Skoðunarhandbók ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.
Skoðunarkerfið
Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í framkvæmd.
Efni kaflans
Til skoðunarmanna
Tilgangur þessarar skoðunarhandbókar er að vera uppflettirit og leiðarljós í störfum þínum sem skoðunarmanns ökutækja.
Þér sem skoðunarmanni er ekki ætlað að leggja öll atriði eða innihald skoðunarhandbókarinnar á minnið, heldur að þekkja skoðunarhandbókina með kunnáttu til uppflettingar í henni, og þekkja skoðunaraðferðir og ástæður bilana til að tryggja að skoðanir séu ávallt vandaðar og bestu aðferðum sé beitt.
Skoðun er í raun athugun á viðhaldi og ástandi og byggist á tækniþekkingu og búnaði sem til staðar er án þess að þú notir verkfæri til að taka hluti í sundur eða fjarlægir einhvern hluta ökutækisins. Nákvæmt mat á hönnun og samsetningu ökutækisins er ekki hluti af starfi þínu sem skoðunarmanni.
Hins vegar, þegar tiltekið er að aðferð við skoðun eigi að vera sjónræn og slík sjónræn skoðun er ekki nægileg til að meta ástand hlutar, er ætlast til að þú skoðir hlutinn nánar með því annars vegar að nota verkfæri eins og spegil, hamar, ryðmatsáhald eða vírbursta, eða með því að beita átaki, með eða án notkunar verkfæra.
Þar sem ekki er gerlegt að útlista leyfilegt slit og vikmörk fyrir allar gerðir íhluta í mismunandi gerðum ökutækja, eða ásættanleg mörk í virkni íhluta vegna skemmda, þá er ætlast til að þú sem skoðunarmaður notir reynslu þína og dómgreind við mat á ástandi þeirra. Þér ber þó ætíð að miða við slitmörk íhluta sem framleiðandi hefur útvegað upplýsingar um og tiltækar eru í skoðunarhandbókinni.
Í þessari skoðunarhandbók eru meginforsendurnar sem nota á við mat á göllum; að skoða hvort ástand íhlutarins hafi versnað það mikið að líklegt sé að aksturshæfni ökutækisins sé óviðunandi (notkun hættuleg/bönnuð) eða ef ástand íhlutarins er greinilega komið á það stig að skipta ætti um hann, gera við hann eða stilla betur (minniháttar eða meiriháttar annmarkar).
Mundu, að þér sem skoðunarmanni ber að fylgja reglum skoðunarhandbókarinnar og skoða öll viðeigandi skoðunaratriði. Þú mátt ekki undir neinum kringumstæðum gefa út skoðunarvottorð fyrir ökutæki sem var ekki skoðað í samræmi við skoðunarhandbók þessa.
Laga- og reglugerðagrunnur
Skoðunarhandbók þessi er gefin út af Samgöngustofu með vísan til reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 414/2021 með síðari breytingum, sem sett er samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019 með síðari breytingum.
Skoðunarhandbókin uppfyllir ákvæði í ESB tilskipun nr. 2014/45 með síðari viðbótum um reglubundnar prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra, hér eftir kölluð tilskipun ESB um skoðun ökutækja. Skoðunarhandbókin uppfyllir einnig skilyrði 44. greinar reglugerðar um skoðun ökutækja um útgáfu Samgöngustofu á handbókum fyrir ADR-skoðanir og leyfisskoðun ökutækja, sem og um setningu verklagsreglna um sérstaka skoðun annarra ökutækja.
Tæknilegar kröfur sem liggja til grundvallar aðfinnslum má sjá í lista yfir kröfuskjöl.
Umfang skoðana
Skoðunarhandbókin er ætluð til nota við eftirfarandi skoðanir sbr. 3. gr., 8. gr. og VII kafla reglugerðar um skoðun ökutækja, og sbr. 25. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004:
Aðalskoðun: Reglubundin skoðun ökutækja (aðalskoðun). Ökutæki skal skoðað með reglubundnum hætti á meðan það er skráð í umferð, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.
Endurskoðun: Ökutæki skal fært til endurskoðunar ef niðurstaða fyrri skoðunar er „Endurskoðun“ eða „Notkun bönnuð“. Á það bæði við reglubundna skoðun og sérstaka skoðun, sbr. 8. gr. og 40. gr. reglugerðarinnar.
Breytingaskoðun: Skoðun vegna breytingar á ökutæki (breytingaskoðun), sbr. 39. gr. reglugerðarinnar. Áður en skráningu ökutækis er breytt, skal skoða ökutækið sérstaklega til þess að ganga úr skugga um að breytingin sé í samræmi við gerðar- og búnaðarkröfur.
Skráningarskoðun: Áður en skráningarviðurkennt ökutæki er nýskráð í ökutækjaskrá og tekið í notkun skal það skoðað (skráningarskoðun), sbr. 35. gr. reglugerðarinnar. Skráningarskoðun samsvarar fyrstu reglubundinni skoðun (aðalskoðun). Skráningarskoðun á einnig við ökutæki sem skrá á aftur eftir að hafa verið afskráð í ökutækjaskrá.
Samanburðarskoðun: Áður en nýtt gerðarviðurkennt ökutæki er nýskráð í ökutækjaskrá og tekið í notkun skal það skoðað til að ganga úr skugga um að það sé í samræmi við skráningu þess í ökutækjaskrá (fulltrúa- og samanburðarskoðun), sbr. 36. gr. reglugerðarinnar. Þessi skoðun er sambærileg fulltrúaskoðun ökutækjaumboða og er hugsuð fyrir þau ökutæki sem ekki eiga kost á fulltrúaskoðun vegna þess að þau eru flutt inn af öðrum en umboði eða viðkomandi umboð er án fulltrúa.
ADR-skoðanir: Skoðun ökutækis sem skráð er til flutnings á hættulegum farmi (ADR-skoðun) og skoðun vegna skráningar á ökutæki til slíks flutnings (ADR-viðurkenningarskoðun). Við skoðun þessara ökutækja skal ganga úr skugga um að búnaður ökutækisins í því sambandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra flutninga sem gerðar eru í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi, sbr. 37. gr. reglugerðarinnar.
Leyfisskoðun: Skoðun ökutækja sem skráð eru til flutnings farþega og farms í atvinnuskyni. Við skoðun þessara ökutækja skal ganga úr skugga um að þau uppfylli viðeigandi kröfur sem Samgöngustofa gerir í þessari skoðunarhandbók, sbr. 38. gr. reglugerðarinnar.
Endurmat tjónaökutækja: Faggiltar skoðunarstofur framkvæma endurmat á tjónaökutæki I, sé óskað eftir því. Endurmat getur leitt til niðurfellingar á tjónaskráningu eða að ökutæki teljist tjónaökutæki II.
Umfang skoðunaratriða
Í 19. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja er tilgreint að við skoðun skuli:
Athuga hvort ökutæki sé í lagi, hvort finna megi á því galla eða bilanir sem geri það óöruggt í umferð (sjá verklagsbækur).
Athuga hvort óeðlileg breyting hafi orðið á stöðu akstursmælis ökutækis (sjá verklagsbækur).
Athuga hvort ökutæki valdi meiri mengun umhverfisins en heimilt er (sjá verklagsbækur).
Athuga atriði sem eru í ósamræmi við tilskilin gildi (sjá verklagsbækur).
Staðfesta að samræmi sé á milli ökutækis og skráningargagna, hvort ökutækið sé rétt skráð og hvort verksmiðjunúmer þess sé í samræmi við ökutækjaskrá (sjá kafla VI Framkvæmd skoðana og samanburður við skráningu, kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja, og handbókarhluta).
Tryggja að skráningarmerki séu á ökutækinu við skoðun. Séu skráningarmerki ekki á ökutækinu skal tryggja að skráningarmerkin og svæði fyrir þau á ökutækinu séu skoðuð. Óheimilt er að afhenda eða setja innlögð skráningarmerki á ökutæki ef niðurstaða skoðunar er „Notkun bönnuð“ (sjá kafla V Skilyrði til skoðana).
Skoða búnað sem tilgreindur er í skoðunarhandbók en ekki er gerð krafa um í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, þar með talinn gasbúnað (sjá verklagsbækur).
Skoða ljósa- og merkjabúnað sem ekki er gerð krafa um en heimilt er að nota samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja (sjá verklagsbækur).
Umfang ökutækja
Skoðunarhandbók þessi tekur til skoðunar á öllum skoðunarskyldum ökutækjum sem skráð eru hér á landi. Þau eru:
Bifreiðir (M1, M2, M3, N1, N2, N3).
Eftirvagnar (O1, O2, O3, O4). Í flokki O1 er einungis skylt að skoða reglubundinni skoðun (og skrá) ferðavagna (tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi).
Létt bifhjól (L1e, L2e, L6e) í flokki II og bifhjól (L3e-L7e).
Dráttarvélar (T, C). Skylt er að skrá þær (og skoða við skráningu) en einungs á að skoða reglubundinni skoðun þær sem skráðar eru aðallega til notkunar í almennri umferð og hannaðar eru til aksturs yfir 40 km/klst (sérstakur notkunarflokkur).
Eftirvagnar dráttarvéla (R, S). Skylt er að skrá (og skoða við skráningu) þá eftirvagna sem eru aðallega notaðir í almennri umferð en einungis á að skoða reglubundinni skoðun þá þeirra sem hannaðir eru til aksturs yfir 40 km/klst.
Skoðunarstofu er heimilt skoða og gefa út skoðunarvottorð fyrir ökutæki sem skráð er erlendis en er í notkun hér á landi. Í þeim tilvikum gilda ekki þær kröfur handbókarinnar sem augljóslega eiga ekki við, svo sem um ýmis skilyrði til skoðana, samanburð á skráningu ökutækis við ökutækjaskrá og skráningu skoðunar á rafrænt form og skil hennar til Samgöngustofu. Á skoðunarvottorði skulu áskildar upplýsingar tilgreindar eins ítarlega og unnt er og það þarf ekki að vera á öðru tungumáli en íslensku. Nota ber skoðunarmiða í rúðu.
Gildistaka
Fyrsta útgáfa skoðunarhandbókarinnar í þessari mynd hefur formlegan gildistökudag 1. mars 2023.
Skoðunarhandbókin leysir af eldri útgáfu skoðunarhandbókarinnar sem bar útgáfunúmerið 20 frá 15.05.2017 (skoðunarhandbók og stoðrit).
Ábyrgð
Samgöngustofa ber ábyrgð á innihaldi skoðunarhandbókarinnar, uppfærslu hennar og birtingu.
Samgöngustofa ber ekki ábyrgð á hverskonar skemmdum á búnaði eða slysum á fólki í tengslum við skoðanir sem framkvæmdar eru samkvæmt lýsingum í þessari skoðunarhandbók. Landslög og reglugerðir ganga ávallt framar verklagi í skoðunarhandbókinni hvað varðar kröfur til aðbúnaðar og hollustu á vinnustöðum ef misræmi er á milli.
Sömuleiðis er lögð áhersla á að skoðunin getur aðeins lagt mat á aksturshæfni ökutækis á þeim tíma sem það var skoðað. Það er ekki hægt að spá fyrir um aksturshæfni þess í framtíðinni og má ekki nota skoðunina sem tryggingu í þeim efnum.
Efni kaflans
Kaflaskipting skoðunarhandbókar
Skoðunarhandbókin skiptist í eftirtalda fimm hluta sem í heild mynda skoðunarhandbók ökutækja.
-> Skoðunarkerfið (formáli)
Hér er að finna grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í framkvæmd.
-> Verklagsbækur fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.
Verklagsbækur skoðunarmannsins innihalda upplýsingar um skoðunaraðferðir, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.
Fyrirferðarmest er verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir sem nær yfir alla framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðunum þeirra. Henni er skipt í níu yfirkafla sem hver fjallar um ákveðinn búnað eða kerfi ökutækja. Sérhver kafli inniheldur safn skoðunaratriða sem notuð eru við dæmingar á viðkomandi búnaði og lýst er í undirkafla. Atriðin eru númeruð. Þessi númer skal nota og engin önnur við dæmingar einstakra atriða sem færð eru á skoðunarvottorð. Kaflarnir eru þessir (í samræmi við kaflaskiptinguna í tilskipun ESB um skoðun ökutækja):
Kafli 0 - Auðkenning ökutækis
Kafli 1 - Hemlabúnaður
Kafli 2 - Stýrisbúnaður
Kafli 3 - Útsýn, rúður, þurkur, speglar
Kafli 4 - Ljósker, glit, rafbúnaður
Kafli 5 - Ásar, fjöðrun, felgur, hjólabarðar
Kafli 6 - Undirvagn, grind, yfirbygging, innrými, áfastur búnaður
Kafli 7 - Annar búnaður (öryggis, takmörkun, mælar o.fl.)
Kafli 8 - Umhverfi, mengun
Kafli 9 - Viðbótarskoðun hópbíla og tiltekinna notkunarflokka
Sá hluti verklagsbókarinnar sem inniheldur lista yfir skoðunaratriðin og dæmingar þeirra er í sérstöku pdf-skjali. Þar kemur eftirfarandi fram:
Kaflaheiti (efst í fyrirsögn fremst í hverjum kafla) og yfirheiti skoðunaratriðis í bláum borða (ásamt yfirnúmeri atriðisins).
Skoðunaraðferð fyrir skoðunaratriðið og verklýsing ásamt stuttum athugasemdum og túlkunum á hvítu innrömmuðu svæði fyrir neðan bláa borðann.
Mögulegir annmarkar eru taldir upp í neðsta rammanum þar sem fram koma númer atriðanna, forsenda dæmingar, dæming (flokkun) og loks nánari útskýring á einstökum annmörkum, oft með stuttri verklýsingu.
Lengri athugasemdir og túlkanir ásamt ítarlegri leiðbeiningum um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, ökutækisflokka eða einstakra hluta ökutækja er í köflum þessa hluta handbókarinnar og í öðrum hlutum hennar.
Efnið er sett fram með þeim hætti að skoðunarmenn geti á einum stað kynnt sér afmarkaða þætti um skoðun ökutækis með ítarlegum hætti. Meðal efnis eru samantektir um skoðun hemlabúnaðar, stýrisbúnaðar og hjólabúnaðar, samantekt á kröfum um ökutæki í einstökum notkunarflokkum ásamt aðferðum við mælingar á hávaða og mengun, svo eitthvað sé nefnt.
-> Aðrar verklagsbækur
Aðrar verklagsbækur hafa einfaldari framsetningu sem útskýrð er í hverri bók fyrir sig.
Verklagsbók fyrir skráningarskoðanir
Verklagsbók fyrir samanburðarskoðanir
Verklagsbók fyrir ADR-skoðanir
Verklagsbók fyrir ADR-viðurkenningarskoðanir
Verklagsbók fyrir leyfisskoðanir
Verklagsbók fyrir tjónaendurmat
-> Leiðbeiningar framleiðenda
Hér er að finna sértækar upplýsingar um einstök ökutæki eða hluta þeirra sem
miða þarf við í mati á fráviki, t.d. þegar eitthvað er umfram leyfileg mörk framleiðanda,
þekkja þarf til að geta t.d. gangsett, stýrt eða prófað ökutæki eða hluta þess (forskrift eða hvernig á að bera sig að),
þekkja þarf í tengslum við skoðun á kerfum, t.d. skilgreiningu framleiðanda á neyðarhemlakerfi eða hvort ökutæki eigi að vera búið tilteknum búnaði, og
Samgöngustofa hefur tekið saman varða einstök ökutæki eða gerðir ökutækja.
-> Samantektir og tilkynningar
Þetta eru:
Öryggistilkynningar eru sérstakar tímabundnar tilkynningar ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra. Markmiðið er að skoðunarmenn geti, með aukinni upplýsingagjöf, brugðist betur við slíkum aðstæðum og dæmt með viðeigandi hætti. Upplýsingar um vandamál af þessu tagi geta borist Samgöngustofu m.a. frá skoðunarstofum og ökutækjaumboðum og leggur Samgöngustofa mat á útgáfu þeirra sem öryggistilkynningu. Á meðan innköllun eða sambærilegar ráðstafanir eru í gangi verður öryggistilkynning sýnileg og fylgir Samgöngustofa málinu eftir. Þegar úrbótum lýkur er tilkynningin tekin út úr skoðunarhandbókinni (úr vefskjalinu). Upplýsingar um viðvarandi öryggistengd vandamál einstakra tegunda ökutækja sem ekki lúta innköllun eða sambærilegra aðgerða fara hins vegar inn í viðeigandi leiðbeiningaskjöl.
Sérstakar samantektir um skoðanir tiltekinna flokka eða útfærslna ökutækja sem kallað hefur verið eftir að sé að finna í handbókinni til að tryggja betur samræmi með framkvæmdinni.
Samantektaryfirlit þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi. Listinn er til hægðarauka fyrir skoðunarstofur en þeim látið eftir að viða að sér sjálfum kröfuskjölunum og halda þeim til haga í eigin kerfum.
Samantekt á kröfum um aðstöðu og búnað á skoðunarstofum.
Útgáfa og uppfærsluaðferðir skoðunarhandbókar
Samgöngustofa setur sér það markmið að skjöl skoðunarhandbókar séu uppfærð eins ört og þörf er á til að tryggja áreiðanleika þeirra.
Handbókin er öll á rafrænu formi á opinberum handbókarvef Samgöngustofu. Skjölin eru ekki í formlegu útgáfukerfi en öll skjöl innihalda útgáfudag og breytingayfirlit sem tiltaka efnislegar breytingar eins og hægt er. Auðvelt er fyrir Samgöngustofu að uppfæra þessi skjöl og markmiðið að geta brugðist fremur hratt við, s.s. vegna tækninýjunga, tækniupplýsinga, beiðna um nánari útskýringar eða vegna öryggistilkynninga.
Upplýsingar upp úr skoðunarhandbók sem Samgöngustofa lætur skoðunarstofum í té á rafrænu formi, svo sem listi yfir skoðunaratriði, eru uppfærðar samhliða útgáfu í skoðunarhandbókinni.
Efni kaflans
Listi yfir orð og hugtök
Eftirfarandi er upptalning á þeim orðum og hugtökum sem notuð eru í skoðunarhandbók og skiptir máli að réttur sameiginlegur skilningur sé á. Sjá í næsta kafla túlkun og skýringar á hugtökum sem sérstaklega eiga við tilteknar verklagsbækur.
Annmarkar (e. defects): Tæknibilanir eða önnur tilvik þar sem í ljós kemur við prófun á aksturshæfni að kröfur hafa ekki verið uppfylltar.
Breytingatilkynning: Tilkynning til Samgöngustofu um breytingar á skráningarupplýsingum ökutækisins á því formi sem skráningareglur kveða á um (US.111).
Dæmingar: Sjá skilgreininguna á Annmarkar.
Eftir að skoðun hefst: Þegar skoðunarmaður hefur tekið á móti ökutæki til skoðunar, hvort sem er inn í skoðunarstöð eða við útiskoðun, er miðað við að skoðun sé hafin. Fram að því getur önnur umsýsla vegna skoðunarinnar hafa átt sér stað, svo sem bókun í skoðun eða einhver afgreiðsla vegna skoðunarinnar, en hún telst ekki upphafspunktur skoðunarinnar.
Gild skoðun: Þegar niðurstaða síðustu reglubundnu skoðunar var „Án athugasemda“ eða „Lagfæring“ og frestur til að færa ökutækið til næstu aðalskoðunar er ekki liðinn.
Prófun á aksturshæfni: Skoðun í samræmi við I. viðauka í tilskipun ESB um skoðun ökutækja, gerð til að tryggja að öruggt sé að nota ökutækið á opinberum vegum og að það uppfylli tilskilda og skyldubundna eiginleika með tilliti til öryggis- og umhverfisverndar. Í íslensku regluverki er hugtakið skoðun ökutækja notað.
Reglubundin skoðun: Aðalskoðun ökutækis er reglubundin skoðun. Skráningarskoðun og samanburðarskoðun samsvarar fyrstu reglubundinni skoðun. Í almennri umfjöllun um skoðunarkerfið falla breytingaskoðanir líka hér undir og endurskoðanir vegna þessara skoðana. Fyrir þessar skoðanir er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.
Rýmri skoðunartíðni: Fjöldi skoðana á árabili fyrir tiltekna skoðunartíðni er minni en annarrar. Horfa má til fyrstu tíu áranna við þennan samanburð. Sjá einnig um örari skoðunartíðni.
Skoðun: Sjá skilgreininguna á prófun á aksturshæfni.
Skoðunaratriði: Einn liður í sérhverri handbók sem samanstendur af númeri atriðisins, lýsingu á annmarka (forsendu dæmingar og/eða skýringu) og flokkun hans (dæmingu).
Skoðunarhandbók ökutækja: Þessi bók (allir þrír hlutarnir), líka kölluð skoðunarhandbók .
Skoðunarmaður: Einstaklingur sem hefur heimild Samgöngustofu skoða ökutæki á skoðunarstofu.
Skoðunarregla: Sjá skilgreininguna Skoðunartíðni.
Skoðunarstofa af gerð A og B: Gerðir faggildingar samkvæmt kröfum faggildingarstaðli skoðunarstofa ÍST EN ISO/IEC 17020. Gerð A er skoðunarstofa sem annast allar skoðanir ökutækja. Gerð B er skoðunarstofa sem annast einungis endurskoðanir ökutækja í starfsemi sinni sem verkstæði (endurskoðunarverkstæði).
Skoðunarstöð: Faggilt skoðunarstöð ökutækja sem hefur starfsleyfi Samgöngustofu.
Skoðunartíðni: Tíðni reglubundinnar skoðunar eins og hún er skilgreind í 6. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja.
Skoðunarvottorð: Skýrsla um skoðun ökutækis sem skoðunarstofa eða Samgöngustofa gefur út og inniheldur niðurstöður skoðunar ökutækis.
Staðist skoðun: Þegar niðurstaða skoðunar er „Án athugasemda“ eða „Lagfæring“.
Umráðandi: Umráðamaður eins og það orð er skilgreint í umferðarlögum, þ.e. sá sem með samþykki eiganda ökutækis hefur umráð yfir því. Aðili telst ekki umráðandi nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá.
Verklagsbók: Sérstök handbók sem er hluti skoðunarhandbókar um verklag, skoðunaraðferðir og dæmingar sem eiga við um ákveðna tegund skoðunar (eða tegundir skoðana).
Örari skoðunartíðni: Fjöldi skoðana á árabili fyrir tiltekna skoðunartíðni er hærri en annarrar. Horfa má til fyrstu tíu áranna við þennan samanburð. Sjá einnig um rýmri skoðunartíðni.
Túlkun á hugtökum verklagsbóka
Eftirfarandi er upptalning á mikilvægum orðum og hugtökum sem notuð eru í verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.
Augljóslega: Orðið er notað í tengslum við slit, bilanir, óvirkni, vöntun, los, skerðingar, óöryggi, ósamræmi, skemmdir eða að íhlutur hæfi ekki ökutækinu eða sé ranglega staðsettur eða af rangri stærð, svo eitthvað sé nefnt. Hér þarf skoðunarmaður að beita faglegri þekkingu sinni og reynslu til að sjá þá augljósu annmarka sem skapast hafa af þessum ástæðum. Til nánari skýringa má nefna eftirfarandi í tengslum við mat á sliti, bilun, óvirkni, losi, ósamræmi og skemmdum, þ.e. neikvæð áhrif af þessum þáttum eru það mikil að hluturinn er:
líklegur til að bila,
greinilega ekki að virka á skilvirkan hátt eins og hannað var,
sýnilega slitinn umfram eðlileg fagleg mörk, eða
líklegur til að hafa áhrif á virkni eða ástand annars öryggistengds íhlutar.
Ekki nógu vel fest: Hugtakið er notað til að lýsa gölluðu ástandi. Skoðunarmenn ættu að túlka hugtakið á eftirfarandi hátt:
að íhlutur á ökutækinu hafi hlutfallslega hreyfingu annaðhvort við festingu hans eða í tengslum við tengdan íhlut þar sem engin hreyfing ætti að vera, eða
að íhlutur sé ekki öruggur eða fullkomlega festur, hvorki við festingu hans né tengdum íhlut.
Enskar skammstafanir kerfa: Nokkrar enskar skammstafanir kerfa koma fyrir í bókinni:
ABS stendur fyrir "Anti-lock Braking System", eða hemlalæsivörn.
EBS stendur fyrir "Electronic Braking System", eða rafrænt hemlastjórnkerfi.
EPS stendur fyrir "Electronic Power Steering", eða rafknúið aflstýri.
ESC stendur fyrir "Electronic Stability Control", eða rafræn skrikvörn.
HID stendur fyrir "High Intensity Discharge", eða háhleðsluljós með miklum ljósstyrk.
SRS stendur fyrir "Supplemental Restraint System", eða öryggispúðakerfi.
TPMS stendur fyrir "Tire Pressure Monitoring System", eða eftirlitskerfi fyrir þrýsting í hjólbörðum.
Geta hemlakerfis: Geta hemlakerfis (t.d. geta aksturshemils eða stöðuhemils) er í handbókinni notað yfir skoðunaratriðin þar sem hemlapróf fer fram og niðurstöður þess notaðar til að dæma á hemlun og hemlunargetu. Sjá einnig Virkni hemlakerfis.
Gildir fyrir og eftir: Kröfur og skoðun ökutækis miðast almennt við fyrsta skráningardag þess. Þegar skilgreining á dæmingu í skoðunaratriðahluta miðast við ákveðna dagsetningu er því verið að meina fyrsta skráningardag. Viðmiðunin „Gildir fyrir“ er þá fyrir og með dagsetningunni (skrifað „fyrir dd-mm-áááá“), en „Gildir eftir“ er þá frá og með dagsetningunni (skrifað „eftir dd-mm-áááá“).
Hemlunarkraftar: Þeir kraftar sem mældir eru í hemlaprófaranum. Fyrir vökvahemlakerfi (og önnur hemlakerfi sem ekki nota loftyfirfærslu) eru þessir kraftar notaðir beint til útreikninga á hemlun. Fyrir lofthemlakerfi þarf fyrst að reikna út þá hemlunarkrafta sem ættu að geta náðst í kerfinu við fulla hleðslu (sé það undir 75% hlaðið við mælingu), kallað að framreikna (framreiknaðir hemlunarkraftar), og þeir notaðir við útreikning á hemlunargetu.
Hemlun og hemlunargeta: Hemlun og hemlunargeta er hlutfall hemlunarkrafta (mældra eða framreiknaðra eftir því sem við á) og tiltekinnar þyngdar ökutækis (að hluta eða í heild eftir því sem við á, útskýrt í viðkomandi skoðunaratriðum).Í verklagsbókinni er orðið hemlun notað í forsendum og skýringum dæminga og þá átt við mælda hemlun vökvahemlakerfa (og þeirra sem ekki nota loftyfirfærslu) og framreiknaða hemlun (hemlunargetu) lofthemlakerfa, eftir því um hvort kerfið er að ræða.
Ónóg og óviðunandi: Þessi orð eru notuð í tengslum við mælingar eða prófanir þar sem mæliniðurstaðan ónóg telst meiriháttar annmarki (dæming 2) en óviðunandi telst hættulegur annmarki (dæming 3).
Sjónskoðun: Ef tilgreind skoðunaraðferð er sjónskoðun þýðir það að auk þess að horfa á viðkomandi atriði skal skoðunarmaður einnig, ef við á, taka á þeim, meta hávaða frá þeim eða nota aðrar viðeigandi skoðunaraðferðir án þess að nota búnað.
Virkni hemlakerfis: Virkni hemlakerfis (t.d. virkni aksturshemils eða stöðuhemils) er í handbókinni notað yfir skoðunaratriðin þar sem hemlapróf fer fram og niðurstöður þess notaðar til að dæma á ýmsa virknitengda þætti (aðra en hemlun og hemlunargetu) eins og ónóga hemlunarkrafta á einu eða fleiri hjólum, ójafna hemlunarkrafta, aflögun, ásetningartíma, ótímabæra læsingu hemla og fleira þess háttar. Sjá einnig Geta hemlakerfis.
