Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. nóvember 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Efni kaflans

    Yfirferð í samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun

    Forskráning gerðarviðurkenndra ökutækja byggir á gögnum frá bæði framleiðanda og gerðarviðurkenningaraðila og á að endurspegla nákvæma gerð og búnað viðkomandi ökutækis. Gerðarviðurkennt ökutæki er auðkennt í ökutækjaskrá með textunum "Nýtt gvk." eða "Notað gvk." í reitnum "Innflutningsástand".

    Við samanburðarskoðun (sem framkvæmd er á skoðunarstofu ökutækja) og fulltrúaskoðun (sem framkvæmd er af fulltrúa B hjá umboði) fer fram athugun á því hvort gerðarviðurkennt ökutæki sé í samræmi við tilteknar upplýsingar sem forskráðar hafa verið í ökutækjaskrá. Einnig til að skrá tilteknar viðbótarupplýsingar sem ekki hafa verið skráðar við forskráningu.

    Óheimilt er með öllu að gera breytingar á gerðarviðurkenndu ökutæki áður en það er nýskráð. Gildir það um öll gerðarviðurkennd ökutæki sem verið er að nýskrá, hvort sem þau eru viðurkennd sem ný eða notuð. Þetta gildir um allar breytingar sem hafa áhrif á skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá. Uppgötvist við skoðun að ökutækinu hefur verið breytt skal hafna skoðun og nýskráningu (sjá um aðferðir við úrlausn neðar).

    Komi upp vafatilfelli í forskráningarferlinu þá er henni læst með nýskráningarlás og umráðanda á forskráningu tilkynnt um það. Í þeim tilvikum verður skoðunarstofan eða fulltrúi, eftir atvikum, að vera í sambandi við tæknideild Samgöngustofu þegar skoðunin fer fram til að heimilt verði að aflétta lásnum.

    Minnt er á að samanburðarskoðun og fulltrúaskoðun er síðasta skref á viðurkenningu ökutækis til skráningar og notkunar hérlendis. Afar áríðandi er því að vanda vel til verka.

    Auðkenni ökutækis og viðurkenning

    Yfirfara skal neðangreind atriði og bera saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá. Þegar skylda er að skrá gildi eða heimilt er að breyta þeim eða leiðrétta í skoðun, þá tilkynnir fulltrúi A á eyðublaði US.129 (fulltrúaskoðun), fulltrúi C á eyðublaði US.112 (skráning þjóðargerðarviðurkennds tengibúnaðar) og skoðunarmaður skoðunarstofu á rafrænu eyðublaði US.111 (breytingablað). Ef um frávik er að ræða, sem ekki er hægt að leiðrétta með þeim aðferðum sem lýst er, skal hafna skoðun og skráningu, sjá þó sérstakt verklag er varðar ófullgerð ökutæki.

    Verksmiðjunúmer

    Sérstök áhersla er lögð á að allt verksmiðjunúmerið sé skoðað og vandlega borið saman við skráningargögn.

    • Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og skráð er á ökutækið.

    Gerðarviðurkenning

    Ganga skal úr skugga um að ökutæki sé í samræmi við þá gerð sem það er skráð eftir, að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað (á bara við í fulltrúaskoðun, ekki þörf á að gera þetta í samanburðarskoðun).

    • Það telst frávik ef fulltrúi verður var við annmarka hvað varðar skráningu á gerð.

    Ósamræmi sem þarfnast aðgerða

    Við fulltrúaskoðun og samanburðarskoðun skal yfirfara neðangreind atriði og bera tæknilega útfærslu ökutækisins saman við það sem hefur verið skráð í ökutækjaskrá.

    • Ef um frávik er að ræða skal hafna skoðun og skráningu.

    • Þegar ósamræmi sem heimilt er að laga uppgötvast í fulltrúaskoðun þá tilkynnir fulltrúi um rétt gildi (US.129) og lætur fylgja með nýskráningarbeiðni. Þegar ósamræmið uppgötvast í samanburðarskoðun þá tilkynnir skoðunarmaður um rétt gildi á rafrænu eyðublaði um breytingu á ökutæki (US.111), stundum gæti þurft að skrá upplýsingarnar sem athugasemd.

