Fara beint í efnið

Einstaklingur getur verið á atvinnuleysisbótum að hámarki í 30 mánuði, eða tvö og hálft ár. Bótatímabil einstaklings er því 30 mánuðir. Þegar einstaklingur sækir aftur um atvinnuleysisbætur gæti viðkomandi komið inn á sama bótatímabil.

30 mánuðir

30 mánaða bótatímabil er ekki framlengt, jafnvel þó að:

  • bíða þurfi eftir fyrstu greiðslu bóta,

  • greiðslum sé frestað vegna brota á reglum,

  • bætur séu greiddar í minna en 100% hlutfalli,

  • veikindi standi yfir í styttri tíma. Aðrar reglur gilda ef einstaklingur verður óvinnufær vegna sjúkdóms eðs slyss.

Umsókn

Einstaklingur sækir um atvinnuleysisbætur á Mínum síðum atvinnuleitenda á vef Vinnumálastofnunar, rétt eins og þegar sótt er um í fyrsta sinn.

Endurkoma á sama bótatímabil

Hafa ber í huga að ef einstaklingur sækir um atvinnuleysisbætur og hefur áður verið á atvinnuleysisskrá getur verið að sama 30 mánaða bótatímabil gildi. Þá er réttur til atvinnuleysisbóta ekki heilir 30 mánuðir.

Hvernig sé ég stöðu bótatímabils hjá mér?

Neðst á greiðsluseðlum er sýnd staða bótatímabils og hve marga mánuði einstaklingur á eftir af tímabili. Greiðsluseðla má finna á Mínum síðum undir Rafræn skjöl.

Réttur til nýs bótatímabils

Réttur til nýs bótatímabils getur átt við að uppfylltum þessum skilyrðum:

Fyrra 30 mánaða tímabil klárað

Sá sem sækir aftur um atvinnuleysisbætur, hefur verið áður á skrá og klárað 30 mánaða tímabil:

  • 24 mánuðir verða að hafa liðið frá síðustu greiðslu bóta.

  • Umsækjandi verður að hafa unnið á íslenskum vinnumarkaði í að minnsta kosti 6 mánuði frá því atvinnuleysisbætur voru greiddar síðast. Starfshlutfall þarf að hafa verið 25% eða meira.

Dæmi: Einstaklingur sem klárar bótarétt sinn en starfar svo að lágmarki 6 mánuði á síðustu 2 árum eftir það, hefur áunnið sér nýtt 30 mánaða bótatímabil.

Fyrra 30 mánaða tímabil ekki klárað

Sá sem sækir aftur um atvinnuleysisbætur og hefur verið áður á skrá og ekki klárað 30 mánaða tímabil:

  • 24 mánuðir verða að hafa liðið frá síðustu greiðslu bóta.

  • Umsækjandi verður að hafa unnið á íslenskum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því atvinnuleysisbætur voru greiddar síðast. Starfshlutfall þarf að hafa verið 25% eða meira.

Sá tími sem einstaklingur er í starfi og er afskráður af atvinnuleysisskrá telst ekki hluti bótatímabilsins.

Dæmi: Einstaklingur sem fékk greiddar atvinnuleysisbætur í eitt ár en starfaði svo samfellt í tvö ár eftir það hefur áunnið sér nýtt 30 mánaða bótatímabil.

Óskað eftir rökstuðningi

Hægt er að óska eftir rökstuðningi á útreikningi bótaréttar.

Endurútreikningur

Einstaklingur sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur og kemur aftur inn á sama bótatímabil getur óskað eftir endurútreikningi. Þá er miðað við nýja starfstímabilið og þann hluta eldra tímabils sem nægir til að samtals verði miðað við tólf mánaða tímabil.

Skilyrði

Að hafa unnið samfellt lengur en þrjá mánuði áður en sótt er um aftur á sama bótatímabili.

Að óska eftir endurútreikningi

Til að óska eftir endurmati þarf að senda inn beiðni. Beiðnina er hægt að skrifa í ritvinnsluforriti, til dæmis Word, og hlaða upp á Mínum síðum sem pdf-skjali.

Valið er „Skila gögnum“ og „Beiðni um rökstuðning“ sem tegund gagna. Bréf með niðurstöðu kemur inn á Mínar síður þegar farið hefur verið yfir gögnin.

Umsókn um atvinnuleysisbætur

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun