Skoðunarhandbók ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.
Samantektir og tilkynningar
Sérstakar tímabundnar tilkynningar, svokallaðar öryggistilkynningar, ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra.
Reglur um skráningu og breytingu ökutækisflokka, notkunarflokka og veigamikilla breytinga á ökutækjum má sjá í skráningareglum ökutækja.
Tilvísanir til þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi.
Leiðbeiningaskjöl og ítarefni fyrir reglubundnar skoðanir er að finna undir þeirri verklagbók.
Efni kaflans
Skoðun hópbifreiða
Samantekt á kröfum sem gilda um gerð og búnað hópbifreiða hvað varðar skipulag fólksrýmis, dyrabúnað, neyðarútganga og áletranir, og koma til viðbótar þeim almennu kröfum sem gilda um bifreiðir almennt. Efnið er til stuðnings dæmingum á atriði 9. kafla dæmingarhluta verklagsbókar fyrir reglubundna skoðun.
Krafa um mæliblað og teikningu af hópbifreið
Við skoðun í eftirfarandi tilvikum skal liggja fyrir samþykki frá Samgöngustofu (mæliblað og teikning af bifreiðinni):
Á skráðri hópbifreið vegna breytinga á skipan fólks- eða farmrýmis (breytingaskoðun). Sækja þarf um breytinguna fyrirfram til Samgöngustofu (ætti að gera áður en ráðist er í breytingarnar). Umsókn um breytinguna og nánari upplýsingar eru í skráningareglum ökutækja.
Á skráðri bifreið vegna breytinga í hópbifreið (breytingaskoðun). Engu skiptir þó bifreiðin hafi áður verið skráð hópbifreið, þessi ferill á alltaf við. Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja skal ökutæki sem flutt er á milli ökutækisflokka uppfylla öll gildandi ákvæði sem varða nýjan ökutækisflokk. Sækja þarf um breytinguna fyrirfram til Samgöngustofu (ætti að gera áður en ráðist er í breytingarnar). Umsókn um breytinguna og nánari upplýsingar eru í skráningareglum ökutækja.
Við skráningarskoðun bifreiðar sem forskráð hefur verið sem hópbifreið. Þetta gildir þó ekki hafi Samgöngustofa vikið frá kröfu um teikningu og fyrir liggja upplýsingar um það. Sjá um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga í skráningareglum ökutækja.
Mæla þarf og telja eftirfarandi á hópbifreiðinni og bera saman við teikningu. Beri einhverju á milli er það tilgreint á mæliblaðinu sem skilað er til Samgöngustofu (sjá um tækniupplýsingaskráningar í skráningareglum ökutækja):
Lengd, breidd og hjólhaf bifreiðarinnar.
Fjöldi dyra, staðsetning og mál þeirra. Þetta á við um aðaldyr (AD), neyðardyr (ND), neyðarglugga (NG) og neyðarlúgur (NL).
Staðsetning sæta, og þegar við á, afmörkun svæða fyrir standandi farþega og svæða fyrir hjólastóla.
Breidd, dýpt og mesta hæð setu yfir gólfi. Mæld er frjáls hæð yfir hæsta punkti álagslausrar setu.
Bil á milli sæta sem snúa í sömu átt og á móti hvort öðru. Mæla og skoða eftir þörfum minnsta bil á milli sæta frá sætisbaki að bakhlið næsta sætis fyrir framan.
Breidd og hæð gangs. Athuga að lágmarksbreidd gangs má vera mismunandi eftir í hvaða hæð á að mæla.
Stærð og staðsetningu farangursgeymslna, séu þær til staðar. Ekki þarf að mæla stærð á geymslum fyrir farangur á þaki eigi þær að vera til staðar samkvæmt teikningu.
Flokkar hópbifreiða
Sjá yfirlit yfir ökutækisflokka hópbifreiða í skráningareglum ökutækja. Undirflokkar þeirra eru töluvert notaðir í þessari samantekt og eru þessir:
Undirflokkur hópbifreiðar | Skilyrði |
---|---|
U-A | <22 farþegar (68 kg), sæti+stæði (0,125 m2) |
U-I | >22 farþegar (68 kg), sæti+stæði (0,125 m2) |
U-II | >22 farþegar (71 kg), sæti + takm. stæði (0,150 m2) |
U-B | <22 farþegar (71 kg), bara sæti |
U-III | >22 farþegar (71 kg), bara sæti |
Athuga að orðið "Farþegar" er hér notað yfir alla þá einstaklinga sem bifreiðin er hönnuð fyrir flutning á að undanskildum ökumanni og leiðsögumanni. Af þessu tilefni er áréttað að leiðsögumaður getur bara verið í hópbifreið og ökuréttindi (sem hafa takmörkun á farþegafjölda) taka til allra þeirra sem eru í bifreiðinni fyrir utan ökumann.
