Ársskýrsla 2020
Tæknilegar úrlausnir á tímum COVID
Árið 2020 verður skráð í sögubækurnar fyrir margar sakir og þá ekki síst fyrir þær breytingar sem urðu á vinnuumhverfi starfsfólks í vestrænum heimi. Heimsfaraldur geisaði sem varð til þess að starfsfólk gat ekki sótt vinnu sína eins og það var vant. Tæknin gerði það að verkum að mörgum var gert kleift að sinna störfum sínum heiman að. Starfsaðstæður breyttust á örskömmum tíma frá því að mæta daglega á starfsstöð í það að sitja heima við störf og eiga í samskiptum við samstarfsfólk og viðskiptavini með aðstoð upplýsingatækninnar.
Tæknilegar úrlausnir fleygðu okkur áfram inn í framtíðina á ógnarhraða. Lausnir sem höfðu verið til staðar um einhvern tíma en ekki náð verulegri útbreiðslu fyrr en neyðin kom til. Þá kom í ljós sá eiginleiki mannfólksins að aðlaga sig hratt að breyttu umhverfi þegar nauðsyn ber til sem var áhugavert að fylgjast með. Vinnustaðir standa því frammi fyrir breyttum áskorunum við að koma á eða viðhalda góðri vinnustaðamenningu við breyttar aðstæður.
Vinnueftirlitið fór ekki varhluta af þeim áhrifum sem faraldurinn hafði á íslenskt samfélag. Bæði þurfti starfsfólk að vinna heima og ljóst að ekki var unnt að framkvæma öll störf í fjarvinnu. Hægðist því á ákveðnum þáttum í starfseminni en kjarni hennar byggist á heimsóknum til fyrirtækja og stofnana sem ekki voru mögulegar með sama hætti og áður.
Við unnum markvisst að þróun stafrænna þjónustuferla með hagsmuni notenda að leiðarljósi í samræmi við framtíðarsýn stofnunarinnar og stafræna umbreytingu hins opinbera. Markmiðið er ávallt að auka skilvirkni, bæta þjónustu og notendaupplifun en stefnt er að því að notandinn geti sótt þjónustu okkar þegar honum hentar.
Rafræn slysaskráning var tekin í gagnið, boðið var upp á netkennslu og fjarkennslu og gátu rétthafar sótt sér rafræn vinnuvélaskírteini og ADR skírteini. Samhliða tók nýtt þjónustuver til starfa á haustdögum í því skyni að tryggja enn frekar góða og vandaða þjónustu. Unnið var að þróun smáforrita fyrir véla- og fyrirtækjaeftirlitið til að auðvelda starfsfólki störf sín við eftirlit og gera það markvissara.
Við hjá Vinnueftirlitinu horfum björtum augum fram á veginn. Hlutverk okkar er að tryggja að allir komi heilir heim og munum við halda áfram að aðlaga störfin okkar að þeim áskorunum sem vinnuumhverfi vinnustaða kemur til með að horfast í augu við á næstu misserum. Þýðingarmikið er að vinnustaðir framtíðarinnar setji sér metnaðarfull markmið á sviði vinnuverndar svo koma megi á öflugri líkamlegri og félagslegri öryggismenningu innan vinnustaða á innlendum vinnumarkaði. Huga þarf sérstaklega vel að þeim áhrifum sem fjarvinna kann að hafa á vinnustaðamenningu hvers vinnustaðar og sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að gæta vel að forvörnum sem stuðla að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum milli samstarfsfólks þar sem allir axla ábyrgð.
Framtíðin er okkar og við tökum henni fagnandi.
Kær kveðja,
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir,
forstjóri
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi. Vinnueftirlitið tekur jafnframt þátt í rannsóknarstarfi á sviði vinnuverndar.
Gildi Vinnueftirlitsins
Frumkvæði
Felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.
Forvarnir
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.
Fagmennska
Felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins. Sömuleiðis fyrirtækjaeftirlit þar sem haft er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og gefin fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf.
Slysaskrá stofnunarinnar er ekki síður mikilvægur hornsteinn í starfseminni en þar er haldið utan um öll vinnuslys sem tilkynnt eru til stofnunarinnar lögum samkvæmt. Markmiðið með því að halda miðlæga skrá er ekki hvað síst að sjá hvar úrbóta er þörf til að fyrirbyggja frekari slys og heilsutjón.
Áhrifa COVID-19 gætti verulega í vinnuvéla- og fyrirtækjaeftirliti á árinu þar sem ekki var unnt að fara í eftirlitsskoðanir vegna takmarkana í samfélaginu sem settar voru af sóttvarnaryfirvöldum.
Vinnuvélaeftirlit
16.333 vinnuvélar og tæki voru skoðuð á árinu eða 62% af skráðum vinnuvélum og tækjum.
79 % Hlutfall lyfta skoðaðar
28.367 Tæki og véla í lok árs
924 Nýskráningar tækja og fært af forskrá frá fyrra ári
1.038 Fjöldi tækja ekki til skoðunar á árinu
Fyrirtækjaeftirlit
Tegund skoðunar 2018-2020
Fyrirmæli á árinu voru 2.191 en algengast er að gefa fyrirmæli um öryggismál, vinnuverndarstarf, vélar og tæki.
Tegund fyrirmæla 2018-2020
Tilefni skoðana voru að stærstum hluta vegna ákvörðunar Vinnueftirlitsins eða í 394 tilfellum. Í 260 tilfellum voru þær að beiðni eigenda, í 78 tilfellum vegna slyss eða óhapps og í 29 tilfellum vegna kvörtunar.
Tilefni skoðana 2018-2020
Vinnuslys
Fjöldi tilkynntra vinnuslysa hefur haldist nokkuð stöðugur síðastliðin ár eða milli 2.100 – 2.200 tilkynningar árlega. Svo virðist sem að nokkur fækkun hafi orðið í tilkynntum vinnuslysum á árinu 2020 en 1.743 slys hafa þegar verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Reynsla síðustu ára er að um 92% slysa hafi þegar verið tilkynnt um mitt næsta ár á eftir að þau áttu sér stað þannig að gróflega má áætla að fækkunin muni nema um 15 – 20% samanborið við fyrri ár.
3 Banaslys við vinnu
1750 Fjöldi tilkynntra vinnuslysa, þar af 1100 karlar og 650 konur
244 Slys í opinberri þjónustu
237 Slys í opinberri stjórnsýslu
130 Slys í mannvirkjagerð
103 Slys í flutningastarfsemi
Erfitt er að fullyrða hvað valdi þessari fækkun á tilkynningum vinnuslysa en þar geta óvenjulegar aðstæður á innlendum vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 vissulega skýrt hluta hennar enda þótt líka verði að gera ráð fyrir að bætt vinnuvernd á vinnustöðum kunni einnig að hafa áhrif. Þá getur verið að dregist hafi að senda Vinnueftirlitinu tilkynningar um vinnuslys vegna óvenjulegra aðstæðna á vinnustöðum vegna COVID-19 og tilkynningar eigi því eftir að skila sér inn síðar en fyrri ár.
Þegar litið er til einstakra atvinnugreina hefur fækkunin á tilkynningum vinnuslysa milli áranna 2019 og 2020 verið mest í opinberri stjórnsýslu þar sem fjöldi tilkynntra vinnuslysa fór úr 360 í 237 tilkynningar. Einnig var nokkur fækkun í byggingariðnaði þar sem fjöldinn fór úr 208 í 130 og flutningastarfsemi þar sem fjöldi tilkynninga fór úr 210 í 103. Þá var einnig fækkun í smásöluverslun milli ára en svo virðist sem tilkynntum vinnuslysum hafi fjölgað þar á árunum 2018 (72) og 2019 (77) en svipaður fjöldi vinnuslysa var tilkynntur á árinu 2020 (47) og var árið 2016 (48).
