Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Umferðarskráningar
Með umferðarskráningu er átt við skráningu á notkunarstöðu ökutækisins, þ.e. hvort það er skráð í umferð eða ekki. Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar umferðarskráningu (kallaðir þjónustuaðilar):
Faggiltar skoðunarstofur ökutækja
Efni kaflans
Skráning ökutækis í umferð
Eigandi (umráðandi) ökutækis sem skráð hefur verið tímabundið úr umferð getur óskað eftir því að það verði skráð í umferð á ný (eða annar aðili samkvæmt umboði, sjá neðar).
Óheimilt er að nota ökutæki sem hefur verið skráð úr umferð fyrr en það er skráð í umferð að nýju og skráningarmerki hafa verið sett aftur á það eða réttur skoðunarmiði. Skoðunarmiði skal vera í samræmi við gilda skoðun ökutækisins og settur yfir miða um að notkun þess sé bönnuð.
Dagsetning skráningar í umferð miðast við móttökudag beiðnar um skráningu í umferð hjá þjónustuaðila séu öll skilyrði skráningar uppfyllt.
Liggja þarf fyrir staðfesting á vátryggingu ökutækisins. Nægilegt er að það komi fram í ökutækjaskrá að ökutæki sé tryggt en annars þarf að framvísa sérstakri staðfestingu frá tryggingafélagi.
Ganga þarf úr skugga um að reglubundin skoðun sé í gildi (að ekki sé komið fram yfir frest til að mæta í næstu aðalskoðun eða til endurskoðunar) og að skráningarmerki beri skoðunarmiða í samræmi við síðustu skoðun. Athugið þó heimild til að veita akstursheimild í næsta lið. Áréttað er að óheimilt er að skrá ökutæki í umferð, afhenda eða setja innlögð skráningarmerki á ökutæki, ef niðurstaða síðustu skoðunar er "notkun bönnuð".
Hafi ökutæki ekki gilda aðalskoðun er heimilt að veita viku frest til að færa það til skoðunar. Þetta er þó ekki heimilt ef skráningarmerki voru afklippt vegna vanbúnaðar eða skoðunar. Þegar veittur er frestur til skoðunar skal eigandi/umráðamaður undirrita yfirlýsingu um að hann telji ökutækið í lögmætu ástandi og hæft til skoðunar og að það verði fært til skoðunar innan viku. Starfsmaður þjónustuaðila staðfestir akstursheimildina með dagsetningu, undirritun og stimpli og skráir í ökutækjaskrá (dagbók) að akstursheimild hafi verið gefin út. Akstursheimildin skal ávallt vera sýnileg í ökutækinu (í glugga).
Ef ökutæki greiðir þungaskatt samkvæmt ökumæli og ekki hefur verið lesið af ökutæki við eða eftir innlögn skráningarmerkja skal framkvæma álestur og greiða þungaskatt samkvæmt þeim álestri ef komið er fram yfir álestrartímabil (ný gjaldtímabil hefjast 11. febrúar, 11. júní og 11. október).
Ef af ökutæki er greitt kílómetragjald (rafmagnsbílar, vetnisbílar og tengiltvinnbílar) er æskilegt að skila inn álestri akstursmælis hafi það ekki verið gert við skráningu úr umferð (enda hefur Skatturinn þá haldið áfram að áætla mánaðarlega og rukka á meðan ökutækið var úr umferð). Sé staðan ekki sett inn er æskilegt að benda viðskiptavini á að hann ætti nú að senda inn stöðuna sjálfur svo álagning verði sem réttust.
Í umboði skal koma fram efni umboðs, fastanúmer ökutækis, nafn og kennitala umboðsmanns, undirritun umbjóðanda, tveir vitundarvottar, staður og dagsetning. Umbjóðandi, umboðsmaður og vitundarvottar skulu allir að vera orðnir 18 ára.
Í umferð með úttekt skráningarmerkja
Hafi skráningarmerki verið lögð inn (skráð úr umferð með innlögn skráningarmerkja) þá getur eigandi (umráðandi) óskað eftir úttekt skráningarmerkja hjá þjónustuaðila.
Ástæða skráningar í umferð skal vera "Í umferð (úttekt)".
Að lokinni skráningu ökutækis í umferð skal afhenda skráningarmerki ökutækisins.
Berist beiðni um skráningu í umferð með pósti skal bjóðast til að senda eiganda (umráðanda) skráningarmerki ökutækis á hans kostnað.
Í umferð með endurnýjun skoðunarmiða
Hafi ökutæki verið skráð úr umferð með miða þá getur eigandi (umráðandi) framvísað umsókn um skráningu í umferð með miða (US.160) hjá þjónustuaðila og skal hún vera undirrituð af eiganda, meðeiganda eða umráðanda ökutækis. Ef aðrir en ofangreindir aðilar undirrita skal umboð fylgja með. Einnig er hægt að tilkynna um skráningu ökutækis í umferð með miða rafrænt á heimasíðu Samgöngustofu.
Ástæða skráningar í umferð skal vera "Í umferð (miði)".
Að lokinni skráningu ökutækis í umferð skal afhenda skoðunarmiða sem er í samræmi við skoðun ökutækisins.