9.1. Dyrabúnaður hópbifreiða
9.1.1. Inn- og útgöngudyr hópbifreiða (aðaldyr)
Um aðaldyr (inn- og útgöngudyr) hópbifreiða fyrir farþega gildir:
Aðaldyr eru þær sem farþegar nota við venjulegar aðstæður til að fara inn í ökutæki eða út úr því. Aðaldyr geta verið einbreiðar eða tvíbreiðar.
Aðaldyr skulu staðsettar á hægri hlið (a.m.k. einar á fremri helmingi).
Útgangar á sömu hlið skulu vera með hæfilegu millibili.
Dyr mega vera aftan á hópbifreið ef þær eru ekki aðaldyr.
Stjórnbúnaður fyrir fjarstýrðar aðaldyr skal vera nálægt ökumanni.
Aðaldyr sem notaðir eru sem neyðardyr skulu uppfylla kröfur til þess, m.a. um neyðaropnunarbúnað (sjá nánari lýsingu í 9.1.2 Neyðarútgangar hópbifreiða hér neðar).
Beggja vegna dyraops skulu vera handslár (sjá nánari lýsingu í 9.6. Gangar hópbifreiða hér neðar).
Mál í mm | U-I | U-II | U-III | U-A | U-B |
---|---|---|---|---|---|
Lágmarkshæð á aðaldyrum | 1.800 | 1.650 | 1.650 | 1.650 | 1.500(2) |
Lágmarksbreidd á einbreiðum aðaldyrum(1) | 650 | 650 | 650 | 650 | 650(2) |
Lágmarksbreidd á tvíbreiðum aðaldyrum(1) | 1.200 | 1.200 | 1.200 | 1.500 | 1.500(2) |
Lágmarksfjöldi dyra (minnst einar aðaldyr plús neyðardyr eða aðaldyr) | 2 | 2 | 2 | 2 | 2 |
Lágmarksfjöldi aðaldyra m/farþ. ≤45 (tvíbreiðar aðaldyr má telja sem tvennar dyr) | 1 | 1 | 1 | 1 | 1 |
Lágmarksfjöldi aðaldyra m/farþ. 46-70 (tvíbreiðar aðaldyr má telja sem tvennar dyr) | 2 | 1 | 1 | 2 | 1 |
Lágmarksfjöldi aðaldyra m/farþ. 71-100 (tvíbreiðar aðaldyr má telja sem tvennar dyr) | 3 | 2 | 1 | 3 | 1 |
Lágmarksfjöldi aðaldyra m/farþ >100 (tvíbreiðar aðaldyr má telja sem tvennar dyr) | 4 | 2 | 1 | 4 | 1 |
Nánar um atriði töflunnar | Skýring eða önnur ákvæði |
---|---|
(1) Lágmarksbreidd á aðaldyrum | Aðaldyr mega vera allt að 100 mm mjórri í hæð handsláa og allt að 250 mm mjórri við hjólskálar og fjarstýrðan opnunarbúnað í U-A og U-B |
(2) Lágmarksstærð á aðaldyrum í U-B | Gildistaka lágmarkshæðar aðaldyra U-B er 1. janúar 2007. Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu ef frávik á lágmarksbreidd og/eða lágmarkshæð eru innan 100 mm |
9.1.2. Neyðarútgangar hópbifreiða
Um neyðarútganga hópbifreiða gildir:
Neyðarútgangur er sá sem ætlaður er til að rýma ökutæki ef aðaldyr nýtast ekki sem slíkar eða rýming um þær verður ekki nógu hröð. Neyðarútgangur getur verið neyðardyr, neyðargluggi og neyðarlúga á þaki.
Lágmarksfjöldi útganga í hverju sérrými m.v. farþegafjölda (göngudyr + neyðarútgangar) skulu vera 3 fyrir <16 farþ, 4 fyrir 17-30 farþ, 5 fyrir 31-45 farþ, 6 fyrir 46-60 farþ, 7 fyrir 61-75 farþ, 8 fyrir 76-90 farþ, 9 fyrir 91-110 farþ, 10 fyrir 111-130 og 11 fyrir >130 farþ.
