Skyldur þeirra sem koma að frístunda- og tómstundastarfi barna
Skólar og aðrir aðilar sem koma að frístunda- og tómstundastarfi barna þurfa að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samræmist lögum um persónuvernd og þurfa að geta sýnt fram á það.
Í þessu felst meðal annars að:
vinnslan þarf að styðjast við heimild í lögum,
uppfylla þarf meginreglur laganna,
veita þarf viðeigandi fræðslu um vinnsluna eftir því sem við á, og
meta skal hvort gera þurfi mat á áhrifum á persónuvernd
Almennt er ekki hægt að byggja á samþykki nema um sé að ræða algerlega valfrjálsa þjónustu. Persónuverndarlög gera ráð fyrir því að slík vinnsla fari almennt eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggi á lagaheimild.
Ábyrgðaraðili þarf að sýna fram á hver nauðsyn er fyrir hverja vinnslu fyrir sig.
Aðgangsstýring í skólum:
Að takmarka aðgang foreldra að skólastofum er ekki krafa persónuverndarlaga, heldur öryggisráðstöfun sem skólar geta ákveðið sjálfir.
Trúnaðaryfirlýsingar:
Skólar geta ekki krafist þess að foreldrar undirriti yfirlýsingar sem banna þeim að ræða skólamál. Starfsmenn þurfa þó að fylgja þagnarskyldu.
Myndatökur og myndbirtingar:
Skólar þurfa samþykki foreldra fyrir myndatökum og myndbirtingum af börnum, og slíkar myndatökur verða að vera í samræmi við persónuverndarlög.
Notkun samfélagsmiðla:
Skólum er ekki ráðlagt að nota samfélagsmiðla eins og Facebook til að miðla persónuupplýsingum barna.
Nemendalistar:
Það er heimilt að miðla nemendalistum til foreldrafélaga eða foreldra, ef gætt er meðalhófs og réttindi einstaklinga eru virt.
Eftirlitsmyndavélar:
Rafræn vöktun með eftirlitsmyndavélum í skólum er heimil með skýrum tilgangi og þarf að fylgja reglum um öryggi og meðalhóf. Í sumum tilvikum þarf að framkvæma svokallað mat á áhrifum á persónuvernd.