Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Meðferð skoðunarmiða

    Skoðunarmiði er settur á ökutæki í samræmi við reglur um sérhverja skoðunartegund og gerð og útfærslu ökutækis og skráningarmerkis. Neðangreindar reglur gilda um skoðanir samkvæmt öllum verklagsbókum skoðana nema annað sé tiltekið. Sjá einnig umfjöllun um skoðunarmiða í skráningareglum ökutækja.

    Almennir miðar

    Að lokinni skoðun samkvæmt verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir er skoðunarmiði settur á skoðunarskyld ökutæki í samræmi við niðurstöðu skoðunar, þannig:

    • Niðurstaða "Án athugasemda" eða "Lagfæring": Á ökutækið er límdur skoðunarmiði fyrir fullnaðar­skoðun í samræmi við skoðunarreglu þess miðað við ökutækisflokk og notkunarflokk ökutækisins (sjá reglur um skoðunartíðni í næsta kafla).

    • Niðurstaða "Endurskoðun": Á ökutækið er límdur endurskoðunarmiði þess mánaðar sem frestur gildir til (miði með svörtu letri á grænum grunni, til notkunar á slétttöluári, og með svörtu letri á grænum og appelsínugulum grunni þar sem litir eru aðskildir með skástriki, til notkunar á oddatöluári).

    • Niðurstaða "Notkun bönnuð": Á ökutækið er límdur "Notkun bönnuð"-miði.

    Á ökutæki með almenn skráningarmerki skal miðinn límdur á upplyftan flöt þeirra eftir gerð. Sömu staðsetningar gilda þótt upplyftur flötur sé ekki á skráningarmerkinu (á við um ökutæki sem öðluðust skoðunarskyldu síðar og því var ekki gert ráð fyrir upplyftum fleti á skráningar­merkjum þeirra):

    • Gerð A: Reiturinn á miðju skráningarmerkinu milli bókstafa og tölustafa fasta­núm­ersins. Á einkamerki er reiturinn (sá eini) vinstra megin á skráningarmerkinu notaður.

    • Gerð B: Neðri reiturinn vinstra megin á skráningarmerkinu.

    • Gerð C: Reiturinn (sá eini) vinstra megin á skráningarmerkinu.

    • Gerð D: Reiturinn hægra megin á skráningarmerkinu.

    Ef ökutækið er með skráningarmerki af eldri gerð er miðinn límdur þannig:

    • Á bifreið: Neðst í vinstra horn framrúðu.

    • Á bifhjól: Á stýristúpu eða annarstaðar sem því verður við komið.

    • Á eftirvagn: Við vinstri hlið skráningarmerkis.

    Sjá nánari upplýsingar um skráningarmerki í skráningareglum ökutækja.

    Sérstakir miðar

    Til viðbótar við almenna skoðunarmiða samkvæmt fyrri kafla eru sérstakir miðar notaðir á ökutæki í tengslum við eftirfarandi skoðanir:

    • Breytingaskoðun á breyttri bifreið: Eftir að breytt bifreið hefur staðist breytinga­skoðun er á áberandi stað fyrir ökumann komið fyrir viðvörunarmiða um breytta bifreið.

    Tíðni reglubundinna skoðana

    Við ákvörðun á tíðni reglubundinna skoðana gengið út frá ýmsum forsendum um ökutækið og notkun þess. Úr verða reglur sem segja til um skoðunarár og skoðunarmánuð innan ársins.

    Skoðunarmánuður ökutækja á árinu

    Ökutæki skal almennt færa til reglubundinnar skoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til og kallast hann skoðunarmánuður ökutækisins (skoðunar­mánaðarregla). Sértilfelli reglunnar eru þessi:

    • Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki hafa skoðunarmánuðinn maí.

    • Bifreið í notkunarflokknum húsbifreið hefur skoðunarmánuðinn maí.

    • Létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II og bifhjól hefur skoðunarmánuðinn maí.

    • Eftirvagn í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn hefur skoðunarmánuðinn maí.

    • Ökutæki á einkamerkjum með bókstaf sem síðasta staf á skráningarmerki hafa skoð­unar­mánuðinn maí.

    • Heimilt er að færa ökutæki til reglubundinnar skoðunar allt að sex mánuðum fyrir lög­bundinn skoðunarmánuð (innan almanaksárs) og allt að tíu mánuðum fyrr (innan almanaksárs) hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs. Sé ökutæki fært til skoðunar fyrir þann tíma ber skoðunarstofu að hafna því að taka það til aðalskoðunar.

    • Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur. Sé ökutæki fært til skoðunar eftir það er það tekið til skoðunar eins og venjulega, en dragist það yfir áramótin er það skoðað "fyrra árs"-skoðun og reiknast þá skoðunartíðni frá réttu ári.

    Skoðunartíðni 4-2-2-1-1...

    Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á fjórða ári frá fyrstu skrán­ingu, svo á tveggja ára fresti tvisvar og loks árlega eftir það, samkvæmt skoðunar­mán­aðar­reglum þeirra:

    • Fólksbifreið (M1).

    • Sendibifreið (N1).

    • Dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notuð á opinberum vegum (og skráð í slíka notkun).

