaskipti og breytingar á meðeigendum og umráðendum. Komi upp frávik er tilkynning sett á bið og aðilum tilkynningar sendar upplýsingar í tölvupósti um annmarkana. Sé ekki brugðist við annmörkum verður tilkynning ekki skráð. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:
Að tilkynningin uppfylli öll formskilyrði (fram komi þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og þær séu læsilegar).
Að aðilar tilkynningar uppfylli skilyrði, m.a. aldur og hafi heimild til ráðstafana.
Að umboð og fylgigögn uppfylli formskilyrði og innihaldi viðeigandi upplýsingar.
Eftirlit með umferðarskráningum og plötugeymslum
Regluglega eru gerðar keyrslur til að fylgjast með ýmsum þáttum, meðal annars þessum:
Að plötugeymslur uppfylli kröfur um takmörkun á aðgangi hjá þjónustuaðila.
Að eðlileg förgun skráningarmerkja sem eru í geymslu fari fram.
Að ökutæki sé skráð í umferð á réttum forsendum.
Efni kaflans
Lög
Umferðarlög (77/2019)
Lög um ökutækjatryggingar (30/2019)
Lög um leigu skráningaskyldra ökutækja (65/2015)
Lög um rannsókn samgönguslysa, (18/2003)
Lög um olíugjald og kílómetragjald (87/2004)
Vegalög (80/2007)
Lög um úrvinnslugjald (162/2002)
Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi (28/2017)
Lög um leigubifreiðar (134/2001), sbr. (51/2020)
Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., (29/1993)
Lög um bifreiðagjald (39/1988)
Lög um faggildingu o.fl. (24/2006)
Reglur um skoðun ökutækja
Reglugerð um skoðun ökutækja (414/2021)
Námskrá fyrir grunnþjálfun og endurmenntun skoðunarmanna (170/2024)
Reglugerð um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa (346/1993)
Reglugerð um starfsemi endurskoðunarverkstæða með B-faggildingu (631/1994)
Reglur um gerð og búnað ökutækja
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja (822/2004)
Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja (155/2007)
Reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi (1077/2010)
Reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu á farmi, (671/2008)
Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit (605/2010)
Reglugerð um prófun á ökuritum (572/1995)
Reglugerð um frágang á hraðatakmarkara í bifreið (71/1998)
Reglugerð um ökuskírteini (830/2011)
Reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni (507/2007)
Verklagsreglur fyrir akstursíþróttir og aksturskeppnir í samræmi við reglugerð nr. 507/2007, Ríkislögreglustjóri (2/2008 U)
Keppnisgreinarreglur fyrir rallý 2022, AKÍS (21.11.2021)
Reglur um neyðarakstur (643/2004)
Reglugerð um merki á skólabifreiðum (279/1989)
Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum (348/2007)
Reglugerð um leigubifreiðaakstur (324/2023) (397/2003)
Reglugerð um slökkvitæki (1068/2011)
Reglugerð um skilyrði undanþágu frá greiðslu olíugjalds (274/2006)
Reglugerð um innskatt (192/1993)
Reglur um skilyrði til skoðana og skráninga o.þ.h.
Reglugerð um skráningu ökutækja (751/2003)
Reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar (1244/2019)
Reglugerð um umferðaröryggisgjald (681/1995)
Reglugerð um vörugjald af ökutækjum (331/2000)
Gjaldskrá Samgöngustofu (895/2022)