Fara beint í efnið

Starfsemi embættis landlæknis á sviði sjálfsvígsforvarna felur m.a. í sér að fylgja eftir gildandi aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi.

Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna, sem starfar undir merkjum embættis landlæknis, er faglegur ráðgjafi stjórnvalda á sviði sjálfsvígsforvarna í samvinnu við fagráð um sjálfsvígsforvarnir. Með Lífsbrú er stuðlað að samvinnu meðal þeirra sem vinna að málaflokknum innan og utanlands. Á vegum Lífsbúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna er fylgst með rannsóknum, unnið að gerð fræðsluefnis fyrir almenning og fagfólk og stuðlað að vitundarvakningu um málaflokkinn.

Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi

Í aðgerðaáætluninni eru yfir 50 aðgerðir í 6 liðum:

  1. Efling geðheilsu og seiglu í samfélaginu

  2. Gæðaþjónusta á sviði geðheilbrigðis

  3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum

  4. Aðgerðir til að draga úr áhættu meðal sérstakra áhættuhópa

  5. Stuðningur við aðstandendur og eftirlifendur

  6. Efling þekkingu á sviði sjálfsvíga og sjálfsvígsforvarna

Flestar aðgerðir eru á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins. Staða aðgerðaráætlunarinnar er sú að náðst hefur að klára nokkrar aðgerðir, sumar aðgerðir eru í vinnslu en aðrar eru á bið.

Um sjálfsvíg

Forvarnarstarf sjálfsvíga getur verið flókið enda eru áhættuþættirnir margir en um að ræða samspil líkamlegra, umhverfis- og félagslegra þátta. Bakgrunnur og orsakaferli á bak við hvert sjálfsvíg er mismunandi, rétt eins og saga hvers einstaklings er einstök á sinn hátt. Þar geta spilað inn í félagslegar aðstæður, skyndileg áföll, missir eða langvarandi streita, persónuleikaþættir sem kunna að einkennast af reiði og hvatvísi, óhófleg áfengis- og vímuefnaneysla, þunglyndi og/eða mikill kvíði og vanlíðan.

Tölfræði

Sjálfsvíg eru fremur fátíð miðað við stærstu flokka dánarorsaka. Síðastliðinn áratug hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi verið á bilinu 34–49. Sjá nánar tölfræði um sjálfsvíg.

Sjálfsvíg eru að jafnaði tíðari meðal karla en kvenna, á meðan tíðni sjálfsvígstilrauna er hærri meðal kvenna og yngri aldurshópa. Sjálfsskaði og sjálfsvígstilraun er hins vegar þekktur áhættuþáttur sjálfsvíga, sem ýtir undir mikilvægi þess að einstaklingar fái góðan stuðning, eftirfylgd og viðeigandi meðferð í kjölfar sjálfsvígstilraunar.

Tengt efni

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis