Innskráning fyrir alla
Spurt og svarað
Spurt og svarað
Á annan tug stofnana notar innskráningarþjónustu Stafræns Íslands. Á Mínum síðum Ísland.is má sjá dæmi um notkun hennar.
Innskráning fyrir alla er aðeins fyrir opinbera aðila sem flokkaðir eru sem A-hluta stofnanir og eru ekki í samkeppnisrekstri, auk sveitarfélaga. Einkaaðilum ásamt opinberum félögum (ohf) sem teljast að hluta til starfa á samkeppnismarkaði af einhverju tagi stendur þjónustan ekki til boða.
Þegar sýslað er með viðkvæm gögn er nauðsynlegt að hafa trausta þjónustu til að sannreyna einstaklinga stafrænt. Það þarf að vera öruggt að sá sem skráir sig inn og sækir upplýsingarnar sé sannarlega sá sem hann segist vera. Með hvers konar veflykli eða „notendanafni og lykilorði“ sem getur gengið á milli manna er þetta öryggi ekki tryggt. Þess vegna hefur samfélagið hallað sér að rafrænum skilríkjum sem tryggja það að þú sért þú í stafrænum heimi og jafngildir því að framvísa persónuskilríkjum.
Þess má geta að 90% landsmanna yfir 18 ára hafa sótt sér rafræn skilríki.
Rafrænum skilríkjum fylgja ýmsar áskoranir því forsenda þeirra er að einstaklingurinn geti sjálfur án aðstoðar auðkennt sig með þeim.
Það hefur þær afleiðingar að það eru hreinlega ekki allir sem geta sótt um rafræn skilríki.
Sem dæmi má nefna einstaklinga sem geta ekki valið sér leyninúmer t.d. vegna fötlunar eða börn sem hafa hreinlega ekki þroska til að nota þau. Annað dæmi um áskorun eru Íslendingar búsettir erlendis sem þurfa að koma til landsins til að sækja um rafrænt skilríki. Og enn annað dæmi eru aldraðir sem etv. hafa ekki burði til að setja sig inn í stafrænan heim, sem þurfa samt sem áður að sækja sér stafræna þjónustu.
Ef einstaklingar geta ekki auðkennt sig rafrænt þarf að vera til leið fyrir aðra til að framkvæma aðgerðir fyrir þeirra hönd á öruggan og rekjanlegan hátt. Því hefur Stafrænt Ísland unnið að því að búa til umboðskerfi þar sem aðilar sem hafa til þess réttindi, geta skráð sig inn og sýslað með mál fyrir hönd annarra á rekjanlegan hátt.