Þjónusta Barnahúss
Rannsóknarviðtöl
Markmið rannsóknarviðtals er að fá fram nákvæmar og greinagóðar lýsingar frá barninu af meintu ofbeldi án þess að auka hættu á röngum ásökunum hafi ofbeldi ekki átt sér stað. Sérfræðingar Barnahúss hafa fengið þjálfun í viðurkenndri viðtalstækni til notkunar í rannsóknarviðtölum. Viðtalstækni þessi hefur sýnt, í endurteknum rannsóknum, að hún kallar frekar fram frjálsa frásögn barns af mögulegu ofbeldi og að frásögn barnsins verður innihaldsmeiri en ella.
Skýrslutaka fyrir dómi
Sæti mál brotaþola að 15 ára aldri lögreglurannsókn geta dómstólar óskað eftir að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi. Sérþjálfað starfsfólk Barnahúss sér þá um viðtalið, undir stjórn dómara. Börn á aldrinum 15 til 18 ára fara í skýrslutöku til lögreglu, nema í undantekningar tilvikum, t.d. ef um alvarlega þroskaröskun er að ræða. Í þeim tilvikum geta dómstólar óskað eftir skýrslutöku í Barnahúsi.
Viðtölin eru ávallt tekin upp í hljóð og mynd svo unnt sé að spila upptökuna í dómsal þegar/ ef aðalmeðferð fer fram. Viðstaddir skýrslutöku í Barnahúsi (í öðru herbergi en barnið og sérfræðingur Barnahúss) eru dómari, fulltrúi ákæruvalds, verjandi sakbornings, réttargæslumaður brotaþola, lögregla og fulltrúi barnaverndarþjónustu.
Könnunarviðtal
Fer fram að beiðni barnaverndarþjónustu þegar ekki er óskað eftir lögreglurannsókn (t.d. ef meintur gerandi er ósakhæfur, tilefni grunsemda er kynferðisleg hegðun barns eða þegar börn eru systkini barns sem hefur orðið fyrir ofbeldi). Viðstaddur er starfsmaður barnaverndarþjónustu en framkvæmdin er að öðru leyti eins og við skýrslutöku.
Sérhæfð greining og meðferð
Barnaverndarþjónustur geta að loknu rannsóknarviðtali óskað eftir greiningu
og meðferð fyrir barnið. Við greiningu eru metnar hugsanlegar afleiðingar
ofbeldisins á barnið og fjölskyldu þess.
Leiði greining í ljós að þörf er á fræðslu og/eða áfallameðferð sinna sérfræðingar Barnahúss því og fer meðferð oftast fram í heimabyggð barnsins sé þess óskað. Sérfræðingar Barnahúss nota gagnreyndar aðferðir í meðferðarvinnu með börnum og fjölskyldum. Það þýðir að rannsóknir hafa sýnt fram á hvað mestan árangur við úrvinnslu áfalla og annars tengds vanda þegar þeim aðferðum er beitt.
Meðferðaraðili kortleggur vanda barnsins og mælir með viðeigandi meðferð ef
þörf krefur. Hlutverk meðferðaraðila er einnig að skrifa vottorð fyrir saksóknara
og/eða lögreglu og bera vitni í máli barnsins fyrir dómi.
Læknisskoðun
Barnaverndarþjónusta og lögregla getur óskað eftir læknisskoðun. Í Barnahúsi er mjög góð aðstaða til læknisskoðunar. Kvensjúkdómalæknir, barnalæknir og hjúkrunarfræðingur sjá um skoðunina. Læknisskoðun er gerð til að leita að vísbendingum um ofbeldi og/eða vanrækslu en er einnig hægt að gera í meðferðartilgangi. Stundum upplifa börn/unglingar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eins og eitthvað sé að líkama þeirra, jafnvel að hann sé skemmdur. Gott getur verið að heyra frá lækni að það sé allt í lagi með þau.
Fylgdarlaus börn
Barnaverndarþjónustur geta óskað eftir könnunarviðtali fyrir fylgdarlaus börn á flótta frá heimalandi sínu. Viðstödd viðtalið eru fulltrúi frá Útlendingastofnun, réttindagæslumaður barnsins og starfsmaður barnaverndarþjónustu. Í könnunarviðtali er farið yfir aðstæður í heimalandi, ástæða flótta, ástæða komu til Íslands, flóttaleið, mögulegt ofbeldi sem barnið hefur orðið fyrir, líðan og væntingar til framtíðar. Ef barnið greinir frá ofbeldi í viðtalinu getur
barnaverndarþjónusta óskað eftir greiningu og meðferð fyrir barnið.
Ráðgjöf og fræðsla
Hægt er að hringja í Barnahús og óska eftir ráðgjöf og leiðbeiningum fyrir þau sem þarfnast ráðgjafar vegna gruns um kynferðisofbeldi. Barnahús veitir einnig fyrirlestra og fræðslu. Símanúmer: 530-2500. Netfang: barnahus@barnahus.is