Vinnsla persónuupplýsinga barna í skóla, frístund og tómstundastarfi
Fjarkennsla
Ljóst er að þær sérstöku aðstæður sem voru uppi vegna kórónuveirufaraldursins breyttu starfs- og námsumhverfi þar sem mikilvægt var að geta nýtt tæknilausnir, bæði til heimanáms, kennslu, próftöku og samskipta skóla og heimilis. Slíkar lausnir eru enn notaðar og mikilvægt er að slíkar lausnir uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögum.
Á vef Persónuverndar má finna leiðbeiningar um helstu atriði sem hafa ber í huga við nýtingu tæknilausna í fjarkennslu.
Atriði sem hafa ber í huga:
veita skal kennurum, foreldrum og nemendum góðar upplýsingar um þau tæki og tæknilausnir sem notast á við
æskilegt kann að vera að samræma notkun tæknilausna milli skóla
ef stjórnendur eru ekki vissir um að notkun tiltekinna tæknilausna sé heimil og í samræmi við persónuverndarlög þá ættu þeir að hafa samband við persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins eða skólans eftir atvikum
það gæti þurft að gera áhættumat áður en ný tækni er tekin í notkun og innleiða viðeigandi öryggisráðstafanir
kennarar verða að kanna afstöðu stjórnenda til tæknilausna áður en þær eru teknar í notkun
ávallt skal gæta fyllstu varkárni við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga s.s. heilsufars
Öryggi persónuupplýsinga
Gæta þarf í hvívetna að öryggi upplýsinganna sem verða til við upptökur eða streymi, til að mynda að þær séu ekki gerðar aðgengilegar óviðkomandi.
Við val á búnaði ber ábyrgðaraðila að gæta þess að gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir með hliðsjón af eðli, umfangi, samhengi og tilgangi vinnslunnar og áhættu fyrir réttindi hins skráða, eftir atvikum þarf að framkvæma mat á áhrif á persónuvernd.
Gæta þarf að því hvort að stafræn lausn sé hýst utan Evrópska efnahagssvæðisins. Margar skýjaþjónustur eru hýstar erlendis og er því nauðsynlegt að huga að því að til staðar sé fullnægjandi heimild til flutnings persónuupplýsinga úr landi eða velja lausn sem ekki felur í sér slíkan flutning.