Flokkun dæminga (annmarka) og ákvörðun um niðurstöðu
Í verklagsbókum reglubundinna skoðana er áhersla á að samræmi sé milli hugtaka sem notuð er í tilskipun ESB um skoðun ökutækja og í reglugerð um skoðun ökutækja. Hugtök sem notuð eru um flokkun dæminga og um niðurstöður skoðana eru mikilvæg í þessu sambandi og borin saman hér til glöggvunar.
Dæmingar atriða
Við flokkun annmarka sem uppgötvast í skoðun er stuðst við flokkunina eins og henni er lýst í 7. gr. tilskipunar ESB um skoðun ökutækja. Þeir eru "Minniháttar annmarkar", "Meiriháttar annmarkar" og "Alvarlegir annmarkar". Sú flokkun yfirfærist nær samhljóða á hugtökin "Dæming 1", "Dæming 2" og "Dæming 3" í 20. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja, en þau hugtök hafa verið notuð með saman hætti í fyrri útgáfum skoðunarhandbókar (umorðað):
Dæming 1: Minniháttar annmarkar sem hafa ekki marktæk áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið og þarfnast ekki tafarlausrar viðgerðar.
Dæming 2: Meiriháttar annmarkar sem geta haft áhrif á öryggi ökutækis eða á umhverfið og þarfnast viðgerðar.
Dæming 3: Alvarlegir annmarkar sem skapa beina og tafarlausa hættu fyrir umferðaröryggi eða hafa áhrif á umhverfið sem réttlætir að notkun ökutækis sé bönnuð þar til viðgerð hefur farið fram.
Niðurstaða skoðunar
Hið sama á við um ákvörðun um niðurstöðu skoðunar sem byggð er á þeim annmörkum sem fundust og flokkun þeirra. Í 9. gr. tilskipunarinnar eru aðferðir við eftirfylgni með annmörkum tilgreindar og falla þær efnislega samhljóða að ákvörðun um niðurstöðu skoðunar í 21. grein reglugerðar um skoðun ökutækja (umorðað):
Niðurstaða skoðunar 1: "Lagfæring", felur í sér að innan 30 daga skuli allir annmarkar lagfærðir en ekki gerð krafa um að ökutækið sé fært til annarrar skoðunar.
Niðurstaða skoðunar 2: "Endurskoðun", felur í sér kröfu um að án tafar skuli allir annmarkar lagfærðir og gerð krafa um að ökutækið sé fært til annarrar skoðunar fyrir lok næsta mánaðar.
Niðurstaða skoðunar 3: "Notkun bönnuð", felur í sér almennt bann við notkun ökutækisins þar til viðgerð hefur farið fram (með nokkrum undantekningum þó).
Niðurstöðu skoðunar er nákvæmlega lýst í kafla IX Niðurstöður skoðana.
Efni kaflans
Kröfur til skoðunarstofa
Lýsing á kröfum til skoðunarstofa er í kafla III í reglugerð um skoðun ökutækja. Samantekt helstu atriða og túlkanir:
Skoðunarstofa sem annast allar skoðanir ökutækja skal hljóta viðurkenningu Samgöngustofu og vera faggilt skoðunarstofa af gerð A samkvæmt kröfum ÍST EN ISO/IEC 17020. Umfang viðurkenningarinnar miðast við þann búnað sem er til staðar.
Skoðunarstofa sem annast einungis endurskoðanir ökutækja í starfsemi sinni sem bílaverkstæði, svokallað endurskoðunarverkstæði, skal hljóta viðurkenningu Samgöngustofu og vera faggilt skoðunarstofa af gerð B samkvæmt kröfum ÍST EN ISO/IEC 17020. Viðurkenningin getur tekið til ökutækja að hluta eða heild.
Skoðunarstofur skulu hafa tæknilegan stjórnanda, skoðunarmenn, húsnæði, aðstöðu og tækjabúnað, auk þess að taka þátt í faglegu samstarfi og sinna öðrum tilteknum verkefnum.
Ef skoðunarstofa framkvæmir reglubundna skoðun á eigin ökutækjum, þeim sem hún hefur umráð yfir eða ökutækjum starfsmanna sinna skal skoðunarstofan setja sérstakar reglur sem tryggir hlutleysi þeirra skoðana.
Samgöngustofa getur afturkallað viðurkenningu skoðunarstofanna tímabundið eða að fullu ef viðkomandi uppfyllir ekki lengur skilyrði bráðabirgðastarfsleyfis eða viðurkenningar, eða fer út fyrir leyfilegt starfssvið sitt eða fer ekki eftir reglum með því að; skoða önnur ökutæki en henni er heimilt, sinna ekki innheimtu gjalda sem henni eru falin, virða ítrekað ekki fyrirmæli í skoðunarhandbók, eða sinna ekki skriflegum fyrirmælum eða aðvörunum Samgöngustofu um úrbætur.
Kröfur til skoðunarmanna
Lýsing á kröfum til skoðunarmanna er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja. Samantekt helstu atriða og túlkanir:
Skoðunarmaður sem sinnir reglubundnum skoðunum á ökutækjum skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu.
Skoðunarmaður skal hafa sveinspróf í bifvélavirkjun, bifreiðasmíði eða vélvirkjun.
Skoðunarmaður skal hafa sótt námskeið fyrir skoðunarmenn og vera viðurkenndur sem slíkur.
Skoðunarmaður þarf að hafa ökuréttindi á þau ökutæki sem hann skoðar. Þetta ákvæði gildir um þau ökutæki sem skoðunarmaður þarf að aka sjálfur til að geta framkvæmt skoðun sína.
Skoðunarmaður þarf að hafa nægan skilning á íslensku til að geta framkvæmt skoðun samkvæmt skoðunarhandbók og útskýrt niðurstöðu skoðunar fyrir eiganda (umráðanda) ökutækis.
Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu skoðunarmanns ef hann uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu.
Kröfur til tæknilegs stjórnanda
Lýsing á kröfum til tæknilegs stjórnanda er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja. Samantekt helstu atriða og túlkanir:
Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu.
Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera verkfræðingur, tæknifræðingur eða meistari í bifvélavirkjun og hafa a.m.k. fjögurra ára skjalfesta starfsreynslu á bíltæknisviði eða jafngildi þess.
Tæknilegur stjórnandi skal hafa sótt námskeið fyrir skoðunarmenn og vera viðurkenndur sem slíkur.
Tæknilegur stjórnandi ber tæknilega ábyrgð á skoðunarstofunni og skal vera ráðinn þar í fast starf.
Tæknilegur stjórnandi skal taka virkan þátt í að leiðbeina skoðunarmönnum og tryggja að skoðanir séu framkvæmdar í samræmi við skoðunarhandbók.
Tæknilegur stjórnandi er tengiliður skoðunarstofunnar við Samgöngustofu.
Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu tæknilegs stjórnanda ef hann uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu.
Kröfur um grunnþjálfun, endurmenntun og viðurkenningu
Lýsing á kröfum um grunnþjálfun, endurmenntun og viðurkenningu tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og taka þau formlega gildi 1. janúar 2025 (fram til þess tíma halda gildi sínu ákvæði 3. mgr. 24. gr. eldri reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009).
Samantekt helstu atriða í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og túlkanir:
Grunnþjálfun tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanna ásamt endurmenntun skoðunarmanna skal fara fram í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur og hjá námskeiðshaldara sem Samgöngustofa viðurkennir (öðlast þá heitið viðurkennd þjálfunarstöð).
Tæknilegur stjórnandi og skoðunarmaður skal standast bóklegt og verklegt próf að lokinni grunnþjálfun sem er í samræmi við námskrána.
Samgöngustofa eða viðurkennd þjálfunarstöð gefur út skírteini til tæknilegs stjórnanda og skoðunarmanns þegar skilyrði viðurkenningar eru uppfyllt. Takmarka má umfang viðurkenningar skoðunarmanns. Viðurkenning skoðunarmanns gildir í 5 ár.
Við endurnýjun á viðurkenningu skoðunarmanns skal hann sitja endurmenntunarnámskeið um reglubundnar skoðanir á þeim ökutækisflokkum sem hann er viðurkenndur fyrir. Endurnýjun viðurkenningar skal gilda í 5 ár.
Að auki gildir:
Samgöngustofa skal afturkalla viðurkenningu ef tæknilegur stjórnandi eða skoðunarmaður uppfyllir ekki lengur kröfur reglugerðarinnar um viðurkenningu. Skoðunarmanni sem uppfyllir ekki lengur kröfur til viðurkenningar ber skylda til að tilkynna það til Samgöngustofu.
Kröfur til skoðunartækja og undanþágur um notkun
Lýsing á kröfum um tækjabúnað skoðunarstöðva sem viðurkenndar eru til að skoða reglubundnar skoðanir er í kafla V í reglugerð um skoðun ökutækja og í viðauka I í reglugerðinni. Samantekt helstu atriða og túlkanir (sjá einnig samantekt á búnaði og túlkanir á kröfum í kröfuskjalalista stoðrits):
Skoðanir skulu framkvæmdar í viðeigandi aðstöðu og með viðeigandi búnaði. Nota ber viðeigandi búnað eftir því hvaða ökutækisflokka er verið að skoða (sjá Töflu IV.1).
Heimilt er að nota færanlegar prófunareiningar.
Hægt er að sameina tvö eða fleiri tæki í eitt samsett tæki, að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á nákvæmni hvers tækis.
Búnaður sem notaður er til mælinga þyngdar, þrýstings og hljóðstigs skal kvarðaður og stilltur eigi sjaldnar en á 24 mánaða fresti og til mælinga á losun lofttegunda eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti.
Heimilt er að nota hemlaklukku við hemlaprófun í þeim tilvikum þar sem ekki verður við komið að færa ökutæki á hemlaprófara, s.s. ef um utanvegaökutæki, kranabifreið eða beltabifreið er að ræða eða ökutæki er stærra en reglugerð um stærð og þyngd ökutækja segir til um.
Skoðunarstofu er heimilt að skoða ökutæki sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd á endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði þótt hentug gryfja eða lyfta sé ekki til staðar ef lengra en 80 km er í skoðunarstofu sem hefur yfir að ráða gryfju eða lyftu. Skal þá tryggt að viðeigandi hemlaprófari sé notaður við skoðunina. Tryggja skal að öll atriði séu skoðuð samkvæmt skoðunarhandbók þrátt fyrir að gryfja eða lyfta sé ekki til staðar.
Tafla IV.1: Tilskilinn lágmarksbúnaður við framkvæmd skoðunar skv. viðauka I í reglugerð um skoðun ökutækja. Merkt er við með x (Óháð orkugjafa), P (Bensín/rafkveikja) og D (Dísilolía/þjöppukveikja). Valkvæð tæki eru merkt með 1) og flokkur T2) gildir fyrir ökutækisflokka T1b, T2b, T3b, T4.1b, T4.2b og T4.3b.
Efni kaflans
Skilyrði sem eiga við um allar skoðanir
Alltaf skal uppfylla þessi skilyrði áður en ökutæki er tekið til skoðunar:
Rétt skoðun: Að gengið sé úr skugga um að ökutækið sé skráð í rétta skoðunartegund miðað við fyrirliggjandi forsendur.
Verksmiðjunúmer: Skoðunarstofa skal ávallt athuga hvort verksmiðjunúmer á ökutæki sé í samræmi við skráningu þess í ökutækjaskrá þess þannig að staðfesta megi að um rétt ökutæki sé að ræða. Ef verksmiðjunúmer ökutækis er ekki það sama og í ökutækjaskrá, það afmáð, ógreinilegt eða því verið breytt á einhvern hátt, er óheimilt að skoða ökutækið fyrr en frávikið hefur verið lagað. Slík lagfæring er alltaf gerð með aðkomu Samgöngustofu (sjá kafla XIII Samskipti við Samgöngustofu). Ef ekki tekst að laga frávikið skal skoðunarstofa hafna skoðun ökutækisins, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Skráningarmerki: Við allar reglubundnar skoðanir skal skoðunarstofa athuga hvort ökutæki beri rétt skráningarmerki, hvort gerð skráningarmerkja sé rétt og þau rétt skráð í ökutækjaskrá. Heimilt er að skoða ökutæki sem er án skráningarmerkja ef ökutækið er skráð úr umferð eða bíður ný- eða endurskráningar. Vanti öll skráningarmerki á ökutæki sem skráð er í umferð er skoðun hafnað. Vanti eina skráningarmerkið á ökutæki (sem á bara að hafa eitt) sem skráð er í umferð, eða merkið er óleyfilegt (t.d. heimatilbúið) eða því hefur verið breytt (t.d. klippt af því), skal hafna skoðun því þá er litið svo á að löglegt skráningarmerki vanti. Sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Lögreglulás: Lögregla getur skráð lögreglulás á ökutæki og tekið lásinn af. Ýmsar ástæður geta legið þar að baki, m.a. að ökutækið sé eftirlýst. Þegar lögreglulás er á ökutæki er m.a. óheimilt að skoða ökutækið og því skal skoðunarstofa athuga það við allar skoðanir. Komi upp slíkt tilvik ber skoðunarstofu að upplýsa bæði viðskiptavin og Samgöngustofu (sjá kafla XIII Samskipti við Samgöngustofu), án frekari aðgerða.
Skoðunarstofu ber að hafna skoðun uppgötvist það að skilyrði til skoðunar eru ekki uppfyllt, sjá aðferðir við það í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Viðbótarskilyrði er varða einstakar skoðunartegundir
Hér eru tilgreind þau sérstöku skilyrði einstakra skoðunartegunda sem ganga verður úr skugga um að séu uppfyllt áður en ökutæki er tekið til skoðunar.
Skilyrði til aðalskoðana
Áður en aðalskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Staðfesting á gildri ábyrgðartryggingu (eða rafrænar upplýsingar frá tryggingarfélagi).
