Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Ákvörðun um niðurstöðu skoðunar miðað við dæmingar atriða

    Niðurstaða skoðunar skal færð í skoðunarvottorð í samræmi við annmarka sem fundust og dæmingar þeirra. Neðangreindar reglur gilda um skoðanir samkvæmt öllum verklagsbókum skoðana nema annað sé tiltekið í þeim sjálfum.

    Niðurstaða skoðunar er "Án athugasemda" (0)

    Hér gildir sú regla að finnist engir annmarkar við skoðun ökutækisins þá verður niðurstaðan "Án athugasemda".

    Niðurstaðan hefur það í för með sér að næsta skoðun ökutækisins verður næsta reglubundna skoðun samkvæmt skoðunarreglu þess.

    Niðurstaða endurskoðunar á endurskoðunarverkstæði getur aldrei orðið önnur en "Án athugasemda" (viðgerð lokið og skoðunarmaður endurskoðunarverkstæðis staðfestir að svo sé). Sömuleiðis getur niðurstaða samanburðarskoðunar aldrei orðið önnur en „Án athuga­semda", nema skoðunin leiði í ljós frávik sem ekki er unnt að leiðrétta fyrir nýskráningu, þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað" og óheimilt er að nýskrá ökutækið.

    Niðurstaða skoðunar er "Lagfæring" (1)

    Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 1 þá verður niðurstaðan "Lagfæring".

    Niðurstaðan felur í sér kröfu um að innan 30 daga skuli eigandi (umráðandi) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun á skoðunarvottorði, án þess að krafa sé gerð um að ökutækið sé fært til endurskoðunar. Jafnframt að haga skuli notkun ökutækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram.

    Niðurstaða skoðunar er "Endurskoðun" (2)

    Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 2 þá verður niðurstaðan "Endurskoðun". Sama gildir í eftirfarandi sértilvikum:

    • Þegar í endurskoðun kemur í ljós að búið er að lagfæra öll skoðunaratriði sem hlutu dæmingu 2 í undangenginni skoðun en ekki þau sem hlutu dæmingu 1.

    • Þegar í endurskoðun kemur í ljós að búið er að lagfæra öll skoðunaratriði sem hlutu dæmingu 3 í undangenginni skoðun en ekki önnur skoðunaratriði.

    Niðurstaðan felur í sér kröfu um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar. Jafnframt að haga skuli notkun öku­tækisins í samræmi við niðurstöðu skoðunar þar til fullnaðarviðgerð hefur farið fram. Til endurskoðunar skal veita frest til loka næsta mánaðar. Þann frest er hægt að framlengja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sjá kafla X Meðferð skoðunarmiða og tíðni skoðana.

    Niðurstaða skoðunar er "Notkun bönnuð" (3)

    Hér gildir sú regla að ef hæsta tala dæminga á skoðunarvottorðinu er 3 þá verður niðurstaðan "Notkun bönnuð". Sama gildir í eftirfarandi sértilvikum:

    • Þegar í endurskoðun (þ.m.t. endurtekinni aðalskoðun) kemur í ljós að ekki hefur verið bætt úr a.m.k. helmingi athuga­semda sem gerðar voru við undangengna skoðun. Við þetta mat skal gefa eitt stig fyrir skoð­unaratriði sem hlotið hafði dæmingu 1, tvö stig fyrir dæmingu 2 og þrjú stig fyrir dæmingu 3.

    • Þegar skoðunaratriði hlýtur dæmingu 2 við skoðun ökutækis sem lögregla hefur boðað í skoðun vegna vanbúnaðar. Áréttað er að þetta gildir í öllum tegundum skoðana sem ökutækið skal fært til af þessum ástæðum.

    • Þegar skoðunaratriði hlýtur dæmingu 2 við skoðun ökutækis sem er úr umferð vegna þess að lögregla hefur fjar­lægt skráningarmerki af því vegna vanrækslu á skoðun eða vanbúnaðar. Áréttað er að þetta gildir í öllum tegundum skoðana sem ökutækið skal fært til af þessum ástæðum.

    Niðurstaðan hefur það í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi. Þrátt fyrir notkunarbann gilda sérstakar heimildir til aksturs að lokinni skoðun ef notkun er bönnuð, sjá samnefndan kafla hér neðar.

    Niðurstaða skoðunar er "Hætt við skoðun" (13)

    Náist ekki að klára skoðun þá verður niðurstaðan "Skoðun hafnað", sbr. j. lið 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja. Tvær ástæður geta legið þar að baki (sbr. kafla VIII Höfnun skoðunar/Hætt við skoðun):

    • Skoðun hafnað af hálfu skoðunarstofu.

    • Hætt er við skoðun að hálfu viðskiptavinar.

    Í öllum tilvikum skal eiganda (umráðanda) tilkynnt að þessi niðurstaða skoðunar valdi því að skoðunarstofan eigi að senda tilkynningu til Samgöngustofu um atvikið. Sú tilkynning er í formi textaskilaboða sem fylgja skoðuninni til Samgöngustofu (textareitur). Þar tilgreinir skoðunarstofa ástæðu þess að hætt var við skoðun ásamt skýringum. Sé ástæðan sú að skoðunarstofan hafnaði skoðun er það útskýrt í stuttu máli, en ef eigandi (umráðandi) hafnaði skoðun er áríðandi að eftirfarandi útskýringar komi fram:

    • Ástæðu þess að eigandi (umráðandi) hafnaði skoðun, t.d. ágreiningur um dæmingu eða af öðrum toga, ásamt lýsingu á því hvað gerðist.

    • Hvort náðist að upplýsa eiganda (umráðanda) með nægjanlegum hætti um að atvikið verði tilkynnt til Samgöngustofu með þessum hætti.

    • Hvort náðist að staðfesta verksmiðjunúmer.

    Skoðunin er síðan send inn eins og venjulega með þeim upplýsingum og dæmingum sem þegar höfðu verið gerðar athugasemdir við, auk stöðu akstursmælis ef mögulegt er.

    Samgöngustofa meðhöndlar tilkynninguna m.a. á þann hátt að ökutækið er sett í vöktun með tilliti til skoðana bæði fyrir og eftir atvikið. Sé ástæða til, eins og ef ætla má að ósamræmi gæti í framkvæmd skoðana milli skoðunarstöðva, mun Samgöngustofa grípa til viðeigandi ráðstaf­ana, sjá nánar í kafla XII Eftirlit með skoðunum.

    Reglur um akstur að lokinni skoðun ef notkun er bönnuð

    Niðurstaðan "Notkun bönnuð" hefur almennt þær afleiðingar í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli þar til ráðin hefur verið bót á annmörkunum og nýtt skoðunarvottorð að lokinni endurskoðun staðfestir að ökutæki sé í aksturshæfu ástandi.

    Afar áríðandi er að upplýsa eiganda (umráðanda) um að hætta geti stafað af ökutækinu verði því ekið. Skoðunarmanni ber því að fara yfir eftirfarandi atriði með honum:

    • Útskýra í hverju annmarkinn felst og hversu hættulegur hann geti verið.

    • Að ökumaður sem býr yfir vitneskju af þessu tagi en ákveður samt að aka ökutækinu í þessu ástandi er að fremja umferðarlagabrot.

    • Að það sé álit skoðunarstofunnar að ökutækið sé hættulegt.

    • Að eigandi (umráðandi) ætti að gera ráðstafanir til að láta draga ökutækið eða flytja það burt.

    Þrátt fyrir notkunarbann gilda sérstakar heimildir til aksturs að lokinni skoðun:

    • Heimilt að færa eftirvagn, þ.m.t. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn, stystu leið til viðgerðar­staðar og til skoðunar.

    • Heimilt er að aka ökutæki með eigin vélarafli eftir að viðgerð hefur farið fram, frá viðgerðarstaðnum og stystu leið til skoðunar.