Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 24. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 29. des. 2023
Sýnir breytingar gerðar 14. jan. 2012 af rg.nr. 7/2012

48/2010

Reglugerð um Tollskóla ríkisins og ráðningu, setningu og skipun í störf við tollendurskoðun og tollgæslu.

I. KAFLI Hlutverk Tollskóla ríkisins, stjórn og starfslið.

1. gr. Hlutverk Tollskóla ríkisins.

Við embætti tollstjóra skal starfræktur Tollskóli ríkisins.

Tollskólinn annast kennslu í almennum tollfræðum.

Tollskólinn veitir starfsfólki tollstjóra sí- og endurmenntun, framhalds- og sérmenntun.

Tollskólinn heldur námskeið um ýmis atriði á sviði tollmála fyrir þá sem eiga í samskiptum við tollyfirvöld.

2. gr. Stjórn tollskólans og starfslið.

Tollstjóri veitir tollskólanum forstöðu og ræður skólastjóra, kennara og annað starfslið til skólans.

Skólastjóri annast daglega stjórn og rekstur skólans og ber ábyrgð á faglegu starfi innan hans.

Skipuð skal skólanefnd sem vera skal ráðgefandi um starfsemi skólans. Nefndin skal vera vettvangur skoðanaskipta um námsefni, reglur skólans og skyld efni.

Skólanefnd skal skipuð tollstjóra og/eða fulltrúa hans, fulltrúa Tollvarðafélags Íslands og fulltrúa innheimtusviðs embættis tollstjóra. Tollstjóri, eða fulltrúi hans, skal vera formaður skólanefndar. Skólastjóri situr fundi skólanefndar.

II. KAFLI Almennt grunnnám tollvarða og tollendurskoðenda við Tollskóla ríkisins.

3. gr. Inntökuskilyrði.

Tollstjóri ákveður að höfðu samráði við skólastjóra svo fljótt sem því verður við komið hvenær starfsmenn, sem hafa verið settir tollverðir eða ráðnir í störf við tollendurskoðun, skuli þreyta inntökupróf í tollskólann. Skólastjóri tilkynnir um framkvæmd inntökuprófa hverju sinni í samráði við skólanefnd.

Tollvörður í tollgæslu skal hafa hafið almennt nám við tollskólann innan tveggja ára frá setningu hans.

Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um tollverði sem eru settir til afleysinga.

4. gr. Réttindi og skyldur nemenda við tollskólann.

Tollstarfsmenn sem kvaddir eru til náms við tollskólann skulu vera launaðir á meðan á námi stendur. Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda um tollstarfsmenn í námi.

Nemendur skulu lúta reglum skólans meðan á námsdvöl þeirra stendur. Skólastjóri setur almennar reglur um hegðun, mætingu, klæðaburð og hvernig með skuli fara ef reglum er ekki fylgt. Skólareglur skulu tilgreina hvernig standa skuli að tímabundinni og/eða varanlegri brottvikningu nemenda úr skólanum komi til brota á skólareglum.

5. gr. Tilhögun náms og námsskrá.

Almennu námi við tollskólann skal skipt í kjarnanám, sbr. 6. og 7. gr., og starfsnám, sbr. 8. gr.

Kennslustundir í kjarnanámi skulu vera a.m.k. 950 og vera í samræmi við námsskrá skólans, sbr. 3. mgr. Náminu er skipt í kjarna I og kjarna II samkvæmt ákvörðun skólastjóra að höfðu samráði við skólanefnd.

Skólastjóri skal gefa út námskrá fyrir skólann þar sem tilgreindar eru þær námsgreinar sem eru kenndar í kjarnanámi, sbr. 6. og 7. gr.

Skólastjóra er heimilt, í samráði við tollstjóra, að veita nemendum leyfi til þess að stunda fjarnám við skólann, að hluta eða að öllu leyti.

6. gr. Námsgreinar.

Eftirfarandi námsgreinar eru ávallt kjarnafög í almennu námi við tollskólann. Þó er ekki gert ráð fyrir að nemendur í tollendurskoðun sæki námskeið í löggæsluæfingum, hjálp í viðlögum og verklegum æfingum:

