Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Markmið eftirlits með framkvæmd skoðana

    Markmið með eftirliti með skoðunum er að:

    • Tryggja að farið sé eftir kröfum skoðunarhandbókar við framkvæmd skoðana.

    • Tryggja að farið sé eftir kröfum um aðstöðu og búnað sem notaður er við skoðanir.

    • Samræma skoðanir einstakra skoðunarmanna (tölfræðilega).

    • Samræma starfsemi skoðunarstofa (tölfræðilega).

    • Hindra misnotkun á skoðunarstofukerfinu (m.a. að viðskiptavinir fari á milli stöðva).

    • Lágmarka rangar skráningar á skoðunum í ökutækjaskrá.

    Lýsing á eftirliti með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða er í kafla VI reglu­gerðar um skoðun ökutækja.

    Innra eftirlit skoðunarstofa

    Í reglugerðinni eru m.a. settar fram eftirfarandi kröfur um eigið eftirlit skoðunarstofa með reglubundnum skoðunum (á eingöngu við skoðunarstofu af gerð A):

    • Til þess að samræma skoðanir einstakra skoðunarmanna og starfsemi skoðunarstofa skulu skoðunarstofur haga starfi sínu þannig að dæmingar skoðunarmanna og skoðunarstofa á einstökum sviðum skoðana og niðurstöður skoðana verði innan ákveðinna frávika. Þessi samræming á við um aðalskoðanir allra ökutækja sem skoðuð eru á sex mánaða tímabili hverju sinni og skulu skoðunarstofur geta framvísað slíku yfirliti.

    • Nú fullnægir eftir atvikum skoðunarstofa eða skoðunarmaður ekki kröfu um að vera innan tiltekinna frávika og skal þá skoðunarstofan gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. veita skoðunarmönnum fræðslu og gera Samgöngustofu grein fyrir ástæðum frávika.

    Samanburður á dæmingum skoðunaratriða milli skoðunarmanna

    Reiknað er út hvernig dæmingar ákveðinna hópa skoðunaratriða skiptast (hlutfall dæminga 1, 2 og 3). Gert mánaðarlega fyrir aðalskoðanir síðustu sex mánaða, annars vegar fyrir sérhvern skoðunar­mann og hins vegar fyrir skoðunarstofuna í heild (meðaltal). Hlutföll skoðunarmanna eru svo borin saman við heildarhlutföll skoðunarstofunnar. Skoðunarmenn utan tveggja stað­alfrávika frá meðaltali skoðunarstofunnar skal skoða sérstaklega.

    Hópar skoðunaratriða í skoðunarhandbók eru fjórir; öll skoðunaratriði í kafla 1 (hemlabún­aður), öll atriði í kafla 2 (stýrisbúnaður), öll atriði í kafla 4 (ljósabúnaður) og öll atriði í kafla 5 (hjól o.fl.).

    Samanburður á niðurstöðum skoðana milli skoðunarmanna

    Reiknað er út hvernig niðurstöður skoðana skiptast (hlutfall niðurstaðna 0, 1, 2 og 3). Tekið út mánaðar­lega fyrir aðalskoðanir síðustu sex mánaða, annars vegar fyrir sérhvern skoðunar­mann og hins vegar fyrir skoðunarstofuna í heild (meðaltal). Skoðunarmenn utan tveggja staðalfrávika frá meðaltali skoðunarstofunnar skal skoða sérstaklega.

    Eftirlit Samgöngustofu

    Samgöngustofa hefur eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók og eftirlit með tæknilegum stjórnendum og viður­kenndum skoðunarmönnum. Skal Samgöngustofa í því sambandi hafa aðgang að húsnæði, tækjum og gögnum sem notuð eru við skoðun ökutækja.

    Samgöngustofa getur falið öðrum athugun þess hvort skilyrði viðurkenningar eru fyrir hendi svo og eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða, og skal sá aðili hafa nauðsynlega hæfni til að meta gæði starfseminnar.

