Fara beint í efnið

Tíðni sjálfsvíga hefur lítið breyst undanfarna áratugi á Íslandi. Öll forvarnarvinna sem getur stuðlað að fækkun sjálfsvíga er mikilvæg og þar sem áhættu- og verndandi þættir sjálfsvíga eru gjarnan flókið samspil félagslegra og geðrænna áhættuþátta, er æskilegt að forvarnarvinna eigi sér stað á mörgum sviðum, s.s. heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólum og með opinni og upplýstri umræðu í samfélaginu. Fjölmiðlar leika þar stórt hlutverk.


Umfjöllun fjölmiðla mikilvæg í forvörnum

Fjölmiðlar geta miðlað nýrri þekkingu í sjálfsvígsforvörnum og mögulega komið í veg fyrir sjálfsvíg með því að koma mikilvægum og hjálplegum upplýsingum til skila. Fjölmiðlar geta líka miðlað upplýsingum sem eru rangar og á þann hátt að það auki sjálfsvígshættu. Þegar fréttir í fjölmiðlum hafa áhrif á aukna tíðni sjálfsvíga hefur það verið kallað „Werther áhrif", eftir Werther sem tekur líf sitt í skáldsögu Goethe. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að mikil umfjöllun um sjálfsvíg í fjölmiðlum geti haft í för með sér aukna tíðni sjálfsvígshegðunar eða svokallaða „hermihegðun". Þessi hætta er sérstaklega til staðar ef aðferð sjálfsvígs er lýst, ef fréttir af sama sjálfsvígi eru endurteknar oft, ef um er að ræða þekktan einstakling eða ef upplýsingarnar eru þannig settar fram að auðvelt er að líta upp til eða samsama sig að þeim einstaklingi sem svipti sig lífi. Rannsóknir benda til að fréttir af þessu tagi geti haft sérstaklega slæm áhrif á viðkvæma hópa, svo sem unga einstaklinga, einstaklinga með sögu um geðræna kvilla og fyrri sjálfsvígshegðun og aðstandendur þeirra sem hafa tekið líf sitt.

Jákvæð og uppbyggjandi umfjöllun hefur áhrif

Með aukinni þekkingu á „Werther áhrifum" hafa leiðbeiningar til fjölmiðla verið gefnar út víðs vegar um heiminn og hafa sumar rannsóknir sýnt fram á að dregið hafi úr sjálfsvígstíðni í kjölfar útgáfu þeirra. Undanfarin ár hafa fleiri rannsóknir skoðað jákvæð áhrif umfjöllunar í fjölmiðlum og gefa þær til kynna að birtar frásagnir af einstaklingum sem fundu leið úr sínum erfiðleikum og sjálfsvígshugsunum, geti haft í för með sér lækkun á tíðni sjálfsvígshegðunar. Ábyrg fjölmiðlaumfjöllun og þau verndandi áhrif sem hún getur haft á tíðni sjálfsvíga hefur verið kallað „Papageno áhrif" eftir Papageno úr Töfraflautu Mozarts, sem íhugar sjálfsvíg en hættir við eftir að hafa komið auga á aðrar uppbyggilegar leiðir.

Fréttir sem fræða almenning um sjálfsvígshegðun, forvarnir og bjargráð geta verið einstaklingum hvatning til að leita hjálpar og ræða um sínar sjálfsvígshugsanir. Upplýsingar um hvert hægt sé að leita (svo sem í hjálparsíma 1717 sem er opinn allan sólarhringinn) ættu því að fylgja öllum fréttum þar sem minnst er á sjálfsvígshegðun.

Myndband: Media and suicide - from Werther to Papageno effects
Dr. Thomas Niederkrotenhaler, prófessor við Háskólann í Vín flytur fyrirlestur á pressukvöldi Blaðamannafélags Íslands.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis