Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Skilyrði sem eiga við um allar skoðanir

    Alltaf skal uppfylla þessi skilyrði áður en ökutæki er tekið til skoðunar:

    • Rétt skoðun: Að gengið sé úr skugga um að ökutækið sé skráð í rétta skoðunar­tegund miðað við fyrirliggjandi forsendur.

    • Verksmiðjunúmer: Skoðunarstofa skal ávallt athuga hvort verksmiðjunúmer á ökutæki sé í samræmi við skráningu þess í ökutækjaskrá þess þannig að staðfesta megi að um rétt ökutæki sé að ræða. Ef verksmiðju­númer ökutækis er ekki það sama og í ökutækja­skrá, það afmáð, ógreinilegt eða því verið breytt á einhvern hátt, er óheimilt að skoða ökutækið fyrr en frávikið hefur verið lagað. Slík lagfæring er alltaf gerð með aðkomu Samgöngu­stofu (sjá kafla XIII Samskipti við Samgöngustofu). Ef ekki tekst að laga frávikið skal skoðunarstofa hafna skoðun ökutækisins, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun. Sjá einnig skoðunaratriði 0.2 Verksmiðjunúmer í verklagsbók reglubundinna skoðana.

    • Skráningarmerki: Við allar reglubundnar skoðanir skal skoðunarstofa athuga hvort ökutæki beri rétt skráningar­merki, hvort gerð skrán­ingarmerkja sé rétt og þau rétt skráð í ökutækjaskrá. Heimilt er að skoða ökutæki sem er án skráningarmerkja ef ökutækið er skráð úr umferð eða bíður ný- eða endurskráningar. Vanti öll skrán­ingarmerki á ökutæki sem skráð er í umferð er skoðun hafnað. Vanti eina skráningar­merkið á ökutæki (sem á bara að hafa eitt) sem skráð er í umferð, eða merkið er óleyfilegt (t.d. heimatilbúið) eða því hefur verið breytt (t.d. klippt af því), skal hafna skoðun því þá er litið svo á að löglegt skráningarmerki vanti. Sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun. Sjá einnig skoðunaratriði 0.1 Skráningarmerki í verklagsbók reglubundinna skoðana.

    • Lögreglulás: Lögregla getur skráð lögreglulás á ökutæki og tekið lásinn af. Ýmsar ástæður geta legið þar að baki, m.a. að ökutækið sé eftirlýst. Þegar lögreglulás er á ökutæki er m.a. óheimilt að skoða ökutækið og því skal skoðunarstofa athuga það við allar skoðanir. Komi upp slíkt tilvik ber skoðunarstofu að upplýsa bæði viðskiptavin og Samgöngustofu (sjá kafla XIII Samskipti við Samgöngustofu), án frekari aðgerða.

    Skoðunarstofu ber að hafna skoðun uppgötvist það að skilyrði til skoðunar eru ekki uppfyllt, sjá aðferðir við það í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.

    Viðbótarskilyrði er varða einstakar skoðunartegundir

    Hér eru tilgreind þau sérstöku skilyrði einstakra skoðunartegunda sem ganga verður úr skugga um að séu uppfyllt áður en ökutæki er tekið til skoðunar. Áréttað er að þegar skráningarskírteini er skilyrði er átt við íslenskt skráningarskírteini sem þýðir að búið er að nýskrá ökutækið.

    Skilyrði til aðalskoðana

    Áður en aðalskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).

    • Staðfesting á gildri ábyrgðartryggingu (eða rafrænar upplýsingar frá tryggingarfélagi).

    • Staðfesting á greiddum opinberum gjöldum (eða rafrænar upplýsingar frá opinberum aðilum).

    Skilyrði til endurskoðana

    Áður en endurskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýs­ingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).

    • Skoðunarvottorð síðustu skoðunar (þeirrar sem krafðist endurskoðunar) eða sambæri­legar upplýsingar úr ökutækjaskrá (á þó ekki við í endurtekinni aðalskoðun).

    Sé frestur úr fyrri skoðun útrunninn (eða fyrri skoðun lauk með "Notkun bönnuð" og frestur reiknaður út eins og niðurstaðan hefði verið "Endurskoðun") ber að skrá ökutækið í endur­tekna aðalskoðun.

    Skilyrði til breytingaskoðana

    Áður en skoðun vegna breytingar á ökutæki getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).

    • Nauðsynleg fylgigögn eigi það við, s.s. vigtarseðill, samþykktar teikningar eða staðfest­ingu frá Samgöngustofu um að heimilt sé að skrá bifreið í notkunarflokk, sjá nánar skráningareglur ökutækja.

    Skilyrði til skráningarskoðana (allra gerða)

    Áður en skráningarskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráning ökutækisins í forskrá ökutækjaskrár (sambærilegar upplýsingar eins og á skráningarskírteini).

    • Nauðsynleg fylgigögn eigi það við, s.s. vigtarseðill, samþykktar teikningar eða staðfest­ingu frá Samgöngustofu um að heimilt sé að skrá bifreið í notkunarflokk, sjá nánar skráningareglur ökutækja.

    Skilyrði til samanburðarskoðana

    Áður en samanburðarskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráning ökutækisins í forskrá ökutækjaskrár (sambærilegar upplýsingar eins og á skráningarskírteini).

    Skilyrði til aukaskoðana að kröfu lögreglu

    Áður en aukaskoðun að kröfu lögreglu getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).

    • Lögregla hafi boðað ökutækið til aukaskoðunar vegna vanbúnaðar eða hafi fjarlægt skráningarmerki vegna þess að ökutækið var talið ógna umferðaröryggi eða af öðrum ástæðum.

    Skilyrði til ADR-skoðana

    Áður en ADR-skoðanir geta farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:

    • Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).

    • Ökutækið sé skráð ADR-ökutæki eða fyrirliggjandi sé samþykkt ADR-umsókn (sbr. athugasemd í ökutækjaskrá). Skráning sé fyrir þá ADR-flokka sem óskað er skoðunar á.

    • Staðfesting á gildri reglubundinni skoðun eða aðalskoðun tekin samhliða.