Persónuvernd á vinnustöðum
Tölvupóstar starfsfólks
Vinnuveitandi má ekki skoða einkatölvupóst starfsfólks. Einkatölvupóstur varðar persónuleg málefni starfsmannsins og tengist ekki starfseminni eða hagsmunum vinnuveitanda. Undantekning er ef brún nauðsyn ber til svo sem þegar alvarleg tæknileg vandamál koma upp, eins og tölvuveira. Sama gildir um skoðun á einkagögnum á skráarsvæði starfsmanns.
Eftirlitskerfi með tölvupósti vegna netöryggis
Vinnuveitandi má setja upp upp eftirlitskerfi með tölvupósti með hliðsjón af netöryggissjónarmiðum, t.d. vírusvarnir sem koma í veg fyrir að óæskilegur tölvupóstur berist inn á starfsstöð.
Grunur um brot á trúnaði eða vinnuskyldu
Vinnuveitandi getur skoðað tölvupóst ef grunur er um að starfsmaður hafi brotið vinnuskyldur eða trúnað. Í slíkum tilfellum verður að fylgja meginreglum persónuverndarlaganna meðal annars um sanngirni, gagnsæi og meðalhóf. Vinnuveitandi þarf að upplýsa starfsmenn um slíka vöktun og tilgang hennar.
Upplýsingaskylda og réttur starfsfólks
Ef skoða á tölvupóst starfsmanns, á vinnuveitandi að láta starfsmanninn vita og gefa honum kost á að vera viðstaddur skoðunina. Ef það er ómögulegt, til dæmis vegna alvarlegra veikinda starfsmanns, getur starfsmaður tilnefnt annan til að fylgjast með skoðuninni fyrir sína hönd.
Persónuvernd hefur gefið út leiðbeiningar um meðferð tölvupósts, skráasvæða og eftirlit með netnotkun. Þar er einnig að finna dæmi um aðstæður sem geta komið upp þar sem tölvupóstur er skoðaður.