Um Barnahús
Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi, líkamlegu ofbeldi eða heimilisofbeldi. Barnaverndarþjónustur bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss.
Barnahús var stofnað 1. nóvember 1998 og var markmið þess að koma á samstarfi á milli ólíkra fagaðila; barnaverndar, lögreglu, dómstóla og Landspítala, þegar börn verða fyrir ofbeldi. Og einnig samstarfi við aðra fagaðila sem sinna börnum; BUGL, Stuðlar, MST. Í Barnahúsi fer öll aðkoma að barninu fram undir einu þaki í barnvænlegu umhverfi. Markmið Barnahúss er einnig að tryggja viðeigandi greiningu og meðferð sem og að tryggja þekkingu á málefnum barna sem eru þolendur ofbeldis.
Börn og foreldrar þeirra geta með tilvísun barnaverndarþjónustu fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Sæti mál lögreglurannsókn fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara. Dómari getur óskað eftir að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi og er þá um lokað þinghald að ræða. Börn á aldrinum 15 til 18 ára fara í skýrslutöku til lögreglu, nema í undantekningar tilvikum, t.d. ef um alvarlega þroskaröskun er að ræða. Í þeim tilvikum geta dómstólar óskað eftir skýrslutöku í Barnahúsi.
Barnaverndarþjónustur geta óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss, eins og könnunarviðtali, greiningu, meðferð og læknisskoðun. Könnunarviðtöl og skýrslutökur falla undir rannsóknarviðtöl.