Sjálfvirk ákvarðanataka, gerð persónusniðs og persónuvernd
Í nútímasamfélagi færist sífellt í aukana að tölvutækni (til dæmis algrími) sé notuð þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi einstaklinga, til dæmis í tengslum við:
lánshæfismat
greiðslumat
ákvörðun um ráðningu í starf
og fleira.
Þegar slíkar sjálfvirkar ákvarðanir eru teknar, sem hafa enga mannlega aðkomu, gilda sérstakar reglur samkvæmt persónuverndarlögum – til að vernda réttindi einstaklinganna.
Slík ákvörðun getur haft veruleg áhrif á einstaklinga, til dæmis þegar:
ákvörðun er tekin sem hefur bein réttaráhrif á einstakling
lánsumsókn er hafnað sjálfvirkt
ráðningarferli fer fram án nokkurarr mannlegrar aðkomu
Við slíkar aðstæður á einstaklingur rétt á því að ákvörðunin sé ekki tekin eingöngu með slíkum sjálfvirkum hætti. Undir þetta fellur líka sjálfvirk gagnavinnsla sem gerir svokallað persónusnið um einstakinga.
Í stuttu máli þýðir sjálfvirk gagnavinnsla að engin manneskja kemur að ákvörðun sem varðar viðkomandi einstakling og hún er tekin út frá gögnum sem unnin eru með sjálfvirkum hætti, án mannlegrar íhlutunar.
Skráðir einstaklingar eiga einnig rétt á að mat á því hvort ákveðin persónuleg atriði, til dæmis spá um frammistöðu í starfi, fjárhagsstöðu viðkomandi, heilsu, áreiðanleika og fleira, séu ekki lögð til grundvallar við sjálfvirka ákvarðanatöku.
Þessi tegund af vinnslu persónuupplýsinga, sem getur verið grundvöllur sjálfvirkrar ákvörðunartöku, er einnig kölluð persónusnið.