Berist umsókn um skráningu í umferð með öðrum hætti (pósti, tölvupósti, síma) skal bjóðast til að senda eiganda (umráðanda) nýjan skoðunarmiða á hans kostnað.
Hafi ný skráningarmerki verið pöntuð á ökutæki sem er skráð úr umferð og með skráningarmerki í geymslu má ekki afhenda nýju merkin nema ökutækið sé um leið skráð í umferð. Gömlu merkjunum skal fargað.
Í umferð eftir afklippingu
Hafi skráningarmerki verið afklippt af lögreglu gilda strangari skilyrði um úttekt skráningarmerkja en ella.
Ástæða skráningar í umferð skal vera "Í umferð (úttekt)".
Ef klippt var af vegna skoðunar hefur ökutækið ekki verið fært til skoðunar þegar krafist er. Úrbætur felast í því að færa ökutækið til skoðunar. Hér gilda þau ströngu skilyrði að ökutækið þarf að öðlast gilda skoðun til að heimilt sé að afhenda skráningarmerki á ný, þ.e. með niðurstöðunni "Án athugasemda" eða "Lagfæring". Óheimilt er að veita akstursheimild í þessu tilviki.
Ef klippt var af vegna endurskoðunar er ökutæki komið fram yfir á fresti til endurskoðunar. Úrbætur felast í því að færa ökutækið til skoðunar. Hér gilda þau ströngu skilyrði að ökutækið þarf að öðlast gilda skoðun til að heimilt sé að afhenda skráningarmerki á ný, þ.e. með niðurstöðunni "Án athugasemda" eða "Lagfæring". Óheimilt er að veita akstursheimild í þessu tilviki.
Ef klippt var af vegna vanbúnaðar hefur komið í ljós við umferðareftirlit lögreglu að ökutækið er vanbúið og telst hættulegt. Úrbætur felast í því að bæta úr ágöllum og færa ökutækið til skoðunar. Hér gilda þau ströngu skilyrði að ökutækið þarf að öðlast gilda skoðun til að heimilt sé að afhenda skráningarmerki á ný, þ.e. með niðurstöðunni "Án athugasemda" eða "Lagfæring". Óheimilt er að veita akstursheimild í þessu tilviki.
Ef klippt var af ökutæki vegna gjalda hafa ekki verið greidd álögð gjöld af ökutækinu. Úrbætur felast í því að greiða gjöldin.
Ef klippt var af ökutæki vegna trygginga er fullnægjandi vátrygging ekki fyrir hendi. Úrbætur felast í því að láta vátryggja ökutækið.
Ef klippt var af ökutæki vegna þess að það var skráð úr umferð, þá hefur ökutækið verið í notkun þrátt fyrir að vera skráð úr umferð eða afskráð í ökutækjaskrá (reiknað með að ökutækið hafi verið stöðvað og þetta komið í ljós - því getur líka hafa verið lagt á lóðum við almannafæri, á götum og í almennum bifreiðastæðum). Úrbætur felast í því að skrá ökutækið í umferð (afskráð ökutæki fást þó almennt ekki endurskráð á ný, skráningarmerkjum þeirra ber því að farga og skrá það í dagbók).
Ef klippt var af vegna eigendaskipta hefur verið vanrækt að tilkynna eigendaskipti að ökutæki. Úrbætur felast í því að tilkynna eigendaskipti (þó getur skráður eigandi alltaf gefið öðrum aðila umboð til númeraúttektar, sé um einhvern misskilning að ræða).
Ef klippt var af vegna þess að einkamerki var útrunnið þá hefur réttur til einkamerkja ekki verið endurnýjaður og búið er að fella hann niður. Úrbætur felast í því að annað hvort að endurnýja réttinn til einkamerkja eða skipta yfir á almenn merki (athuga að einkamerki fást ekki afhent á ný nema rétturinn sé endurnýjaður).
Ef klippt var af vegna tjóns því þá hefur ökutæki lent í tjóni sem laga þarf með viðurkenndum hætti. Slík ökutæki eru skráð sem tjónaökutæki. Úrbætur felast í því að færa ökutækið til viðgerðar á viðurkenndu réttingaverkstæði sem tilkynnir viðgerðarlok til Samgöngustofu sem fellir tjónaskráninguna niður. Svo verður að færa ökutækið til reglubundinnar skoðunar hjá skoðunarstofu. Hér gilda þau skilyrði að ekki má afhenda skráningarmerki nema niðurstaða skoðunarinnar sé önnur en "Akstursbann". Sjá einnig um endurmat tjónaökutækja.
Hafi bara annað skráningarmerki ökutækis verið klippt af (hitt var ekki til staðar) er óheimilt að framkvæma úttekt. Panta þarf hitt skráningarmerkið fyrst og móttaka hjá afgreiðsluaðila.
Gjaldtaka
Samgöngustofa innheimtir ekki gjald fyrir skráningu ökutækis í umferð.
Tölvuvinnsla
Þjónustuaðilar skrá sjálfir ökutæki í umferð í gegnum vefþjónustur að uppfylltum ofangreindum reglum.