Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2022
Sýnir breytingar gerðar 1. júní 2022 af rg.nr. 634/2022

677/2021

Reglugerð um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að vernda menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem stafar af meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna, tryggja að þeir sem koma að markaðssetningu, meðferð og notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna hafi aflað sér nægilegrar þekkingar á öruggri meðferð þeirra, setja ramma fyrir því að draga úr notkun plöntuverndarvara eða útrýmingarefna og takmarka eða banna notkun þeirra á viðkvæmum svæðum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla meðferð á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum þar með talið:

  1. kaup og móttöku, notendaleyfi, ábyrgðaraðila fyrir markaðssetningu,
  2. eyðingu meindýra og úðun garða í atvinnuskyni,
  3. meðferð, varðveislu, flutning og förgun,
  4. innihald og gerð áætlunar um notkun,
  5. eftirlit og öryggiskröfur vegna búnaðar sem er notaður við dreifingu,
  6. bann við og takmörkun á notkun á einstökum landsvæðum og
  7. bann við dreifingu úr loftförum.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka ekki til lyfja, sem greind eru í lyfjaskrá og sérlyfjaskrá.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna: Aðferðir sem geta komið í stað notkunar á plöntuverndarvörum þegar kemur að plöntuvernd og vörnum gegn skaðvöldum, byggðar á landbúnaðaraðferðum á borð við þær sem um getur í 1. lið V. viðauka eða eðlisfræðilegum, vél- eða lífrænum aðferðum við að verjast skaðvöldum.

Ábyrgðaraðili: Nafngreindur ábyrgðaraðili sem tilnefndur er af þeim sem býður plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni fram á markaði til að hafa umsjón með markaðssetningu þeirra.

Áhættuvísir: Niðurstaða reikniaðferðar sem er notuð til að meta áhættu fyrir heilbrigði manna og/eða umhverfið vegna plöntuverndarvara.

Búnaður til dreifingar: Búnaður sem er sérstaklega ætlaður til að dreifa plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum, þ.m.t. fylgihlutir sem eru nauðsynlegir til að slíkur búnaður virki eðlilega, svo sem stútar, þrýstimælar, síur, sigti og hreinsunarbúnaður fyrir tanka.

Dreifing úr loftfari: Dreifing plöntuverndarvara eða útrýmingarefna úr loftfari (flugvél, þyrlu eða flygildi) hvort sem þau eru mönnuð eða ómönnuð.

Dreifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem býður plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni fram á markaði, þ.m.t. heildsalar, smásalar, sölumenn og birgjar.

Efni: Frumefni og sambönd þeirra, bæði náttúruleg og manngerð.

Friðlýst svæði: Friðlýst svæði og afmörkuð búsvæði friðaðra tegunda sem vernduð eru samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Grunnvatn: Vatn í gegnmettuðum jarðlögum undir yfirborði jarðar, sbr. reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

Illgresiseyðir: Hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til þess að deyða plöntur, draga úr vexti þeirra eða hefta hann.

Leifar: Eitt eða fleiri efni í plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum sem verða eftir að lokinni notkun hennar, þar með talin umbrotsefni og afleiður sem myndast við niðurbrot þeirra eða efnahvörf.

Markaðssetning: Það að sjá þriðja aðila fyrir vöru sem fellur undir reglugerð þessa eða bjóða hana fram, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds. Innflutningur er markaðssetning.

  1. Hvað varðar plöntuverndarvörur er markaðssetning það að hafa umráð með sölu, þ.m.t. að bjóða þær til sölu eða afhendingar í öðru formi, hvort heldur er gegn gjaldi eða án endurgjalds, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar að undanskilinni endursendingu til fyrri seljanda. Afgreiðsla í frjálst flæði inn á Evrópska efnahagssvæðið telst markaðssetning.
  2. Hvað varðar útrýmingarefni er markaðssetning það að bjóða tiltekna sæfivöru eða meðhöndlaða vöru fram í fyrsta sinn á markaði, þ.m.t. öll afhending sæfivöru til dreifingar eða notkunar meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Meðferð: Hvers konar meðhöndlun, svo sem notkun, framleiðsla, vigtun, blöndun, áfylling, flutningur, geymsla og förgun.

Meindýr: Rottur og mýs annars vegar og skordýr og aðrir hryggleysingjar hins vegar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við hýbýli manna, í gripahúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv. Um tjón af völdum villtra fugla og villtra spendýra gilda ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og laga um velferð dýra.

Notendaleyfi: Leyfi sem veitir nafngreindum einstaklingi heimild til að kaupa og nota notendaleyfisskyldar vörur í landbúnaði og garðyrkju eða til útrýmingar dýra.

Notendaleyfisskyld vara: Plöntuverndarvara eða útrýmingarefni þar sem skilgreint er í markaðsleyfi að varan sem um ræðir sé einungis ætluð til notkunar í atvinnuskyni hvort sem er í landbúnaði, garðyrkju eða við eyðingu meindýra.

Plöntulyf: Hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til varnar gegn sjúkdómum eða skemmdum í lifandi plöntum eða plöntuhlutum af völdum sýkla (bakteríur, sveppir, veirur o.s.frv.), skordýra, lindýra eða annarra smádýra. Til plöntulyfja teljast t.d. skordýraeyðar (e. insecticide), sveppalyf (e. fungicide), mítlaeyðar (e. acaricide) og lindýraeyðar (e. molluscicide).

Plöntuverndarvara: Efni eða efnablanda, sem inniheldur eitt eða fleiri virk efni eða örverur, aðrar lífverur eða hluta þeirra, sem notað er til þess að hefta vöxt, varna sýkingum eða skemmdum í gróðri af völdum hvers kyns lífvera eða til þess að stýra vexti plantna, svo sem plöntulyf, illgresiseyðar og stýriefni.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á stjórn tæknilegrar virkni þess búnaðar sem reglugerð þessi tekur til.

Samþættar varnir gegn skaðvöldum: Vandleg athugun á öllum tiltækum plöntuverndaraðferðum og í kjölfarið samþætting viðeigandi ráðstafana sem halda aftur af þróun stofna skaðlegra lífvera og halda notkun plöntuverndarvara og annarra afskipta innan efnahagslega og vistfræðilega réttlætanlegra marka og sem draga úr eða lágmarka áhættu fyrir heilbrigði manna og umhverfið. Með samþættum vörnum gegn skaðvöldum er lögð áhersla á vöxt heilbrigðrar uppskeru með lágmarksröskun fyrir ræktunarvistkerfi og hvatt til náttúrulegra aðgerða gegn skaðvöldum.

Stýriefni: Efni og efnasamsetningar, sem sérstaklega eru ætluð til þess að stýra vexti nytjaplantna eða hluta þeirra (hraða eða seinka vexti) eða til að draga úr öndun og spírun plantna eða plöntuhluta í geymslu.

Sæfivara:

  • Sérhvert efni eða blanda, í því formi sem efnið eða blandan er afhent notendum, sem samanstendur af, inniheldur eða myndar eitt eða fleiri virk efni og er ætlað að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá, gera þær skaðlausar, koma í veg fyrir áhrif þeirra eða verjast þeim með öðrum hætti en eingöngu efnislegum eða vélrænum aðferðum.
  • Sérhvert efni eða blanda sem myndast úr efnum eða blöndum sem sjálf falla ekki undir fyrsta undirlið og er ætlað að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá, gera þær skaðlausar, koma í veg fyrir áhrif þeirra eða verjast þeim með öðrum hætti en eingöngu efnislegum eða vélrænum aðferðum.

Umhverfi: Dýr, plöntur og örverur, jarðvegur, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, menningarminjar og efnisleg verðmæti.

Úðun garða: Notkun á hvers kyns plöntuverndarvöru svo sem plöntulyfi, illgresiseyði eða stýriefni í atvinnuskyni við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenningseign, til þess að hefta vöxt, varna sýkingum eða skemmdum í gróðri af völdum hvers kyns lífvera eða til þess að stýra vexti plantna, svo sem plöntulyf, illgresiseyðar og stýriefni.

Útrýmingarefni: Nagdýraeitur, lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum, skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum.

Viðurkenndur fræðsluaðili: Aðili sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra mennta- og menningarmála, eða aðila sem hann felur það verkefni.

Virkt efni: Efni eða örvera, svo sem veira eða sveppur, sem hefur almenna eða sérhæfða verkun á lífverur, svo sem á gróður, dýr eða örverur.

Yfirborðsvatn: Kyrrstætt eða rennandi vatn á yfirborði jarðar, straumvötn, stöðuvötn og jöklar, svo og strandsjór, sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Þjónustuaðili: Einstaklingur eða lögaðili sem þjónustar þann búnað sem reglugerð þessi tekur til.

Öryggisblöð: Upplýsingablöð um eiginleika efna eða efnablandna ásamt upplýsingum um meðhöndlun og meðferð þeirra.

4. gr. Almenn ákvæði.

Plöntuverndarvörur sem settar eru á markað skulu hafa markaðsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur og útrýmingarefni sem sett eru á markað skulu hafa markaðsleyfi í samræmi við reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur.

Ávallt skal gæta varúðar við meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna þannig að ekki valdi tjóni á heilsu eða umhverfi utan þess sem verið er að meðhöndla og skal leitast við að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.

Sé þess kostur skal skipta út plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum, sem eru talin geta haft í för með sér óæskileg áhrif á heilsu manna eða skaðað umhverfið utan þess sem verið er að meðhöndla, fyrir hættuminni plöntuverndarvörur og útrýmingarefni. Plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum skal einungis dreift á þau svæði sem meðhöndla skal.

II. KAFLI Kaup og móttaka plöntuverndarvara og útrýmingarefna, notendaleyfi, ábyrgðaraðilar fyrir markaðssetningu plöntuverndarvara og útrýmingarefna, nám, námsefni og próf.

5. gr. Markaðssetning plöntuverndarvara og útrýmingarefna til almennrar notkunar.

Í markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum koma fram upplýsingar um leyfða notkun og takmarkanir á þeim fyrir almenning svo og um merkingar.

Þeir sem markaðssetja plöntuverndarvörur og útrýmingarefni til almennrar notkunar skulu veita þeim sem kaupa og nota umræddar vörur almennar upplýsingar um áhættu af notkun þeirra fyrir heilbrigði manna og umhverfið, sérstaklega hvað varðar hættu, váhrif, rétta geymslu, meðhöndlun, notkun og örugga förgun.

