Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skoðunarhandbók ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. apríl 2025 -

Gildir frá: 01.03.2023. Í skoðunarhandbók ökutækja eru verklagsreglur fyrir skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði um hvernig haga skuli skoðun og dæmingum einstakra skoðunaratriða.

    Skoðunarkerfið

    Grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    Efni kaflans

    Kaflaskipting skoðunarhandbókar

    Skoðunarhandbókin skiptist í eftirtalda fimm hluta sem í heild mynda skoðunarhandbók ökutækja.

    -> Skoðunarkerfið (formáli)

    Hér er að finna grunnupplýsingar m.a. um lögformlega stöðu skoðunarhandbókar, hlutverk aðila, skoðunarkerfið og verklagsbækur, samskipti, meðferð upplýsinga og samræmi í fram­kvæmd.

    -> Verklagsbækur fyrir reglubundnar skoðanir o.fl.

    Verklagsbækur skoðunarmannsins innihalda upplýsingar um skoðunar­aðferðir, verklýsingar og dæmingar einstakra skoðunaratriða.

    Fyrirferðarmest er verklagsbók fyrir reglubundnar skoðanir sem nær yfir alla framkvæmd aðalskoðunar ásamt skoðun á ástandi í skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun­um þeirra. Henni er skipt í níu yfirkafla sem hver fjallar um ákveðinn búnað eða kerfi ökutækja. Sérhver kafli inniheldur safn skoðunaratriða sem notuð eru við dæmingar á viðkomandi búnaði og lýst er í undirkafla. Atriðin eru númeruð. Þessi númer skal nota og engin önnur við dæmingar einstakra atriða sem færð eru á skoðunarvottorð. Kaflarnir eru þessir (í samræmi við kaflaskiptinguna í tilskipun ESB um skoðun öku­tækja):

    • Kafli 0 - Auðkenning ökutækis

    • Kafli 1 - Hemlabúnaður

    • Kafli 2 - Stýrisbúnaður

    • Kafli 3 - Útsýn, rúður, þurkur, speglar

    • Kafli 4 - Ljósker, glit, rafbúnaður

    • Kafli 5 - Ásar, fjöðrun, felgur, hjólabarðar

    • Kafli 6 - Undirvagn, grind, yfirbygging, innrými, áfastur búnaður

    • Kafli 7 - Annar búnaður (öryggis, takmörkun, mælar o.fl.)

    • Kafli 8 - Umhverfi, mengun

    • Kafli 9 - Viðbótarskoðun hópbíla og tiltekinna notkunarflokka

    Sá hluti verklagsbókarinnar sem inniheldur lista yfir skoðunaratriðin og dæmingar þeirra er í sérstöku pdf-skjali. Þar kemur eftirfarandi fram:

    • Kaflaheiti (efst í fyrirsögn fremst í hverjum kafla) og yfirheiti skoðunaratriðis í bláum borða (ásamt yfirnúmeri atriðisins).

    • Skoðunaraðferð fyrir skoðunaratriðið og verklýsing ásamt stuttum athugasemdum og túlkunum á hvítu innrömmuðu svæði fyrir neðan bláa borðann.

    • Mögulegir annmarkar eru taldir upp í neðsta rammanum þar sem fram koma númer atriðanna, forsenda dæmingar, dæming (flokkun) og loks nánari útskýring á einstökum annmörkum, oft með stuttri verklýsingu.

    Lengri athugasemdir og túlkanir ásamt ítarlegri leiðbeiningum um kröfur, mæliaðferðir, skoðunaraðferðir og skráningu einstakra ökutækja, ökutækisflokka eða einstakra hluta ökutækja er í köflum þessa hluta handbókarinnar og í öðrum hlutum hennar.

    Efnið er sett fram með þeim hætti að skoðunarmenn geti á einum stað kynnt sér afmarkaða þætti um skoðun ökutækis með ítarlegum hætti. Meðal efnis eru samantektir um skoðun hemlabúnaðar, stýrisbúnaðar og hjólabúnaðar, samantekt á kröfum um ökutæki í einstök­um notkunarflokkum ásamt aðferðum við mælingar á hávaða og mengun, svo eitthvað sé nefnt.