Staðfesting á greiddum opinberum gjöldum (eða rafrænar upplýsingar frá opinberum aðilum).
Skilyrði til endurskoðana
Áður en endurskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Skoðunarvottorð síðustu skoðunar (þeirrar sem krafðist endurskoðunar) eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá (á þó ekki við í endurtekinni aðalskoðun).
Sé frestur úr fyrri skoðun útrunninn (eða fyrri skoðun lauk með "Notkun bönnuð" og frestur reiknaður út eins og niðurstaðan hefði verið "Endurskoðun") ber að skrá ökutækið í endurtekna aðalskoðun.
Skilyrði til breytingaskoðana
Áður en skoðun vegna breytingar á ökutæki getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Staðfesting á gildri reglubundinni skoðun eða aðalskoðun tekin samhliða.
Nauðsynleg fylgigögn eigi það við, s.s. vigtarseðill, samþykktar teikningar eða staðfestingu frá Samgöngustofu um að heimilt sé að skrá bifreið í notkunarflokk.
Skilyrði til skráningarskoðana (allra gerða)
Áður en skráningarskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Fastanúmer ökutækisins í forskrá ökutækjaskrár.
Nauðsynleg fylgigögn eigi það við, s.s. vigtarseðill, samþykktar teikningar eða staðfestingu frá Samgöngustofu um að heimilt sé að skrá bifreið í notkunarflokk.
Skilyrði til samanburðarskoðana
Áður en samanburðarskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar :
Fastanúmer ökutækisins í forskrá ökutækjaskrár.
Skilyrði til aukaskoðana að kröfu lögreglu
Áður en aukaskoðun að kröfu lögreglu getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Lögregla hafi boðað ökutækið til aukaskoðunar vegna vanbúnaðar eða hafi fjarlægt skráningarmerki vegna þess að ökutækið var talið ógna umferðaröryggi eða af öðrum ástæðum.
Skilyrði til ADR-skoðana
Áður en ADR-skoðanir geta farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Ökutækið sé skráð ADR-ökutæki eða fyrirliggjandi sé samþykkt ADR-umsókn (sbr. athugasemd í ökutækjaskrá). Skráning sé fyrir þá ADR-flokka sem óskað er skoðunar á.
Staðfesting á gildri reglubundinni skoðun eða aðalskoðun tekin samhliða.
Skilyrði til leyfisskoðana
Áður en leyfisskoðun getur farið fram þarf skoðunarstofa að tryggja að eftirfarandi upplýsingar og/eða skjöl séu til staðar:
Skráningarskírteini (eða sambærilegar upplýsingar úr ökutækjaskrá).
Ökutækið sé með leyfisskoðunarmiða eða fyrirliggjandi sé staðfesting frá Samgöngustofu um að sótt hafi verið um viðeigandi leyfi fyrir viðkomandi ökutæki.
Staðfesting á gildri reglubundinni skoðun eða aðalskoðun tekin samhliða.
Efni kaflans
Framkvæmd skoðana af öllum tegundum
Í kaflanum er farið yfir framkvæmd þeirra skoðana sem skoðunarhandbókin tekur til. Í sviga fyrir aftan sérhverja skoðunartegund er kóði skoðunarinnar sem notaður er í samskiptum við ökutækjaskrá. Skoðanir "fyrra árs" eru notaðar þegar dregist hefur yfir áramót að skoða ökutækið og reiknast þá skoðunartíðni frá réttu ári, sjá nánar um skoðunartíðni í kafla X Meðferð skoðunarmiða og tíðni skoðana.
Framkvæmd aðalskoðana
Aðalskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:
"Aðalskoðun" (A)
"Aðalskoðun fyrra árs" (X)
Við aðalskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunaratriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki. Niðurstaða aðalskoðunar skal vera óháð niðurstöðum undangenginna skoðana.
Framkvæmd endurskoðana
Endurskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:
"Endurskoðun" (E)
"Endurskoðun fyrra árs“ (Z)
"Endurskoðun v/breytinga" (K)
"Endurskoðun v/skráningar" (C)
"Endurtekin aðalskoðun" (EA)
Við endurskoðanir er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Við allar tegundir endurskoðana, nema endurtekna aðalskoðun, skal einungis skoða þau skoðunaratriði sem þarfnast viðgerðar samkvæmt undangenginni skoðun. Um leið skal ganga úr skugga um að lagfæring fráviks hafi ekki kallað fram nýja annmarka, en hafi það gerst skal dæmt á nýju annmarkana. Þetta á t.d. við um viðgerð á ljósabúnaði (s.s. perum), hemlum (s.s. slöngum), stýrisbúnaði (s.s. stýrisendum), hjólabúnaði (s.s. felguboltum).
Við endurtekna aðalskoðun (þ.e. endurskoðun eftir að frestur til endurskoðunar er liðinn) skal ökutækið skoðað á sama hátt og um aðalskoðun væri að ræða.
Framkvæmd breytingaskoðana (almennra breytinga og sérskoðana)
Breytingaskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:
"Breytingaskoðun" (B)
Við breytingaskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Skal skoðunin beinast að þeim búnaði eða útfærslu ökutækisins sem breytingin tekur til. Nánari lýsingu er að finna í kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.
Framkvæmd skráningarskoðana (allra gerða)
Skráningarskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:
"Skráningarskoðun" (S) (bæði v/nýskráningar og v/endurskráningar)
Við skráningarskoðun er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir til að meta ástand ökutækisins. Við mati á ástandi skal skoða öll atriði bókarinnar og dæma eftir því sem við á um sérhvert ökutæki. Að auki er notuð verklagsbók um skráningarskoðanir til að tryggja að viðeigandi kröfur til ökutækisins séu uppfylltar fyrir skráningu og það verði rétt skráð í ökutækjaskrá.
Ef skráningarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu með aðkomu Samgöngustofu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Framkvæmd samanburðarskoðana
Samanburðarskoðun ökutækja er eftirfarandi skoðunartegund:
"Samanburðarskoðun" (SB)
Við samanburðarskoðun er notuð verklagsbók fyrir samanburðarskoðanir. Skoðunin á að tryggja að viðeigandi kröfur til ökutækisins séu uppfylltar fyrir skráningu og það verði rétt skráð í ökutækjaskrá.
Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu með aðkomu Samgöngustofu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Framkvæmd aukaskoðana að kröfu lögreglu
Aukaskoðun ökutækja að kröfu lögreglu er eftirfarandi skoðunartegund:
"Aukaskoðun að kröfu lögreglu" (U)
Við aukaskoðun að kröfu lögreglu er notuð verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunaratriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.
Áréttað er að aukaskoðun að kröfu lögreglu skal gerð óháð þeim atriðum sem lögregla kann að hafa fundið eða bent á í boðun sinni (séu upplýsingar um þau atriði tiltæk). Því kunna að finnast önnur eða fleiri atriði í aukaskoðuninni en lögregla gæti hafa tiltekið í boðun sinni.
Framkvæmd ADR-skoðana
Skoðanir ökutækja sem skráð eru til flutnings á hættulegum farmi, eða verið er að viðurkenna til slíks flutnings, skiptast í eftirfarandi skoðunartegundir:
"ADR-skoðun" (ADR)
"ADR-viðurkenningarskoðun" (ADV)
Við skoðanir vegna ADR er notuð verklagsbók fyrir ADR-skoðanir. Lagt er mat á öll skoðunaratriði bókanna og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.
Framkvæmd leyfisskoðana
Leyfisskoðun ökutækja skiptist í eftirfarandi skoðunartegundir:
"Leyfisskoðun" (LS)
"Eðalvagnaskoðun" (ES)
"Ferðaþjónustuleyfisskoðun" (FS)
Við leyfisskoðun er notuð verklagsbók fyrir leyfisskoðanir. Lagt er mat á öll skoðunaratriði bókarinnar og dæmt eftir því sem við á um sérhvert ökutæki.
Samanburður við skráningu ökutækis
Til að tryggja sem best að ökutæki sé rétt skráð í ökutækjaskrá og því hafi ekki verið breytt, er skylt að bera ökutækið saman við skráningu þess í tilteknum skoðunum (sjá upptalningu skoðana neðar). Samanburðurinn gildir um skráningaratriðin sem tilgreind er í töflu VI.1.
Samanburður á verksmiðjunúmeri skal alltaf fara fram í öllum skoðunum og án undantekninga. Samanburður á öðrum atriðum fer fram eftir því sem tilefni er til, s.s. ef eitthvað bendir til að ökutæki hafi verið breytt eftir síðustu skoðun, langt er síðan ökutæki var skoðað síðast, ökutækið er óvenjulegt eða sérútbúið, eða það er að fara í sína fyrstu aðalskoðun frá skráningu, svo eitthvað sé nefnt.
Skoðunarstofu er heimilt að senda inn leiðréttingu á skráningu ef allt bendir til að skráning sé hreinlega röng og að mati skoðunarstofu liggi réttar upplýsingar fyrir, sbr. forsendur skráningar í töflu VI.1. Samgöngustofa áskilur sér þó rétt til að meta réttmæti slíkra tilkynninga og leiðir mál til lykta í samvinnu við viðkomandi skoðunarstofu og eiganda (umráðanda) ef tilefni er til.
Tafla VI.1. Skráningaratriði í ökutækjaskrá sem eiga að vera rétt skráð fyrir sérhvert ökutæki.
Skráningaratriði | Forsendur skráningar við skoðun eða viðbrögð við frávikum |
---|---|
Verksmiðjunúmer | Merking á ökutæki. |
Orkugjafi | Hreyfill ökutækis. |
Notkunarflokkur | Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og/eða önnur gögn. |
Ökutækisflokkur1) | Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. |
Farþegafjöldi | Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. |
Breidd2) | Ökutækið mælt ef tilefni er til |
Lengd2) | Ökutækið mælt ef tilefni er til. |
Eiginþyngd | Má ekki vera autt. |
Stærð hjólbarða (viðeigandi hjóla) | Á að vera innan 10% marka. Stærðarmerkingar á hjólbarða. |
Yfirbygging | Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. |
Sérbúnaður | Útfærsla ökutækis m.v. skilgreiningar og kröfur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. |
Breytingar breyttra bifreiða | Útfærsla ökutækis. |
Litur | Litur ökutækis. |
1) Ökutæki á að vera í samræmi við skráðan ökutækisflokk eftir 01.07.1990.
2) Ökutæki á að vera skráð sem undanþáguökutæki eftir 01.01.2008 ef það er skráð stærra en hámarksgildi reglugerðar um stærð og þyngd ökutækja.
Samanburður í aðalskoðunum
Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutækið við aðalskoðanir. Komi upp frávik eru þrjár leiðir til að meðhöndla það:
Senda inn leiðréttingu á skráningu (á US.111 breytingatilkynningu). Það á þó bara við ef gildi var ranglega skráð í upphafi eða hafði aldrei verið skráð og rétt gildi er tiltækt. Þar með lýkur málinu og aðalskoðun ökutækisins miðast við hina leiðréttu skráningu ökutækisins (hafi hún áhrif).
Bjóða upp á viðeigandi breytingaskoðun og skráningunni þannig breytt til samræmis við ökutækið. Þiggi eigandi (umráðandi) það er breytingaskoðun framkvæmd samhliða aðalskoðun og miðast aðalskoðunin við hina breyttu skráningu ökutækisins. Sjá einnig kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.
Ef hvorug leiðin er fær ber skoðunarstofunni að hafna skoðun, sjá kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Samanburður í breytingaskoðunum
Samanburður er gerður á þeim skráningaratriðum sem tengja má viðkomandi breytingaskoðun. Ný og breytt gildi, ásamt leiðréttingum ef þörf er á, eru tilkynnt á breytingatilkynningunni sem notuð er til að tilkynna þær breytingar sem orðið hafa á ökutækinu og eru ástæða breytingaskoðunarinnar. Sjá nánar í kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja.
Ef breytingaskoðun leiðir í ljós frávik sem heimila ekki skráningu viðkomandi breytinga á ökutækinu, sjá kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja, er óheimilt að breyta ökutækinu og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Samanburður í skráningarskoðunum
Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutæki við skráningarskoðanir. Komi upp frávik, samanber nánari lýsingu í verklagsbók um skráningarskoðanir, eru rétt gildi tilkynnt á breytingatilkynningu samhliða beiðni um nýskráningu.
Ef skráningarskoðun leiðir í ljós frávik sem heimila ekki nýskráningu ökutækisins, sjá kafla VII Meðhöndlun á breytingum ökutækja, er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Samanburður í samanburðarskoðunum
Öll skráningaratriði töflunnar eru borin saman við ökutækið við samanburðarskoðanir. Komi upp frávik, samanber nánari lýsingu í verklagsbók um samanburðarskoðanir, eru rétt gildi tilkynnt á breytingatilkynningu samhliða beiðni um nýskráningu.
Ef samanburðarskoðun leiðir í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu er óheimilt að nýskrá ökutækið og hafna þarf skoðun, sjá nánar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Samanburður í öðrum skoðunum
Ekki er gerður samanburður á skráningaratriðum í öðrum skoðunum (að undanskyldu verksmiðjunúmeri).
Efni kaflans
Um breytingar á ökutækjum
Ýmsar ástæður geta legið að baki því að eigendur (umráðendur) ökutækja vilja breyta þeim frá núverandi útfærslu. Þegar slík breyting kallar á breytta skráningu í ökutækjaskrá ber í öllum tilvikum að framkvæma breytingaskoðun á ökutækinu strax eftir að breyting hefur farið fram. Í breytingaskoðunum eru breytingarnar teknar út og skráningu ökutækisins breytt standist það skoðunina. Að öðrum kosti er skráningu breytinganna hafnað.
Almennt þarf ekki að sækja um að breyta ökutæki til Samgöngustofu áður en ráðist er í breytingar. Í tilteknum tilvikum þarf þó að skila inn gögnum til Samgöngustofu og fá þau samþykkt áður en breyting hefst. Þessu er nánar lýst í næstu köflum.
