Vinnuslys er slys sem verður vegna eða við vinnu og leiðir til:
líkamlegs eða andlegs heilsutjóns starfsmanns, hvort sem það er tímabundið eða varanlegt
andláts starfsmanns
Athugið að ávallt skal hringja tafarlaust í Neyðarlínuna 112 þegar um alvarleg slys er að ræða.
Tilkynningaskyld vinnuslys
Tilkynna skal rafrænt um öll vinnuslys þar sem:
hinn slasaði verður óvinnufær í einn eða fleiri daga umfram daginn sem slysið varð
líkur eru á að hinn slasaði hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni
hinn slasaði lætur lífið
Tilkynna skal vinnuslys þrátt fyrir að leitað hafi verið aðstoðar 112.
Einnig skal tilkynna um slys sem verða í tengslum við starfsemi eða búnað sem Vinnueftirlitið hefur eftirlit með, svo sem slys sem verða í skíðalyftum, húsalyftum og rennistigum.
Frestur til að tilkynna
Tilkynna skal um vinnuslys innan sjö daga. Gildir það einnig þó að endanlegar afleiðingar liggi ekki fyrir. Hægt er að uppfæra tilkynninguna komi frekari afleiðingar í ljós.
Tilkynningarferlið
Það er á ábyrgð atvinnurekanda að tilkynna vinnuslys.
Í skráningarforminu þarf að gefa upplýsingar um:
fyrirtækið sem hinn slasaði starfar hjá
slysið
hinn slasaða/hina slösuðu
orsakir og afleiðingar slyssins
Ávallt er hægt að vista tilkynninguna og halda áfram síðar.
Atvinnurekandi getur tekið afrit af tilkynningunni í 30 mínútur eftir að hún hefur verið send inn. Athygli er vakin á því að í ljósi persónuverndarsjónarmiða er Vinnueftirlitinu óheimilt að afhenda atvinnurekanda afrit af skýrslunni eftir að hún hefur verið send inn.
Eftir tilkynningu
Hinn slasaði fær tilkynningu um að slysið hafi verið skráð á Mínum síðum Ísland.is.
Atvinnurekandi hefur aðgang að yfirliti slysatilkynninga vinnustaðarins á Mínum síðum á Ísland.is.
Skráning og rannsókn
Skráning
Vinnueftirlitið heldur skrá yfir vinnuslys í þeim tilgangi að afla þekkingar um tíðni og orsakir slysa. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að sambærileg slys endurtaki sig og að efla forvarnastarf á vinnustöðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að atvinnurekendur sinni tilkynningaskyldu sinni. Séu vinnuslys ekki tilkynnt getur það varðað sektum.
Rafræn skráning vinnuslysa kallar ekki sjálfkrafa á aðkomu Vinnueftirlitsins.
Skyldur starfsfólks
Starfsfólk sem verður fyrir slysi við vinnu skal tilkynna það atvinnurekanda eða stjórnanda, eftir því sem við á, eins fljótt og hægt er.
Skyldur atvinnurekanda
Atvinnurekanda ber að halda skrá yfir:
öll vinnuslys sem eiga sér stað á vinnustaðnum óháð því hvort þau valda fjarveru eða ekki
óhöpp, sem eru til þess fallin að valda slysum
Tilgangurinn er að atvinnurekandi fái yfirsýn yfir vinnuslys og óhöpp sem verða á vinnustaðnum. Þannig getur atvinnurekandi brugðist við til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig.
Slys eða óhöpp geta í mörgum tilvikum bent til þess að hætta á heilsutjóni sé meiri en áður hafði verið talið. Atvinnurekandi á að yfirfara áhættumat vinnustaðarins þegar slys eða óhöpp verða og uppfæra sé þess þörf.
Skyldur tengdra aðila
Vinnueftirlitið, öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og eftir atvikum öryggisnefndir auk viðurkenndra þjónustuaðila sem vinna fyrir atvinnurekanda skulu hafa aðgang að slysa- og óhappaskrá vinnustaðarins.
Trúnaður
Atvinnurekandi, og þeir aðilar sem taldir eru upp hér að framan, skulu fara með persónuupplýsingar úr slysa- og óhappaskrá sem trúnaðarmál og í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Rannsókn vinnuslysa
Vinnueftirlitið rannsakar orsakir slysa, óhappa og mengunar sem tilkynnt er um á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Tilgangur rannsókna Vinnueftirlitsins er að stuðla að því að komið sé í veg fyrir að slíkt endurtaki sig á vinnustöðum. Á það bæði við á viðkomandi vinnustað sem og á öðrum vinnustöðum þar sem aðstæður eru sambærilegar.
Vinnueftirlitið rannsakar aðallega alvarleg slys sem tilkynnt eru til Neyðarlínu 112. Stofnunin metur í hverju tilfelli fyrir sig hvort það telji ástæðu til að gera sérstaka vettvangskönnun en ekki er alltaf þörf á slíkri rannsókn þegar til dæmis orsakir slyss liggja fyrir. Vinnueftirlitið upplýsir atvinnurekanda í hverju tilviki um hvort það telji þörf á sérstakri vettvangsathugun.
Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað umfram það sem nauðsynlegt er vegna björgunaraðgerða áður en vettvangskönnun Vinnueftirlitsins hefur farið fram.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið