Þannig er hægt að koma í veg fyrir að þurfa að endurgreiða of háar bætur eða að greiðslum sé frestað.
Það þarf að staðfesta atvinnuleit þó að umsókn sé enn í vinnslu og líka þó greiðslum sé frestað vegna brota á reglum.
Tilkynna vinnu og tekjur
Aukatekjur og aðrar greiðslur geta haft áhrif á upphæð atvinnuleysisbóta.
Ef einstaklingur lætur ekki vita um tekjur fær viðkomandi of mikið borgað og þarf svo að endurgreiða. Það er hægt að tilkynna vinnu á Mínum síðum Vinnumálastofnunar.
Atvinnuleysisbætur skerðast um helming þeirra tekna sem fara yfir frítekjumarkið. Frítekjumarkið er 86.114kr.
Dæmi: Einstaklingur er með 100.000 krónur í tekjur fyrir skatt. Upphæð yfir frítekjumarki er 13.886 krónur, það er, 100.000 krónur mínus 86.114 krónur. Þeirri upphæð er deilt með tveimur og skerðingin er 6.943 krónur af atvinnuleysisbótum á mánuði.
Vinnuna þarf að tilkynna að minnsta kosti degi áður en hún hefst.
Á Mínum síðum er skráð kennitala og nafn fyrirtækisins, mánuðurinn sem vinnan er unnin og áætlaða upphæð launa fyrir skatt. Ef tekjur breytast þarf að hafa samband við þjónustuskrifstofu til þess að gera breytinguna.
Bótaréttur einstaklings lækkar um það hlutfall sem hlutastarfið er. Einnig skerðast atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem fara yfir frítekjumarkið. Frítekjumarkið er 86.114kr.
Dæmi: Einstaklingur sem er með 90% bótarétt og í 20% hlutastarf verður því með 70% bótarétt. Tekjur fyrir starfið eru svo 100.000 krónur fyrir skatt. Upphæð yfir frítekjumarki er 13.886 krónur, það er, 100.000 krónur mínus 86.114 krónur. Þeirri upphæð er deilt með tveimur og er því skerðing umfram prósentu hlutastarfs 6.943 krónur á mánuði.
Vinnuna þarf að tilkynna að minnsta kosti degi áður en hún hefst.
Á Mínum síðum er skráð kennitala og nafn fyrirtækisins, upphaf starfs, starfshlutfall í prósentum og áætlaða upphæð launa fyrir skatt. Ef tekjur breytast þarf að hafa samband við þjónustuskrifstofu til þess að gera breytinguna.
Ef hlutastarfi lýkur
Mikilvægt er að tilkynna um starfslok í hlutastarfi þegar vinnunni lýkur svo starfshlutfall og tekjuáætlun hætti að skerða atvinnuleysisbætur.
Tilkynna þarf starfslok í hlutastarfi með því að skila inn Staðfestingu á starfstímabili. Einstaklingur þarf að hafa samband við atvinnurekanda um að skila inn staðfestingunni rafrænt í gegnum Mínar síður atvinnurekanda til að upplýsa um ástæðu starfsloka og staðfesta starfshlutfall og tímabil.
Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar þá daga sem unnin er verktakavinna. Tilkynna þarf um þá daga sem verkefni stendur yfir áður en verkefnið hefst.
Tilkynna þarf dag sem vinnudag þó að vinnan þann daginn taki minna en 8 klukkustundir. Ekki er heimilt að safna upp tímum vegna verktakavinnu.
Dæmi: Einstaklingur kennir tvisvar í viku í 2 klukkustundir og afskráir því 2 daga.
Aðrar tekjur sem þarf að tilkynna:
Greiðslur úr lífeyrissjóði.
Fjármagnstekjur, eigin eða sameiginlegar með maka.
Tekjur frá Tryggingastofnun.
Þessar greiðslur hafa ekki áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta. Það þarf því ekki að tilkynna um þær.
Umönnunarbætur barna.
Úttekt á séreignarsparnaði.
Arfur.
Félagslegir styrkir frá sveitarfélögum.
Mæðralaun og feðralaun.
Barnalífeyrir.
Styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu. Dæmi eru styrkir vegna líkamsræktar og námskeiða.
Styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem einstaklingur fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar.
Uppgjör síðasta launagreiðanda nema ef um uppgjör á orlofi er að ræða og umsækjandi hefur ekki ráðstafað óteknu orlofi.
Aðrar greiðslur sem eru greiddar fyrir tímabil sem umsækjandi þáði ekki atvinnuleysisbætur.
Slysabætur og sjúkrabætur sem eru greiddar fyrir slys eða veikindi á tímabili sem umsækjandi þáði ekki atvinnuleysisbætur.
Í lögum um atvinnuleysistryggingar segir jafnframt að Vinnumálastofnun eigi meta í hverju tilviki hvort greiðslur sem eru ekki ætlaðar til framfærslu lækki atvinnuleysisbætur til einstaklings.
Aðstæður breytast
Ýmsar breytingar geta haft áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta og þess vegna þarf að láta vita af þeim. Ef það er ekki gert getur útborgun verið frestað eða greiðslur stöðvaðar varanlega.
Einstaklingur verður að afskrá sig af atvinnuleysisbótum. Það getur hann gert sjálfur á Mínum síðum, með því að smella á hnapp á forsíðu sem heitir Afskrá mig af atvinnuleysisbótum.
Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar fyrir þá daga sem einstaklingur er í útlöndum. Þetta gildir líka þó ferðin sé yfir helgi eða almenna frídaga.
Senda þarf upplýsingar um ferðalag frá Íslandi áður en farið er af landi brott. Tilkynnt er um ferðalög með því að velja hnapp á forsíðunni á Mínum síðum.
Þau sem eru með U2-vottorð þurfa ekki að tilkynna ferðina.
Tilkynna skal strax um upphaf og lok veikinda.
Einstaklingur sem fær greiddar atvinnuleysisbætur hefur 5 daga veikindarétt. Það þýðir að veikindi í allt að 5 daga samtals hafa engin áhrif á réttinn til bóta.
Á hverju 12 mánaða tímabili má nýta þennan veikindarétt að hámarki í tvennu lagi. Einstaklingur þarf að hafa verið á skrá í 5 mánuði á sama bótatímabili.
Ef veikindi hamla því að einstaklingur geti verið virkur í atvinnuleit þarf að skila inn læknisvottorði ef greiðslustofa óskar eftir því. Vottorði er hlaðið upp á Mínum síðum í gegnum hnappinn Skila gögnum. Læknisvottorð er valið sem tegund gagna.
Vinnumálastofnun getur kallað eftir læknisvottorði ef einstaklingur mætir ekki á námskeið eða fundi og tilkynnir veikindi.
Veikindi barna
Einstaklingar sem fá greiddar atvinnuleysisbætur fá enga sérstaka veikindadaga vegna veikinda barna. Það er ekki leyfilegt að nýta 5 daga veikindarétt vegna veikinda barna.
Komi veikindi barna í veg fyrir að einstaklingur geti sinnt virkri atvinnuleit eru ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga.
Skila þarf inn læknisvottorði sem vottar núverandi starfshæfni ásamt upphafi og hlutfalli óvinnufærni.
Stofnun fyrirtækis þarf að tilkynna. Fyrirtæki geta verið ehf., slf. eða sf.
Einnig þarf að tilkynna:
Eignarhlut í fyrirtæki.
Opnun rekstrar sem hafði verið tímabundið stöðvaður.
Ef vinnuveitandi ræður í starf en er sjálfur á bótum.
Þessi upplýsingaskylda á líka við þegar greiðslum hefur verið frestað vegna brota á reglum.
Afleiðingar vegna brota á reglum
Þegar greiðslum er frestað gildir það frá þeirri dagsetningu sem úrskurður kemur.
Umsækjendur sem sæta biðtíma í upphafi bótatímabils eiga ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Að sæta biðtíma þýðir að greiðslu atvinnuleysisbóta er frestað í ákveðinn tíma.
Greiðslum er frestað í byrjun bótatímabils ef umsækjandi:
segir upp starfi án gildra ástæðna,
er valdur að eigin uppsögn,
hættir í námi án gildra ástæðna.
Berist skýringabréf með umsókn flýtir það afgreiðslu umsóknarinnar. Berist skýringabréf ekki er afgreiðslu umsóknar frestað og umsækjanda gefinn kostur á að skila inn skýringum eða andmælum vegna mögulegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Greiðslum getur verið frestað í:
2 mánuði.
3 mánuði, ef um ítrekun er að ræða.
Þetta er kallað að vera á biðtíma. Að sæta biðtíma þýðir að greiðslu atvinnuleysisbóta er frestað í ákveðinn tíma.
Þau sem vinna samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur en tilkynna ekki um vinnu til Vinnumálastofnunar þurfa að vinna sér inn bótarétt að nýju.
Greiðslur eru stöðvaðar:
Ef ekki er tilkynnt um nauðsynlegar upplýsingar,
ef starfi sem býðst er hafnað án þess að hafa til þess gildar ástæður,
ekki er tekið þátt í gerð starfsleitaráætlunar eða áætluninni ekki fylgt eftir,
úrræðum sem Vinnumálastofnun býður er hafnað, til dæmis að taka þátt í námskeiði,
ekki mætt í boðuð viðtöl eða á fund Vinnumálastofnunar án þess að hafa til þess gildar ástæður.
Berist skýringabréf ekki er afgreiðslu umsóknar frestað og umsækjanda gefinn kostur á að skila inn skýringum eða andmælum vegna mögulegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Niðurfelling
Viðurlög sem einstaklingur hefur verið beittur í tvo mánuði geta fallið niður.
Skilyrðin eru að:
Viðkomandi starfaði í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en sótt er um aftur og skráði sig af atvinnuleysisbótum.
Starfinu var ekki sagt upp án gildra ástæðna.
Viðkomandi missti ekki starfið af ástæðum sem viðkomandi átti sök á.
Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt er greiðslum ennþá frestað þegar sótt er aftur um atvinnuleysisbætur.
Þegar unnið er samhliða bótunum án þess að tilkynna um vinnuna.
Þegar einstaklingar sæta afleiðingum vegna brota á reglum og hafa þegið bætur í 24 mánuði eða lengur.
Þegar einstaklingar sæta afleiðingum vegna brota á reglum í þriðja sinn.