    Litur ökutækis

    Bera skal saman skráðan lit og lit á ökutæki. Við val á lit úr lista yfir mögulega liti er horft til þess að hann sé fyrst og fremst notaður til að geta auðkennt ökutækið við ýmis tækifæri, s.s. við eftirlýsingu eða í leigubílaöppum.

    • Það telst EKKI ósamræmi ef lit vantar eða litur er rangur í ökutækjaskrá. Réttur litur skal tilkynntur.

    Þyngdartölur

    Bera skal saman þyngdartölur sem skráðar hafa verið í ökutækjaskrá við það sem stendur á ökutæki. Um er að ræða leyfða heildarþyngd (reit F.1), leyfðar ásþyngdir (reiti N.x) og hámarksþyngd vagnlestar (skráð athugasemd). Þessar tölur eru skráðar á upplýsingaspjaldi ökutækja sem að auki inniheldur verksmiðjunúmer ökutækisins. Í bifreiðum og dráttarvélum er spjaldið yfirleitt í hurðarstaf, á eftirvögnum er það yfirleitt fremst á grindarbita og á bifhjólum er það yfirleitt á grind (þó stundum undir sæti eða hlíf sem auðvelt er að fjarlægja).

    • Það telst frávik ef skráð gildi í ökutækjaskrá er ekki það sama og er á ökutækinu, eða upplýsingar vantar á ökutækið. Það telst ekki frávik ef þyngdartölur vantar í ökutækjaskrá en eru til staðar á ökutækinu en upplýsa skal Samgöngustofu (með athugasemd).

    Ljósabúnaður

    Athuga skal hvort aðalljósker (lágljós og háljós) séu rétt ljósastillt og stilla þá ljósin rétt ef þörf er á. Einnig er æskilegt að farið sé yfir ljósabúnaðinn að öðru leyti (ljósker, glitaugu og glitmerkingar ef þær eru til staðar) þegar um nýjar gerðir er að ræða, stærri ökutæki eða ökutæki í sérstökum notkun (t.d. húsbifreiðir). Reglur um ljósabúnað er að finna í skoðunarhandbók ökutækja.

    • Það telst frávik ef ekki er hægt að stilla aðalljós rétt eða ef það uppgötvast að óleyfilegur ljósabúnaður er á ökutækinu.

    Farþegafjöldi (sæti og stæði)

    Bera skal saman skráðan sætafjölda og sætafjölda í ökutæki. Um er að ræða sætafjölda (reit S.1) og stæðafjölda (reit S.2) sé um hópbifreið að ræða. Undir sætafjölda falla öll sæti ökutækisins (fyrir farþega og áhöfn), hvort sem þau eru föst eða fyrir hjólastóla (á hjólastólasvæði). Öll föst sæti bifreiða og dráttarvéla verða að hafa öryggisbelti (þó þurfa farþegasæti strætisvagna ekki að hafa öryggisbelti).

    • Það telst frávik ef sætafjölda ber ekki saman á einhvern hátt (og líka ef skráningu á sætafjölda vantar í ökutækjaskrá).

    • Það telst frávik ef skilti um farþegafjölda í hópbifreið er ekki í samræmi við ökutækið og skráðar upplýsingar.

    • Það telst frávik ef áskilið öryggisbelti vantar.

    Hjólbarðastærð

    Bera skal saman hjólbarðastærð ökutækis og skráða hjólbarðastærð. Öll rittákn í skráðri hjólbarðastærð skulu stemma saman.

    • Það telst frávik ef hjólbarðastærð ökutækis (annarra en dráttarvéla) er önnur en skráð er og sú stærð er ekki í lista yfir leyfilegar stærðir samkvæmt gerðarviðurkenningu.

    • Það telst EKKI frávik þegar í ljós kemur að hjólbarðastærð ökutækis er önnur en skráð er (eða hana vantar í ökutækjaskrá) en hana er að finna í lista yfir leyfilegar stærðir samkvæmt gerðarviðurkenningu. Í tilviki dráttarvéla eru leyfilegar stærðir ekki uppgefnar og því þarf ekki að bera saman við lista þar. Rétt hjólbarðastærð er tilkynnt.