Að minnsta kosti einn neyðarútgangur skal vera framan eða aftan á hópbifreið U-I eða neyðarlúga.
Aðkoma að neyðardyrum og neyðargluggum skal vera greið og hindrunarlaus. Ef sæti eru við neyðardyr eða glugga skal vera hægt að víkja sætinu til svo aðkoma að þeim verði eins og til er ætlast.
Skilti sem merkja neyðarútganga og neyðaropnunaraðferðir skulu vera til staðar (sjá 9.9 Áletranir í hópbifreiðum hér neðar).
Um neyðardyr hópbifreiða gildir:
Neyðardyr sem hægt er að hafa læstar utan frá skal alltaf vera auðvelt að opna innan frá.
Dyr með afllokun skal ekki telja neyðarútgang nema hægt sé að opna þær rakleitt með handafli þegar stjórnbúnaður fyrir fjarstýrðar aðaldyr hefur verið aftengdur.
Handföng að utanverðu skulu vera í 1.000 mm til 1.500 mm hæð yfir akbraut miðað við óhlaðna bifreið.
Lamir á neyðardyrum skulu vera að framanverðu.
Neyðardyr skulu opnast út og vera þannig hannaðar að lítil hætta sé á að þær festist jafnvel þótt yfirbygging aflagist við umferðaróhapp. Heimilt er að rennihurð sé notuð fyrir neyðardyr á hópbifreið í U-A og U-B.
Á neyðardyrum sem ekki sjást auðveldlega úr sæti ökumanns skal vera búnaður sem varar ökumann við ef dyrnar eru ekki tryggilega lokaðar. Viðvörunarbúnaðurinn skal stjórnast af læsingunni sjálfri en ekki af hreyfingu hurðarinnar.
Um stærðir og fjölda neyðarútganga gildir:
Mál í mm | U-I | U-II | U-III | U-A | U-B |
---|---|---|---|---|---|
Lágmarkshæð á neyðardyrum (sjá teikningu) | 1.250 | 1.250 | 1.250 | 1.250 | 1.250 |
Lágmarksbreidd á neyðardyrum (sjá teikningu) | 550 | 550 | 550 | 550 | 550 |
Lágmarksstærð á neyðargluggum og á neyðarlúgum á þaki (m2)(1) | 0 | 0,4 | 0,4 | 0,4 | 0 |
Lágmarksfjöldi neyðarlúga á þaki (sem koma til viðbótar öðrum neyðarútgöngum) - m/farþ ≤50(2) | 0 | 1 | 1 | 1 | 0 |
Lágmarksfjöldi neyðarlúga á þaki (sem koma til viðbótar öðrum neyðarútgöngum) - m/farþ >50(2) | 0 | 2 | 2 | 2 | 0 |
Nánar um atriði töflunnar | Skýring eða önnur ákvæði |
---|---|
(1) Stærð neyðarglugga og neyðarlúga á þaki | Í gegnum þær komist rétthyrningur sem er að lágmarki 500 mm x 700 mm |
(2) Neyðarlúgur sem koma til viðbótar öðrum neyðarútgöngum | Vera um miðbik þaksins ef bara ein (miðþriðjungi), annars a.m.k. 2 m á milli þeirra. Gerð þannig að hún hindri ekki greiðan aðgang innan úr bifreiðinni. Skal vera auðvelt að opna innan frá sé hægt að læsa henni utanfrá. |
9.3 Loftræsting og miðstöð hópbifreiða
Í hópbifreið í U-II, U-III og U-B skal vera loftræstikerfi sem sér fólksrými fyrir nægjanlegri loftræstingu þótt bifreið sé kyrrstæð.
Dreifing loftsins skal vera sem jöfnust um alla lengd vagnsins og loftskipti skulu nást þrátt fyrir lokaðar þaklúgur, glugga og dyr. Upphitunarkerfi skal vera nógu öflugt til að jafn og eðlilegur hiti náist í öllum vagninum í akstri enda þótt kalt sé úti.
Ef loftið er tekið inn í bifreiðina að framanverðu skal neðri brún loftinntaks vera a.m.k. 1,0 m yfir akbraut.
Hita umhverfis ökumann skal vera hægt að stilla sérstaklega.
Miðstöð sem brennir eldsneyti skal vera í eldvörðu hólfi og svo tryggilega frá henni gengið sem framast er unnt.
