Umboðsmaður viðskiptavina TR
16. janúar 2023
Jóhanna Ósk Baldvinsdóttir hefur tekið við nýju starfi hjá TR sem umboðsmaður viðskiptavina. Meginhlutverk umboðsmanns felst í að leiðbeina viðskiptavinum í meðferð mála hjá stofnuninni og aðstoða þau sem telja sig ekki hafa fengið efnislega umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög og reglur.
Markmiðið með nýrri stöðu umboðsmanns er einkum að styrkja tengsl viðskiptavina og TR ásamt því að stuðla að umbótum í stjórnsýslu og þjónustu í þágu viðskiptavina.
Umboðsmaður:
veitir leiðbeiningar varðandi meðferð mála hjá TR
leiðbeinir þeim sem telja sig ekki hafa fengið efnislega umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög eða reglur
veitir ráðgjöf og aðstoð um endurupptöku og kæruleiðir
skal vera hlutlaus þjónustuaðili fyrir viðskiptavini og miðla upplýsingum til þeirra
stuðlar að bættum starfsháttum með það að leiðarljósi að jafnræði sé virt í hvívetna í stjórnsýslunni og meðferð mála fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti
fræðir starfsfólk og leiðbeinir því um góða stjórnsýsluhætti
getur tekið upp mál til skoðunar að eigin frumkvæði.
Erindi til umboðsmanns þurfa að vera skrifleg og berast á netfangið umbodsmadur@tr.is
Þar þarf að koma fram lýsing á málavöxtum og hvaða óskir viðkomandi hefur um leiðbeiningar, úrbætur eða breytingar.
Rétt er að taka fram að umboðsmaður tekur almennt ekki að sér mál sem er í vinnslu innan TR eða þegar það er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, umboðsmanni Alþingis eða dómstólum og niðurstaða liggur ekki fyrir. Þá tekur hann erindi ekki fyrir ef meira en tvö ár eru liðin frá því að stjórnvaldsákvörðun var tekin í umræddu máli.
Umboðsmaður ákvarðar ekki í málum, heldur veitir leiðbeiningar og vísar málum til viðeigandi sviðs innan TR ef ástæða þykir til.
Viðskiptavinir eru hvattir til að nýta sér þessa nýjung í starfseminni.