    Lengd og breidd

    Sé tilefni til skal mæla bæði lengd og breidd og bera saman við skráð gildi. Á það helst við nýskráningu dráttarvéla (sem afhentar eru á breiðari hjólbarðagerðum), festivagna (vélaflutningavagnar sem eru breiðari og jafnvel lengri) og vöruflutningabifreiða (breiðari vegna yfirbyggingar). Séu ökutæki utan hámarksstærðarmarka eiga þau að vera á undanþágumerkjum eða utanvegamerkjum.

    • Það telst frávik ef lengd eða breidd ökutækja mælist meiri en skráðar upplýsingar. Athuga að þegar hægt er að breyta lengd ökutækis eða breidd þess með einföldum hætti skal sýnt fram á að það sé hægt svo lengd og breidd passi við það sem skráð er.

    • Það telst EKKI frávik ef lengd eða breidd ökutækja mælist minni en skráðar upplýsingar. Rétt lengd og breidd er tilkynnt.

    • Það telst frávik ef stærð ökutækis mælist utan hámarksstærðarmarka og skráningarmerkin til afhendingar eru önnur en undanþágumerki eða utanvegamerki.

    Tengibúnaður (ekki viðurkenndur)

    Heimilt er að tilkynna að á ökutæki sé kominn þjóðargerðarviðurkenndur tengibúnaður (sem fulltrúi C getur skráð) eða tilkynna tengibúnað sem er hluti af gerðarviðurkenningu frá framleiðanda.

    • Það telst frávik ef óviðurkenndur tengibúnaður hefur verið settur á ökutækið fyrir nýskráningu. En þegar það hefur gerst fyrir mistök eða vanþekkingu er fulltrúa við fulltrúaskoðun heimilt að leyfa nýskráningu á ökutækinu að þeim skilyrðum uppfylltum að ökutækið verði ekki afhent fyrsta eiganda fyrr en tengibúnaður hefur verið skráður. Við samanburðarskoðun á skoðunarstofu má af sömu ástæðum leyfa nýskráningu á ökutækinu að uppfylltum þeim skilyrðum að tengibúnaður verði strax í kjölfarið tekinn út og samþykktur. Áríðandi er að gera þessa úttekt eftir að ökutækið hefur verið nýskráð af því að breytingaskoðun má ekki koma inn á undan fulltrúaskoðun eða samanburðarskoðun.

    • Það telst EKKI frávik ef settur hefur verið á ökutæki þjóðargerðarviðurkenndur tengibúnaður eða á ökutæki er tengibúnaður sem er hluti af heildargerðarviðurkenningu þess. Í fyrra tilvikinu er hann tilkynntur af fulltrúa C (US.112) og í því síðara af fulltrúa A (merkt við að ökutækið sé búið gvk-tengibúnaði frá framleiðanda) (US.112-1). Ef tengibúnaðurinn er úttekinn og samþykktur af skoðunarstofu er ásetning hans tilkynnt á US.111 (skrifa í athugasemdareit tækniupplýsingar um dráttarstól).

    Skermun hjóla á bifhjólum

    Hjól bifhjóls skulu búin hjólhlífum sem uppfylla kröfur um skermun hjóla samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Ef ástæða er til skal þetta skoðað (fjölbreytileiki hjólhlífa getur verið nokkur og nota þarf réttar hjólhlífar).

    • Það telst frávik ef hjólhlífar uppfylla ekki kröfur um skermun hjóla sem lýst er í skoðunarhandbók ökutækja (skermun hjóla).

    Áletranir í hópbifreiðum (merkingar)

    Áletranir í hópbifreiðum skulu yfirfarnar og tryggt að þær séu í samræmi við kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Um er að ræða varúðarskilti, skilti um fjölda farþega og leiðsögumenn, skilti um hámarksþyngd farangurs, um staðsetningu slökkvi- og sjúkrakassa, og um bann við reykingum.

    • Það telst frávik ef merkingar uppfylla ekki kröfur um áletranir, lit, stærð og staðsetningu eins og þeim er lýst í skoðunarhandbók ökutækja (skoðunaratriði 9.9 Áletranir í hópbifreiðum).