9.4. Sæti hópbifreiða
9.4.1. Farþegasæti (og fyrir áhöfn) hópbifreiða
Um farþegasæti og sæti fyrir áhöfn (aðra í áhöfn en ökumann, til dæmis leiðsögumann) gildir:
Sæti skulu vera traust og vel fest. Á þeim mega ekki vera hvassar brúnir eða útstæðir hlutir sem geta valdið meiðslum við snögga hemlun eða árekstur.
Sæti farþega skulu þannig gerð að þægileg séu í notkun og þannig komið fyrir að þau eða farþegar í þeim hindri ekki ökumann við akstur.
Farþegasæti má ekki vera framar en sæti ökumanns. Sérstakt sæti leiðsögumanns í hópbifreið í U-II, U-III og U-B telst ekki farþegasæti í þessum skilningi.
Á farþegasæti sem ekki snýr þvert á lengdarás bifreiðar skulu vera armar (þil) báðum megin við hvern farþega í stöku sæti en báðum megin við hverja tvo farþega í sætisröð.
Fellisæti eru sæti sem hægt er að fella niður og breikka með því sætisbekk eða einstakt sæti, og sæti sem hafa setu sem hægt er að setja í uppreista stöðu. Þau skal vera hægt að festa örugglega í notkunarstöðu.
Veltisæti eru sæti sem hægt er að velta fram í heilu lagi (setu og baki) og skal vera unnt að festa þau örugglega í notkunarstöðu.
Vörn fyrir farþega:
Framan við sæti eða stæði sem er aftan við dyr, pall eða svæði ökumanns í M3 skal vera vörn. Vörnin skal ná a.m.k. 100 mm inn fyrir miðlínu setu í því sæti sem er nær ganginum. Í hópbifreið með hreyfli að framanverðu má víkja frá þessu máli svo að auðveldara sé að komast í ökumannssætið, þó skal vörnin ná a.m.k. 50 mm inn fyrir miðlínu ökumannssætis. Vörnin skal vera a.m.k. 800 mm há mælt frá gólffletinum framan við farþegasæti.
Staðsetning eða gerð búnaðar í fólksrými, sérstaklega efri brún á sætisbökum og brúnir á stoðveggjum, skal vera þannig að sem minnst hætta sé á meiðslum við umferðaróhapp.
Um stærðir og fjölda sæta gildir:
Mál í mm | U-I | U-II | U-III | U-A | U-B |
---|---|---|---|---|---|
Lágmarksbreidd setu (2xF) | 400 | 400 | 450 | 400 | 400 |
Lágmarksdýpt setu | 350 | 400 | 400 | 350 | 350 |
Lágmarksbreiddarrými sætis í sætaröð (á bilinu 270-650 mm yfir setu) (2xG á mynd)(1) | 450 | 450 | 450 | 450 | 450 |
Lágmarksbreiddarrými staks sætis (á bilinu 270-650 mm yfir setu) (2xG á mynd)(1) | 500 | 500 | 500 | 500 | 500 |
Lágmarkshæð upp í setu (þó 350 mm við hjólskál) | 400-500 | 400-500 | 400-500 | 400-500 | 400-500 |
Lágmarksbil á milli sæta sem snúa í sömu átt (H á mynd) | 650 | 680 | 680 | 650 | 650 |
Lágmarksbil á milli sæta sem snúa á móti hvort öðru | 1.300 | 1.300 | 1.300 | 1.300 | 1.300 |
Lágmarksbil frá sæti að þili fyrir framan | Sjá mynd | Sjá mynd | Sjá mynd | Sjá mynd | Sjá mynd |
Lágmarkshæð yfir hverju sæti (og gólfinu fyrir framan)(2) | 900 (1.300) | 900 (1.300) | 900 (1.300) | 900 (1.300) | 900 (1.300) |
Fjöldi sæta sem frátekin skulu fyrir hreyfihamlaða og merkt sem slík(3) | 4 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Lágmarksbreidd gangs framhjá uppreistu fellistæti | 400 | 400 | 400 | 400 | 400 |
Nánar um atriði töflunnar | Skýring eða önnur ákvæði |
---|---|
1Lágmarksbreiddarrými sætis í sætaröð | Fyrir hópbifreið sem er < 2,35 m að breidd má málið vera minnst 200 mm |
2Lágmarkshæð yfir hverju sæti (og gólfinu fyrir framan) | Heimilt er að frjáls hæð skerðist af inndreginni hlið, loft- eða lagnastokkum að ofan- eða neðanverðu, sætisbökum og hjólskálum |
3Sæti sem frátekin eru fyrir hreyfihamlaða í U-I | Skulu staðsett nærri útgangi og henta vel til inn- og útgöngu. Lágmarksbreidd setu skal vera 440 mm. Hæð að efri brún setu frá gólfi skal vera 400-500 mm |



9.4.2 Svæði ökumanns hópbifreiða
Svæði sem ökumanni er einum ætlað er kallað svæði ökumanns. Innan þess er stýrishjól og önnur stjórntæki, mælar og annar búnaður sem er nauðsynlegur við akstur hópbílsins.
