Umboðskerfi
Hvað þarf stofnun að gera?
Til að nota umboðskerfið þarf stofnun að byrja á því að innleiða innskráningarkerfið.
Innskráningarþjónusta Stafræns Íslands er rekin sem áskriftarþjónusta (SaaS) stofnunum að kostnaðarlausu.
Stofnun sendir inn umsókn um innskráningarþjónustu Stafræns Íslands
Í kjölfarið þarf stofnun að veita tæknilegar upplýsingar um vefsvæði sem innskráningin á að tengjast og fá aðgang að prófunarsvæði til að tengja vefsvæði sitt.
Stafrænt Ísland veitir tækniráðgjöf við innleiðingu á innskráningarþjónustunni.
Stofnun sem ætlar að nýta sér umboðskerfið ákveður sjálf hvers konar heimildir hún ætlar að veita að sínum vefkerfum. Stofnun getur því ákveðið að vefkerfi styðji aðeins innskráningu fyrir hönd fyrirtækja en ekki fyrir hönd barna. Hver stofnun ákveður síðan hver sýnin er gagnvart notandanum og hvað hann má gera þegar hann er skráður inn fyrir hönd annarra. Innskráningar- og umboðskerfið tryggir að notandinn sé sá sem hann segist vera og tilgreinir þær heimildir sem hann hefur og gildistíma þeirra.
Ávinningur fyrir stofnun
Innskráningar- og umboðskerfið er stofnunum að kostnaðarlausu.
Eitt af markmiðum Stafræns Íslands er að búa til endurnýtanlegar kjarnaþjónustur fyrir stofnanir og auka þar með samlegðaráhrif í rekstri upplýsingatæknikerfa ríkisins.
Með miðlægu umboðskerfi er að rekstur, viðhald og þróun gerð á einum stað.
Öryggi og rekjanleiki
Það að einstaklingurinn sé alltaf auðkenndur er mikilvægt upp á öryggi og rekjanleika.
Þegar notandi framkvæmir aðgerðir eða sækir gögn fyrir hönd annars fyrirtækis eða einstaklings er rekjanlegt hver það er sem framkvæmir aðgerðirnar.
Stofnanir munu því getað aðgangsstýrt einstökum hlutum vefsvæða sinna og sannreynt notandann og hans aðgang gagnvart vefþjónustum sínum.
Þetta gefur stofnunum tækifæri til að tryggja að enginn sæki gögn nema þau sem hann sannarlega hefur réttindi til að sækja.
Eins gefur þetta stofnunum tækifæri til að „auditlogga“ aðgerð þannig að hún sé rekjanleg niður á þann einstakling sem framkvæmdi hana, þegar það á við.