Í breytingaskoðun ber að skoða útfærslu þeirra hluta ökutækisins sem breyta hefur þurft til að ökutækið uppfylli kröfur hinnar breyttu skráningar, ásamt ástandi þessara atriða. Ástand, gerð eða útfærsla annarra hluta ökutækisins, sem ekki teljast til breytingarinnar, á ekki að gera athugasemdir við í breytingaskoðun, nema annað sé tekið fram.
Þegar breytingar uppgötvast við skoðun
Við samanburð við skráningu ökutækis við skoðun getur uppgötvast að breytingar hafi verið gerðar á ökutæki, sbr. lýsingu í kafla VI Framkvæmd skoðana og samanburður við skráningu. Fylgt er framkvæmdinni eins og henni er lýst þar og ef niðurstaðan verður sú að breytingaskoða ökutækið verður framkvæmdin eins og lýst er í næstu köflum.
Algengar breytingar – framkvæmd breytingaskoðana
Breytingar á notkunarflokki
Við breytingu á ökutæki til samræmis við annan notkunarflokk er ekki gerð krafa um fyrirfram samþykki Samgöngustofu vegna þeirra. Við skoðun er gerð og búnaður ökutækisins með tilliti til nýja notkunarflokksins yfirfarinn.
Í skráningareglum ökutækja er að finna samantekt á kröfum um gerð og búnað sem gilda um sérhvern þeirra, hvort krafa er gerð um breytingaskoðun við breytingar milli þeirra og hvort einhver önnur skilyrði gilda um breytinguna.
Breytingar á ökutækisflokki
Við breytingar á ökutæki til samræmis við annan ökutækisflokk getur verið gerð krafa um fyrirfram samþykki Samgöngustofu. Við skoðun er gerð og búnaður ökutækisins yfirfarinn með tilliti til nýja ökutækisflokksins.
Í skráningareglum ökutækja er að finna upplýsingar um ökutækisflokka til að einfalda þá vinnu, m.a. milli hvaða ökutækisflokka má breyta.
Við breytingu ökutækis í eftirfarandi ökutækisflokk er krafist fyrirfram samþykkis Samgöngustofu:
Hópbifreið (M2, M3). Nauðsynleg gögn vegna þessarar breytingar eru teikningar af skipan fólks- og farmrýmis (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram), sjá nánar um kröfur til teikninga í samnefndum lið í næsta kafla.
Ýmsar aðrar breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækja
Við breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækis getur verið gerð krafa um fyrirfram samþykki Samgöngustofu (tilgreint í upptalningunni hér neðar).
Við skoðun eru viðkomandi breytingar yfirfarnar með hliðsjón af þeim kröfum sem gilda. Þegar um er að ræða veigamiklar breytingar á stórum hluta ökutækisins, eða breytingarnar hafa áhrif á aðra eiginleika ökutækisins, ber að skoða öll atriði handbókarinnar. Í leiðbeiningaskjölum í stoðriti og í skráningareglum ökutækja er að finna upplýsingaskjöl sem aðstoða við þá vinnu, viðeigandi skoðunaratriði handbókarinnar eru svo notuð við dæmingar vegna þeirra annmarka sem finnast (eða hafna verður skoðun).
Eftirfarandi breytingar á útfærslu og/eða búnaði ökutækja eru algengastar:
Breytingar á fjölda og/eða gerð ása vörubifreiða samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru leiðbeiningar framleiðanda um slíkar breytingar (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).
Breytingar á grind og yfirbyggingum vöru- og hópbifreiða samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru leiðbeiningar framleiðanda um slíkar breytingar (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).
Breytingar á innra skipulagi fólks- og farmrýma hópbifreiða (innan þeirra marka sem framleiðandi hefur sett). Nauðsynleg gögn vegna þessara breytinga eru teikningar af breyttri skipan farþega- og farmrýmis hópbíls (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).
Farþegafjöldabreytingar (bæði í hópbifreið og öðrum ökutækjum). Nauðsynleg gögn vegna breytinga á hópbílum eru teikningar af breyttri skipan farþega- og farmrýmis, sbr. fyrri lið.
Breytingar á gerð eða stærð hreyfils eða viðbótarorkugjafa. Nauðsynleg gögn vegna þessarar breytingar eru gögn frá framleiðanda um hinn nýja hreyfil eða tilvísun í það ökutæki sem hreyfillinn var tekinn úr, eða um viðbótarorkugjafann (framvísa til Samgöngustofu til samþykktar fyrirfram).
Úttekt á nýjum tengibúnaði bifreiða.
Þegar veigamiklum atriðum bifreiðar, svo sem stýrisbúnaði, hemlabúnaði, aflrás, hjólum, grind og yfirbyggingu, hefur verið breytt frá upprunalegri útfærslu framleiðanda og ekki eru til leiðbeiningar um frá honum, er bifreiðin skráð sem "Breytt bifreið". Slíkar bifreiðir eru merktar með áletruninni "Viðvörun! Þetta er breytt bifreið með aðra aksturseiginleika en upphaflega". Skoða ber öll atriði handbókarinnar í þessum tilvikum.
Algengast er að verið sé að gera bifreið að öflugri torfærubifreið (stærri dekk og hækkun með tilheyrandi áhrifum á drifbúnað, ása og stýrisbúnað) en ekki má gleyma að um annarskonar breytingar getur líka verið að ræða. Almennt má segja að allar gerðarbreytingar, útfærslubreytingar og viðbætur varðandi stýrisbúnað, hemla, fjaðrir og ása, geri bifreið að breyttri bifreið, allar lengdarbreytingar á grind og sjálfberandi yfirbyggingu þannig að breyting verður á hjólhafi, svo og allar styrkleikabreytingar berandi hluta.
Um breytingar á veigamiklum atriðum bifreiða gildir eftirfarandi rammi:
Sérsmíðaðir íhlutir ökutækja: Óheimilt er að nota sérsmíðaða hluti í bifreið (sem hafa aðra eiginleika en upprunalegri hlutir og koma í stað þeirra) nema íhlutirnir hafi staðist úttekt viðurkennds aðila (sem Samgöngustofa viðurkennir). Á þetta við um íhluti sem haft geta áhrif á örugga notkun bifreiðarinnar, svo sem (og ekki einskorðað við) íhluta í stýrisgangi, aflrás, hemlakerfi og fjaðrabúnaði. Skýrsla viðurkennds úttektaraðila um viðkomandi íhlut skal fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.
Heimilar hæðarbreytingar: Heimil heildarhækkun bifreiðar (með því að auka bil milli yfirbyggingar og ása, þ.e. milli fjaðra og ása og/eða húss og grindar) þannig að bifreið hækki um 50 mm án þess að hún verði breytt bifreið, svo framarlega að breytingin hafi ekki áhrif á halla eða stefnu hjóla eða stýrisvala. Annars er heimilt að heildarhækkun bifreiðar verði allt að 250 mm og má mismunur hækkunar að framan og aftan ekki vera meiri en 50 mm. Að auki gildir að hækkun má ekki vera meiri en 50 mm milli blaðfjaðra og framáss, 100 mm milli annarra fjaðra og framáss, 100 mm milli fjaðra og afturáss, 100 mm milli húss og grindar og 200 mm milli hjólmiðju og grindar.
Hjólastærðarbreytingar: Heimilt er að breyta hjólastærð (þvermáli) um allt að 10% frá upprunalegri stærð framleiðanda án þess að bifreiðin verði breytt bifreið. Við aðrar breytingar þarf hraðamælavottorð að fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar. Heimilt er að hafa það stóra hjólbarða að þvermál þeirra nái allt að 44% af hjólhafi en að þeim skilyrðum uppfylltum að unnt sé að aka bifreiðinni á öruggan hátt, hemlar nái að stöðva bifreiðina á virkan hátt og fylgt sé reglum um skermun hjóla.
Styrkur yfirbyggingar breyttrar torfærubifreiðar: Ef yfirbygging er þannig að veltistyrkur bifreiðarinnar telst ekki fullnægjandi (t.d. blæjur, plastskýli) skal bifreiðin búin viðurkenndri veltigrind.
Hjólastöðubreytingar: Hafi breyting verið gerð á hjólabúnaði og/eða stýrisbúnaði, sem haft getur áhrif á hjólastöðu, skal hjólastöðuvottorð fylgja bifreið þegar hún er færð til breytingaskoðunar.
Krafa um öryggisbúnað: Þegar bifreið er orðin breytt bifreið skal hún búin öryggisbeltum í framsætum (hafi hún verið undarskilin slíkum kröfum). Breytt bifreið á að hafa slökkvitæki og sjúkrakassa.
Áhrif breytinga á ljósabúnað o.fl.: Hafi hæð ökutækis verið breytt með þeim afleiðingum að aðalljósker fara upp fyrir almenna hámarkshæð gilda sérreglur um stillingu aðalljóskera. Einnig gæti þurft að búa bifreiðina árekstrarvörn að framan- og/eða aftanverðu.
Nánari samantekt á kröfum til breytta bifreiða er að finna í leiðbeiningaskjali í stoðriti, ásamt þeim kröfum sem Samgöngustofa gerir til viðurkenningar úttektaraðila sérsmíðaðra íhluta í bifreiðir og um m.a. ferli raðframleiðslu og skýrslugjöf.
Verulegir annmarkar á breytingum sem valda höfnun
Ef í ljós kemur við breytingaskoðun að mikilvæg atriði er varða breytinguna uppfylla ekki kröfur, er breytingunni hafnað og skoðuninni líka. Þetta eru þá atriði sem eru umfram það að geta talist til slits sem almennt væri gerð athugasemd við í reglubundinni skoðun. Eiganda (umráðanda) ber þá skylda til að bæta strax úr þeim veigamiklu atriðum sem uppfylltu ekki kröfur eða að öðrum kosti hætta viðbreytinguna. Hætti eigandi (umráðandi) við breytinguna er engra frekari aðgerða þörf af hans hálfu, en klári hann breytinguna ber honum að færa ökutækið til breytingaskoðunar á ný. Við höfnun skoðunar og skráningar er send tilkynning til Samgöngustofu um þá afgreiðslu, sjá vinnulag við höfnun skoðunar í kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun.
Komi eftirfarandi í ljós við breytingaskoðun er litið svo á að um verulega annmarka sé að ræða sem valda höfnun skoðunar og skráningar:
Áskilin gögn, teikningar eða upplýsingar vegna breytinga fylgja ekki, hafa ekki verið samþykkt fyrirfram af Samgöngustofu eða breyting ökutækis er ekki í samræmi við samþykkt gögn.
Við veigamiklar breytingar á bifreið (breytt bifreið) hefur hækkun verið umfram mörk (eða ekki hægt að mæla fjöðrunarsvið vegna galla í stillingu loftpúðafjöðrunar), breyting hjólastærðar er ekki í samræmi við kröfur, styrkur yfirbyggingar breyttrar torfærubifreiðar ekki í samræmi við kröfur eða ráðstafanir vegna áhrifa á breytingar ekki gerðar í samræmi við kröfur (á ljósabúnað eða árekstrarvörn).
Ökutæki er orðið of stórt (of breitt, of langt eða of hátt) eða of langt fyrir aftan afturás eða afturásasamstæðu (og ekki skráð sem undanþáguökutæki).
Burðargeta er ekki næg, s.s. við breytingar á sætafjölda (of mörg sæti miðað við burðargetu) eða við breytingu á eiginþyngd (burðargeta ása eða heildarþyngd of lítil þegar í ljós kemur að eiginþyngd á einstaka ása er orðin meiri en burðargeta þeirra eða eiginþyngd ökutækis meiri en skráð heildarþyngd).
Ökutæki er ekki búið þeim áskilda búnaði sem nýr notkunarflokkur gerir kröfur um. Sé allur búnaður til staðar en ástand hans samt að einhverju leyti ófullnægjandi, er skoðun og skráningu ekki hafnað ef hægt er að dæma á það ástand á skoðunarvottorði samkvæmt verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir.
Efni kaflans
Skoðun hefst og henni lýkur
Þegar skoðunarmaður hefur tekið á móti ökutæki til skoðunar, hvort sem er inni í skoðunarstöð eða við útiskoðun, er miðað við að skoðun sé hafin. Fram að því getur önnur umsýsla vegna skoðunarinnar hafa átt sér stað, svo sem bókun í skoðun eða afgreiðsla vegna skoðunarinnar, en hún telst ekki upphafspunktur skoðunarinnar.
Öllum skoðunum skal ljúka með niðurstöðu, sbr. j. lið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja. Náist ekki að klára skoðun sem er hafin þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað". Skoðunarstöð getur hafnað skoðun en upp geta líka komið þau tilvik að eigandi (umráðandi) krefst þess að hætt verði við skoðun.
Skoðunarstöð hafnar því að skoða ökutæki
Skoðunarstofu er skylt, eftir atvikum, að hafna því að taka ökutæki til skoðunar, og/eða hafna skoðun eftir að hún hefst, í eftirfarandi tilvikum:
Eitthvað af skilyrðum til skoðunar, eins og þau eru rakin í kafla V Skilyrði til skoðana, eru ekki uppfyllt (jafnan yfirfarin áður en skoðun hefst).
Ef í ljós kemur að ökutækið er klakabrynjað eða þakið þannig snjó eða aur að það torveldi skoðun þess.
Ef í ljós kemur að á ökutækinu er farmur eða aðrir hlutir sem eru ekki nægilega vel festir og gætu valdið hættu fyrir skoðunarmann eða skemmdum á búnaði skoðunarstöðvar.
Ef í ljós kemur að ökutækið er í því ástandi, eða á því er farmur eða aðrir hlutir (þ.m.t. eftirásettir), sem gætu valdið truflun, töf eða verulegum óþægindum við framkvæmd skoðunarinnar, þ.m.t. nauðsynlegra prófana og mælinga.
Ef eigandi (umráðandi) upplýsir að hann hafi hætt við sömu skoðun ökutækisins í annarri skoðunarstöð einhverju áður.
Við höfnun skoðunar eru þær upplýsingar og dæmingar sem komnar eru á þeim tímapunkti um skoðunina færðar til bókar. Sjá nánar vinnulag við höfnun skoðunar í kafla IX Niðurstöður skoðana.