    Ökutæki breytt eða tjón er á ökutæki

    Ökutæki á augljóslega að vera heilt og ekki vera skemmt eða tjónað. Ökutæki má ekki hafa verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda.

    • Það telst frávik ef tjón sést á ökutækinu eða það sést að (augljóslega léleg) viðgerð á fyrra tjóni hefur farið fram.

    • Það telst frávik hafi ökutæki verið breytt í veigamiklum atriðum frá útfærslu framleiðanda. Það ætti að vera alveg augljóst að það hafi verið gert.

    Annar samanburður og skráningar

    Staða akstursmælis

    Akstursmælir er í flestum vélknúnum ökutækjum. Sé hann ekki til staðar er staðan 1 (talan einn) tilkynnt. Sé akstursmælir til staðar er ætlast til að staða hans sé lesin og tilkynnt. Vanda verður til verka við aflestur og skráningar svo sem minnst hætta sé á mistökum. Ekki skiptir máli í hvaða mælieiningu mælirinn er (ætti þó að vera í km), alltaf skal skrá þá stöðu sem stendur á mælinum óháð mælieiningu (aldrei á að umreikna milli eininga).

    Notkunarflokkur

    Notkunarflokkur er almennt skráður sem "Almenn notkun" en gæti líka verið annar við forskráningu. Heimilt er að tilkynna um breytingu úr notkunarflokknum "Almenn notkun" yfir í notkunarflokkana "Ökutækjaleiga", "VSK-ökutæki" og "Sendiráðsökutæki". Aðrar breytingar á notkunarflokkum er óheimilt að tilkynna (gera verður breytingaskoðun eftir að nýskráning hefur farið fram - og minnt aftur á að ekki má vera búið að breyta ökutækinu vegna hins nýja notkunarflokks á þessum tímapunkti, sé þörf slíkra breytinga).

    Skráningarflokkur (skráningarmerki)

    Með skráningarflokki er átt við þann flokk sem skráningarmerki ökutækisins tilheyra t.d. almenn-, vsk- eða sendiráðsmerki. Mikilvægt er að tilkynna réttan flokk í samræmi við þau merki sem sett hafa verið á ökutækið.

    Aðferðir til úrlausnar ef hafna hefur þurft skoðun og skráningu

    Umsækjandi um forskráningu (umráðandi á forskrá) og/eða fyrsti eigandi geta leitað lausna á misræmi á skráningarupplýsingum í samvinnu við Samgöngustofu.

    Stafi frávik af mögulegum skráningarmistökum er haft samband við Samgöngustofu og leitað leiða til leiðréttingar. Þær leiðréttingar verða að hafa farið fram áður en fulltrúaskoðun er kláruð (og fyrir nýskráningu).

    Hafi ökutæki verið breytt frá viðurkenningu er nærtækasta lausnin að breyta því baka aftur í upprunalegt horf og færa það á ný til skoðunar. Teljist það ekki raunhæfur möguleiki má leita lausna í samvinnu við Samgöngustofu, sem m.a. geta falist í því að skila inn viðbótargögnum eða breyta viðurkenningu ökutækisins sem mögulega krefst sérstakrar skoðunar. Gera verður ráð fyrir því að úrlausn taki tíma og ekki takist að leysa úr öllum málum.

    Náist ekki að leysa úr málinu fæst ökutækið ekki nýskráð, t.d. þegar rétt gögn berast ekki eða breytingar teljast óheimilar eða óöruggar.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu fyrir nýskráningu er 5.827 krónur og einnig skal innheimta umferðaröryggisgjald 500 krónur.

    • Samgöngustofa tekur ekki gjöld vegna samanburðarskoðunar eða fulltrúaskoðunar.

    • Gjald Samgöngustofu fyrir leiðréttingar á viðurkenningu sem eiga upptök sín í röngum upplýsingum frá umboði er 1.071 króna.

    • Gjald Samgöngustofu fyrir mat á nýjum gögnum er varðar viðurkenningu eða aðra úrlausn vegna þess að hafna hefur þurft skoðun eða skráningu er innheimt tímavinna samkvæmt gjaldskrá, 11.008 krónur á klukkutíma.

    Tölvuvinnsla

    Þjónustuaðilar nota eigin kerfi við að tengjast vefþjónustunum Samgöngustofu.