Innheimta á skuld
Það getur komið fyrir að greiðsluþegar fái of mikið greitt frá Tryggingastofnun. Þetta getur verið vegna þess að tekjur þínar eru hærri en skráð var í tekjuáætlun eða vegna breytinga á aðstæðum þínum.
Ef skuld myndast hjá greiðsluþega, dreifir TR sjálfkrafa skuldinni á 12 mánaða tímabil. Engir vextir eru lagðir á skuldina.
Ýmsar lausnir eru í boði til að greiða skuld til baka.
Ef þú vilt breyta greiðsludreifingunni getur þú haft samband með því að senda beiðni í gegnum Mínar síður TR eða á innheimta@tr.is.
Upplýsingar um innheimtu og endurgreiðsluleiðir
Starfsreglur við innheimtu
Samkvæmt meginreglu ber að endurgreiða kröfur vegna ofgreiðslna innan 12 mánaða frá því að þær stofnast.
Ef hægt er að draga af mánaðarlegum greiðslum þá er það gert. Heimilt er að draga allt að 20% af mánaðarlegum greiðslum upp í kröfur þó að lágmarki 3.000 krónur
Ef endurgreiðsla samkvæmt meginreglunni er þungbær er hægt að óska eftir greiðsludreifingu til lengri tíma.
Við mat á slíkri beiðni er tekið mið af upplýsingum um heildartekjur, eignastöðu og aðrar aðstæður.
1. gr. Gildissvið:
Starfsreglur þessar eru settar í samræmi við 14. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, með síðari breytingum.
Þær gilda því um innheimtu ofgreiðslna sem koma í ljós við endurreikning Tryggingastofnunar. Starfsreglunum er einnig fylgt við innheimtu annarra ofgreiðslna frá stofnuninni eftir því sem við á.
Lagaákvæði um innheimtu Tryggingastofnunar er að finna í 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, 13. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og 30. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna nr. 22/2006, með síðari breytingum.
Sé ósamræmi á milli starfsreglna þessara og laga- og reglugerðarákvæða gilda hin síðarnefndu.
2. gr. Skilgreiningar:
Í starfsreglum þessum hafa eftirfarandi orðasambönd svofellda merkingu:
Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa áhrif á fjárhæð bóta.
Ótekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa ekki áhrif á fjárhæð bóta.
Breytingar á aðstæðum: Aðrar breytingar en breytingar á tekjum sem áhrif hafa á greiðslu bóta, eins og hjúskapar breyting.
3. gr. Skuldajöfnun og endurkröfuréttur:
Hafi Tryggingastofnun ofgreitt greiðsluþega bætur skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem greiðsluþegi síðar kann að öðlast rétt til í samræmi við IV. kafla starfsreglna.
Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur greiðsluþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum. Tryggingastofnun skal innheimta ofgreiðslu sé endurkröfuréttur til staðar. (Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim látna, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.)
4. gr. Tilkynning:
Ef í ljós kemur að greiðsluþegi hefur fengið ofgreiddar bætur skal Tryggingastofnun tilkynna honum um það og gefa honum kost á að koma að mótmælum og leiðréttingum við kröfu stofnunarinnar og leita samninga um fyrirkomulag endurgreiðslunnar.
Þá skal jafnframt skora á greiðsluþega að endurgreiða ofgreiðsluna og gera tillögu að tilhögun endurgreiðslu.
5. gr. Breytingar innan árs:
Ef tekjuáætlun greiðsluþega er breytt og í ljós kemur að honum hafi verið ofgreiddar bætur kemur ofgreiðslan til innheimtu við næsta endurreikning, nema samið sé um annað.
Sé tekjuáætlun hins vegar breytt oftar en einu sinni innan bótagreiðsluárs er Tryggingastofnun heimilt samtímis að skuldajafna vangreiðslu á móti ofgreiðslu.
Verði breyting á aðstæðum greiðsluþega sem leiðir til ofgreiddra bóta kemur ofgreiðslan til innheimtu strax eftir tilkynningu um hana.
6. gr. Dánarbú:
Dánarbú greiðsluþega er endurkrafið um ofgreiddar bætur nema í eftirfarandi tilvikum:
Dánarbúi hefur verið lokið sem eignarlausu. (Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim látna, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.)
Dánarbú hefur verið tekið til opinberra skipta (Sbr. IV. kafla laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991), erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar þess og Tryggingastofnun hefur ekki lýst kröfu innan kröfulýsingarfrests eða krafa hefur stofnast eftir að kröfulýsingarfresti lýkur og skiptastjóri viðurkennir af þeim sökum ekki kröfuna.
7. gr. Undanþága frá kröfu vegna endurreiknings:
Ekki skal endurkrefja greiðsluþega um ofgreiðslur sem nema lægri fjárhæð en 1.000 kr. á bótagreiðsluári, samkvæmt árlegum endurreikningi Tryggingastofnunar.
Heimilt er að falla frá kröfu sem stofnast vegna endurreiknings að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.
Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á. Sækja þarf sérstaklega um niðurfellingu á kröfum og fara slík erindi fyrir samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna. Hvert mál er metið út frá fyrirliggjandi gögnum.
8. gr. Endurgreiðslutími:
Meginreglan er að endurgreiða skal ofgreiðslu á allt að 12 mánuðum frá stofnun kröfu. Mögulegt er þó að veita lengri endurgreiðslutíma.
Við mat á lengd hans skal Tryggingastofnun þá hafa hliðsjón af heildartekjum, eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður.
Miðað er við að endurgreiðsla taki að jafnaði ekki lengri tíma en 36 mánuði.
9. gr. Endurgreiðsluleiðir:
Eingreiðsla inn á reikning Tryggingastofnunar. Ávallt er hægt að greiða inn á kröfu eða greiða hana upp.
Greiða samkvæmt tillögu Tryggingastofnunar að endurgreiðslu. Tillaga að endurgreiðslu miðast við að greiðsluþegi endurgreiði kröfu með skuldajöfnuði á allt að 12 mánuðum frá stofnun hennar. Verði skuldajöfnuði ekki við komið með þeim hætti eru rafrænir greiðsluseðlar sendir í heimabanka.
Semja við Tryggingastofnun um endurgreiðslu. Tryggingastofnun er ávallt heimilt að semja við greiðsluþega eða dánarbú hans um endurgreiðslu. Hægt er að semja um mánaðarlegan frádrátt af bótum og að fá mánaðarlega greiðsluseðla í heimabanka.
10. gr. Breyttar forsendur:
Ef endurgreiðslu er ekki lokið þegar ný krafa stofnast getur Tryggingastofnun gert nýja tillögu að endurgreiðslu. Tillagan miðast þá við að endurgreiðslu á heildarskuld sé lokið á allt að 12 mánuðum.
Greiðslufyrirkomulag þeirra krafna sem þegar eru til staðar heldur gildi ef samið hefur verið sérstaklega um dreifingu greiðsluseðla og skuldajöfnuð með hærri frádrætti en 20% af mánaðarlegum greiðslum. Verði breyting á rétti greiðsluþega til lækkunar og gert var ráð fyrir endurgreiðslu kröfu með mánaðarlegum frádrætti af bótum, getur Tryggingastofnun gert nýja tillögu að endurgreiðslu og tilkynnt greiðsluþega um hana.
11. gr. Greiðslufrestir:
Innheimtu er að jafnaði ekki frestað nema í eftirfarandi tilvikum:
Greiðsluþegi hefur óskað eftir endurupptöku á skattframtali hjá skattyfirvöldum og líkur eru á að krafa vegna endurreiknings muni lækka. Skila þarf staðfestingu á beiðni um endurupptöku frá skattyfirvöldum.
Greiðsluþegi hefur andmælt ákvörðun um endurkröfu innan andmælafrests.
Líkur eru á að aðstæður skuldara muni batna til muna á næstu þremur mánuðum, t.d. vegna eingreiðslu skaðabóta, slysabóta eða frá lífeyrissjóði.
Greiðsluþegi hefur sótt um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara. Innheimtu er frestað í samræmi við 20. gr. starfsreglna.
Eftirfarandi frestar ekki innheimtu:
Beiðni um niðurfellingu á kröfu.
Kæra til æðra stjórnvalds.
Kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
12. gr. Takmörkun frádráttar vegna tegundar bóta:
Ef tekjutengdar bætur eru ofgreiddar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem greiðsluþegi síðar öðlast rétt til.
Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að greiðsluþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður.
Ef ótekjutengdar bætur eru ofgreiddar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum bótum, tekjutengdum og ótekjutengdum, sem greiðsluþegi síðar öðlast rétt til.
Ofgreitt meðlag eða aðrar greiðslur skv. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 skulu aðeins dregnar frá sömu greiðslum vegna sama barns, nema samið sé um annað.
13. gr. Hámarksfrádráttur:
Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til greiðsluþega, nema samið sé um annað, þó ekki lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu.
Ef greiðsluþegi sýnir fram á að innheimta verði til þess að hann hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en fram kemur í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytis um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skal Tryggingastofnun, að ósk greiðsluþega, lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur greiðsluþegans nái þeirri fjárhæð.