    • Rafknúið dráttartæki.

    • Létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II.

    • Bifhjól (L3e, L4e, L5e, L6e og L7e).

    • Eftirvagn II (O2) og eftirvagn dráttarvélar I og II (R1 og R2) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notaður á opinberum vegum.

    Skoðunartíðni 4-2-2-2-2...

    Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á fjórða ári frá fyrstu skrán­ingu, svo á tveggja ára fresti eftir það, samkvæmt skoðunarmánaðarreglum þeirra:

    • Eftirvagn I og II (O1 og O2) í notkunarflokknum tjaldvagn, fellhýsi eða hjólhýsi. Þó skulu þessir vagnar, fyrst skráðir 2004 og á slétttöluárum fyrir það ár (2002, 2000, 1998 o.s.frv.), sem færðir voru til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, næst færðir til reglubundinnar skoðunar árið 2024 og annað hvert ár eftir það.

    Skoðunartíðni 3-2-2-1-1...

    Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á þriðja ári frá fyrstu skráningu, svo á tveggja ára fresti næstu tvö skipti og loks árlega eftir það, samkvæmt skoðunarmánaðar­reglum þeirra:

    • Ökutæki til ökutækjaleigu.

    • Ökutæki til ökukennslu.

    Athuga þó að ökutæki sem skráð voru í ofangreinda notkunarflokka fyrir 31.12.2021 halda skoðunartíðninni 4-2-2-1... sem gilti þá.

    Skoðunartíðni (1|2)-2-2-2-2...

    Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar á tveggja ára fresti miðað við fyrstu skráningu, samkvæmt skoðunarmánaðarreglu þeirra. Þetta getur þýtt það að fyrsta skoðun eftir að ökutæki varð fornökutæki verður annað hvort einu eða tveimur árum síðar, en eftir það á tveggja ára fresti.

    Þó gildir að fornökutæki með fyrstu skráningu á oddatöluári en nýskráningarár á slétttöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2020, skulu færð næst til reglubund­innar skoðunar á árinu 2023 og annað hvert ár eftir það.

    Einnig gildir að fornökutæki með fyrstu skráningu á slétttöluári en nýskráningar á oddatöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, skulu næst færð til reglubund­innar skoðunar á árinu 2024 og annað hvert ár eftir það.

    Skoðunartíðni 1-1-1-1-1...

    Eftirfarandi ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar árlega samkvæmt skoðunar­mán­aðar­reglum þeirra:

    • Fólksbifreið í notkunarflokki leigubifreið.

    • Fólksbifreið í notkunarflokki skólabifreið.

    • Fólks- eða sendibifreið sem flytur fatlaða og hreyfihamlaða í atvinnuskyni og er skráð sem slík.

    • Fólks- eða sendibifreið ætluð til neyðaraksturs og er skráð sem slík.

    • Ökutæki til fólks- eða farmflutninga í atvinnuskyni í notkunarflokkum merktum "(RL)" (undir rekstrarleyfi).

    • Hópbifreið I og II (M2 og M3).

    • Vörubifreið I og II (N2 og N3).

    • Eftirvagn III og IV (O3 og O4).

    • Eftirvagn dráttarvélar III og IV (R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notaður á opinberum vegum.

    Áhrif á skoðunartíðni þegar ökutæki er breytt

    Ef breyta á notkunarflokki ökutækis í notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni þarf ökutækið áður að gangast undir reglubundna skoðun, hafi hún ekki þegar verið framkvæmd á almanaksárinu, óháð skoðunarmánuði viðkomandi ökutækis. Eigi ökutækið ekki að skoðast aðalskoðun á árinu skal þrátt fyrir það notast við aðalskoðun í þessum tilvikum (ekki endurtekna aðalskoðun). Skoðunarmánuð­ur ökutækis uppfærist miðað við nýja notkunarflokkinn. Falli ökutæki undir fleiri en eina skoðunartíðni gildir örasta skoðunartíðnin.

    Framlenging á fresti til endurskoðunar

    Fram til 1. júlí 2025 er heimilt að veita 30 daga frest til viðbótar áður útgefnum fresti vegna endurskoðunar að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Slíkan frest er aðeins heimilt að veita ef ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins. Skoðunarstofa veitir frestinn og getur, teljist þess þörf, óskað eftir staðfestingu á því að framangreind skilyrði undanþágu séu uppfyllt. Veiti skoðunarstofa frestinn skal nýr skoðunarmiði settur á ökutækið eða staðfesting á veittum fresti send eiganda (umráðanda) ökutækis með rafrænum hætti.

    Tíðni annarra skoðana

    Tíðni annarra skoðana er sem hér segir:

    • Ökutæki skráð til flutnings á hættulegum farmi (ADR-ökutæki) skal skoðað árlega og miðast skoðunarmánuður við mánuð síðustu ADR-skoðunar. Sé ökutækið fært til skoð­unar á undan skoðunarmánuði eða eftir þá endurnýjast skoðunarmánuðurinn og er þá miðað við að nýtt 12 mánaða tímabil hefjist. Minnt er þó á að ADR-leyfið fellur niður í lok upphaflegs skoðunarmánaðar sé komið síðar.