Sæti skulu vera traust og vel fest. Á þeim mega ekki vera hvassar brúnir eða útstæðir hlutir sem geta valdið meiðslum við snögga hemlun eða árekstur.
Sæti ökumanns skal þannig gert og komið fyrir að aðstaða hans við akstur sé þægileg og örugg.
Svæði ökumanns skal þannig gert að hvers konar speglun trufli útsýni hans sem minnst.
Á ökumannsstól skulu vera aðgengileg handföng til að stilla hæð frá gólfi og fjarlægð frá stýri (þarf ekki í M2).
Verja skal ökumann fyrir farangri sem runnið gæti til, t.d. við hemlun.
Heimilt er að hafa sólskyggni ofan við framrúðu. Sólskyggni inni í ökutæki skal vera stillanlegt og vera þannig lagað að ekki stafi óþarfa hætta af því fyrir ökumann eða farþega. Það má ekki skyggja á áskilinn innispegil.
9.5. Innilýsing og leiðsöguskilti hópbifreiða
Um innilýsingu gildir (eftir 01.01.1990, innilýsing í eldri hópbifreiðum sé eins góð og kostur er):
Inniljós skulu lýsa upp öll farþegarými, áhafnarrými, salernisrými og liðskiptan hluta af liðvagni. Þannig skal aðgangur að útgönguleiðum vera upplýstur og útgönguleiðirnar þegar þær eru í notkun, allir staðir þar sem hindranir eru og skilti og merkingar. Mörg mismunandi ljósker mega í sameiningu uppfylla allar kröfur.
Í tveggja hæða hópbifreið án þaks skal lýsing vera eins nálægt efsta hluta á tröppum sem liggja upp á efri hæð.
Fyrir inniljós skulu vera a.m.k. tvær greinar óháðar hvor annarri. Grein fyrir sílogandi inn- og útgönguljós má líta á sem aðra greinina.
Innilýsing skal tengd um eigin rofa við sæti ökumanns eða vera sjálfvirk.
Um neyðarlýsingu gildir (eftir 10.06.2014), þó hvorki skoðuð né prófuð:
Hópbifreið í U-II, U-III og U-B skal búin neyðarlýsingu.
Neyðarljósakerfið skal uppfylla kröfur UNECE reglugerð nr. 107 Rev 6 (og síðari útgáfum), m.a. að gefa hvítt ljós með nægilegt ljósmagn og dreifingu, hafa að minnsta kosti 30 mínútna líftíma á aflgjafa, og að mögulegt sé að virkja það úr sæti ökumanns en líka að það virkist sjálfkrafa við notkun á hvers kyns neyðarbúnaði.
Um leiðsöguskilti gildir:
Skilti inni í bifreið sem gefa upplýsingar um áætlun, staðsetningu eða næstu stoppistöð eða stoppistöðvar eru kölluð leiðsöguskilti. Ekki er krafa um slík skilti en þau skilti sem eru til staðar skal skoða.
Leiðsöguskilti skulu þannig gerð og komið fyrir að þau hindri ekki greiðan aðgang um bifreiðina eða geti valdið hættu við almennan umgang.
9.6. Gangar hópbifreiða og svæði fyrir standandi farþega (svæði)
Gangur er það rými sem veitir farþegum aðgang að hvaða sæti eða sætaröð sem vera skal og/eða aðaldyrum. Þrep og svæði framan við sæti, sem nær 300 mm fram fyrir fremstu brún þess og svæði sem eingöngu er notað til að komast í sæti, telst ekki gangur.
Gólf er sá hluti yfirbyggingar sem myndar burðarflöt fyrir standandi farþega, sætisfestingar og fætur farþega og ökumanns.
Gangur í hópbifreið skal vera greiður og hindrunarlaus.
Svæði fyrir standandi farþega er sá gólfflötur sem er ekki hallandi, sem hefur nægilega lofthæð og er ekki við hlið svæðis fyrir ökumann. Svæði fyrir farþega í hjólastól er kallað hjólastólarými og má nota fyrir aðra farþega þegar það er ekki í notkun.
Staðsetning eða gerð búnaðar í fólksrými, sérstaklega efri brún á sætisbökum og brúnir á stoðveggjum, skal vera þannig að sem minnst hætta sé á meiðslum við umferðaróhapp.
Hleri í gólfi skal þannig gerður og festur að ekki sé hætta á að hann losni við titring. Enginn hluti læsi- eða lyftibúnaðar má standa upp fyrir gólfflöt.
Almennar kröfur fyrir handslár og handföng:
Handslár og handföng skulu vera nægjanlega sterk. Þau skulu þannig gerð og fyrir komið að ekki valdi hættu fyrir farþega.
Handslár og handföng skulu þannig gerð að auðvelt sé að festa hönd á þeim. Þvermál þeirra skal vera milli 20 og 45 mm. Minnsta þvermál þeirra má vera 15 mm ef annað þvermál á sama þversniði er a.m.k. 25 mm.
Bilið frá handslá eða handfangi að fletinum sem þau festast á skal vera a.m.k. 40 mm. Á hurðum má bilið þó fara niður í 35 mm.
Sérkröfur fyrir handslár og handföng fyrir U-I, U-II og U-A:
Handslár og handföng skulu vera nægjanlega mörg og í seilingarfjarlægð farþega hvar sem hann er á svæði fyrir standandi farþega.
Á svæðum fyrir standandi farþega þar sem ekki eru sæti með veggjum skulu vera láréttar handslár samsíða veggnum frá 800 mm til 1.500 mm yfir gólfi. Á öðrum svæðum skulu handslár vera frá 800-1.900 mm yfir gólfi og einnig aðrir gripstaðir frá 800-1.500 mm yfir gólfi.
Beggja vegna dyraops skulu vera handslár. Á tvíbreiðum dyrum má mæta þessari kröfu með einni stoð eða handslá í miðju.
Um stærðir ganga gildir:
Mál í mm | U-I | U-II | U-III | U-A | U-B |
---|---|---|---|---|---|
Lágmarksbreidd gangs í 0-900 mm hæð yfir gólfi | 450(1) | 350 | 300(2) | 350 | 300(3) |
Lágmarksbreidd gangs í 900-1.400 mm hæð yfir gólfi | 450-550 | 350-550 | 350-450 | 350-550 | 300-450 |
Lágmarksbreidd gangs í yfir 1.400 mm hæð yfir gólfi | 550 | 550 | 450 | 550 | 450 |
Lágmarkshæð gangs | 1.900(4) | 1.900(4) | 1.900(4) | 1.900(4) | 1.500(5) |
Lágmarksbreidd auða rýmisins frá gangi að aðaldyrum í 0-700 mm hæð yfir dyraþrepi/gólfi 6 | 400 | 400 | 400 | 400 | 400 |
Lágmarksbreidd auða rýmisins frá gangi að aðaldyrum í 700-1550 mm hæð yfir dyraþrepi/gólfi(6) | 550 | 550 | 550 | 550 | 550 |
Lágmarkshæð auða rýmisins frá gangi að aðaldyrum(7) | 1.800 | 1.650 | 1.650 | 1.650 | 1.500 |
Lágmarkshæð handsláa og gripstaða í stæðum | 800 | 800 | --- | 800 | --- |
Hámarkshæð handsláa í stæðum (ekki með veggjum) og gripstaða | 1.500 | 1.500 | --- | 1.500 | --- |
Hámarkshæð handsláa í stæðum (með veggjum) | 1.900 | 1.900 | --- | 1.900 | --- |
Nánar um atriði töflunnar | Skýring eða önnur ákvæði |
---|---|
(1) Lágmarksbreidd gangs í 0-900 mm hæð yfir gólfi í U-I | Fullnægjandi er að gangurinn sé 400 mm breiður aftan við lóðrétt þverplan 1.500 mm framan við miðlínu afturáss en þó ekki framar en aftan við aftari brún öftustu aðaldyra |
(2) Lágmarksbreidd gangs í 0-900 mm hæð yfir gólfi í U-III | Sætin mega annars vegar eða beggja vegna við ganginn vera færanleg til hliðar og má þá breidd gangsins vera 220 mm. Með aðgengilegum stjórnbúnaði skal þá vera auðvelt að færa sætin og auka breidd gangsins í 300 mm |
(3) Lágmarksbreidd gangs í 0-900 mm hæð yfir gólfi í U-B | Í U-B með þrjár sætaraðir eða færri aftan við ökumannsstól er heimilt að hafa eitt eða tvö fellisæti sem takmarka breidd gangs með sætið í niðurfelldri stöðu |
