Meðferð fyrir börn sem hafa sætt ofbeldi
Ýmis meðferðarform hafa verið þróuð til að aðstoða börn sem orðið hafa fyrir
ofbeldi. Meðferð getur annað hvort verið einstaklingsmiðuð, fyrir fjölskylduna í heild sinni eða í formi hópmeðferðar.
Greining og mat
Í byrjun meðferðar er lögð áhersla á að meta og greina vanda barnsins og aðstæður fjölskyldunnar. Fyrstu viðtöl eru greiningarviðtöl þar sem líðan barnsins er metin í tengslum við áfallið sem það varð fyrir. Í kjölfar metur meðferðaraðili barnsins hvort viðkomandi sé í þörf fyrir áfallameðferð. Ef ekki er metin þörf á áfallameðferð eru fræðsluviðtöl og ráðgjöf í boði.
Fræðsla
Veitt er fræðsla um eðli og afleiðingar ofbeldis, persónuleg mörk, að hugsa vel um sig og fleira.
Áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð (ÁM-HAM)
ÁM-HAM (á ensku Trauma-Focused Cognitive Behavioral Therapy) er sú meðferð sem rannsóknir sýna að beri hvað mestan árangur fyrir börn og unglinga sem eru þolendur kynferðisofbeldis og annarra áfalla. Meðferðin felur m.a. í sér fræðslu og streitustjórnun, að bera kennsl á tilfinningar, hugræna úrvinnslu og stigvaxandi berskjöldun.
Stigvaxandi berskjöldun er aðferð sem er notuð til að gefa barninu færi á að upplifa tilfinningar, hugsanir og minningar sem eru tengdar áfalli í smáum skömmtum í öruggu umhverfi.
Samhliða því er áhersla lögð á sjálfstyrkingu hjá barninu og því kennt að setja persónuleg mörk. Samvinna við forsjáraðila er mikilvæg því stuðningur þeirra ýtir undir bata hjá barninu. Ekki þurfa öll börn á öllum þáttum meðferðarinnar að halda og gerir meðferðaraðilinn meðferðaráætlun sem er sérsniðin að barninu.
Áfallamiðuð hugræn úrvinnslumeðferð
Áfallamiðuð hugræn úrvinnslumeðferð (á ensku Cognitive Processing Therapy) er hugræn atferlismeðferð við áfallastreituröskun og tengdum vandamálum og er notuð fyrir unglinga og fullorðna. Meginmarkmið meðferðar er að draga úr einkennum áfallastreituröskunar og felur í sér fræðslu um varnarkerfi líkamans, einkenni áfallastreituröskunar og hvers vegna er talið að sumir einstaklingar þrói með sér þessi einkenni. Borið er kennsl á og kannað hvernig áfallið/áföllin hafa breytt hugsunum og viðhorfum viðkomandi og hvernig þau kunna að hafa „stíflað“ eða hindrað bataferli og jafnvel haft áhrif á ólíka þætti lífsins. Þá er unnið markvisst að því að leysa þær „stíflur“. Stíflur eru hugsanir sem koma í veg fyrir bata, með öðrum orðum hugsanir sem stífla bataferlið.
EMDR
EMDR (á ensku Eye Movement Desensitization and Reprocessing) er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla og er viðurkennt meðferðarform samkvæmt alþjóðlegum leiðbeiningum. EMDR meðferð snýst um úrvinnslu upplýsinga, svo sem erfiðra minninga, hugsana og tilfinninga. EMDR aðferðin notar tvíhliða áreiti (bi-lateral stimulation) sem dæmi augnhreyfingum, hljóði eða titringi, á meðan einstaklingurinn fer í gegnum atburðinn með aðstoð meðferðaraðilans.
Hugræn atferlismeðferð (HAM)
Með aðferðum HAM (á ensku Cognitive Behavioral Therapy) er unnið með túlkun á atburðum, hvernig hugsanir, hegðun og líkamleg viðbrögð hafa áhrif á líðan. Unnið er að því að skoða og breyta hugsunum með því að skoða þær á raunsæjan og rökréttan máta og jafnframt öðlast skilning á því hvernig þessir þættir, hugsun og hegðun, geta haft áhrif á líðan.
Frásagnarmeðferð
Frásagnarmeðferð (á ensku Narrative Exposure Therapy) skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er lögð áhersla á fræðslu, m.a. um áfalla/streituviðbrögð. Þá gera meðferðaraðilinn og barnið/unglingurinn yfirlit yfir lífssögu þar sem borið er kennsl á bæði jákvæðar og neikvæðar upplifanir/áfanga í lífi viðkomandi. Í lokahlutanum er síðan farið kerfisbundið yfir einstaka upplifanir, einkum þær neikvæðu í þeim tilgangi að endurskrá þær minningar.
Snemmtæk áfallaðmiðuð meðferð
Snemmtæk áfallamiðuð meðferð (á ensku Child and Family Traumatic Stress Intervention) er gagnreynd snemmtæk íhlutun fyrir börn á aldrinum 7 til 18 ára. Markmiðið er að draga úr áfallaviðbrögðum og minnka þannig líkur á þróun áfallastreituröskunar. Meðferðin fer fram innan 30-45 daga eftir áfall (eða frá því að barn greinir fyrst frá líkamlegu-, eða kynferðislegu ofbeldi). Viðtölin eru fimm til átta skipti og í flestum þeirra er unnið með barninu og forsjáraðila/aðilum saman.
Fjölskyldumiðuð hugræn atferlismeðferð (FM-HAM)
Fjölskyldumiðuð hugræn atferlismeðferð (á ensku Combined Parent-Child Cognitive Behavioral Therapy) er gagnreynd aðferð fyrir fjölskyldur þar sem hætta er á að börn séu beitt líkamlegu ofbeldi eða fyrir fjölskyldur sem búa við heimilisofbeldi. FM-HAM er úrræði sem styrkir forsjáraðila í hlutverki sínu og hjálpar til við að draga úr vandamálum í fjölskyldunni þannig að þau verði ekki svo alvarleg að róttækari aðgerðir séu nauðsynlegar. Markmið FM-HAM er að hjálpa börnum að takast á við áföll sem þau hafa orðið fyrir, efla foreldra til að ala upp börn sín á áhrifaríkan og öruggan hátt, efla tengsl foreldra og barna og auka öryggi á heimili þeirra.
Ásamt aðferðum úr leikmeðferð og fjölskyldumeðferð
Leikmeðferð er meðferðarform sem hentar vel í vinnu með yngri börnum. Í gegnum leikmeðferð skapast vettvangur til að hjálpa börnum að tala um tilfinningar sínar og hugsanir eða takast á við áföll. Ung börn herma eftir og kanna heiminn sinn í gegnum leik, þannig að áfallamiðuð meðferð virkar best fyrir yngri börn þegar hún fer fram í gegnum skapandi leiðir.
Fjölskyldumeðferð er úrræði sem felur í sér fjölbreyttar nálganir í vinnu með fjölskyldum. Í fjölskyldumeðferð er tekið mið af fjölskyldunni sem heild, og velferð hennar höfð að leiðarljósi.