Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Aðrar verklagsbækur

    Efni kaflans

    Umfang samanburðarskoðunar

    Við samanburðarskoðun fer fram athugun á því hvort gerðarviðurkennt nýtt ökutæki sé í samræmi við það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá og hvaða upplýsingar það eru sem á eftir að skrá.

    • Ökutækið er auðkennt: Tryggja verður að um rétt ökutæki sé að ræða. Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn. Þessu er lýst í kafla 0 í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu (nema náist að leiðrétta í samvinnu við Samgöngustofu).

    • Samanburður gerður á útfærslu ökutækisins við það sem forskráð hefur verið í ökutækjaskrá: Það sem fært hefur verið í ökutækjaskrá byggir á upplýsingum sem Samgöngustofa hefur fengið með umsókn um forskráningu og mögulega aflað úr öðrum skrám eða með öðrum hætti. Ekki má gera breytingar á ökutæki frá því sem viðurkennt hefur verið áður en það er fært til samanburðarskoðunar. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.

    • Upplýsinga aflað af ökutækinu og réttar upplýsingar tilkynntar: Í forskráningarferli gerðarviðurkenndra ökutækja er yfirleitt búið að skrá allar upplýsingar en mögulega gæti átt eftir að skrá einstaklingsbundin atriði sem sjá má á ökutækinu, til dæmis lit eða hjólbarðastærð. Færist þá ábyrgðin til skoðunarstofu um að tilkynna þau. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.

    • Ástand ökutækisins: Ekki fer fram nein skoðun á ástandi ökutækisins fyrir utan skoðun á stillingu aðalljósa og því hvort tjón er á ökutækinu. Þessu er nánar lýst í kaflanum um yfirferð og skráningu tækniupplýsinga á gerðarviðurkenndu ökutæki í skráningareglum ökutækja.

    • Skráningarhæfi ökutækisins metið miðað við ofangreint: Ólíklegt er að eitthvað geri það að verkum að skoðun og skráningu ökutækis skuli hafnað í lok samanburðarskoðunar. Það er þó möguleiki og þeim tilvikum er lýst á hverjum stað fyrir sig.


    Frávik og niðurstaða samanburðarskoðunar

    Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta á meðan á framkvæmd skoðunarinnar stendur (í samvinnu við Samgöngustofu) skal hafna skoðun og er þá óheimilt að nýskrá ökutækið. Ef frávik stafar af mistökum hjá Samgöngustofu er reynt að leiðrétta þau án tafar.

    • Niðurstaða samanburðarskoðunar er almennt 0 (án athugasemda).

    • Þurfi að hætta við samanburðarskoðun fær hún niðurstöðuna 13 (hætt við skoðun). Þá er ekki heimilt að nýskrá.

    Um framkvæmd nýskráningar og yfirferð annarra skilyrða er vísað til handbókar um skráningareglur ökutækja, annars vegar kafla um skráningu tækniupplýsinga og um nýskráningu.


    Kröfur til skoðunarmanna

    Gerð er krafa um að skoðunarmaður hafi verið viðurkenndur samkvæmt eftirfarandi (gildir frá 01.01.2026):

    • V-viðurkenning (sérstakar skoðanir)

    • G-, B- og S- viðurkenning, eftir því sem við á miðað við stærð ökutækja og ökutækjaflokka.


    Lög og reglur

    Stjórnvaldskröfur sem skjalið byggir á er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.

    • Reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021.