Vinnsla persónuupplýsinga barna í skóla, frístund og tómstundastarfi
Miðlun starfsfólks á persónuupplýsingum um börn á samfélagsmiðlum
Persónuvernd hefur beint því til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga að nota ekki Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um börn.
Slíkt telst til vinnslu persónuupplýsinga.
Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, til dæmis fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og því má nýta slíka miðla til að dreifa þeim upplýsingum. Almennt verða því ekki gerðar athugasemdir við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæms eðlis.
Í skilmálum Facebook, sem notendur samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (það er, þriðju aðilum), við ákveðnar aðstæður. Notendur slíkra samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.
Ef talið er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um börn með rafrænum hætti hjá skólum er æskilegt að til þess sé nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum (til dæmis skólum, frístundaheimilum og öðrum) fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er.
Einnig þarf að tryggja að upplýsingunum verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, þær verði ekki unnar í öðrum tilgangi en lagt var upp með, og að öryggis þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti. Þá þarf alltaf að ganga úr skugga um það áður en vinnsla hefst, að heimild sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.
Samfélagsmiðlanotkun starfsfólks
Hafa þarf í huga að starfsmenn skóla- og frístundastarfs eru líkt og foreldrar, fyrirmyndir barna og því skiptir máli að vanda eigin umgengni um samfélagsmiðla, tölvuleiki og aðrar tæknilausnir meðal barnanna. Gæta þarf að því að börnum bregði ekki fyrir á samfélagsmiðlum starfsmanna sem kunna að vera notaðir meðan á starfi stendur, t.d. á myndum eða í myndskeiðum.