(4) Lágmarkshæð gangs í U-I, U-II, U-III og U-A | Lofthæð í gangi má vera 100 mm lægri framan við fremstu brún fremstu aðaldyra og aftan við lóðrétt þverplan 1.500 mm framan við miðlínu afturáss en þó ekki framar en aftan við aftari brún öftustu aðaldyra |
(5) Lágmarkshæð gangs í U-B | Gildistaka lágmarkslofthæðar fyrir U-B er 1. janúar 2006. Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu ef frávik á lágmarkshæð eru innan 100 mm |
(6) Lágmarksbreidd auða rýmisins frá gangi að aðaldyrum | Heimilt er að hafa sæti fyrir áhöfn (leiðsögumann, annan ökumann o.s.frv.) á svæðinu frá gangi að aðaldyrum, enda eru lágmarkskröfur um breiddarrými uppfylltar þegar sætið er í uppreistri stöðu |
(7) Lágmarkshæð auða rýmisins frá gangi að aðaldyrum | Gildir það sama og um lágmarkshæð aðaldyra (og undanþágan fyrir U-B gildir líka) |
9.7. Tröppur og þrep hópbifreiða
Um tröppur og þrep hópbifreiða gildir:
Á innanverðum hurðum má ekki vera búnaður sem ætlaður er til að loka af stigaþrep þegar dyrnar eru lokaðar.
Um lyftiþrep við dyr gildir:
Hreyfing lyftiþrepa má vera samstillt hreyfingu viðkomandi aðaldyra eða neyðardyra.
Þegar dyr eru lokaðar skal enginn hluti lyftiþreps skaga meira en 10 mm út fyrir aðlæga línu yfirbyggingar. Horn lyftiþreps (framvísandi og afturvísandi) skulu vera ávöl (radíus >5 mm).
Ekki skal vera mögulegt að aka af stað þegar lyftiþrep er úti. Ef lyftiþrepið er handstýrt (ekki samstillt hreyfingu dyranna) skal hljóðmerki gefa viðvörun ef þrepið er ekki dregið að fullu inn.
Ekki skal vera mögulegt að lyftiþrep dragist út þegar bifreið er í akstri. Bili búnaðurinn sem hreyfir þrepið skal það dragast inn og stöðvast þar. Bilað þrep skal ekki geta hindrað hreyfingu hurðarinnar.
Ekki skal vera mögulegt að loka dyrum þegar staðið er á lyftiþrepi þeirra. Þetta gildir þó ekki um dyr sem eru í beinni sjónlínu ökumanns.
Um mál þrepa við aðaldyr gildir (sjá líka mynd), bifreið óhlaðin við mælingu:
Þegar aðaldyr eru tvöfaldar skal hvor helmingur um sig uppfylla málin.
Mál í mm | U-I, U-A | U-II, U-III, U-B |
---|---|---|
Lágmarksbreidd þrepa við aðaldyr | 400 | 400 |
Hámarkshæð upp í fyrsta þrep (yfir akbraut) (D á mynd) | 340(1) | 380(1,2,3) |
Hæðarbil milli annarra þrepa (má vera mismunandi milli þrepa) (E á mynd) | 120-250(4) | 120-350(5) |
Lágmarksdýpt fyrsta þreps | 300(6) | 300(6) |
Lágmarksdýpt annarra þrepa | 200 | 200 |
Nánar um atriði töflunnar | Skýring eða önnur ákvæði |
---|---|
(1) Hámarkshæð fyrsta þreps (yfir akbraut) (D á mynd) | (Má fara upp í 700 mm fyrir neyðardyr. Fyrir neyðardyr tveggja hæða hópbifreiðar, mest 1.500 mm á efri hæð og 850 mm á neðri hæð |
(2) Hámarkshæð fyrsta þreps (yfir akbraut) í U-II, U-III og U-B (D á mynd) | Má fara upp í 430 mm fyrir hópbifreið með eingöngu vélrænan fjöðrunarbúnað |
(3) Hámarkshæð fyrsta þreps (yfir akbraut) í U-II, U-III og U-B (D á mynd) | Grunnkrafan gildir fyrir að lágmarki einar aðaldyr, má fara upp í 400 mm fyrir aðrar aðaldyr |
(4) Hámarkshæðarbil milli annarra þrepa í U-I og U-A (E á mynd) | Má fara upp í 300 mm fyrir þrep við dyr sem eru aftan við aftasta ás |
(5) Hámarkshæðarbil milli annarra þrepa í U-II, U-III og U-B (E á mynd) | Má ekki vera meira en 250 mm fyrir þrep á göngum í hópbifreið fyrir ≤22 farþega |
(6) Lágmarksdýpt fyrsta þreps | Má fara niður í 230 mm í hópbifreið fyrir ≤22 farþega |

9.9. Áletranir í hópbifreiðum
Hæfilega mörg skilti skulu vera þar sem við á.
Skilti mega vera myndmerki. Myndmerkið gefi greinilega til kynna tilgang (Samgöngustofa úrskurðar í vafatilvikum). Tákn skulu vera a.m.k. 70 mm á kant.
Áletrunar í formi texta er krafist þegar tiltekinn texti er innan gæsalappa í töflunni eða lýsinga á aðferðum er krafist (t.d. neyðaropnunaraðferðir). Texti á skiltum skal vera greinilegur og hæð bókstafa a.m.k. 5 mm. Myndmerki má hafa til viðbótar.
Sé texti á skiltum skal hann vera á íslensku en má auk þess vera á erlendu máli.
Áletrun eða tilgangur skiltis | Staðsetning | Útlit skiltis með texta |
---|---|---|
Skilti um fjölda farþega (skipting í sæti/fjölda í stæði/hjólastóla) | Fremst í bílnum | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti um hámarksþyngd farangurs sem mest má flytja (eftir 01.03.1994) | Fremst í bílnum | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti "Gangið ekki yfir akbrautina fyrr en vagninn er farinn" | Í U-I og U-A við útgöngudyr | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti "Aðeins fyrir leiðsögumann" og "Tourist Guide Only" | Á eða við sætið | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti fyrir sérmerkt sæti og svæði hreyfihamlaðra | Í U-I á áberandi stað nálægt þeim | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti um staðsetningar sjúkrakassa (eftir 01.03.1994) | Á áberandi stað nálægt þeim | Hvítur/stálgrár texti á grænum grunni |
Skilti um staðsetningar slökkvitækja (eftir 01.03.1994) | Á áberandi stað nálægt þeim | Hvítur/stálgrár texti á rauðum grunni |
Skilti sem merkja neyðarútganga (neyðarútgangsmerki) (eftir 01.03.1994) | Á áberandi stað nálægt þeim | Rautt letur á hvítum/stálgráum grunni |
Neyðaropnunaraðferðir greinilegar (a.m.k. á íslensku) (eftir 01.03.1994) | Á áberandi stað við neyðarútganga | Svart letur á hvítum/stálgráum grunni |
Skilti um bann við reykingum (eftir 01.03.1994) | Á áberandi stað/stöðum í bílnum | Svartur texti á hvítum/stálgráum grunni |
Lög og reglur
Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):
Umferðarlög nr. 77/2019.
Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.
Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.
Reglugerð ESB um gerð og búnað bifhjóla nr. 168/2013/ESB.
Til fróðleiks eru hér helstu ESB- og UNECE-reglugerðir sem fjalla um efnið:
Reglugerð (ESB) nr. 2018/858 um viðurkenningu og markaðseftirlit með bifreiðum og eftirvögnum þeirra (grunnreglugerð). Meðal viðbóta við hana er reglugerð (ESB) um almennt öryggi ökutækjanna og verndun fólks um borð og óvarinna vegfarenda nr. 2019/2144 (General Safety Regulation eða GSR).
UNECE reglugerð nr. 107 um almenna byggingu M2 og M3 (nýrri).
UNECE reglugerð nr. 52 um almenna byggingu M2 og M3 af minni gerð (ekki yfir 22 farþ ofl) (eldri).
UNECE reglugerð nr. 36 um almenna byggingu M2 og M3 af stærri gerð (yfir 22 farþ ofl) (eldri).
UNECE reglugerð nr. 66 um styrk yfirbygginga (fólksrýmis) M2 og M3 af stærri gerð (yfir 22 farþ).
UNECE reglugerð nr. 118 um brunahegðun í M3 (Class II og III).
UNECE reglugerð nr. 80 um styrk sæta, sætafestinga og höfuðpúða í M2 og M3.
UNECE reglugerð nr. 17 um styrk sæta, sætafestinga og höfuðpúða (almennar reglur, sjá líka R80).
UNECE reglugerð nr. 14 um öryggisbeltafestingar.
UNECE reglugerð nr. 16 um öryggisbelti.
UNECE reglugerð nr. 43 um rúður (glæra fleti) og ísetningu þeirra.