6. gr. Markaðssetning notendaleyfisskyldra vara.

Til að taka við, kaupa og nota notendaleyfisskyldar vörur við eyðingu meindýra eða í landbúnaði og garðyrkju þurfa einstaklingar að framvísa gildu notendaleyfi Umhverfisstofnunar. Sá sem setur á markað slíkar notendaleyfisskyldar vörur ber ábyrgð á því að einungis handhafa gilds notendaleyfis séu afhentar umræddar vörur.

Þeir sem markaðssetja notendaleyfisskyldar vörur skulu halda skrá yfir sölu þeirra og afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um kaupanda, gögn um magn sem og vöruheiti útrýmingarefna og plöntuverndarvara sem sett eru á markað, á því formi sem stofnunin tilgreinir.

Notendaleyfisskyldum vörum skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að þær séu ekki aðgengilegar viðskiptavinum, heldur skulu þær afhentar sérstaklega.

Birgjar skulu láta öryggisblöð fylgja við afhendingu notendaleyfisskyldra vara, sbr. 30. gr. efnalaga nr. 61/2013.

7. gr. Notendaleyfi.

Einstaklingar sem nota notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni skulu sækja um notendaleyfi til Umhverfisstofnunar. Þeir sem nota útrýmingarefni til eyðingar meindýra skulu hafa notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum og þeir sem nota plöntuverndarvörur í landbúnaði og garðyrkju skulu hafa notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum.

Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis eru eftirfarandi:

  1. Að umsækjandi hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð plöntuverndarvara eða útrýmingarefna, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans.
  2. Að Vinnueftirlit ríkisins hafi staðfest að umsækjandi hafi yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem staðist hefur skoðun og nauðsynlegur er til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
  3. Að umsækjandi sé eldri en 18 ára.

Notendaleyfi skulu gefin út til tiltekins tíma og gilda að hámarki í átta ár. Framlengja má notendaleyfi í allt að tvö ár. Heimilt er að endurnýja leyfi til átta ára í senn að því tilskildu að Vinnueftirlit ríkisins staðfesti að skilyrði b-liðar 2. mgr. séu uppfyllt.

Notendaleyfi skal gefið út á einstakling og í því skal tilgreina notkunarsvið. Leyfisskírteini eru gefin út af Umhverfisstofnun með mynd af leyfishafa og skal hann ávallt framvísa leyfisskírteini við kaup á vörum sem leyfið nær til sem og ef þess er óskað að leyfishafi framvísi leyfi við störf sín sem og við alla meðferð.

Skilyrði fyrir endurnýjun notendaleyfis er auk skilyrða í b-lið 2. mgr., að umsækjandi hafi, eftir því sem við á, lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð plöntuverndarvara eða útrýmingarefna, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á viðhald þekkingar hans.

Umhverfisstofnun birtir á vefsetri sínu skrá yfir þá einstaklinga sem hafa notendaleyfi.

8. gr. Ábyrgðaraðilar.

Dreifandi sem markaðssetur notendaleyfisskyldar vörur skal tilgreina nafngreindan ábyrgðaraðila til að tryggja að nægjanleg fagþekking sé innan fyrirtækisins. Slíkur einstaklingur skal vera til taks þegar sala fer fram til að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar að því er varðar notkun plöntuverndarvara eða útrýmingarefna og áhættu fyrir heilbrigði og umhverfið.

Nafngreindur ábyrgðaraðili á vegum þess sem um getur í 1. mgr. skal hafa lokið námi eða námskeiði sem Umhverfisstofnun metur gilt, sbr. 9. og 10. gr, og staðfestir með útgáfu vottorðs að sé fullnægjandi. Láti viðkomandi ábyrgðaraðili af störfum hjá hlutaðeigandi verslun eða birgi skal tilkynna til Umhverfisstofnunar um nýjan ábyrgðaraðila sem uppfyllir ákvæði 1. mgr.

9. gr. Námsefni um meðferð og notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Þeir sem nota notendaleyfisskyldar vörur til eyðingar meindýra eða í landbúnaði og garðyrkju skulu hafa lokið viðeigandi námi og staðist próf hjá viðurkenndum fræðsluaðila. Í því skal felast bæði grunn- og viðbótarþjálfun til að öðlast þekkingu og auka við hana. Námskrá námsins skal innihalda þá námsþætti sem fram koma í I. og II. viðauka við reglugerð þessa og hafa hlotið vottun ráðherra mennta- og menningarmála í samræmi við lög um framhaldsfræðslu um gerð og uppbyggingu námskráa í framhaldsfræðslu.

Námskrá námskeiðs fyrir ábyrgðaraðila skal innihalda námsþætti sem fram koma í III. viðauka og hafa hlotið vottun ráðherra mennta- og menningarmála í samræmi við gæðaviðmið um gerð og uppbyggingu námskráa í framhaldsfræðslu.

10. gr. Viðurkenning á námi.

Umhverfisstofnun skal viðurkenna nám og námskeið sem lokið er frá búnaðarskóla, garðyrkjuskóla og háskóla eða annað sambærilegt nám, ef hún metur það svo að innihald þess uppfylli skilyrði þessarar reglugerðar og viðkomandi hafi staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans.

Einstaklingur sem hefur aflað sér sambærilegra réttinda til notkunar og markaðssetningar á plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum í öðru EES-ríki eða öðru ríki sem Ísland hefur samið sérstaklega við þar um, getur fengið þau viðurkennd af Umhverfisstofnun ef þau uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar. Slíkur einstaklingur skal sækja um viðurkenningu á réttindum sínum til Umhverfisstofnunar áður en hann hefur starfsemi hér á landi. Með umsókn skal eftir því sem við á fylgja afrit af erlendum réttindum til notkunar plöntuverndarvara eða útrýmingarefna.

III. KAFLI Meðferð og upplýsingar um notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna og leifa af þeim.

11. gr. Hlífðarbúnaður.

Um klæðnað og persónuhlífar sem notaður er við blöndun, úðun og útlagningu notendaleyfisskyldra vara, sem og skolun tækja, fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nánari fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins og öryggisblöðum eða merkingum fyrir vöruna.

12. gr. Varðveisla plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Plöntuverndarvörur og útrýmingarefni skulu varðveitt í umbúðum framleiðenda. Umbúðir sem hafa verið rofnar skulu vera þéttar og tryggilega lokaðar.

Plöntuverndarvörur og útrýmingarefni til almennra nota skulu geymd á tryggan hátt og þannig að þau séu aðskilin frá matvælum, dýrafóðri, lyfjum og snyrtivörum og þannig að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Ef blanda þarf slíkar plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni fyrir notkun, skulu þau geymd í læstum skáp eða rými.

Notendaleyfisskyldar vörur skulu geymdar í læstum hirslum eða rými sem skulu greinilega auðkennd með viðeigandi varnaðarorðum eins og "Varúð", "Eitur". Eftir atvikum skal aðgreina efni og efnablöndur í rýmum vegna mögulegrar hættu við blöndun þeirra.

Um varðveislu plöntuverndarvara og útrýmingarefna á vinnustöðum og framkvæmd vinnu gilda ennfremur ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Jafnframt gilda ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um gerð og umbúnað mannvirkja þar sem efni eru geymd.

13. gr. Flutningur plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Um flutning á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum á landi, með skipum og loftförum, svo og í pósti, fer samkvæmt lögum þeim og reglugerðum er við eiga.

14. gr. Förgun umbúða og losun plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Óheimilt er að endurnota tómar umbúðir plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Skola skal tómar umbúðir og skolvatnið notað til þynningar í úðunarblöndu. Tómum umbúðum, óþynntum og þynntum úðunarefnum skal fargað í samræmi við upplýsingar á umbúðum, á uppfærðum öryggisblöðum og í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Óheimilt er að hella úðunarvökva, óþynntum eða þynntum í niðurföll, ár, vötn eða sjó.

Sé notaður úðunartankur við dreifingu plöntuverndarvara og útrýmingarefna skal, þegar þörf krefur, skola hann vandlega samkvæmt leiðbeiningum og skolvatn losað á úðunarstað með því að dreifa því yfir svæðið sem þegar hefur verið meðhöndlað. Sé þörf á að skola úðunarbúnað að utan skal það gert á stað þar sem ekki er hætta á því að skolvatnið berist í yfirborðs- eða grunnvatn.

15. gr. Upplýsingar um notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Umhverfisstofnun skal upplýsa almenning og stuðla að vitundarvakningu um notkun plöntuverndarvara, einkum að því er varðar áhættu og hugsanlega bráð og langvinn áhrif af notkun þeirra á heilbrigði manna og á umhverfið, svo og um beitingu annarra valkosta við plöntuvernd sem ekki byggjast á notkun efna.

Vinnueftirlit ríkisins tekur saman upplýsingar um atvinnusjúkdóma sem tengjast útrýmingarefnum, sbr. 7. gr. efnalaga nr. 61/2013. Ábyrgðaraðili, dreifandi, rekstraraðili eða leyfishafi í skilningi reglugerðar þessarar skal tilkynna Vinnueftirlitinu án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni geti valdið mengun, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Eitrunarmiðstöð Landspítala skráir öll tilvik eitrunar af völdum útrýmingarefna og allar ráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr hættu á frekari tilvikum, sbr. 10. gr. efnalaga nr. 61/2013. Þá heldur Eitrunarmiðstöð Landspítalans einnig utan um algeng eitrunartilvik af völdum plöntuverndarvara. Ef læknir kemst að því eða fær grun um að ábyrgðaraðili, dreifingaraðili, rekstraraðili eða leyfishafi í skilningi reglugerðar þessarar og/eða starfsmenn þeirra hafi atvinnusjúkdóm, atvinnutengdan sjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna með plöntuverndarvörur og útrýmingarefni, skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. reglugerð nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma.

IV. KAFLI Notkun útrýmingarefna við eyðingu meindýra í atvinnuskyni.

16. gr. Um eyðingu meindýra.

Sá einn má starfa við eyðingu á meindýrum, þ.m.t. rottum, músum, skordýrum og öðrum hryggleysingjum, í atvinnuskyni sem er handhafi gilds notendaleyfis fyrir útrýmingarefnum. Eingöngu handhafar notendaleyfis mega nota útrýmingarefni við framkvæmd eyðingar meindýra. Aðilar sem starfa við eyðingu meindýra skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. er ekki krafist starfsleyfis til eyðingar meindýra þegar einstaklingur, sem er handhafi notendaleyfis, starfar við eyðingu meindýra í fyrirtæki með starfsleyfi, þar sem hann er ráðinn sem starfsmaður.

