Persónuvernd á vinnustöðum
Vöktun með vinnuskilum starfsmanns
Vöktun með vinnuskilum er viðvarandi eða reglubundin vöktun sem fer fram til að hafa eftirlit með því að starfsmenn fari að fyrirmælum vinnuveitanda eða þeim lögum og reglum sem gilda um starfið og eftir atvikum til að meta einstaklingsbundið vinnuframlag eða afköst.
Vöktun á vinnuskilum er háð ströngum skilyrðum og eingöngu heimil í ákveðnum tilvikum eða þegar sérstök þörf er fyrir slíka vöktun, sem dæmi vegna þess að:
ekki sé unnt að koma við verkstjórn með öðrum hætti,
hún sé nauðsynleg vegna ákvæða kjarasamnings eða annars konar samkomulags um launakjör, einkum þegar laun eru byggð á afkastatengdu, tímamældu launakerfi,
án vöktunar sé ekki unnt að tryggja öryggi á viðkomandi svæði, svo sem í ljósi laga og sjónarmiða um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Atvinnurekandi þarf að gera mat á áhrifum á persónuvernd áður er vöktun með vinnuskilum hefst.
Vinnuveitandinn þarf að meta hvort hægt sé að ná sama tilgangi með öðrum og vægari aðgerðum, t.d. með því að hafa vaktstjóra á staðnum, sem hefur það hlutverk að fylgjast með starfseminni.
Almennt eiga starfsmenn ekki að þurfa sæta því að vera ávallt undir vökulu auga vinnuveitanda í gegnum eftirlitsmyndavélar, þó svo að vissulega geti aðstæður krafist slíks í afmörkuðum tilvikum. Það getur til dæmis átt við á ákveðnum tegundum vinnustaða, svo sem þar sem finna má hættulegar vélar eða efni eða þegar unnið er með matvæli.