    Samgöngustofa setur nánari verklagsreglur um eftirlitið sem aðgengilegar eru á rafrænu formi úr stoðriti. Markmiðið er að eftirlitið byggi á vel skilgreindu stjórnunarkerfi, atvikaskráningu og áhættugreiningu. Í megindráttum felst eftirlit Samgöngustofu í eftirfarandi þáttum:

    • Framkvæmd skoðana á skoðunarstofum. Skoðunarstöðvar eru heimsóttar árið um kring og fylgst með skoðunarmönnum að störfum og aðstaða skoðuð. Brugðist við frávikum eftir efni og eðli þeirra og áhersla á að gripið sé til ráðstafana þegar við á.

    • Samanburðarskoðanir milli skoðunarstofa (hulduskoðanir). Hér er um samanburð á fram­kvæmd skoðunar á einstökum ökutækjum milli skoðunarstofa. Sömu ökutækin eru þá færð á fleiri en eina skoðunarstöð. Farið er yfir niðurstöður með tæknilegum stjórn­endum og ráðstafanir til úrbóta kortlagðar.

    • Skoðanir sem hætt er við. Þegar skoðunarstofa lýkur skoðun með niðurs­töðunni „Skoðun hafnað“ er farið yfir ástæður þess. Ef ætla má að ósamræmi gæti í framkvæmd skoðana milli skoðunarstöðva er það skoðað betur í samvinnu við skoðunarstofurnar og mögulega fylgt eftir með því að boða viðkomandi ökutæki í skoðun á ný.

    • Rafrænt rauntímaeftirlit með innsendingu skoðana. Allar innsendar skoðanir eru athugaðar um leið og þær berast. Fylgst er með því að innihaldið sé í samræmi við skoðunarhand­bók og ökutækisflokk, að ekki vanti gildi eða þau séu utan skilgreindra marka. Frávik eru tilkynnt innsendingaraðila um leið innsend skoðun er móttekin.

    • Tölfræðilegar samantektir og samanburður. Margvíslegur samanburður er unninn upp úr skoðunum skoðunarstofa til að gefa sem gleggsta mynd af samræmi milli skoð­unarstofa og skoðunarmanna, m.a. tölfræði úr innra eftirliti skoðunarstofanna eins og lýst er í fyrri kafla fyrir allar skoðunarstofurnar í heild. Upplýsingar þessar eru aðgengi­legar fyrir skoð­unar­stofur á rafrænu formi.

    • Úrvinnsla ábendinga. Unnið er úr ábendingum sem berast Samgöngustofu er varða framkvæmd einstakra skoðana eða frammistöðu skoðunarstofu. Ábendingar geta borist m.a. frá viðskiptavinum skoðunarstofanna (m.a. þeim sem ekki vilja una niður­stöðu skoðana, sbr. 47. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja), stjórnvöldum eða eftir­litsaðilum.

    Viðbrögð við frávikum

    Verði skoðunarstofa eða skoðunarmaður uppvís að ámælisverðum vinnubrögðum getur farið svo að Samgöngustofa svipti skoðunarmann viðurkenningu annað hvort tímabundið eða varanlega, eða endurskoði viðurkenningu skoðunarstofunnar. Allar slíkar ákvarðanir hafa aðdraganda og gefst skoðunarstofu þar tækifæri til að bæta úr. Ákvarðanirnar eru kæranlegar til ráðuneytis. Í verklagsreglum einstakra eftirlitsþátta í fyrri kafla er að finna möguleg viðbrögð við frávikum, en þau geta verið þessi:

    • Fylgi skoðunarmaður ekki reglum skoðunarhandbókar um skoðun ökutækja, getur Samgöngustofa krafist þess að viðkomandi ökutæki sé fært til skoðunar á ný. Samgöngustofa getur jafnframt krafist þess að viðkomandi skoðunarmaður sitji sérstakt námskeið og sinni ekki skoðunarstarfi fyrr en að loknu námskeiði.

    • Verði skoðunarmaður ítrekað uppvís að ámælisverðum vinnubrögðum sem ekki eru í samræmi við skoðunarhandbók um skoðun ökutækja getur Samgöngustofa svipt viðkomandi skoðunarmann viðurkenningu. Á sama hátt getur Samgöngustofa endur­skoðað viðurkenn­ingu skoðunarstofu verði starfsmenn hennar ítrekað vísir að ámælis­verðum vinnubrögðum.

    • Samgöngustofu er heimilt að breyta niðurstöðum skoðunar, sem skoðunarmaður framkvæmir, ef dæming og niðurstaða skoðunar, eru augljóslega rangar.