Eigandi (umráðandi) vill hætta við skoðun
Komi upp sú staða að eigandi (umráðandi) óskar eftir að hætta við skoðun sem hafin er, ber skoðunarmanni að upplýsa viðkomandi um að
samkvæmt skoðunarreglum þurfi að ljúka öllum skoðunum með niðurstöðu,
fái skoðunarmaður ekki að klára skoðunina með eðlilegum hætti muni skoðuninni ljúka með þeirri niðurstöðu að eigandi (umráðandi) hafi viljað hætta við skoðun, og
þá eigi skoðunarstofan um leið að senda formlega tilkynningu um þau málalok til Samgöngustofu.
Krefjist eigandi (umráðandi) ökutækis þess áfram að hætt verði við skoðunina áður en henni er lokið, fer málið í framangreindan feril. Sú undantekning er þó á þessum ferli að hafi skoðunin fram að þessu leitt í ljós að eitt eða fleiri skoðunaratriði hafi hlotið dæmingu 3, er ekki hægt að hætta við skoðun. Jafnframt er áréttað að ekki er hægt að hætta við skoðun sem er lokið.
Sjá nánar vinnulag við höfnun skoðunar í kafla IX Niðurstöður skoðana.
Efni kaflans
Ákvörðun um niðurstöðu skoðunar miðað við dæmingar atriða
Niðurstaða skoðunar skal færð í skoðunarvottorð í samræmi við annmarka sem fundust og dæmingar þeirra. Neðangreindar reglur gilda um skoðanir samkvæmt öllum verklagsbókum skoðana nema annað sé tiltekið í þeim sjálfum.
Niðurstaða skoðunar er "Án athugasemda" (0)
Hér gildir sú regla að finnist engir annmarkar við skoðun ökutækisins þá verður niðurstaðan "Án athugasemda".
Niðurstaðan hefur það í för með sér að næsta skoðun ökutækisins verður næsta reglubundna skoðun samkvæmt skoðunarreglu þess.
Niðurstaða endurskoðunar á endurskoðunarverkstæði getur aldrei orðið önnur en "Án athugasemda" (viðgerð lokið og skoðunarmaður endurskoðunarverkstæðis staðfestir að svo sé). Sömuleiðis getur niðurstaða samanburðarskoðunar aldrei orðið önnur en „Án athugasemda", nema skoðunin leiði í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu, þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað" og óheimilt er að nýskrá ökutækið.
Niðurstaða skoðunar er "Lagfæring" (1)
Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 1 þá verður niðurstaðan "Lagfæring".
Niðurstaðan felur í sér kröfu um að innan 30 daga skuli eigandi (umráðandi) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun á skoðunarvottorði, án þess að krafa sé gerð um að ökutækið sé fært til endurskoðunar. Jafnframt að haga skuli notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.
Niðurstaða skoðunar er "Endurskoðun" (2)
Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 2 þá verður niðurstaðan "Endurskoðun". Sama gildir í eftirfarandi sértilvikum:
Þegar í endurskoðun kemur í ljós að búið er að lagfæra öll skoðunaratriði sem hlutu dæmingu 2 í undangenginni skoðun en ekki þau sem hlutu dæmingu 1.
Þegar í endurskoðun kemur í ljós að búið er að lagfæra öll skoðunaratriði sem hlutu dæmingu 3 í undangenginni skoðun en ekki önnur skoðunaratriði.
Niðurstaðan felur í sér kröfu um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar. Jafnframt að haga skuli notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram. Til endurskoðunar skal veita frest til loka næsta mánaðar. Þann frest er hægt að framlengja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sjá kafla X Meðferð skoðunarmiða og tíðni skoðana.
Niðurstaða skoðunar er "Notkun bönnuð" (3)
Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 3 þá verður niðurstaðan "Notkun bönnuð". Sama gildir í eftirfarandi sértilvikum:
Þegar í endurskoðun (þ.m.t. endurtekinni aðalskoðun) kemur í ljós að ekki hefur verið bætt úr a.m.k. helmingi athugasemda sem gerðar voru við undangengna skoðun. Við þetta mat skal gefa eitt stig fyrir skoðunaratriði sem hlotið hafði dæmingu 1, tvö stig fyrir dæmingu 2 og þrjú stig fyrir dæmingu 3.
Þegar skoðunaratriði hlýtur dæmingu 2 við skoðun ökutækis sem lögregla hefur boðað í skoðun vegna vanbúnaðar. Áréttað er að þetta gildir í öllum tegundum skoðana sem ökutækið skal fært til af þessum ástæðum.
Þegar skoðunaratriði hlýtur dæmingu 2 við skoðun ökutækis sem er úr umferð vegna þess að lögregla hefur fjarlægt skráningarmerki af því vegna vanrækslu á skoðun eða vanbúnaðar. Áréttað er að þetta gildir í öllum tegundum skoðana sem ökutækið skal fært til af þessum ástæðum.
Niðurstaðan hefur það í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi. Þrátt fyrir notkunarbann gilda sérstakar heimildir til aksturs að lokinni skoðun ef notkun er bönnuð, sjá samnefndan kafla hér neðar.
Niðurstaða skoðunar er "Hætt við skoðun" (13)
Náist ekki að klára skoðun þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað", sbr. j. lið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja. Tvær ástæður geta legið þar að baki (sbr. kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun):
Skoðun hafnað af hálfu skoðunarstofu.
Hætt er við skoðun að hálfu viðskiptavinar.
Í öllum tilvikum skal eiganda (umráðanda) tilkynnt að þessi niðurstaða skoðunar valdi því að skoðunarstofan eigi að senda tilkynningu til Samgöngustofu um atvikið. Sú tilkynning er í formi textaskilaboða sem fylgja skoðuninni til Samgöngustofu (textareitur). Þar tilgreinir skoðunarstofa ástæðu þess að hætt var við skoðun ásamt skýringum. Sé ástæðan sú að skoðunarstofan hafnaði skoðun er það útskýrt í stuttu máli, en ef eigandi (umráðandi) hafnaði skoðun er áríðandi að eftirfarandi útskýringar komi fram:
Ástæðu þess að eigandi (umráðandi) hafnaði skoðun, t.d. ágreiningur um dæmingu eða af öðrum toga, ásamt lýsingu á því hvað gerðist.
Hvort náðist að upplýsa eiganda (umráðanda) með nægjanlegum hætti um að atvikið verði tilkynnt til Samgöngustofu með þessum hætti.
Hvort náðist að staðfesta verksmiðjunúmer.
Skoðunin er síðan send inn eins og venjulega með þeim upplýsingum og dæmingum sem þegar höfðu verið gerðar athugasemdir við, auk stöðu akstursmælis ef mögulegt er.
Samgöngustofa meðhöndlar tilkynninguna m.a. á þann hátt að ökutækið er sett í vöktun með tilliti til skoðana bæði fyrir og eftir atvikið. Sé ástæða til, eins og ef ætla má að ósamræmi gæti í framkvæmd skoðana milli skoðunarstöðva, mun Samgöngustofa grípa til viðeigandi ráðstafana, sjá nánar í kafla XII Eftirlit með skoðunum.
Reglur um akstur að lokinni skoðun ef notkun er bönnuð
Niðurstaðan "Notkun bönnuð" hefur almennt þær afleiðingar í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi.
Afar áríðandi er að upplýsa eiganda (umráðanda) um að hætta geti stafað af ökutækinu verði því ekið. Skoðunarmanni ber því að fara yfir eftirfarandi atriði með honum:
Útskýra í hverju annmarkinn felst og hversu hættulegur hann geti verið.
Að ökumaður sem býr yfir vitneskju af þessu tagi en ákveður samt að aka ökutækinu í þessu ástandi er að fremja umferðarlagabrot.
Að það sé álit skoðunarstofunnar að ökutækið sé hættulegt.
Að eigandi (umráðandi) ætti að gera ráðstafanir til að láta draga ökutækið eða flytja það burt.
Þrátt fyrir notkunarbann gilda sérstakar heimildir til aksturs að lokinni skoðun:
Heimilt að færa eftirvagn, þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn, stystu leið til viðgerðarstaðar og til skoðunar.
Heimilt er að aka ökutæki með eigin vélarafli eftir að viðgerð hefur farið fram, frá viðgerðarstaðnum og stystu leið til skoðunar.
Efni kaflans
Meðferð skoðunarmiða
Skoðunarmiði er settur á ökutæki í samræmi við reglur um sérhverja skoðunartegund og gerð og útfærslu ökutækis og skráningarmerkis. Neðangreindar reglur gilda um skoðanir samkvæmt öllum verklagsbókum skoðana nema annað sé tiltekið. Sjá einnig umfjöllun um skoðunarmiða í skráningareglum ökutækja.
Almennir miðar
Að lokinni skoðun samkvæmt verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir er skoðunarmiði settur á skoðunarskyld ökutæki í samræmi við niðurstöðu skoðunar, þannig:
Niðurstaða "Án athugasemda" eða "Lagfæring": Á ökutækið er límdur skoðunarmiði fyrir fullnaðarskoðun í samræmi við skoðunarreglu þess miðað við ökutækisflokk og notkunarflokk ökutækisins (sjá reglur um skoðunartíðni í næsta kafla).
Niðurstaða "Endurskoðun": Á ökutækið er límdur endurskoðunarmiði þess mánaðar sem frestur gildir til (miði með svörtu letri á grænum grunni, til notkunar á slétttöluári, og með svörtu letri á grænum og appelsínugulum grunni þar sem litir eru aðskildir með skástriki, til notkunar á oddatöluári).
Niðurstaða "Notkun bönnuð": Á ökutækið er límdur "Notkun bönnuð"-miði.
Á ökutæki með almenn skráningarmerki skal miðinn límdur á upplyftan flöt þeirra eftir gerð. Sömu staðsetningar gilda þótt upplyftur flötur sé ekki á skráningarmerkinu (á við um ökutæki sem öðluðust skoðunarskyldu síðar og því var ekki gert ráð fyrir upplyftum fleti á skráningarmerkjum þeirra):
Gerð A: Reiturinn á miðju skráningarmerkinu milli bókstafa og tölustafa fastanúmersins. Á einkamerki er reiturinn (sá eini) vinstra megin á skráningarmerkinu notaður.
Gerð B: Neðri reiturinn vinstra megin á skráningarmerkinu.
Gerð C: Reiturinn (sá eini) vinstra megin á skráningarmerkinu.
Gerð D: Reiturinn hægra megin á skráningarmerkinu.
Ef ökutækið er með skráningarmerki af eldri gerð er miðinn límdur þannig:
Á bifreið: Neðst í vinstra horn framrúðu.
Á bifhjól: Á stýristúpu eða annarstaðar sem því verður við komið.
Á eftirvagn: Við vinstri hlið skráningarmerkis.
Sjá nánari upplýsingar um skráningarmerki í skráningareglum ökutækja.
Sérstakir miðar
Til viðbótar við almenna skoðunarmiða samkvæmt fyrri kafla eru sérstakir miðar notaðir á ökutæki í tengslum við eftirfarandi skoðanir:
Leyfisskoðanir: Ef ökutæki uppfyllir kröfur leyfisskoðunar er límdur sérstakur viðeigandi leyfisskoðunarmiði í vinstra neðra horn framrúðu, sem segir til um það hvenær skoðun ökutækisins rennur úr gildi.
Breytingaskoðun á breyttri bifreið: Eftir að breytt bifreið hefur staðist breytingaskoðun er á áberandi stað fyrir ökumann komið fyrir viðvörunarmiða um breytta bifreið.
Tíðni reglubundinna skoðana
Við ákvörðun á tíðni reglubundinna skoðana gengið út frá ýmsum forsendum um ökutækið og notkun þess. Úr verða reglur sem segja til um skoðunarár og skoðunarmánuð innan ársins.
Skoðunarmánuður ökutækja á árinu
Ökutæki skal almennt færa til reglubundinnar skoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til og kallast hann skoðunarmánuður ökutækisins (skoðunarmánaðarregla). Sértilfelli reglunnar eru þessi:
Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki hafa skoðunarmánuðinn maí.
Bifreið í notkunarflokknum húsbifreið hefur skoðunarmánuðinn maí.
Létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II og bifhjól hefur skoðunarmánuðinn maí.
Eftirvagn í notkunarflokknum hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn hefur skoðunarmánuðinn maí.
Ökutæki á einkamerkjum með bókstaf sem síðasta staf á skráningarmerki hafa skoðunarmánuðinn maí.
Heimilt er að færa ökutæki til reglubundinnar skoðunar allt að sex mánuðum fyrir lögbundinn skoðunarmánuð (innan almanaksárs) og allt að tíu mánuðum fyrr (innan almanaksárs) hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs. Sé ökutæki fært til skoðunar fyrir þann tíma ber skoðunarstofu að hafna því að taka það til aðalskoðunar.
Ökutæki skal fært til reglubundinnar skoðunar í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar eftir að lögbundnum skoðunarmánuði lýkur. Sé ökutæki fært til skoðunar eftir það er það tekið til skoðunar eins og venjulega, en dragist það yfir áramótin er það skoðað "fyrra árs"-skoðun og reiknast þá skoðunartíðni frá réttu ári.
Skoðunartíðni 4-2-2-1-1...
Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á fjórða ári frá fyrstu skráningu, svo á tveggja ára fresti tvisvar og loks árlega eftir það, samkvæmt skoðunarmánaðarreglum þeirra:
Fólksbifreið (M1).
Sendibifreið (N1).
Dráttarvél sem hönnuð er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notuð á opinberum vegum (og skráð í slíka notkun).
Rafknúið dráttartæki.
Létt bifhjól (L1e, L2e og L6e) í flokki II.
Bifhjól (L3e, L4e, L5e, L6e og L7e).
Eftirvagn II (O2) og eftirvagn dráttarvélar I og II (R1 og R2) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notaður á opinberum vegum.
Skoðunartíðni 4-2-2-2-2...
Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á fjórða ári frá fyrstu skráningu, svo á tveggja ára fresti eftir það, samkvæmt skoðunarmánaðarreglum þeirra:
Eftirvagn I og II (O1 og O2) í notkunarflokknum tjaldvagn, fellhýsi eða hjólhýsi. Þó skulu þessir vagnar, fyrst skráðir 2004 og á slétttöluárum fyrir það ár (2002, 2000, 1998 o.s.frv.), sem færðir voru til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, næst færðir til reglubundinnar skoðunar árið 2024 og annað hvert ár eftir það.
Skoðunartíðni 3-2-2-1-1...
Eftirfarandi ökutæki skal fyrst færa til reglubundinnar skoðunar á þriðja ári frá fyrstu skráningu, svo á tveggja ára fresti næstu tvö skipti og loks árlega eftir það, samkvæmt skoðunarmánaðarreglum þeirra:
Ökutæki til ökutækjaleigu.
Ökutæki til ökukennslu.
Athuga þó að ökutæki sem skráð voru í ofangreinda notkunarflokka fyrir 31.12.2021 halda skoðunartíðninni 4-2-2-1... sem gilti þá.
Skoðunartíðni (1|2)-2-2-2-2...
Ökutæki í notkunarflokknum fornökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar á tveggja ára fresti miðað við fyrstu skráningu, samkvæmt skoðunarmánaðarreglu þeirra. Þetta getur þýtt það að fyrsta skoðun eftir að ökutæki varð fornökutæki verður annað hvort einu eða tveimur árum síðar, en eftir það á tveggja ára fresti.
Þó gildir að fornökutæki með fyrstu skráningu á oddatöluári en nýskráningarár á slétttöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2020, skulu færð næst til reglubundinnar skoðunar á árinu 2023 og annað hvert ár eftir það.
Einnig gildir að fornökutæki með fyrstu skráningu á slétttöluári en nýskráningar á oddatöluári, og voru færð til reglubundinnar skoðunar á Íslandi á árinu 2021, skulu næst færð til reglubundinnar skoðunar á árinu 2024 og annað hvert ár eftir það.
Skoðunartíðni 1-1-1-1-1...
Eftirfarandi ökutæki skal færa til reglubundinnar skoðunar árlega samkvæmt skoðunarmánaðarreglum þeirra:
Fólksbifreið í notkunarflokki leigubifreið.
Fólksbifreið í notkunarflokki skólabifreið.
Fólks- eða sendibifreið sem flytur fatlaða og hreyfihamlaða í atvinnuskyni og er skráð sem slík.
Fólks- eða sendibifreið ætluð til neyðaraksturs og er skráð sem slík.
Hópbifreið I og II (M2 og M3).
Vörubifreið I og II (N2 og N3).
Eftirvagn III og IV (O3 og O4).
Eftirvagn dráttarvélar III og IV (R3 og R4) sem hannaður er til aksturs yfir 40 km/klst og er aðallega notaður á opinberum vegum.
Áhrif á skoðunartíðni þegar ökutæki er breytt
Ef breyta á notkunarflokki ökutækis í notkunarflokk sem hefur rýmri skoðunartíðni þarf ökutækið áður að gangast undir reglubundna skoðun, hafi hún ekki þegar verið framkvæmd á almanaksárinu, óháð skoðunarmánuði viðkomandi ökutækis. Eigi ökutækið ekki að skoðast aðalskoðun á árinu skal þrátt fyrir það notast við aðalskoðun í þessum tilvikum (ekki endurtekna aðalskoðun). Skoðunarmánuður ökutækis uppfærist miðað við nýja notkunarflokkinn. Falli ökutæki undir fleiri en eina skoðunartíðni gildir örasta skoðunartíðnin.
Framlenging á fresti til endurskoðunar
Fram til 1. janúar 2025 er heimilt að veita 30 daga frest til viðbótar áður útgefnum fresti vegna endurskoðunar að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Slíkan frest er aðeins heimilt að veita ef ekki er unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða fá tíma fyrir ökutæki á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins. Skoðunarstofa veitir frestinn og getur, teljist þess þörf, óskað eftir staðfestingu á því að framangreind skilyrði undanþágu séu uppfyllt. Veiti skoðunarstofa frestinn skal nýr skoðunarmiði settur á ökutækið eða staðfesting á veittum fresti send eiganda (umráðanda) ökutækis með rafrænum hætti.
Tíðni annarra skoðana
Tíðni annarra skoðana er sem hér segir:
Ökutæki skráð til flutnings farþega og farms í atvinnuskyni (leyfisskoðuð ökutæki) skal skoðað árlega og miðast skoðunarmánuður við síðustu leyfisskoðun. Sé ökutækið fært til skoðunar á undan skoðunarmánuði eða eftir þá endurnýjast skoðunarmánuðurinn og er þá miðað við að nýtt 12 mánaða tímabil hefjist. Minnt er þó á að notkunarleyfið fellur niður í lok upphaflegs skoðunarmánaðar sé komið síðar.
Ökutæki skráð til flutnings á hættulegum farmi (ADR-ökutæki) skal skoðað árlega og miðast skoðunarmánuður við mánuð síðustu ADR-skoðunar. Sé ökutækið fært til skoðunar á undan skoðunarmánuði eða eftir þá endurnýjast skoðunarmánuðurinn og er þá miðað við að nýtt 12 mánaða tímabil hefjist. Minnt er þó á að ADR-leyfið fellur niður í lok upphaflegs skoðunarmánaðar sé komið síðar.
Efni kaflans
Lögformleg staða skoðunarvottorðs
Skoðunarstofa skal geta gefið út skoðunarvottorð fyrir það ökutæki sem það hefur skoðað reglubundinni skoðun samkvæmt skoðunarhandbók þessari, sbr. 22. gr. reglugerð um skoðun ökutækja og 8. gr. tilskipunar ESB um skoðun ökutækja. Samskonar krafa gildir einnig um aðrar tegundir skoðana. Með skoðunarvottorði sýnir skoðunarstofa fram á að tiltekin skoðun ökutækis hafi verið framkvæmd og hver niðurstaða hennar er.
Upplýsingum sem fram koma á skoðunarvottorði skal safnað á skilvirkan og öruggan hátt á meðan á skoðun stendur. Séu þær ekki færðar beint á skoðunarvottorð verður að halda þeim til haga á annan hátt, til dæmis á pappír eða í spjaldtölvu. Yfirfærsla gagna af pappír yfir á rafrænt form skal vera örugg til að tryggja áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fara til Samgöngustofu og eru notuð til að gefa út staðfest eintak skoðunarvottorðs hjá skoðunarstofu.
Skoðunarstofa skal varðveita skoðunarvottorð í a.m.k. tvö ár. Nægilegt er fyrir skoðunarstofu að varðveita rafrænu gögnin sem fram koma í vottorðinu, enda tryggt að gögnin glatist ekki á þessum tíma og á geymslutímanum sé hægt að nálgast (eða útbúa) rétt og staðfest eintak skoðunarvottorðs.
Upplýsingar sem koma skulu fram á skoðunarvottorði
Eftirfarandi upplýsingar skulu alltaf koma fram á skoðunarvottorði fyrir reglubundnar skoðanir og skulu tilteknar upplýsingar auðkenndar með samræmdum Evrópusambandskóðum (gildistaka auðkenningarkóða er 01.07.2024):
Titill: Að um sé að ræða skoðunarvottorð fyrir ökutæki.
Skoðunarstofan: Heiti skoðunarstofu (kóði 9), skoðunarstaður (kóði 3) og auðkenni (númer) skoðunarmanns sem ber ábyrgð á skoðun ökutækisins (kóði 9).
Evrópuríki: Tákn skráningarríkis ökutækisins („IS“ fyrir Ísland, kóði 2).
Skoðunin:Tegund skoðunar, dagsetning skoðunar (kóði 3) og dagsetning næstu reglubundinnar skoðunar (eða hvenær skoðunarvottorðið rennur út) (kóði 8).
Ökutækið: Verksmiðjunúmer (kóði 1), númer skráningarmerkis (kóði 2), tegund ökutækis og ökutækisflokkur (kóði 5).
Mengunarmæligildi: Fyrir vélknúin ökutæki, eftir því sem við á, skulu koma fram mæligildi mengunarmælingar, þ.e. CO-gildi, λ-gildi eða K-gildi. Skrá skal hærri töluna þegar tvíorku ökutæki eru mæld.
Hemlunarvirkni mæld í akstri: Tilgreina skal ef hemlunarvirkni ökutækis var mæld í akstri (þegar ekki var notast við hemlaprófara).
Akstursmælir: Núverandi staða akstursmælis (eða tímamælis) (kóði 4) sem og síðustu stöðu hans við skoðun (ef þessar upplýsingar eru tiltækar).
Skoðunaratriði: Finnist annmarkar við skoðun skulu þau skoðunaratriði talin upp (kóði 6), þ.e. númer, heiti, forsenda og dæming skoðunaratriðis, ásamt nánari skýringum ef þörf er á (um eðli fráviksins og/eða staðsetningu). Ekki er heimilt að nota önnur númer, heiti eða dæmingar skoðunaratriða en tilgreind eru í handbókinni.
Niðurstöður skoðunar: Niðurstaða skoðunar og staðlaðar skýringar ef við á (kóði 7). Ekki er heimilt að nota aðrar niðurstöður en tilgreindar eru í handbókinni.
Annað: Á vottorðið má skrá aðrar upplýsingar (kóði 10).
Undirritun vottorðs: Vottorð á pappírsformi skal undirritað af fulltrúa skoðunarstofunnar áður en það er afhent viðskiptavini eða staðfest af skoðunarstofunni með öðrum hætti (kóði 9).
Hafi niðurstaða skoðunar verið önnur en "Án athugasemda" skal þessi texti (eða sambærilegur) koma fram á vottorði fyrir reglubundnar skoðanir, eftir því sem við á:
Niðurstaða skoðunar 1: "Lagfæring. Innan 30 daga skal eigandi (umráðandi) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun. Haga skal notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.".
Niðurstaða skoðunar 2: "Endurskoðun. Krafa er um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar fyrir loka næsta mánaðar. Haga skal notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.".
Niðurstaða skoðunar 3: "Notkun bönnuð. Vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi. Þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa ökutæki með eigin vélarafli frá viðgerðarstað stystu leið til skoðunar. Þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa eftirvagn þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn stystu leið til viðgerðarstaðar og til skoðunar.".
Hætt við skoðun: "Skoðun hafnað. Hefur verið tilkynnt til Samgöngustofu.".
Á öllum skoðunarvottorðum skoðunarstofunnar er æskilegt er að viðskiptavinur sé upplýstur um eftirtalin atriði á vottorði:
Skoðunarreglur: Upplýsingar um að farið sé eftir skoðunarhandbók ökutækja sem Samgöngustofa gefur út. Að reglubundin skoðun sé í samræmi við ESB tilskipun nr. 2014/45.
Viðurkenning: Upplýsingar um faggildingu skoðunarstofunnar og faggildingarnúmer (eftir því sem við á um sérhverja skoðunartegund).
Kvartanir: Upplýsingar um ferli mögulegra kvartana vegna skoðana hjá skoðunarstofunni.
Framlenging frests: Upplýsingar um þá heimild sem í gildi er að framlengja megi frest til endurskoðunar að skilyrðum uppfylltum.
Innihaldi vottorða fyrir aðrar skoðanir en reglubundnar skoðanir er lýst í leiðbeiningaskjölum fyrir viðkomandi skoðanir sem finna má í stoðriti.
Afhending skoðunarvottorðs og upplýsingaskylda
Að loknum öllum tegundum skoðana skal skoðunarstofa hafa möguleika á því að gefa út staðfest skoðunarvottorð á pappír (útprentað) fyrir eiganda (umráðanda). Skoðunarstofu er heimilt að gefa út staðfest rafrænt eintak skoðunarvottorðs en það kemur ekki í stað kröfunnar um eintak á pappír (útprentað), sé þess óskað af eiganda (umráðanda).
Eigandi (umráðandi) getur afþakkað móttöku vottorðs og þarf skoðunarstofa þá ekki að prenta það út (ef verklag skoðunarstofunnar er með þeim hætti). Mælst er þó til þess að skoðunarvottorð sé ætíð gefið út á pappír (prentað út) ef annmarkar finnast í skoðun og vandlega sé farið yfir þá með eiganda (umráðanda). Sérstaklega er minnt á upplýsingaskyldu ef niðurstaðan er sú að notkun ökutækisins sé bönnuð, sjá kafla IX Niðurstöður skoðana.
Efni kaflans
Markmið eftirlits með framkvæmd skoðana
Markmið með eftirliti með skoðunum er að:
Tryggja að farið sé eftir kröfum skoðunarhandbókar við framkvæmd skoðana.
Tryggja að farið sé eftir kröfum um aðstöðu og búnað sem notaður er við skoðanir.
Samræma skoðanir einstakra skoðunarmanna (tölfræðilega).
Samræma starfsemi skoðunarstofa (tölfræðilega).
Hindra misnotkun á skoðunarstofukerfinu (m.a. að viðskiptavinir fari á milli stöðva).
Lágmarka rangar skráningar á skoðunum í ökutækjaskrá.
Lýsing á eftirliti með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða er í kafla VI reglugerðar um skoðun ökutækja.
Innra eftirlit skoðunarstofa
Í reglugerðinni eru m.a. settar fram eftirfarandi kröfur um eigið eftirlit skoðunarstofa með reglubundnum skoðunum (á eingöngu við skoðunarstofu af gerð A):
Til þess að samræma skoðanir einstakra skoðunarmanna og starfsemi skoðunarstofa skulu skoðunarstofur haga starfi sínu þannig að dæmingar skoðunarmanna og skoðunarstofa á einstökum sviðum skoðana og niðurstöður skoðana verði innan ákveðinna frávika. Þessi samræming á við um aðalskoðanir allra ökutækja sem skoðuð eru á sex mánaða tímabili hverju sinni og skulu skoðunarstofur geta framvísað slíku yfirliti.
