Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Skoðun hefst og henni lýkur

    Þegar skoðunarmaður hefur tekið á móti ökutæki til skoðunar, hvort sem er inni í skoðunar­stöð eða við útiskoðun, er miðað við að skoðun sé hafin. Fram að því getur önnur umsýsla vegna skoðunarinnar hafa átt sér stað, svo sem bókun í skoðun eða afgreiðsla vegna skoðunar­innar, en hún telst ekki upphafspunktur skoðunarinnar.

    Öllum skoðunum skal ljúka með niðurstöðu, sbr. j. lið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja. Náist ekki að klára skoðun sem er hafin þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað". Skoðunarstöð getur hafnað skoðun en upp geta líka komið þau tilvik að eigandi (umráðandi) krefst þess að hætt verði við skoðun.

    Skoðunarstöð hafnar því að skoða ökutæki

    Skoðunarstofu er skylt, eftir atvikum, að hafna því að taka ökutæki til skoðunar, og/eða hafna skoðun eftir að hún hefst, í eftirfarandi tilvikum:

    1. Eitthvað af skilyrðum til skoðunar, eins og þau eru rakin í kafla V Skilyrði til skoðana, eru ekki uppfyllt (jafnan yfirfarin áður en skoðun hefst).

    2. Ef í ljós kemur að ökutækið er klakabrynjað eða þakið þannig snjó eða aur að það torveldi skoðun þess.

    3. Ef í ljós kemur að á ökutækinu er farmur eða aðrir hlutir sem eru ekki nægilega vel festir og gætu valdið hættu fyrir skoðunarmann eða skemmdum á búnaði skoðunar­stöðvar.

    4. Ef í ljós kemur að ökutækið er í því ástandi, eða á því er farmur eða aðrir hlutir (þ.m.t. eftirásettir), sem gætu valdið truflun, töf eða verulegum óþægindum við framkvæmd skoðunarinnar, þ.m.t. nauðsynlegra prófana og mælinga.

    5. Ef eigandi (umráðandi) upplýsir að hann hafi hætt við sömu skoðun ökutækisins í annarri skoðunarstöð einhverju áður.

    Við höfnun skoðunar eru þær upplýsingar og dæmingar sem komnar eru á þeim tímapunkti um skoðunina færðar til bókar. Sjá nánar vinnulag við höfnun skoðunar í kafla IX Niðurstöður skoðana.

    Eigandi (umráðandi) vill hætta við skoðun

    Komi upp sú staða að eigandi (umráðandi) óskar eftir að hætta við skoðun sem hafin er, ber skoðunarmanni að upplýsa viðkomandi um að

    • samkvæmt skoðunarreglum þurfi að ljúka öllum skoðunum með niðurstöðu,

    • fái skoðunarmaður ekki að klára skoðunina með eðlilegum hætti muni skoðuninni ljúka með þeirri niðurstöðu að eigandi (umráðandi) hafi viljað hætta við skoðun, og

    • þá eigi skoðunarstofan um leið að senda formlega tilkynningu um þau málalok til Samgöngustofu.

    Krefjist eigandi (umráðandi) ökutækis þess áfram að hætt verði við skoðunina áður en henni er lokið, fer málið í framangreindan feril. Sú undantekning er þó á þessum ferli að hafi skoðunin fram að þessu leitt í ljós að eitt eða fleiri skoðunaratriði hafi hlotið dæmingu 3, er ekki hægt að hætta við skoðun. Jafnframt er áréttað að ekki er hægt að hætta við skoðun sem er lokið.

    Sjá nánar vinnulag við höfnun skoðunar í kafla IX Niðurstöð­ur skoðana.