Fara beint í efnið

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur taka við endurhæfingarlífeyrir 1. september 2025.

Þau sem eru með endurhæfingarlífeyri munu fá nánari upplýsingar frá Tryggingarstofnun um sína stöðu í nýju kerfi þegar nær breytingunum dregur.

Í stuttu máli

Endurhæfingu er ætlað að efla einstakling sem getur ekki sinnt störfum á vinnumarkaði vegna slyss eða sjúkdóms.

Markmiðið er að einstaklingur nái aftur starfshæfni eða auki atvinnuþátttöku.

Endurhæfingarlífeyrir tryggir einstaklingnum framfærslu meðan á endurhæfingu stendur.

Skilyrði

Þú getur sótt um endurhæfingarlífeyri ef þú:

  • ert milli 18 og 67 ára

  • hefur átt lögheimili á Íslandi í samfellt 12 mánuði

  • ert í virkri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila

Þar að auki þarft þú að hafa fullnýtt önnur réttindi.

Önnur réttindi geta verið:

  • veikindaréttur frá vinnuveitanda

  • sjúkrasjóður stéttarfélags

Umsóknarferlið

Þegar 2 til 3 mánuðir eru eftir af greiðslum í veikindaleyfi, sjúkradagpening eða úr öðrum sjóði, og ljóst að endurkoma í vinnu verði ekki náð á þeim tíma, getur þú athugað hvort endurhæfing henti þér.

  1. Fyrsta skrefið er að fá tíma hjá lækni þar sem farið er yfir heilsufarsvanda sem veldur óvinnufærni. Læknir gefur út læknisvottorð vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri og leiðbeinir með úrræði eftir því sem við á.

  2. Næsta skref er að gera endurhæfingaráætlun í samvinnu við fagaðila og byrja endurhæfinguna sem fyrst.

  3. Þá er hægt að fylla út umsókn um endurhæfingarlífeyri á Mínum síðum TR.

  4. Einnig er mikilvægt er að fylla út tekjuáætlun á Mínum síðum TR.

  5. Að lokum þarf að skila fylgigögnum til TR eins fljótt og þú getur.

Niðurstaða

Þegar niðurstaða liggur fyrir færðu tölvupóst og tilkynningu á Mínum síðum TR undir Mín skjöl.

Þar getur þú einnig séð upphæðir út árið í greiðsluáætlun.

Ef þú ert ósammála ákvörðuninni getur þú:

Greiðslutímabil

Tímabil í endurhæfingaráætlun ákvarðar oftast greiðslur endurhæfingarlífeyris. Í einhverjum tilvikum er greiðslutímabilið styttra en sótt er um, til dæmis ef:

  • endurhæfingaráætlun er óljós

  • ósamræmi er í upplýsingum um úrræði og tímabil

Sótt er um framlengingu með því að skila inn nýrri enduhæfingaráætlun.

TR er heimilt að samþykkja endurhæfingarlífeyri í hámark eitt ár í senn. Mest er hægt að fá endurhæfingarlífeyri í samtals 5 ár, eða 60 mánuði.

Fyrirkomulag greiðslna

Endurhæfingarlífeyrir er fyrirframgreiddur fyrsta dag hvers mánaðar á þann bankareikning sem er skráður á Mínar síður TR. Þar getur þú einnig skráð upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar.

Greiðsla getur tekið allt að 5 virka daga að berast eftir að búið er að samþykkja umsókn um endurhæfingarlífeyri.

Á Mínum síðum getur þú séð upphæðir í greiðsluáætlun og breytt tekjuáætlun ef þörf er á.

Ef umsóknir eru samþykktar afturvirkt er inneign greidd út eins fljótt og hægt er.

Umsókn um endurhæfingarlífeyri

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun