Ráðgjafar aðstoða einstaklinga á atvinnuleysisskrá og gefa hagnýt ráð varðandi leit að starfi. Þjónustan er ókeypis. Áhersla er lögð á að efla einstaklinginn og skapa honum forskot á atvinnumarkaði.
Það er gott að skoða reglulega laus störf í boði: Sjá laus störf
Ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun geta líka aðstoðað varðandi þessi úrræði:
Markmið með vinnustaðaþjálfun er að atvinnuleitandi á atvinnuleysisskrá fái tækifæri til að þjálfa sig og undirbúa fyrir frekari þátttöku á vinnumarkaði. Á meðan fær viðkomandi greiddar atvinnuleysisbætur.
Lengd samnings um vinnustaðaþjálfun getur að hámarki verið 13 vikur. Það er óheimilt að framlengja gildistíma samningsins vegna sama atvinnuleitanda.
Skilyrði
Atvinnuleitandi á rétt á atvinnuleysisbótum.
Ráðgjafi Vinnumálastofnunar metur það svo að þjálfunin nýtist atvinnuleitanda við atvinnuleit.
Samningur um vinnustaðaþjálfun
Vinnumálastofnun getur gert samning við fyrirtæki eða stofnun um vinnustaðaþjálfun einstaklinga. Viðkomandi einstaklingur, Vinnumálastofnun og fyrirtæki eða stofnun undirrita samninginn.
Með undirritun sinni skuldbindur atvinnuleitandi sig til að sinna þeim störfum sem honum eru falin á grundvelli samningsins undir leiðsögn leiðbeinanda.
Fyrirtækið eða stofnunin skuldbindur sig, með undirritun sinni, til að sjá til þess að atvinnuleitandinn sé slysatryggður við störf sín.
Umsögn og endurgjöf
Við lok gildistíma samnings skal fyrirtækið eða stofnunin veita Vinnumálastofnun umsögn um störf atvinnuleitandans, eftir því sem við á.
Sá tími sem vinnustaðaþjálfun atvinnuleitanda stendur yfir á grundvelli samnings telst ekki til ávinnslutímabils, það er, viðkomandi vinnur sér ekki inn aukinn rétt til atvinnuleysisbóta.
Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðaliðastarfi.
Vinnumálastofnun, frjálsu félagasamtökin og atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn um samþykki sitt. Með undirritun sinni samþykkir atvinnuleitandinn að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi sem hann hefur valið sér en samhliða starfi sínu sem sjálfboðaliði skal hann vera í virkri atvinnuleit.
Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleitanda á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og skulu frjálsu félagasamtökin sjá til þess að atvinnuleitandi sé slysatryggður við sjálfboðaliðastarfið.
Frjálsu félagasamtökin sem gera sjálfboðaliðastarfssamning skulu tilnefna sérstakan tengilið við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skulu þeir vera í reglulegum samskiptum á gildistíma samningsins til að meta framvindu hans. Atvinnuleitandi skal jafnframt vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar.
Sá tími sem þátttaka í sjálfboðaliðastarfi stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils.
Vinnumálastofnun getur gert samning um starfsendurhæfingu við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
Með samningnum skuldbindur atvinnuleitandi sig til að taka fullan þátt í starfsendurhæfingaráætlun sem hann hefur gert í samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og aðra þjónustuaðila. Á sama tíma greiðir Vinnumálastofnun viðkomandi atvinnuleysisbætur.
Skilyrði
Skilyrði eru að áætlun um starfsenduhæfingu:
komi til með að nýtast atvinnuleitanda beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar,
sé til þess fallin að skila viðkomandi árangri við að finna starf.
Atvinnuleitandi skal eiga regluleg samskipti við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og aðra þjónustuaðila, þegar við á, meðan á gildistíma starfsendurhæfingarsamnings stendur en hann þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.
13 vikur
Gildistími hvers samnings getur að hámarki verið 13 vikur. Heimilt er að framlengja samninginn einu sinni enda hafi starfsendurhæfingin borið viðunandi árangur að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Sá tími sem starfsendurhæfing á grundvelli starfsendurhæfingarsamnings stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils.
Atvinnuleitandi sem er ráðinn á ráðningarstyrk þarf að hafa verið á skrá sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur í að minnsta kosti í 3 mánuði eftir atvinnumissi.
Ráðningarstyrkur auðveldar atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölgar atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu.
Atvinnurekandi getur fengið 100% grunnatvinnuleysisbætur auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða allt að 390.084 kr. í styrk á mánuði.
