Vinnsla persónuupplýsinga barna í skóla, frístund og tómstundastarfi
Persónuverndarlög og samþykki fyrir birtingu mynda af börnum í skólastarfi
Það er mikilvægt að allir sem vinna með börnum hugi að því hvort samþykki hafi verið veitt fyrir hvert og eitt barn fyrir birtingu mynda. Athuga skal að það getur einnig þurft samþykki barnsins sjálfs fyrir birtingu, jafnvel þó foreldri hafi samþykkt áður. Ávallt er hægt að afturkalla samþykki fyrir birtingu.
Á samþykkiseyðublaði geta foreldrar samþykkt að veita heimild til birtingar á ljósmyndum af barninu, en aðskilja þarf mismunandi form birtingar, til dæmis hvort það sé á vefsíðu skóla, samfélagsmiðlum eða í fréttabréfum.
Venjulega er í lagi að birta myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæmar. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir. Það er hlutverk hvers skóla að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en ef Persónuvernd berst kvörtun frá einstaklingi vegna slíkrar myndbirtingar getur stofnunin komist að annarri niðurstöðu en skólinn.