Nokkur fækkun tilkynntra vinnuslysa var í matvælaiðnaði, annarri en vinnslu landbúnaðarafurða, þar sem fjöldi tilkynninga tæplega helmingaðist eða úr 62 tilkynningum í 33 tilkynningar. Á sama tíma fjölgaði hins vegar tilkynningum í matvælaiðnaði við vinnslu úr rúmlega 70 í 100 tilkynningar. Fiskiðnaður hefur staðið í stað milli ára en þar eru um 135 – 150 vinnuslys tilkynnt árlega til Vinnueftirlitsins. Sama á við um efnaiðnaðinn en þar eru tæplega 20 vinnuslys tilkynnt árlega.
Vinnueftirlitið leggur áherslu á að hvetja vinnustaði til að koma á skipulögðu vinnuverndarstarfi sem verður hluti af daglegum rekstri þeirra með það að markmiði að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Tilgangurinn er að koma auga á áhættur í vinnuumhverfinu og bregðast við þeim þannig að unnt sé að koma í veg fyrir vinnuslys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks.
Mikilvægt er að atvinnurekendur hafi skýra sýn um hvernig vinnustað þeir vilja bjóða starfsfólki sínu og það þarf að setja fram skýr markmið og mælikvarða til að raungera þá sýn. Þátttaka starfsmanna er mikilvæg og allir þurfa að axla sameiginlega ábyrgð á að vinnustaðurinn sé öruggur og heilbrigður. Þannig ná vinnustaðir árangri við að vernda starfsfólk sitt og fækka vinnuslysum en ekki eingöngu að bregðast við eftir eftirlitsheimsóknir Vinnueftirlitsins.
Flestar tilkynningar um vinnuslys sem urðu á árinu 2020 bárust frá opinberri þjónustu og fleiri. (244), opinberri stjórnsýslu (237), matvælaiðnaði (133), flutningastarfsemi (103) og mannvirkjagerð (103), sjá nánar töflu.
Það þarf þó ekki endilega að þýða að vinnuslys séu algengust í þeim greinum þar sem við mat á því þarf ávallt að líta til fjölda starfsmanna í hverri atvinnugrein fyrir sig á hverjum tíma. Með öðrum orðum getur mikill fjöldi tilkynninga í fjölmennri atvinnugrein þýtt svipað hlutfall starfsmanna sem lenda í vinnuslysum í atvinnugreinum þar sem tiltölulega fáir starfa enda þótt fjöldi tilkynninga séu þó nokkuð minni.
Vinnueftirlitið hefur skoðað þetta hlutfall nýlega í mannvirkjagerð, matvælaiðnaði og stóriðju og var þá miðað við fjölda starfandi miðað við tölur frá Hagstofu Íslands.
Tilkynnt vinnuslys á hverja 1000 starfsmenn, 2015 til 2019 í ál-, bygginga- og matvælaiðnaði
Regluleg námskeið Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2020 sátu samtals 2267 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu.
Samtals sátu 327 nemendur vinnuverndarnámskeið, þar af 250 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 77 önnur vinnuverndarnámskeið.
Samtals sátu 1576 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Þar af 574 frumnámskeið á íslensku, 121 frumnámskeið á ensku og 69 frumnámskeið á pólsku, 38 byggingakrananámskeið og 774 önnur vinnuvélanámskeið.
Samtals sátu 307 ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti.
65 sátu námskeið um meðhöndlun á Asbesti
Mannauður
Starfsfólk Vinnueftirlitsins var 72 í lok árs 2020, 45 karlar og 27 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar.
Fjöldi stöðugilda (ársverk) voru hins vegar 67 á árinu. Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land.
Árið 2020 var 67% starfsfólks starfandi í Reykjavík en 33% í öðrum landshlutum.