  1. Tollalöggjöf og stjórnkerfið: Nemendum skulu kynnt í grundvallaratriðum ákvæði laga um tollamál. Áhersla skal lögð á almenna fræðslu um skipan tollamála innan stjórnkerfisins og aðrar þær grundvallarreglur er þar að lúta, s.s. reglur um meðferð opinberra mála. Einnig skal farið yfir starfsheimildir tollgæslumanna.
  2. Tollflokkun og tollafræði: Nemendum skal veitt fræðsla um uppbyggingu flokkunarkerfis tollskrárinnar, meginreglur um flokkun vara í tollskránni og notkun helstu skýringarrita. Farið skal yfir helstu reglur sem gilda um afhendingu og frágang tollskýrslu, vörureiknings og annarra fylgiskjala. Kennd skulu undirstöðuatriði við ákvörðun tollverðs og útreikning aðflutningsgjalda. Þá skal farið yfir samninga við erlend ríki á sviði tollamála.
  3. Tollgæslufræði: Nemendum skal gerð grein fyrir starfssviði tollgæslunnar og helstu eftirlitsþáttum sem tengjast samgöngum við landið. Kynntar skulu í meginatriðum þær aðferðir er tollgæslan beitir við eftirlitsstörf, m. a. til þess að hindra ólöglegan inn- og útflutning.
  4. Tungumál: Áhersla skal lögð á að æfa nemendur í réttritun íslensku, liðlegri setningaskipan og setningu greinarmerkja svo og að kynna þeim undirstöðuatriði í íslenskri málfræði. Nemendur skulu fá þjálfun í að tjá sig bæði munnlega og skriflega. Kennd skulu erlend tungumál eftir því sem þurfa þykir.
  5. Skýrslugerð: Kennd skulu grundvallaratriði skýrslugerðar. Farið skal yfir niðurröðun efnis, málfar og efnisatriði frumskýrslna. Þá skal farið yfir eftirtalin atriði: Tilgang skýrslugerðar, notkun skýrslueyðublaða og niðurröðun efnis, vörulýsingu, móttöku og sendingu tilkynninga, réttarstöðu vitna og grunaðra, vettvangslýsingu og skráningu, röðun og vistun skjala.
  6. Líkamleg þjálfun/löggæsluæfingar: Nemendur skulu á námstíma stunda líkamlega þjálfun í því augnamiði að auka hæfni sína til þess að framfylgja lögum og reglu með festu og með valdi ef nauðsyn ber til. Kennd skulu undirstöðuatriði við handtöku og sjálfsvörn.
  7. Hjálp í viðlögum: Nemendur skulu fá kennslu og æfingu í viðbrögðum við björgun manna frá drukknun, skyndihjálp og áfallahjálp.
  8. Verklegar æfingar: Nemendur skulu hljóta þjálfun í framkvæmd ýmissa tollgæsluaðgerða, upplýsinga- og áhættugreiningu og meðferð og beitingu tollgæslutækja.

7. gr. Aðrar námsgreinar.

Skólastjóri kveður nánar á um námsefni í kjarnanámi, sbr. ákvæði um lengd kjarnanáms og námskrá í 5. gr. Skólastjóri skal hafa samráð við skólanefnd við ákvörðun annarra námskeiða í kjarnanámi en námskeiða skv. 6. gr. og í því efni skal tekið mið af þörfum og áherslum hjá tollstjóra hverju sinni.

8. gr. Starfsnám.

Nemendum skal séð fyrir starfsnámi þar sem áhersla er lögð á sem víðtækasta kynningu og þjálfun í að takast á við hin ýmsu verkefni tollafgreiðslu og tolleftirlits.

Starfsnám skal skipulagt af skólastjóra í samráði við tollstjóra. Skal því hagað í samræmi við reglur skólans.

Á starfsþjálfunartíma skal yfirmaður gefa skólanum skýrslu um starfsnám nemenda, m.a. um framfarir þeirra og annað sem máli kann að skipta um starfshæfni.

9. gr. Námsmat og prófkröfur.

Í lok hvers námskeiðs skal frammistaða nemenda metin og þeim gefin einkunn í heilum og hálfum tölum á skalanum 1-10, lágmarkseinkunn í hverju námskeiði er 6,0. Fyrir verklega þjálfun, þ.m.t. starfsnám, má gefa einkunnina fullnægjandi eða ófullnægjandi.

Nemanda er heimilt að taka upptökupróf einu sinni í hverri námsgrein hafi hann fengið undir 6,0 í einkunn.

Skrifleg próf dæmir hlutaðeigandi kennari einn. Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi ekki una mati kennarans, getur hann snúið sér til skólastjóra. Ef skólastjóri telur, að höfðu samráði við skólanefnd, að útskýringar kennara séu ekki fullnægjandi skipar hann prófdómara.

Við munnleg próf skal vera prófdómari sem skólastjóri skipar.

Kennarar eða meirihluti nemenda geta óskað skipunar prófdómara í einstökum prófum, hvort sem er munnlegum eða skriflegum, telji þeir til þess sérstaka ástæðu.