Við eyðingu á meindýrum gilda ákvæði laga um velferð dýra og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Við eyðingu meindýra má einungis nota útrýmingarefni sem uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 878/2014 um sæfivörur.

Þeir sem nota útrýmingarefni í atvinnuskyni skulu halda skrár í a.m.k. þrjú ár yfir þær vörur sem þeir nota. Í skránni þarf að koma fram heiti vöru, notkunartími, skammtur og svæði.

17. gr. Framkvæmd eyðingar meindýra.

Áður en hafist er handa við eyðingu meindýra, skal handhafi notendaleyfis kynna sér aðstæður og meta hvort þörf sé á notkun útrýmingarefna og hvort hægt sé að beita aðgerðum sem ekki byggjast á efnanotkun. Ef vafi leikur á hvers kyns meindýr um er að ræða skal kalla eftir áliti viðeigandi sérfræðinga.

Við eyðingu meindýra skal leitast við að nota ekki mikilvirkari útrýmingarefni en þörf krefur. Gæta skal ítrustu varúðar við útlagningu útrýmingarefna og tryggja að þau valdi hvorki tjóni á mönnum, dýrum, öðrum en meindýrum, né berist í matvæli og fóður. Fylgja skal í hvívetna notkunarleiðbeiningum sem fram koma á ílátum útrýmingarefna eða kunna að fylgja vörunum á annan hátt.

Þar sem eyðing meindýra fer fram skulu settir upp varnaðarmiðar á áberandi stað. Miðarnir skulu festir vandlega og letur þeirra skal vera þess eðlis, að lesmálið sé greinilegt á meðan að fyrirmæli sem þar koma fram gilda. Eftirfarandi skal koma fram á varnaðarmiðum:

  1. Yfirskrift með stóru letri, er segir "Varúð - Meindýraeyðing".
  2. Heiti vörunnar sem notuð er og heiti virkra efna sem hún inniheldur.
  3. Nafn, heimilisfang og sími þess aðila er framkvæmir meindýraeyðinguna.

V. KAFLI Notkun plöntuverndarvara við úðun garða í atvinnuskyni.

18. gr. Um úðun garða.

Sá einn má starfa í atvinnuskyni við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenningseign, sem er handhafi gilds notendaleyfis fyrir plöntuverndarvörum. Eingöngu handhafar notendaleyfis mega nota plöntuverndarvörur við framkvæmd á úðun garða. Aðilar sem starfa við úðun garða í atvinnuskyni skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. er ekki krafist starfsleyfis til úðunar garða þegar einstaklingur, sem er handhafi notendaleyfis, starfar við úðun garða í fyrirtæki með starfsleyfi, þar sem hann er ráðinn sem starfsmaður.

Við úðun garða má einungis nota plöntuverndarvörur sem fengið hafa leyfi til að vera á markaði hérlendis.

Við úðun garða er einungis heimilt að nota tækjabúnað sem skoðaður hefur verið skv. ákvæðum 24. gr. Við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenningseign er ekki heimilt að nota plöntuverndarvörur sem hafa lengri uppskerufrest en 14 daga.

Þeir sem nota plöntuverndarvörur í atvinnuskyni skulu halda skrár í a.m.k. þrjú ár yfir þær vörur sem þeir nota. Í skránni þarf að koma fram heiti vöru, notkunartími og skammtur. Jafnframt þarf að koma fram á hvernig svæði og á hvaða nytjaplöntu varan var notuð.

19. gr. Varnaðarmiðar.

Áður en úðun garða hefst skulu settir upp varnaðarmiðar á áberandi stað við alla innganga að því svæði er úða skal. Miðarnir skulu festir vandlega og letur þeirra skal vera þess eðlis að regn eyðileggi ekki lesmál þeirra á meðan að fyrirmæli sem þar koma fram gilda. Eftirfarandi skal koma fram á varnaðarmiðum:

  1. Yfirskrift með stóru letri, er segir "Varúð - Garðaúðun".
  2. Heiti plöntuverndarvörunnar sem notuð er og heiti virkra efna sem hún inniheldur.
  3. Hversu lengi garðurinn skuli lokaður allri annarri umferð en bráðnauðsynlegri.
  4. Tímasetning og dagsetning úðunar.
  5. Setningin: "Ekki skal neyta matjurta sem úði hefur borist á fyrr en að lágmarki * dögum eftir garðaúðun". * Hér skal tilgreina uppskerufrest þann sem gefinn er upp á umbúðum plöntuverndarvörunnar.
  6. Nafn, heimilisfang og sími þess aðila, er framkvæmir úðunina. Stærð varnaðarmiðans skal vera minnst 14,8 x 10,5 sm (A6), hvítur eða ljós grunnur með rauðum bókstöfum. Stærð bókstafa skal vera þannig að auðvelt sé að lesa það sem á miðanum stendur.

20. gr. Framkvæmd úðunar.

Áður en úðun garða er framkvæmd skal handhafi notendaleyfis meta þörfina fyrir úðun. Telji hann ekki þörf á úðun eða einungis þörf á úðun einstakra plantna eða á einstökum svæðum, ber honum að upplýsa garðeiganda um það. Ef vafi leikur á um hvers kyns skaðvald er að ræða skal kalla eftir áliti viðeigandi sérfræðinga.

