Hlutverk Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu.
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi.
Starfsfólk Vinnueftirlitsins heimsækir vinnustaði til að fylgja því eftir að farið sé að vinnuverndarlögum og -reglugerðum. Áhersla er lögð á helstu áhættuþætti í vinnuumhverfinu. Þar á meðal aðbúnað, efnahættur, öryggi véla og tækja, áhættur í umhverfinu, félagslega áhættuþætti og áhættuþætti sem tengjast hreyfi- og stoðkerfi. Áhersla er á mikilvægi forvarna og innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum auk þess sem gerðar eru athugasemdir við frávik þegar við á og gefin fyrirmæli um nauðsynlegar úrbætur.
Vinnueftirlitið hefur eftirlit með því að vinnuvélar og tæki uppfylli þær öryggiskröfur sem nauðsynlegt er samkvæmt lögum og reglum. Í eftirlitinu er skoðaður ýmiss öryggisbúnaður svo sem hemlar, stýrisbúnaður, stjórntæki, vinnuljós, burðarvirki og fleira.
Stofnunin hefur eftirlit með að vélar og tæki uppfylli viðeigandi reglur og staðla sem um þau gilda á sameiginlegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Stofnunin kannar hvort vélar og tæki séu CE-merkt og nær eftirlitið til þeirra tækja sem eru á vinnustöðum en einnig til þeirra sem sett hafa verið á markað fyrir neytendur og falla undir vélatilskipun. Eftirlitinu er ætlað að stuðla að öryggi starfsfólks á vinnustöðum sem og öryggi almennra neytenda.
Vinnueftirlitið heldur námskeið, vinnustaðafundi og fyrirlestra um vinnuvernd. Má þar nefna námskeið um gerð áhættumats og námskeið um vinnuvernd fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði, starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja. Stofnunin heldur sömuleiðis ýmis konar vinnuvélanámskeið, réttindanámskeið og námskeið um efni og efnahættur svo dæmi séu nefnd. Þá gefur starfsfólk stofnunarinnar leiðbeiningar um ýmis málefni tengd vinnuvernd. Þess utan hefur Vinnueftirlitið árlega frumkvæði að eða tekur þátt í ýmis konar innlendum og erlendum verkefnum á sviði vinnuverndar
Vinnueftirlitið heldur skrá yfir allar vinnuvélar og tæki sem stofnuninni hefur verið falið eftirlit með samkvæmt lögum og reglum. Stofnunin heldur sömuleiðis utan um öll bókleg og verkleg vinnuvélaréttindi einstaklinga. Þá heldur Vinnueftirlitið skrá yfir tilkynningarskyld vinnuslys, eitranir og atvinnutengda sjúkdóma í þeim tilgangi að efla forvarnarstarf svo koma megi í veg fyrir að samskonar atburðir endurtaki sig.
Vinnueftirlitið framkvæmir mælingar á hávaða, mengun og loftgæðum auk þess sem prófanir á ýmsum vélum og búnaði eru gerðar. Til dæmis á vinnuvélum, tækjum og þrýstibúnaði.
Stofnunin veitir umsagnir um teikningar að nýju og/eða breyttu atvinnuhúsnæði og kemur þannig að veitingu starfsleyfa sveitarfélaga. Þá veitir stofnunin umsagnir vegna útgáfu rekstrarleyfa til veitinga- og gististaða til hlutaðeigandi sýslumannsembætta.
Vinnueftirlitið tekur þátt í rannsóknum á sviði vinnuverndar.
Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar um stórslysavarnir. Undir reglugerðina falla fyrirtæki sem geyma og/eða nota mikið magn hættulegra efna sem valdið geta verulegum eldsvoða, sprengingum eða mengun ef fyllsta öryggis er ekki gætt. Starfandi er sérstök lögbundin samráðsnefnd um stórslysavarnir þar sem í eiga sæti fulltrúar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Umhverfisstofnunar, Ríkislögreglustjóra og Vinnueftirlitsins, en fulltrúi Vinnueftirlitsins er jafnframt formaður nefndarinnar.