    -> Aðrar verklagsbækur

    Aðrar verklagsbækur hafa einfaldari framsetningu sem útskýrð er í hverri bók fyrir sig.

    • Verklagsbók fyrir skráningarskoðanir

    • Verklagsbók fyrir samanburðarskoðanir

    • Verklagsbók fyrir ADR-skoðanir

    • Verklagsbók fyrir ADR-viðurkenningarskoðanir

    • Verklagsbók fyrir tjónaendurmat

    -> Leiðbeiningar framleiðenda

    Hér er að finna sértækar upplýsingar um einstök ökutæki eða hluta þeirra sem

    • miða þarf við í mati á fráviki, t.d. þegar eitthvað er umfram leyfileg mörk framleiðanda,

    • þekkja þarf til að geta t.d. gangsett, stýrt eða prófað ökutæki eða hluta þess (forskrift eða hvernig á að bera sig að),

    • þekkja þarf í tengslum við skoðun á kerfum, t.d. skilgreiningu framleiðanda á neyðarhemlakerfi eða hvort ökutæki eigi að vera búið tilteknum búnaði, og

    • Samgöngustofa hefur tekið saman varða einstök ökutæki eða gerðir ökutækja.

    -> Samantektir og tilkynningar

    Þetta eru:

    • Öryggistilkynningar eru sérstakar tímabundnar tilkynningar ætluðum skoðunarstofum um tímabundin öryggisvandamál í einstökum ökutækjum eða búnaði þeirra. Markmiðið er að skoðunarmenn geti, með aukinni upplýsinga­gjöf, brugðist betur við slíkum aðstæðum og dæmt með viðeigandi hætti. Upplýsingar um vandamál af þessu tagi geta borist Samgöngustofu m.a. frá skoðunarstofum og ökutækjaumboð­um og leggur Samgöngustofa mat á útgáfu þeirra sem öryggistilkynningu. Á meðan innköllun eða sambærilegar ráðstafanir eru í gangi verður öryggistilkynning sýnileg og fylgir Samgöngu­stofa málinu eftir. Þegar úrbótum lýkur er tilkynningin tekin út úr skoðunarhandbókinni (úr vefskjalinu). Upplýsingar um viðvarandi öryggistengd vandamál einstakra tegunda ökutækja sem ekki lúta innköllun eða sambærilegra aðgerða fara hins vegar inn í viðeigandi leiðbeiningaskjöl.

    • Sérstakar samantektir um skoðanir tiltekinna flokka eða útfærslna ökutækja sem kallað hefur verið eftir að sé að finna í handbókinni til að tryggja betur samræmi með framkvæmdinni.

    • Samantektaryfirlit þeirra laga, reglugerða og reglna sem gilda um gerð og búnað ökutækja, skoðun, skráningu og annað er viðkemur skoðunarstarfsemi. Listinn er til hægðar­auka fyrir skoðunarstofur en þeim látið eftir að viða að sér sjálfum kröfuskjölunum og halda þeim til haga í eigin kerfum.

    • Samantekt á kröfum um aðstöðu og búnað á skoðunarstofum.

    Útgáfa og uppfærsluaðferðir skoðunarhandbókar

    Samgöngustofa setur sér það markmið að skjöl skoðunarhandbókar séu uppfærð eins ört og þörf er á til að tryggja áreiðanleika þeirra.

    Handbókin er öll á rafrænu formi á opinberum handbókarvef Samgöngustofu sem er vistaður undir vef island.is. Skjöl handbókarinnar eru í útgáfukerfi handbókarvefsins ásamt breytingasögu sem inniheldur efnislegar breytingar. Auðvelt er fyrir Samgöngustofu að uppfæra þessi skjöl og markmiðið að geta brugðist fremur hratt við, s.s. vegna tækninýjunga, tækni­upplýsinga, beiðna um nánari útskýr­ingar eða vegna öryggistilkynninga.

    Upplýsingar upp úr skoðunarhandbók sem Samgöngustofa lætur skoðunarstofum í té á rafrænu formi, svo sem listi yfir skoðunaratriði, eru uppfærðar samhliða útgáfu í skoðunar­hand­bókinni.