Áður en úðun hefst skal meta hættuna á því að úðinn berist annað en honum er ætlað. Tilkynna skal umráðendum aðliggjandi lóða við úðunarstað um fyrirhugaða úðun. Við framkvæmd úðunar garða skal leitast við að gluggar séu lokaðir, þvottur ekki á snúrum og lausir hlutir séu þar sem ekki er hætta að úði berist á þá. Taka skal tillit til nágrannagarða og umferðar fólks um gangstéttir. Leitast skal við að framkvæma úðun þegar veður er nægilega kyrrt til þess að tryggt sé að sem minnstur úði berist út fyrir svæðið sem meðhöndla á, svo sem á matjurtir eða leiktæki barna.

Um blöndun úðunarefnisins skal fara eftir þeim fyrirmælum sem fram koma á leiðbeiningum umbúða. Óheimilt er að nota sterkari blöndu en þar er mælt fyrir um. Gæta skal þess að blanda ekki meira magn af úðunarefni en þörf er á. Sjá skal til þess að engir óviðkomandi komist í námunda við úðunarbúnaðinn og garðinn meðan á úðun stendur. Að úðun lokinni skal ganga tryggilega frá tækjum og úðunarefnum. Skulu þau geymd í læstu geymsluhúsnæði þegar þau eru ekki í notkun. Ef ekki er unnt að geyma tækjabúnaðinn innandyra skal ganga þannig frá honum að óviðkomandi geti ekki komist í snertingu við úðunarefni.

VI. KAFLI Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara, áhættuvísar og samþættar varnir gegn skaðvöldum.

21. gr. Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara.

Ráðherra gefur út til 15 ára í senn almenna aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara sem gildir fyrir landið allt sbr. 34. gr. efnalaga. Umhverfisstofnun vinnur tillögu að aðgerðaáætluninni og leggur fyrir ráðherra, að höfðu samráði við Matvælastofnun, Landgræðslu ríkisins, Skógræktina, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila eftir því sem við á. Áætlunin skal taka mið af efnalögum nr. 61/2013 og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sem og lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Í áætluninni skulu m.a. koma fram:

  1. mælanleg markmið,
  2. upplýsingar um notkun plöntuverndarvara í landinu og tímaáætlun,
  3. aðgerðir og stefnumörkun til að draga markvisst úr notkun plöntuverndarvara og stuðla að sjálfbærri notkun þeirra.

Umhverfisstofnun skal auglýsa drög að aðgerðaáætluninni í sex vikur þannig að hagsmunaaðilar, almenningur og stjórnvöld hafi tækifæri til að gera athugasemdir við hana. Almenningi skal tryggður aðgangur að áætluninni, m.a. á vefsetri Umhverfisstofnunar. Heimilt er að setja í landsbundnar aðgerðaáætlanir ákvæði um að veita beri upplýsingar þeim aðilum sem gætu orðið fyrir váhrifum af völdum úðareks.

Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara skal endurskoða á fimm ára fresti.

22. gr. Áhættuvísar um notkun plöntuverndarvara.

Umhverfisstofnun skal nota áhættuvísa vegna notkunar plöntuverndarvara, sem fram koma í VI. viðauka, til að meta þróun í notkun plöntuverndarvara.

23. gr. Samþættar varnir gegn skaðvöldum.

Hver sá sem notar notendaleyfisskyldar plöntuverndarvörur skal í hvívetna leitast við að fylgja almennum meginreglum um samþættar varnir gegn skaðvöldum sem fram koma í V. viðauka.

VII. KAFLI Skoðun búnaðar til að dreifa plöntuverndarvörum.

24. gr. Skoðun og skráning búnaðar í notkun.

Búnaður sem er notaður til dreifingar á plöntuverndarvörum, þegar um er að ræða notkun í atvinnuskyni, skal háður reglulegri skoðun og uppfylla þær kröfur sem koma fram í IV. viðauka reglugerðar þessarar, reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja og eftir atvikum reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað. Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd skoðana. Standist búnaður ekki skoðun er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að banna notkun hans.

Skoðunarskyldan búnað sem notaður er til dreifingar á plöntuverndarvörum, skal skrá hjá Vinnueftirliti ríkisins áður en notkun hefst, nema eigandi/rekstraraðili búnaðarins hafi staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og sendi búnaðinn tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu. Tilkynna skal til Vinnueftirlits ríkisins um eigendaskipti á búnaðinum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eftirtalinn búnaður undanþeginn skoðun:

  1. Handúðadælur með tanki sem er minni en 25 lítrar.
  2. Úðadælur sem ætlaðar eru til þess að bera á baki.
  3. Búnaður sem ætlaður er til þess að dreifa plöntuverndarvörum, og ef til vill einnig áburði, sem kyrni.

Í slíkum tilvikum skulu rekstraraðilar sjá til þess að skipt sé reglulega um fylgihluti sem eru nauðsynlegir til að slíkur búnaður virki eðlilega, svo sem stútar, þrýstimælar, síur, sigti og hreinsunarbúnaður fyrir tanka.

Skoðun búnaðar skal fara fram á þriggja ára fresti. Taka skal nýjan búnað til skoðunar a.m.k. einu sinni innan fimm ára frá því að hann er keyptur.