Janúar
Nýtt slysaskráningarkerfi tekið í notkun
Nýtt slysaskráningarkerfi var tekið í notkun hinn 1. janúar 2020. Tilgangur þess er að auðvelda atvinnurekendum að tilkynna vinnuslys ásamt því að stuðla að betri og nákvæmari skráningu vinnuslysa hér á landi. Það mun jafnframt leiða til bættra tölfræðiupplýsinga um vinnuslys til framtíðar.
Rafræn skil til Þjóðskjalasafns Íslands.
Opinberum stofnunum ber skylda til að skila gögnum sínum til Þjóðskjalasafns Íslands. Vinnueftirlitið fékk heimild Þjóðskjalasafns Íslands til að varðveita skjöl sín rafrænt frá 1. janúar 2020 og afhenda þau þannig til varðveislu. Rafræn skil gefa kost á að skila gögnum stofnunarinnar rafrænt og draga þar með stórlega úr notkun og vörslu gagna á pappír. Var því þarna einnig stigið mikilvægt skref til að draga úr notkun á pappír hjá stofnuninni.
Jákvæðir starfshættir á heilsueflandi vinnustað
Morgunfundur um jákvæða starfshætti á heilsueflandi vinnustöðum var haldinn á Grand Hóteli 15. janúar. Hann var sá fjórði í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum sem hófst árið 2019 og er hluti af samstarfi VIRK, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.
Febrúar
Sérsniðin líkamsbeitingarnámskeið
Vinnueftirlitið hóf að bjóða upp á ný námskeið um líkamsbeitingu við vinnu en rannsóknir sýna að stóran hluta veikindafjarvista frá vinnu má rekja til stoðkerfisvanda og er hann ein algengasta orsök örorku í Evrópu. Boðið er upp á bæði sértæk námskeið fyrir tilteknar starfsstéttir og námskeið almenns eðlis.
Mars
Rafræn samskipti aukin
Í ljósi útbreiðslu COVID-19 voru rafræn samskipti við viðskiptavini aukin til muna og þeir hvattir til að hafa samband í gegnum síma, tölvupóst, vefsíðu og Mínar síður í stað þess að mæta á afgreiðslustöðvar.Allt árið var unnið markvisst að stafvæðingu þjónustu stofnunarinnar í því skyni að nýta upplýsingatæknina með hagsmuni notenda að leiðarljósi.
Apríl
Öll námskeið í net- eða fjarkennslu
Fyrsta netnámskeið Vinnueftirlitsins fyrir öryggistrúnaðarmenn- og verði var haldið og í framhaldinu fór stofnunin að bjóða upp á flest námskeið í fjarkennslu í gegnum Team-fjarfundakerfið með góðum árangri.
Leiðbeiningar til starfsfólks og vinnuveitenda í tengslum við COVID-19
Vinnueftirlitið gaf út mikið magn leiðbeininga og fræðsluefnis til vinnuveitenda og starfsfólks í tengslum við COVID-19.
Maí
Kulnun hvað höfum við gert sem nýtist okkur nú
Vinnueftirlitið, Embætti landlæknis og VIRK buðu upp á eftirmiðdagsfund á netinu með Christinu Maslach, prófessor í sálfræði við Berkeleyháskóla þann 26. maí, en Maslach er brautryðjandi í rannsóknum á vinnutengdri kulnun. Eftirmiðdagsfundurinn var sá fimmti í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum og hluti af samstarfi Vinnueftirlitsins, Embættis landlæknis og VIRK um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.
September
Nýr stýrihópur um heilbrigt stoðkerfi
Forstjóri Vinnueftirlitsins skipaði í september stýrihóp um verkefnið Vinnuvernd er allra hagur – hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022 en það er hluti af Evrópsku vinnuverndarátaki um hreyfi- og stoðkerfi sem mun standa yfir til ársins 2022. Í hópnum eiga sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, samtökum aðila vinnumarkaðarins og VIRK auk Vinnueftirlitsins. Verkefninu er ætlað að auka vitund um vinnutengd stoðkerfisvandamál og mikilvægi forvarna gegn þeim, en stoðkerfisvandi er önnur helsta orsök þess að fólk sækir um endurhæfingar- eða örorkulífeyri hér á landi.
Eigendaskipti vinnuvéla einfölduð
Vinnueftirlitið tók í gagnið endurbættan feril við tilkynningu á eigendaskiptum vinnuvéla með það að markmiði að þau myndu ganga hraðar fyrir sig en áður, bæði seljendum og kaupendum til hagsbóta.
Ný smáforrit tekin í notkun og fyrirmæli stöðluð
Vinnueftirlitið lét hanna smáforrit fyrir véla- og fyrirtækjaeftirlit til að auðvelda eftirlitsfólki störf. Þá var lokið við stöðlun fyrirmæla í fyrirtækjaeftirliti.
Október
Nýtt þjónustuver Vinnueftirlitsins tekur til starfa
Greining fór fram á störfum þjónustufulltrúa fyrri hluta árs 2020 og niðurstöður kynntar um mitt ár. Nýtt þjónustuver tók formlega til starfa 1. október 2020. Þjónustuferlum var breytt til að mæta nýjum áskorunum. Á sama tíma var netspjall tekið í notkun. Ný þjónustustefna samþykkt í kjölfarið.
Fræðsluátak um líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu á facebook
Fræðsluátaki um góða vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu var hleypt af stokkunum á facebook-síðu Vinnueftirlitsins 1. október. Var það upptaktur að vefráðstefnu Vinnueftirlitsins „Meira vinnur vit en strit“ sem haldin var 19. nóvember. Átakið samanstóð af daglegum ráðum og fróðleiksmolum varðandi vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu.
Skráning vinnuslysa gerð enn aðgengilegri
Þeirri viðbót var bætt við nýtt slysaskráningarkerfi Vinnueftirlitsins að framvegis verður hægt að senda inn tilkynningar um vinnuslys í gegnum vefþjónustu en ekki aðeins mínar síður Vinnueftirlitsins. Gagnast það einkum fyrirtækjum sem eru að tilkynna mikinn fjölda slysa á ári.
Fjarvinna og staðvinna – ógnir og tækifæri
Vinnueftirlitið, VIRK og Embættis landlæknis efndu til morgunfundar undir yfirskriftinni „Fjarvinna og staðvinna – ógnir og tækifæri” hinn 29 október. Fundurinn, sem var sendur út í beinu streymi, var sá sjötti í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum og er hluti af samstarfi Vinnueftirlitsins, VIRK og Embættis landlæknis um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.
Nóvember
Morgunfundur gegn einelti
Vinnueftirlitið stóð fyrir rafrænum morgunfundi gegn einelti í tilefni af árlegum degi eineltis 8. nóvember.
Vefráðstefna um heilbrigt stoðkerfi
Vinnueftirlitið stóð fyrir vefráðstefnunni “Meira vinnur vit en strit – hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi” 19. nóvember. Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á þann víðtæka stoðkerfisvanda sem vinnandi fólk glímir við og benda á lausnir.
Stafræn vinnuvélaskírteini tekin í gagnið
Stafræn vinnuvélaskírteini voru tekin í gagnið 23. nóvember. Sömuleiðis stafræn ADR- skíteini. Þau eru fyrir alla sem eru með íslensk ADR- og/eða vinnuvélaréttindi og eiga snjallsíma, en yfir 35.000 manns eru með gild vinnuvélaréttindi hér á landi.
Desember
Ný lög um vernd uppljóstrara – leiðbeiningar og verklag
Vinnueftirlitið birti fyrirmynd að reglum um verklag við uppljóstrun starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi fyrir fyrirtæki í meirihlutaeigu einkaaðila, en slíkar reglur eiga að vera til staðar í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum með 50 starfsmenn eða fleiri.