Fara beint í efnið

Greiða þarf kílómetragjald af akstri rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla.

Tengiltvinnbílar (e. plug-in hybrid) eru bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni eða dísil og er hægt að stinga í samband. Gjaldið nær ekki til tvinnbíla sem ekki er hægt að stinga í samband.

Gjaldið nær til fólksbifreiða og sendibifreiða.

Gjald

Upphæðin er:

  • 6 krónur á hvern kílómetra fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla.

  • 2 krónur á hvern kílómetra fyrir tengiltvinnbíla (aðeins plug-in).

Skráning kílómetrastöðu

Gjaldtakan er mjög áþekk því sem tíðkast í veitureikningum fyrir rafmagn og heitt vatn. Þú skráir kílómetrastöðuna reglulega, út frá því er gerð áætlun á þínum meðalakstri og innheimt samkvæmt henni þangað til þú skráir næst. Við hverja skráningu verður til ný áætlun á meðalakstri og um leið er gert uppgjör fyrir síðasta tímabil.

Hægt er að skrá:

Regluleg skráning

Stöðu á kílómetramæli skal skrá að lágmarki einu sinni á ári.

Þú getur skráð kílómetrastöðuna á 30 daga fresti.

Regluleg skráning kílómetrastöðu tryggir að þú borgir miðað við þinn meðalakstur, sem reiknast út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu.

Skráning minnkar líkur á:

  • að þú greiðir of mikið um hver mánaðamót

  • að þú greiðir of lítið og fáir háan uppgjörsreikning við næstu skráningu

Skráningar á síðasta degi mánaðar taka gildi næsta dag.

Leiðrétting á rangri skráningu

Ef þú skráir ranga tölu getur þú skráð aftur sama dag og þá gildir seinni talan. Á miðnætti lokast fyrir skráningar næstu 30 daga.

Greiðsla

Gjaldið greiðist mánaðarlega. Greiðsluseðill er sendur í netbanka greiðanda sem er eigandi bílsins. Undantekning er í tilfelli eigna- eða fjármögnunarleiga, þá er umráðamaður greiðandi.

Gjalddagi er fyrsti virki dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.

Fyrsti gjalddagi var 1. febrúar 2024.

Upphæð sem greidd er

Upphæð kílómetragjalds miðast við meðalakstur bílsins. Meðalakstur er reiknaður út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu hjá núverandi eiganda.

Þú getur áætlað kostnað miðað við þinn meðalakstur.

Orkugjafi ökutækis

Áætlaður akstur í kílómetrum

á mánuði

Ef ekki eru til tvær skráningar á kílómetrastöðu hjá núverandi eiganda er rukkað samkvæmt eftirfarandi áætlun:

Áætlun ríkisskattstjóra á meðalakstri

Greiðandi

Meðalakstur á ári

Meðalakstur á dag

Einstaklingur

14 000 km

38,4 km

Fyrirtæki eða stofnun

40 000 km

109,6 km

Ökutækjaleiga

50 000 km

137,0 km

Leigubílstjóri

100 000 km

274,0 km

Uppgjör

Þegar þú skráir kílómetrastöðu er gert uppgjör fyrir tímabilið frá síðustu skráningu. Gerður er upp mismunur á því sem þú greiddir fyrirfram út frá áætlun og því sem þú hefðir átt að greiða miðað við raunakstur.

Ef þú hefur:

  • greitt of mikið færðu endurgreitt og á upphæðina reiknast inneignarvextir. Ef þú skuldar ríkissjóði gengur endurgreiðslan upp í skuldina hvort sem skuldin er vegna kílómetragjalds eða annarra gjalda.

  • greitt of lítið færðu reikning fyrir mismuninum að viðbættu 2,5% álagi á ársgrundvelli.

Fyrsta skráning

Skylt var að skrá stöðu kílómetramælis fyrir 20. janúar 2024.

Ef skráningu var ekki sinnt:

  • innheimt vanskráningargjald að upphæð 20.000 krónur eftir 30. janúar

  • greiðandi boðaður í álestur hjá faggiltri skoðunarstofu sem mun skrá stöðu kílómetramælis eftir 30. janúar

Skrá stöðu á kílómetramæli á Mínum síðum

Þjónustuaðili

Skatt­urinn