Gengið skal út frá því að búnaður til dreifingar á plöntuverndarvörum, sem uppfyllir evrópska staðla samkvæmt reglugerð nr. 798/2014 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1025/2012 um evrópska stöðlun, standist grunnkröfur um heilbrigði, öryggi og umhverfið sem koma fram í IV. viðauka reglugerðar þessarar.

Þeir sem nota plöntuverndarvörur í atvinnuskyni skulu framkvæma reglulegar kvarðanir og tæknilegt eftirlit með dreifingarbúnaðinum í samræmi við viðeigandi þjálfun sem þeir hafa hlotið, eins og kveðið er á um í 7. gr.

Viðurkenna skal skoðanir sem framkvæmdar hafa verið í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, að því tilskildu að skoðunartíðni sé í samræmi við 5. mgr.

VIII. KAFLI Takmörkun á notkun.

25. gr. Sértækar ráðstafanir til verndar vatnavistkerfi og drykkjarvatni.

Við dreifingu á plöntuverndarvörum nálægt yfirborðsvatni skal viðhafa 5-10 m verndarbelti, nema að annað sé tiltekið á umbúðum plöntuverndarvörunnar, til þess að draga úr váhrifum á vatnshlot af úðareki, framræslu og afrennsli. Stærð verndarbelta skal einkum fara eftir einkennum jarðvegs og eiginleikum plöntuverndarvara, auk einkenna þess landbúnaðar sem er stundaður á viðkomandi svæðum.

Óheimilt er að nota dælu úðunarbúnaðarins sjálfs til þess að fylla á úðunartank beint úr ám eða vötnum.

Óheimilt er að dreifa eða geyma plöntuverndarvörur og útrýmingarefni á brunnsvæði og grannsvæði innan verndarsvæðis vatnsbóla. Óheimilt er að staðsetja stórar geymslur fyrir plöntuverndarvörur og útrýmingarefni á fjarsvæði innan verndarsvæðis vatnsbóla.

Ef veitt er undanþága fyrir dreifingu plöntuverndarvara og útrýmingarefna úr loftförum sbr. 28. gr. er þó óheimilt að dreifa þeim beint á yfirborðsvatn.

Aðilar sem nota notendaleyfisskyldar vörur skulu gera viðeigandi ráðstafanir til verndar vatnavistkerfi og drykkjarvatni fyrir áhrifum af plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum. Þessar ráðstafanir skulu meðal annars fela í sér:

  1. að velja plöntuverndarvöru og útrýmingarefni, sem hvorki eru flokkuð sem "Hættuleg fyrir vatnsumhverfi" samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna né innihalda hættuleg forgangsefni eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns,
  2. að velja skilvirkustu dreifingaraðferðirnar, t.d. þar sem notaður er búnaður sem hefur lítið úðarek í för með sér, einkum þegar um er að ræða hávaxinn gróður,
  3. að nota mildandi ráðstafanir sem lágmarka áhættuna á mengun utan svæðisins, sem verið er að meðhöndla, af völdum úðareks, framræslu og afrennslis,
  4. að draga úr eins og framast er unnt eða útiloka dreifingu á eða meðfram vegum og járnbrautarsporum, yfir mjög gegndræpt yfirborð eða önnur svæði nálægt yfirborðs- eða grunnvatni, eða yfir þétt yfirborð þar sem mikil hætta er á afrennsli í yfirborðsvatn eða skolpkerfi.

26. gr. Dregið úr notkun plöntuverndarvara og útrýmingarefna eða áhættu af þeim á tilteknum svæðum.

Óheimilt er að dreifa plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum á friðlýstum svæðum og lykilsvæðum verndaðra tegunda.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að dreifa plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum á ofangreindum svæðum ef:

  1. dreifing er í það takmörkuðum mæli að ekki skapast áhætta fyrir heilsu og umhverfið og
  2. dreifingin á sér stað á samfelldu, afmörkuðu svæði, sem ekki er stærra en 1.000 m².

Halda skal notkun plöntuverndarvara í lágmarki á svæðum sem eru notuð af almenningi eða af viðkvæmum hópum eins og þau eru skilgreind í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1107/2009, t.d. almenningsgarðar, íþrótta- og tómstundasvæði, skólalóðir og leikvellir, og svæði í næsta nágrenni við heilbrigðisstofnanir. Takmarka skal aðgang að svæðum sem nýlega hafa verið meðhöndluð með plöntuverndarvöru samkvæmt fyrirmælum á umbúðum eða öryggisblöðum.

27. gr. Undanþágur.

Ráðherra er heimilt í einstökum tilvikum, þegar sérstaklega stendur á og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og hlutaðeigandi sveitarfélags að veita undanþágu frá ákvæðum 25. og 26. gr. til þess að hindra útbreiðslu ágengra tegunda eða bregðast við tjóni af völdum skaðvalda sem ógna lífríki á staðnum. Að því er varðar útbreiðslu ágengra tegunda skal jafnframt hafa samráð við sérfræðinganefnd um framandi lífverur sbr. 4. mgr. 63. gr. laga um náttúruvernd. Umsókn skal fylgja ítarlegur rökstuðningur þar sem meðal annars er tilgreind ástæða fyrir beiðni um notkun plöntuverndarvara eða útrýmingarefna, hvaða plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni má nota til að meðhöndla svæðið, hvenær dreifing á að fara fram, ráðstafanir við áhættustjórnun og fleira sem kann að hafa áhrif á áhættu gagnvart heilsu eða umhverfi.

