Fræðsluskylda sem liður í ábyrgðarskyldunni við vinnslu persónuupplýsinga
Hvernig á að veita fræðslu ?
Hægt er að veita fræðslu á ýmsan hátt.
Sérstaklega er hvatt til þess að fyrirtæki og stofnanir nýti sér þá tækni sem fyrir hendi er til að koma upplýsingum á framfæri.
Fyrst og fremst er lögð áhersla á að fræðslan skuli vera á gagnorðu, gagnsæju, skiljanlegu og aðgengilegu formi. Í því felst meðal annars að forðast setningar eins og „við kunnum að safna upplýsingum um þig í eftirfarandi tilvikum...“
Fræðsla á líka að vera á skýru og einföldu máli og hún þarf að vera aðskilin frá öðrum atriðum, t.d. almennum samningsskilmálum.
Þá þarf einnig að gæta þess að tilkynningar um uppfærslur á fræðslu, til dæmis í persónuverndarstefnu, sé ekki blandað saman við önnur atriði, til dæmis tilboð á vörum, þegar sendur er tölvupóstur.
Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða upplýsingar sem beint er sérstaklega til barns.
Upplýsingarnar skulu veittar skriflega eða á annan hátt, þar með talið á rafrænu formi.
Þá skulu upplýsingarnar veittar hinum skráða að kostnaðarlausu.