Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Tæknileg málefni og beiðni um aðstoð

    Almenn samskipti vegna skoðunarhandbókar

    Almennt leitast skoðunarstofa við að leysa innanhúss úr daglegum málum sem upp koma í tengslum við framkvæmd skoðana samkvæmt skoðunarhandbók þessari. Þegar upp koma mál sem að mati skoðunarstofunnar þarfnast aðkomu Samgöngustofu eru nokkrar leiðir færar.

    • Senda erindið netfangið okutaeki hjá Samgöngustofu sem er afgreiðsluhólf tæknideildar. Æskilegt er að tæknistjóri viðkomandi skoðunarstofu sendi slík erindi (sem tryggir að erindið hafi verið tekið fyrir innan skoðunarstofunnar) en öllum er að sjálfsögðu heimilt að senda þangað erindi. Markmiðið er að afgreiða erindi daglega.

    • Bera mál upp á reglulegum fundum tæknistjóra skoðunarstofanna (af gerð A) með Samgöngustofu (tækninefndarfundum, sjá neðar).

    • Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu eða staðgengill hans (formlegir tengiliðir við Samgöngustofu) geta líka hringt í starfsmann tæknideildar þoli erindið enga bið.

    Erindi sem ekki tengjast beint skoðunarhandbók en eru á verksviði skoðunarstofunnar, s.s. ýmis skráningarstarfsemi, númeramál eða pöntun skoðunarmiða, fer eftir öðrum leiðum og er ekki fjallað um þær hér.

    Þegar upp koma mál sem Samgöngustofa þarf að bera undir skoðunarstofu eða tilkynna skoðunarstofu, og varða skoðunarstarfsemi, er tölvupóstur sendur á viðkomandi tæknistjóra.

    Reglulegir fundir með skoðunarstofunum

    Samgöngustofa boðar til tækninefndarfunda með fulltrúum skoðunarstofa af gerð A reglulega, helst ársfjórðungslega. Á þeim fundum er haldin fundargerð og erindi aðila færð til bókar. Jafnframt er farið yfir stöðu mála frá fyrri fundi. Markmið þessara funda er að vera samstarfs­vettvangur um stöðuga þróun skoðunarhandbókarinnar og upplýsingamiðlun milli aðila.

    Samgöngustofa boðar til árlegra funda með fulltrúum endurskoðunarverkstæða. Á fundunum er tekið samtal um skoðunarhandbókina, verklag og tækjabúnað, auk annarra mála. Haldin er fundargerð sem send er út til allra faggildra endurskoðunar­verkstæða. Markmið þessara funda er að bjóða upp á samtal milli aðila um skoðunarkerfið.

    Samskipti við eftirlitsmenn Samgöngustofu

    Í verklagsreglum Samgöngustofu fyrir sérhvert eftirlitskerfi er tilgreint hvaða samskipti fara fram milli aðila á meðan á eftirliti stendur. Almennt eru þau í lágmarki til að trufla ekki starfsemina en þess á milli, bæði fyrir og eftir, er að mati Samgöngustofu sjálfsagt að samtal eigi sér stað milli aðila um dagleg verkefni.

    Samskipti um uppfærslu skoðunarhandbókar

    Skoðunarhandbókin á að vera í stöðugri þróun. Samgöngustofa fylgist með ytri kröfum og uppfærir skoðunarhandbókina eftir því sem þær breytast. Markmiðið er svo að fá innlegg frá skoðunarstofum um það sem bæta má í framkvæmdinni, s.s. að endurbæta verklýsingar, upplýsingar eða orðalag.

    Skoðunarstofur eru sérfræðingar í framkvæmd skoðana og afar æskilegt að greinargóðar upplýsingar um endurbætur og úrbætur berist frá skoðunarstofunum þegar þörf er á. Eftir því sem tillögur að uppfærslum í handbókina verða nákvæmari og greinarbetri verður auðveldara og fljótlegra að bregðast við.

    Þegar um meiriháttar breytingar á skoðunarhandbók er að ræða, til dæmis vegna innleiðingar á sérstökum kröfum eða nýjum tækjabúnaði, getur verið æskilegt að stofna vinnuhópa með skoðunarstofunum.

    Þegar skoðunarhandbók er breytt verða gjarnan breytingar á verklagi skoðunarstofanna. Ef um minniháttar breytingar er að ræða verður almennt ekki gefinn langur frestur til innleiðingar, enda má reikna með að slíkar breytingar hafi átt sér nokkurn aðdraganda í samstarfi við skoðunarstofurnar. Þegar um meiriháttar breytingar er að ræða verður gefinn rýmri aðlögunartími.

    Áríðandi og tímabundnar öryggistilkynningar

    Með þessari nýju skoðunarhandbók er tekin upp sú nýjung að halda utan um öryggis­tilkynningar í handbókinni, sbr. kafla II Uppbygging skoðunarhandbókar.

    Þegar skoðunarstofa telur rétt að senda Samgöngustofu upplýsingar um slíkt mál er óskað eftir því að Samgöngustofa geti nýtt sér upplýsingarnar að hluta eða öllu leyti við gerð öryggis­tilkynningarinnar. Samgöngustofa mun hafa samband við skoðunarstofuna og vænta­nlega aðra hlutaðeigandi, svo sem ökutækjaumboð eða varahlutasala, við vinnslu og frágang tilkynningarinnar. Verði það niðurstaðan úr vinnslunni að öryggistilkynning eigi rétt á sér, er hún gefin út í skoðunarhandbók.

    Þegar ný öryggistilkynning er komin í skoðunarhandbók sendir Samgöngustofa tölvupóst á allar skoðunarstofurnar (líka endurskoðunarverkstæði) og lætur vita af útgáfunni. Æskilegt er að skoðunarstofurnar dreifi þeim upplýsingum innanhúss sem fyrst.

    Þegar úrbótum lýkur þá fjarlægir Samgöngustofa öryggistilkynninguna úr skoðunarhandbók og sendir á ný út tilkynningu eins og áður og reiknar með því að skoðunarstofurnar komi því á framfæri.

    Innsending gagna er varða skoðun og skráningu

    Nokkuð er um rafræn samskipti milli skoðunarstofanna og Samgöngustofu í tengslum við skoðanir ökutækja samkvæmt skoðunarhandbók þessari. Lýsingar á þeim er að finna í leið­beiningaskjali í stoðriti.

    Innsending og leiðrétting skoðana

    Upplýsingum um framkvæmdar skoðanir samkvæmt skoðunarhandbók þessari skal skilað til Samgöngustofu samdægurs. Skilin skulu vera í formi skilgreindra skeytasendinga.

    Skoðunarstofa getur leiðrétt áður innsendar skoðanir með uppfærsluskeyti. Komi upp tilvik sem það er ekki hægt, t.d. þegar verið er að framlengja frest til endurskoðunar á skoðun sem önnur skoðunarstofa framkvæmdi, ber að senda tölvupóst á afgreiðsluhólf tæknideildar, með beiðni um leiðréttingu.