28. gr. Dreifing plöntuverndarvara og útrýmingarefna úr loftförum.

Óheimilt er að dreifa plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum úr loftförum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má heimila dreifingu úr loftfari í sérstökum tilvikum, að því gefnu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

  1. engir aðrir vænlegir valkostir eru fyrir hendi eða sýnt þykir að áhrif á heilbrigði manna og umhverfið séu minni við dreifingu úr loftfari heldur en við dreifingu plöntuverndarvara og útrýmingarefna á jörðu niðri,
  2. þær plöntuverndarvörur og útrýmingarefni sem notaðar eru við dreifinguna hafi verið sérstaklega samþykktar til þeirrar notkunar, að gerðu sérstöku mati á áhættunni sem fylgir slíkri aðferð við dreifingu,
  3. rekstraraðili sem framkvæmir dreifinguna er handhafi notendaleyfis, sbr. 7. gr.,
  4. búnaður sem notaður er til dreifingarinnar uppfylli þær kröfur sem fram koma í 24. gr.,
  5. gerðar eru sértækar ráðstafanir til áhættustjórnunar til að útiloka skaðleg áhrif á heilbrigði nærstaddra þegar svæðið sem til stendur að meðhöndla er nálægt svæðum, sem almenningur hefur aðgang að. Óheimilt er að meðhöndla svæði nálægt íbúðarbyggð,
  6. loftfarið er búið fylgihlutum sem eru nauðsynlegir til að slíkur búnaður virki eðlilega, svo sem stútar, þrýstimælar, síur, sigti og hreinsunarbúnaður fyrir tanka til að draga úr úðareki samkvæmt bestu fáanlegu tækni.

Ráðherra er heimilt í einstökum tilvikum, þegar sérstaklega stendur á og að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi sveitarfélag að veita heimild fyrir dreifingu úr loftfari, og skal fara yfir umsóknir og birta skv. 5. mgr., upplýsingar til almennings um tegundir í ræktun, svæði, aðstæður og sérstakar kröfur varðandi dreifingu. Í samþykki fyrir dreifingu úr loftfari skal tilgreina þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að vara íbúa og nærstadda við í tæka tíð og að vernda umhverfið í nágrenni við það svæði sem er meðhöndlað. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um fyrirhugaða tímasetningu dreifingar ásamt magni og tegund plöntuverndarvara eða útrýmingarefna sem til stendur að nota.

Til að leysa bráðan vanda getur ráðherra í rökstuddum tilvikum hraðað málsmeðferð til að sannprófa að skilyrðin, sem um getur í 2. og 3. mgr., hafi verið uppfyllt áður en dreifing úr loftfari fer fram.

Ráðherra heldur skrár yfir beiðnir og samþykktir eins og um getur í 3. mgr. og gerir viðeigandi upplýsingar í þeim aðgengilegar almenningi, t.d. um svæðið sem til stendur að meðhöndla, fyrirhugaða dag- og tímasetningu þegar dreifing á að fara fram og tegund plöntuverndarvara eða útrýmingarefna sem til stendur að nota, í samræmi við gildandi lög.

IX. KAFLI Eftirlit, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

29. gr. Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt XI. kafla efnalaga nr. 61/2013. Þá skulu heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með meðferð og merkingum efna og efnablandna í starfsleyfisskyldri og skráningarskyldri starfsemi sem heyrir undir starfsleyfi sem nefndin gefur út og/eða hefur eftirlit með á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 2. tölul. 6. gr. efnalaga. Þá skal Vinnueftirlit ríkisins hafa eftirlit með notkun, meðferð og varðveislu plöntuverndarvara og útrýmingarefna á vinnustöðum, framkvæmd vinnu og búnaði til að dreifa plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðvum, efnalaga nr. 61/2013 og reglugerðar þessarar.

30. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt XIII. og XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013. Þó fer um brot gegn ákvæðum III., IV. og V. kafla þessarar reglugerðar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og brot gegn ákvæðum III. og VII. kafla reglugerðar þessarar samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

31. gr. Innleiðing tiltekinnar gerðar Evrópusambandsins.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna.

32. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í a-, g- og h-lið 3. tölul., 12., 14.-17. tölul. og 20. og 22. tölul. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013. Þau ákvæði reglugerðarinnar er varða öryggi starfsmanna á vinnustöðum eru enn fremur sett í samráði við félagsmálaráðuneytið og í samræmi við 1. mgr. 49. og 5. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 980/2015 um meðferð varnarefna.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er heimilt til 31. desember 2021 að endurnýja notendaleyfi án þess að viðkomandi hafi aflað sér viðeigandi endurmenntunar.

II.

Um merkingar á plöntuverndarvörum sem veitt hefur verið tímabundin skráning á grundvelli VI. bráðabirgðaákvæðis efnalaga fer samkvæmt reglugerð nr. 1002/2014 um gagnkvæma viðurkenningu á tilteknu markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörur.

 Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. maí 2021. 

 Guðmundur Ingi Guðbrandsson. 

 Sigríður Auður Arnardóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.