Persónuvernd á vinnustöðum
Ökuritar og annar rafrænn staðsetningarbúnaður
Ökuriti og staðsetningarbúnaður er rafrænn búnaður í ökutæki sem vinnur eða gerir unnt að vinna með persónuupplýsingar um ökumenn, þar á meðal um staðsetningu þeirra, ferðir þeirra eða aksturslag.
Ábyrgð vinnuveitanda
Vinnuveitandi má almennt setja ökurita eða annan staðsetningarbúnað í bíla á vegum fyrirtækisins sé persónuverndarlöggjöfinni fylgt.
Áður en ökurita eða öðrum staðsetningarbúnaði er komið fyrir í bíl fyrirtækis þarf vinnuveitandi að:
hafa skýra heimild í persónuverndarlögum
hafa skýran tilgang fyrir vöktuninni, til dæmis að tryggja öryggi ökumanna, draga út kostnaði við akstur eða til að unnt sé að fylgjast með stórum bílaflota
sýna fram á sérstaka þörf fyrir vöktuninni svo unnt sé að ná umræddum lögmætum og málefnalegum tilgangi
fræða starfsfólk um vöktunina
skjalfesta að farið hafi verið að framangreindum atriðum, til dæmis í vinnsluskrá fyrirtækisins
Alltaf þarf að athuga hvort hægt sé að ná markmiði með vægari úrræðum og gæta þess að ganga ekki lengra en þörf krefur. Vinnuveitandi þarf að framkvæma skjalfest hagsmunamat á því hvort hagsmunir fyrirtækis fyrir viðkomandi vöktun vegi þyngra en réttur starfsfólks til persónuverndar og friðhelgi. Óheimilt er að nýta það efni sem safnast við vöktunina í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi en upphaflega stóð til.
Gæta þarf þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra.
Ef í ökutæki sem heimilt er að nota í einkaerindum er ökuriti eða staðsetningarbúnaður skal vera unnt að slökkva á búnaðinum. Skal hinn skráði upplýstur um það með sannanlegum hætti.
Einstaklingur hefur rétt á að skoða gögn sem verða til um hann við vöktunina og má setja beiðnina fram munnnlega eða skriflega. Þetta á þó ekki við ef réttur einstaklingsins til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hagsmunum annarra eða hans eigin.