14. gr. Inneignir úr endurreikningi:
Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið vangreiddar og greiðsluþegi hefur áður fengið ofgreiddar bætur skal skuldajafna ofgreiðslunni á móti vangreiðslunni áður en greiðsluþega eða dánarbúi hans er greitt út. Skiptir þá ekki máli þó samið hafi verið um endurgreiðslu.
15. gr. Innri innheimta:
Sé ekki staðið við ákveðið endurgreiðslu fyrirkomulag skal sent ítrekunarbréf þar sem tilkynnt er um frekari innheimtuaðgerðir verði ekkert aðhafst innan tilskilins frests.
Ef ekkert er aðhafst eftir útsendingu ítrekunarbréfs skal send innheimtuviðvörun þar sem m.a. er tilkynnt um hver muni taka að sér frekari innheimtuaðgerðir.
Varað er í bréfinu sérstaklega við innheimtukostnaði sem mun leggjast á kröfuna.
16. gr. Ytri innheimta:
Ef ekki er brugðist við bréfum Tryggingastofnunar skv. 15. gr. skal senda kröfu til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöð sýslumannsins á Blönduósi.
Tryggingastofnun metur í samráði við Innheimtumiðstöð hvort krefjast skuli lögfræðilegra innheimtuúrræða. (Í lögfræðilegum innheimtuúrræðum felst, eftir því sem við á aðför, gjaldþrot og nauðungarsala)
Einnig getur komið til skuldajöfnunar við skatta og gjöld.(Sbr. reglur nr. 797 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.)
Kostnaður vegna innheimtuaðgerða ytri innheimtuaðila bætist ofan á kröfur í samræmi við gjaldskrá þeirra. (Kostnaður hjá sýslumanni – Sjá samning við IMST 8 Sbr. 6. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Sjá nánar 3. mgr. 13. gr. sömu laga um stjórnsýslukærur.)
17. gr. Aðfararhæfi:
Ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta frá og með 1. janúar 2010 eru aðfararhæfar að undangenginni greiðsluáskorun. Stjórnsýslukæra á ákvörðun um endurkröfu frestar þó aðför.
18. gr. Vextir:
Hafi krafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að hún stofnaðist ber Tryggingastofnun að leggja vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma á eftirstöðvar kröfunnar.
Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi eða ef samningur um endurgreiðslu liggur fyrir og viðkomandi stendur við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningnum.
Ef álagi vegna sviksamlegs atferlis hefur verið bætt við kröfu í samræmi við 19. gr. telst það til eftirstöðva við útreikning vaxta. Aðrir vextir eru almennt ekki reiknaðir á ofgreiðslukröfu.
19. gr. Álag:
Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða ofgreidda fjárhæð að viðbættu 15% álagi.
20. gr. Greiðsluaðlögun:
Hafi greiðsluþegi sótt um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara og hægt er að skuldajafna af bótum hans hjá Tryggingastofnun upp í ofgreiðslu skal skuldajafna allt fram til þess er frumvarp að samningi um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt.
Samningi um greiðsluaðlögun verður svo fylgt, hafi krafa stofnast áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina. Þiggi greiðsluþegi ekki lengur bætur hjá Tryggingastofnun skal innheimtu frestað hafi krafa stofnast áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina.
21. gr. Gjaldþrotaskipti:
Tryggingastofnun er skylt samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar að skuldajafna af greiðslum greiðsluþega þrátt fyrir gjaldþrotaskipti á búi hans.
Þiggi skuldari ekki bætur af Tryggingastofnun fer um kröfu samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
22. gr. Afgreiðslutími:
Erindum vegna innheimtu skal almennt svarað innan tveggja vikna frá því þau berast Tryggingastofnun.
23. gr. Kæruleiðir:
Rísi ágreiningur um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er heimilt að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar til sjálfstæðrar og óháðrar nefndar, úrskurðarnefndar velferðarmála.
Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum innheimtu, sbr. þó 17. gr. starfsreglna.
24. gr. Gildistaka og endurskoðun:
Starfsreglur þessar öðluðust gildi 1. febrúar 2012. Starfsreglurnar voru endurskoðaðar þann 3. júní 2014, 19. ágúst 2015, 19. október 2015, 19. janúar 2017, 19. mars 2019 og 6. maí 2021.
Breytingar öðlast þegar gildi. Endurskoða skal starfsreglurnar við breytingar á lögum, reglugerðum og verklagi er varða innheimtu ofgreiddra greiðslna, þó að lágmarki á þriggja ára fresti.