Þegar einstaklingur fær atvinnuleysisbætur skuldbindur viðkomandi sig til að fylgja ákveðnum reglum sem eru settar fram í lögum.
Staðfesta atvinnuleit
Það þarf að staðfesta atvinnuleit í hverjum mánuði á Mínum síðum Vinnumálastofnunar. Jafnframt þarf að:
tilkynna um tekjur, hlutastörf og verktakavinnu,
láta vita ef aðstæður breytast.
Ýmsar breytingar geta haft áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta og þess vegna þarf að láta vita af þeim. Ef það er ekki gert getur útborgun verið frestað eða greiðslur stöðvaðar varanlega. Þetta er hægt að gera á mínum siðum.
Á meðan fólk fær atvinnuleysisbætur þarf það að vera virkt í atvinnuleit. Í því felst að:
hafa frumkvæði að því að leita sér að vinnu,
taka starfi sem greitt er fyrir, jafnvel án sérstaks fyrirvara,
taka starfi hvar sem er á landinu,
taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða, eða vaktavinnu,
taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa til boða,
veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur á að fá starf við hæfi.
Þegar fólki er boðið störf er reynt að finna störf sem henta þeim út frá reynslu og staðsetningu. Þetta eru þó reglur sem eru settar fram í lögum þannig að það er gott að hafa þær í huga.
Þau sem eru á atvinnuleysisskrá þurfa að svara boðum í atvinnuviðtö og mæta ef þau eru boðuð í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar.
Einstaklingar á atvinnuleysisskrá verða að sjá til þess að upplýsingar á Mínum síðum um símanúmer, netfang eða heimilisfang séu réttar.
Viðurlög: Afleiðingar vegna brota á reglum
Það getur haft afleiðingar í för með sér að fylgja ekki þessum reglum. Greiðslu atvinnuleysisbóta getur til dæmis verið frestað, þá er viðkomandi settur á biðtíma. Þegar greiðslum er frestað gildir það frá þeirri dagsetningu sem úrskurðurinn kemur.
Umsækjendur sem sæta biðtíma í upphafi bótatímabils eiga ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Að sæta biðtíma þýðir að greiðslu atvinnuleysisbóta er frestað í ákveðinn tíma.
Greiðslum er frestað í byrjun bótatímabils ef umsækjandi:
segir upp starfi án gildra ástæðna,
er valdur að eigin uppsögn,
hættir í námi án gildra ástæðna.
Berist skýringabréf með umsókn flýtir það afgreiðslu umsóknarinnar. Berist skýringabréf ekki er afgreiðslu umsóknar frestað og umsækjanda gefinn kostur á að skila inn skýringum eða andmælum vegna mögulegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Greiðslum getur verið frestað í:
2 mánuði.
3 mánuði, ef um ítrekun er að ræða.
Þetta er kallað að vera á biðtíma. Að sæta biðtíma þýðir að greiðslu atvinnuleysisbóta er frestað í ákveðinn tíma.
Þau sem vinna samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur en tilkynna ekki um vinnu til Vinnumálastofnunar þurfa að vinna sér inn bótarétt að nýju.
Greiðslur eru stöðvaðar:
Ef ekki er tilkynnt um nauðsynlegar upplýsingar,
ef starfi sem býðst er hafnað án þess að hafa til þess gildar ástæður,
ekki er tekið þátt í gerð starfsleitaráætlunar eða áætluninni ekki fylgt eftir,
úrræðum sem Vinnumálastofnun býður er hafnað, til dæmis að taka þátt í námskeiði,
ekki mætt í boðuð viðtöl eða á fund Vinnumálastofnunar án þess að hafa til þess gildar ástæður.
Berist skýringabréf ekki er afgreiðslu umsóknar frestað og umsækjanda gefinn kostur á að skila inn skýringum eða andmælum vegna mögulegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Niðurfelling
Viðurlög sem einstaklingur hefur verið beittur í tvo mánuði geta fallið niður.
Skilyrðin eru að:
Viðkomandi starfaði í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en sótt er um aftur og skráði sig af atvinnuleysisbótum.
Starfinu var ekki sagt upp án gildra ástæðna.
Viðkomandi missti ekki starfið af ástæðum sem viðkomandi átti sök á.
Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt er greiðslum ennþá frestað þegar sótt er aftur um atvinnuleysisbætur.
Þegar unnið er samhliða bótunum án þess að tilkynna um vinnuna.
Þegar einstaklingar sæta afleiðingum vegna brota á reglum og hafa þegið bætur í 24 mánuði eða lengur.
Þegar einstaklingar sæta afleiðingum vegna brota á reglum í þriðja sinn.