Nú fullnægir eftir atvikum skoðunarstofa eða skoðunarmaður ekki kröfu um að vera innan tiltekinna frávika og skal þá skoðunarstofan gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. veita skoðunarmönnum fræðslu og gera Samgöngustofu grein fyrir ástæðum frávika.
Samanburður á dæmingum skoðunaratriða milli skoðunarmanna
Reiknað er út hvernig dæmingar ákveðinna hópa skoðunaratriða skiptast (hlutfall dæminga 1, 2 og 3). Gert mánaðarlega fyrir aðalskoðanir síðustu sex mánaða, annars vegar fyrir sérhvern skoðunarmann og hins vegar fyrir skoðunarstofuna í heild (meðaltal). Hlutföll skoðunarmanna eru svo borin saman við heildarhlutföll skoðunarstofunnar. Skoðunarmenn utan tveggja staðalfrávika frá meðaltali skoðunarstofunnar skal skoða sérstaklega.
Hópar skoðunaratriða í skoðunarhandbók eru fjórir; öll skoðunaratriði í kafla 1 (hemlabúnaður), öll atriði í kafla 2 (stýrisbúnaður), öll atriði í kafla 4 (ljósabúnaður) og öll atriði í kafla 5 (hjól o.fl.).
Samanburður á niðurstöðum skoðana milli skoðunarmanna
Reiknað er út hvernig niðurstöður skoðana skiptast (hlutfall niðurstaðna 0, 1, 2 og 3). Tekið út mánaðarlega fyrir aðalskoðanir síðustu sex mánaða, annars vegar fyrir sérhvern skoðunarmann og hins vegar fyrir skoðunarstofuna í heild (meðaltal). Skoðunarmenn utan tveggja staðalfrávika frá meðaltali skoðunarstofunnar skal skoða sérstaklega.
Eftirlit Samgöngustofu
Samgöngustofa hefur eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók og eftirlit með tæknilegum stjórnendum og viðurkenndum skoðunarmönnum. Skal Samgöngustofa í því sambandi hafa aðgang að húsnæði, tækjum og gögnum sem notuð eru við skoðun ökutækja.
Samgöngustofa getur falið öðrum athugun þess hvort skilyrði viðurkenningar eru fyrir hendi svo og eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða, og skal sá aðili hafa nauðsynlega hæfni til að meta gæði starfseminnar.
Samgöngustofa setur nánari verklagsreglur um eftirlitið sem aðgengilegar eru á rafrænu formi úr stoðriti. Markmiðið er að eftirlitið byggi á vel skilgreindu stjórnunarkerfi, atvikaskráningu og áhættugreiningu. Í megindráttum felst eftirlit Samgöngustofu í eftirfarandi þáttum:
Framkvæmd skoðana á skoðunarstofum. Skoðunarstöðvar eru heimsóttar árið um kring og fylgst með skoðunarmönnum að störfum og aðstaða skoðuð. Brugðist við frávikum eftir efni og eðli þeirra og áhersla á að gripið sé til ráðstafana þegar við á.
Samanburðarskoðanir milli skoðunarstofa (hulduskoðanir). Hér er um samanburð á framkvæmd skoðunar á einstökum ökutækjum milli skoðunarstofa. Sömu ökutækin eru þá færð á fleiri en eina skoðunarstöð. Farið er yfir niðurstöður með tæknilegum stjórnendum og ráðstafanir til úrbóta kortlagðar.
Skoðanir sem hætt er við. Þegar skoðunarstofa lýkur skoðun með niðurstöðunni „Skoðun hafnað“ er farið yfir ástæður þess. Ef ætla má að ósamræmi gæti í framkvæmd skoðana milli skoðunarstöðva er það skoðað betur í samvinnu við skoðunarstofurnar og mögulega fylgt eftir með því að boða viðkomandi ökutæki í skoðun á ný.
Rafrænt rauntímaeftirlit með innsendingu skoðana. Allar innsendar skoðanir eru athugaðar um leið og þær berast. Fylgst er með því að innihaldið sé í samræmi við skoðunarhandbók og ökutækisflokk, að ekki vanti gildi eða þau séu utan skilgreindra marka. Frávik eru tilkynnt innsendingaraðila um leið innsend skoðun er móttekin.
Tölfræðilegar samantektir og samanburður. Margvíslegur samanburður er unninn upp úr skoðunum skoðunarstofa til að gefa sem gleggsta mynd af samræmi milli skoðunarstofa og skoðunarmanna, m.a. tölfræði úr innra eftirliti skoðunarstofanna eins og lýst er í fyrri kafla fyrir allar skoðunarstofurnar í heild. Upplýsingar þessar eru aðgengilegar fyrir skoðunarstofur á rafrænu formi.
Úrvinnsla ábendinga. Unnið er úr ábendingum sem berast Samgöngustofu er varða framkvæmd einstakra skoðana eða frammistöðu skoðunarstofu. Ábendingar geta borist m.a. frá viðskiptavinum skoðunarstofanna (m.a. þeim sem ekki vilja una niðurstöðu skoðana, sbr. 47. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja), stjórnvöldum eða eftirlitsaðilum.
Viðbrögð við frávikum
Verði skoðunarstofa eða skoðunarmaður uppvís að ámælisverðum vinnubrögðum getur farið svo að Samgöngustofa svipti skoðunarmann viðurkenningu annað hvort tímabundið eða varanlega, eða endurskoði viðurkenningu skoðunarstofunnar. Allar slíkar ákvarðanir hafa aðdraganda og gefst skoðunarstofu þar tækifæri til að bæta úr. Ákvarðanirnar eru kæranlegar til ráðuneytis. Í verklagsreglum einstakra eftirlitsþátta í fyrri kafla er að finna möguleg viðbrögð við frávikum, en þau geta verið þessi:
Fylgi skoðunarmaður ekki reglum skoðunarhandbókar um skoðun ökutækja, getur Samgöngustofa krafist þess að viðkomandi ökutæki sé fært til skoðunar á ný. Samgöngustofa getur jafnframt krafist þess að viðkomandi skoðunarmaður sitji sérstakt námskeið og sinni ekki skoðunarstarfi fyrr en að loknu námskeiði.
Verði skoðunarmaður ítrekað uppvís að ámælisverðum vinnubrögðum sem ekki eru í samræmi við skoðunarhandbók um skoðun ökutækja getur Samgöngustofa svipt viðkomandi skoðunarmann viðurkenningu. Á sama hátt getur Samgöngustofa endurskoðað viðurkenningu skoðunarstofu verði starfsmenn hennar ítrekað vísir að ámælisverðum vinnubrögðum.
Samgöngustofu er heimilt að breyta niðurstöðum skoðunar, sem skoðunarmaður framkvæmir, ef dæming og niðurstaða skoðunar, eru augljóslega rangar.
Efni kaflans
Tæknileg málefni og beiðni um aðstoð
Almenn samskipti vegna skoðunarhandbókar
Almennt leitast skoðunarstofa við að leysa innanhúss úr daglegum málum sem upp koma í tengslum við framkvæmd skoðana samkvæmt skoðunarhandbók þessari. Þegar upp koma mál sem að mati skoðunarstofunnar þarfnast aðkomu Samgöngustofu eru nokkrar leiðir færar.
Senda erindið netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu sem er afgreiðsluhólf tæknideildar. Æskilegt er að tæknistjóri viðkomandi skoðunarstofu sendi slík erindi (sem tryggir að erindið hafi verið tekið fyrir innan skoðunarstofunnar) en öllum er að sjálfsögðu heimilt að senda þangað erindi. Markmiðið er að afgreiða erindi daglega.
Bera mál upp á reglulegum fundum tæknistjóra skoðunarstofanna (af gerð A) með Samgöngustofu (tækninefndarfundum, sjá neðar).
Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu eða staðgengill hans (formlegir tengiliðir við Samgöngustofu) geta líka hringt í starfsmann tæknideildar þoli erindið enga bið.
Erindi sem ekki tengjast beint skoðunarhandbók en eru á verksviði skoðunarstofunnar, s.s. ýmis skráningarstarfsemi, númeramál eða pöntun skoðunarmiða, fer eftir öðrum leiðum og er ekki fjallað um þær hér.
Þegar upp koma mál sem Samgöngustofa þarf að bera undir skoðunarstofu eða tilkynna skoðunarstofu, og varða skoðunarstarfsemi, er tölvupóstur sendur á viðkomandi tæknistjóra.
Reglulegir fundir með skoðunarstofunum
Samgöngustofa boðar til tækninefndarfunda með fulltrúum skoðunarstofa af gerð A reglulega, helst ársfjórðungslega. Á þeim fundum er haldin fundargerð og erindi aðila færð til bókar. Jafnframt er farið yfir stöðu mála frá fyrri fundi. Markmið þessara funda er að vera samstarfsvettvangur um stöðuga þróun skoðunarhandbókarinnar og upplýsingamiðlun milli aðila.
Samgöngustofa boðar til árlegra funda með fulltrúum endurskoðunarverkstæða (skoðunarstofu af gerð B). Á fundunum er tekið samtal um skoðunarhandbókina, verklag og tækjabúnað, auk annarra mála. Haldin er fundargerð sem send er út til allra faggildra endurskoðunarverkstæða. Markmið þessara funda er að bjóða upp á samtal milli aðila um skoðunarkerfið.
Samskipti við eftirlitsmenn Samgöngustofu
Í verklagsreglum Samgöngustofu fyrir sérhvert eftirlitskerfi er tilgreint hvaða samskipti fara fram milli aðila á meðan á eftirliti stendur. Almennt eru þau í lágmarki til að trufla ekki starfsemina en þess á milli, bæði fyrir og eftir, er að mati Samgöngustofu sjálfsagt að samtal eigi sér stað milli aðila um dagleg verkefni.
Samskipti um uppfærslu skoðunarhandbókar
Skoðunarhandbókin á að vera í stöðugri þróun. Samgöngustofa fylgist með ytri kröfum og uppfærir skoðunarhandbókina eftir því sem þær breytast. Markmiðið er svo að fá innlegg frá skoðunarstofum um það sem bæta má í framkvæmdinni, s.s. að endurbæta verklýsingar, upplýsingar eða orðalag.
Skoðunarstofur eru sérfræðingar í framkvæmd skoðana og afar æskilegt að greinargóðar upplýsingar um endurbætur og úrbætur berist frá skoðunarstofunum þegar þörf er á. Eftir því sem tillögur að uppfærslum í handbókina verða nákvæmari og greinarbetri verður auðveldara og fljótlegra að bregðast við.
Þegar um meiriháttar breytingar á skoðunarhandbók er að ræða, til dæmis vegna innleiðingar á sérstökum kröfum eða nýjum tækjabúnaði, getur verið æskilegt að stofna vinnuhópa með skoðunarstofunum.
Þegar skoðunarhandbók er breytt verða gjarnan breytingar á verklagi skoðunarstofanna. Ef um minniháttar breytingar er að ræða verður almennt ekki gefinn langur frestur til innleiðingar, enda má reikna með að slíkar breytingar hafi átt sér nokkurn aðdraganda í samstarfi við skoðunarstofurnar. Þegar um meiriháttar breytingar er að ræða verður gefinn rýmri aðlögunartími.
Áríðandi og tímabundnar öryggistilkynningar
Með þessari nýju skoðunarhandbók er tekin upp sú nýjung að halda utan um öryggistilkynningar í handbókinni, sbr. kafla II Uppbygging skoðunarhandbókar.
Þegar skoðunarstofa telur rétt að senda Samgöngustofu upplýsingar um slíkt mál er óskað eftir því að Samgöngustofa geti nýtt sér upplýsingarnar að hluta eða öllu leyti við gerð öryggistilkynningarinnar. Samgöngustofa mun hafa samband við skoðunarstofuna og væntanlega aðra hlutaðeigandi, svo sem ökutækjaumboð eða varahlutasala, við vinnslu og frágang tilkynningarinnar. Verði það niðurstaðan úr vinnslunni að öryggistilkynning eigi rétt á sér, er hún gefin út í skoðunarhandbók.
Þegar ný öryggistilkynning er komin í skoðunarhandbók sendir Samgöngustofa tölvupóst á allar skoðunarstofurnar (líka endurskoðunarverkstæði) og lætur vita af útgáfunni. Æskilegt er að skoðunarstofurnar dreifi þeim upplýsingum innanhúss sem fyrst.
Þegar úrbótum lýkur þá fjarlægir Samgöngustofa öryggistilkynninguna úr skoðunarhandbók og sendir á ný út tilkynningu eins og áður og reiknar með því að skoðunarstofurnar komi því á framfæri.
Innsending gagna er varða skoðun og skráningu
Nokkuð er um rafræn samskipti milli skoðunarstofanna og Samgöngustofu í tengslum við skoðanir ökutækja samkvæmt skoðunarhandbók þessari. Lýsingar á þeim er að finna í leiðbeiningaskjali í stoðriti.
Innsending og leiðrétting skoðana
Upplýsingum um framkvæmdar skoðanir samkvæmt skoðunarhandbók þessari skal skilað til Samgöngustofu samdægurs. Skilin skulu vera í formi skilgreindra skeytasendinga.
Skoðunarstofa getur leiðrétt áður innsendar skoðanir með uppfærsluskeyti. Komi upp tilvik sem það er ekki hægt, t.d. þegar verið er að framlengja frest til endurskoðunar á skoðun sem önnur skoðunarstofa framkvæmdi, ber að senda tölvupóst á afgreiðsluhólf tæknideildar, með beiðni um leiðréttingu.
Þessi kafli formálans innihélt tilvísun til annarra skjala handbókar sem voru hluti af vefskjölum á eldri vef Samgöngustofu til 1. maí 2024. Þá færðist bókin á núverandi form og mynda allir hlutar bókarinnar nú heildstæða handbók og tilvísanir í önnur skjöl hennar óþarfar.
Yfirlitsskjal um ýmisleg kerfisleg atriði:
Eldri útgáfur af skoðunaratriðahluta verklagsbókar fyrir reglubundnar skoðanir (sem er á pdf-formi):
Eldri útgáfur skoðunarkerfis (formáli og var á pdf-formi)