Þegar prófdómari er skipaður, skulu hann og viðkomandi kennari dæma úrlausn eða frammistöðu í sameiningu. Hvor um sig gefur sjálfstæða einkunn fyrir úrlausn, eða metur frammistöðu, og vegur einkunn þeirra eða mat jafnt við lokaeinkunnagjöf. Skólastjóri setur nánari reglur um framkvæmd prófa.

10. gr. Námskeið á vegum annarra skólastofnana.

Skólastjóra er heimilt í samráði við viðkomandi skólayfirvöld að láta kennslu og próf í einstökum námsgreinum fara fram í almennum skólum og sérskólum skólakerfisins telji hann kennslu betur fyrir komið með þeim hætti.

III. KAFLI Annað nám við Tollskóla ríkisins.

11. gr. Fræðsla fyrir starfsfólk tollstjóra.

Tollskólinn skal skipuleggja fræðslu fyrir starfsfólk tollstjóra til þess að veita þeim sí- og endurmenntun, framhalds- og sérmenntun eftir því sem þurfa þykir. Þá er skólanum heimilt að halda námskeið fyrir ýmsa aðila sem starfa að tollamálum með einhverjum hætti.

12. gr. Sí- og endurmenntun.

Starfsfólk tollstjóra skal eiga kost á símenntun. Kynntar skulu helstu lagabreytingar og nýjungar sem snerta störf þeirra, svo að þeir geti tileinkað sér þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til þess að takast á við störf sín á hverjum tíma.

Starfsfólk tollstjóra skal jafnframt eiga þess kost að sækja valin námskeið úr almennu námi við skólann í samráði við skólastjóra. Einnig skulu haldin námskeið til upprifjunar námsefnis í kjarnanámi eftir því sem þörf er á.

13. gr. Framhalds- og sérmenntun.

Framhaldsmenntun starfsmanna skal miða að því að gera þá hæfari á sínu starfssviði. Námsefni skal ákveðið af skólastjóra og skólanefnd, sem ákveður fjölda þátttakenda.

Námskeið fyrir tollstarfsmenn í sérgreinum á sviði tollafgreiðslu og tolleftirlits skulu haldin þegar þurfa þykir að mati skólastjóra og skólanefndar. Á sérmenntunarnámskeiðum skal leitast við að efla hæfni og skilning þátttakenda á sérsviðum þeirra.

14. gr. Námskeið fyrir aðila utan embættis tollstjóra.

Tollskólinn heldur námskeið fyrir aðra en starfsmenn tollstjóra um ýmis atriði er lúta að samskiptum við tollyfirvöld. Þá er skólastjóra heimilt að veita öðrum aðgang að völdum námskeiðum í kjarnanámi við skólann.

IV. KAFLI Um skipun, setningu og ráðningu í störf við tollendurskoðun og tollgæslu.

15. gr. Almenn hæfisskilyrði.

Þeir sem ráðnir verða í störf við tollendurskoðun eða settir verða í störf tollvarða, þ.m.t. til afleysinga, skulu auk almennra skilyrða 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

  1. Hafa lokið a.m.k. tveggjalágmarki ára námi í framhaldsskólastúdentsprófi, þ.e. 70140 einingum, eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms. Þar af þurfa að vera að lágmarki 6 einingar í hverri eftirtalinna greina: íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði.
  2. Hafa gott vald á íslensku og einu Norðurlandamáli auk ensku.

Þeir sem settir verða í störf tollvarða skulu uppfylla eftirtalin skilyrði, auk skilyrða 1. mgr.:

  1. Hafa almenn réttindi til bifreiðaaksturs.
  2. Vera syndir.
  3. Vera andlega og líkamlega heilbrigðir og skal þeim skylt að skila inn læknisvottorði því til staðfestingar.

Heimilt er að víkja frá einstökum skilyrðum 1. mgr. og 2. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því.

16. gr. Skipun tollvarða.

Til að fá skipun sem tollvörður verður umsækjandi eða starfandi tollvörður að hafa staðist próf frá tollskólanum eða hlotið menntun sem skólanefnd metur sambærilega.

V. KAFLI Önnur ákvæði.

17. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 193. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 345/2006, um Tollskóla ríkisins og ráðningu, setningu og skipun í störf við tollendurskoðun og tollgæslu, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar skal nemendum sem stunda nám í tollskóla ríkisins árið 2010 heimilt að ljúka námi að loknu 670 stunda kjarnanámi. Tollstarfsmenn þessir skulu á næstu þremur árum eftir útskrift úr Tollskóla ríkisins ljúka a.m.k. 280 stunda framhaldsnámi við skólann.

 Fjármálaráðuneytinu, 13. janúar 2010. 

 F. h. r.
 Maríanna Jónasdóttir. 

 Ögmundur Hrafn Magnússon. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.