Persónuvernd á vinnustöðum
Eftirlitsmyndavélar á vinnustöðum
Persónuverndarlögin, og þær reglur sem settar hafa verið sem stoð í þeim gilda um rafræna vöktun á almannafæri, svo og á vinnustöðum, í skólum og á öðrum svæðum þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, þ. á m. í sameign fjöleignarhúsa eða á sameiginlegri lóð. Reglurnar gilda óháð því hvers konar búnaður er notaður, svo sem eftirlitsmyndavélar, vefmyndavélar, ökuritar, staðsetningarbúnaður eða símvöktunarbúnaður.
Við notkun eftirlitsmyndavéla þarf að fara að reglum nr. 50/2023 um rafræna vöktun .
Starfsmenn geta almennt ekki veitt gilt samþykki fyrir vöktun á vinnustað þar sem aðstöðumunur milli þeirra og vinnuveitanda er almennt talinn vera slíkur að samþykkið geti ekki talist gefið af fúsum og frjálsum vilja. Vöktunin þarf því að geta stuðst við aðra heimild í persónuverndarlögunum.
Vinnuveitandi þarf hins vegar að fræða starfsmenn um þá vöktun sem á sér stað, tilgang hennar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær eru varðveittar. Auk þess þarf hann að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að viðkomandi einstaklingar geti gætt hagsmuna sinna. Mikilvægt er að fræðslan sé veitt með sannanlegum hætti, eftir atvikum með setningu reglna.
Vöktun með leynd er alfarið bönnuð, nema hún styðjist við lagaheimild eða úrskurð dómara.
Merkingar
Gera þarf glögglega viðvart um að vöktun sé í gangi og hver sé ábyrgðaraðili hennar, svo sem með viðvörunarskiltum eða límmiðum á augsýnilegum stöðum. Mikilvægt er að viðvörunin sé staðsett á áberandi hátt svo að einstaklingum sé ljóst að svæðið sé vaktað áður en þeir koma inn á vaktað svæði.
Viðvörun um rafræna vöktun skal einnig hafa að geyma upplýsingar um hvar sé hægt að nálgast nánari fræðslu um vöktunina eða rafrænan tengil á slíka fræðslu. Persónuvernd hefur útbúið sniðmát fyrir merkingar og frekari fræðslu fyrir ábyrgðaraðila.
Viðvörun um rafræna sjónvarpsvöktun skal einnig hafa að geyma upplýsingar um hvar megi fá nánari fræðslu um vöktunina eða rafrænan tengil á slíka fræðslu
Hver og hvenær má skoða upptökur
Einungis þeir sem starfa sinna vegna þurfa aðgang að myndefni, eða öðru efni sem verður til við rafræna vöktun, skulu hafa hann. Slíkt efni skal aðeins skoða ef sérstakt tilefni er til þess og bara af þeim sem hafa heimild til þess.
Einstaklingur hefur rétt á að skoða gögn, s.s. upptökur, sem verða til um sig við vöktunina, en slíka beiðni má hvort sem heldur setja fram munnlega eða skriflega. Þetta á þó ekki við ef réttur þess sem sætt hefur vöktuninni til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hagsmunum annarra eða hans eigin. Einstaklingur getur einnig átt rétt til aðgangs og afrits af því efni sem verður til um hann að uppfylltum vissum skilyrðum.
Ávallt má afhenda lögreglu myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem og annað efni sem verður til við rafræna vöktun.