Launamiðar TR 2024 birtir á Mínum síðum
27. febrúar 2025
Tryggingastofnun hefur birt á Mínum síðum TR launamiða ársins 2024 fyrir um 77 þúsund einstaklinga með upphæðum sem eru forskráðar á skattframtal ársins 2025. Við vekjum athygli á að ekki er þörf á að breyta forskráðum upphæðum á skattframtali.


TR gerir áætlað uppgjör á réttindum ársins 2024 hjá TR á grundvelli annarra forskráðra tekna á skattframtali. Niðurstaða uppgjörsins er í kjölfarið forskráð á skattframtal í viðeigandi reiti. Þannig að í skattframtali fyrir árið 2025 mun viðkomandi sjá þá upphæð sem réttindin segja til um á árinu 2024 að teknu tilliti til annarra tekna. Það getur verið önnur upphæð en greidd var í raun. Mikilvægt er að breyta ekki þessum forskráðu upplýsingum á skattframtalinu. Með þessu móti er leitast við að draga úr líkum á endurálagningu fyrir árið 2024 hjá Skattinum.
Hér má sjá dæmi um skil TR til Skattsins, sem á við um langflesta, þar sem bæði koma fram greiðslur ársins 2024 og niðurstaða áætlaðs uppgjörs TR fyrir árið 2024. Það er sú upphæð sem verður forskráð á skattframtal (innan rauða rammans):


Hluti viðskiptavina fær hins vegar launamiða þar sem einungis koma fram þær greiðslur sem viðkomandi fékk árið 2024, án þess að áætlað uppgjör hafi verið gert. Ástæðan er að viðkomandi hafa gert ráð fyrir tekjum í tekjuáætlun sinni hjá TR sem ekki er að finna í forskráðum upplýsingum á framtali; svo sem erlendum tekjum, leigutekjum eða óreglulegum fjármagnstekjum.
Endanlegt uppgjör TR á réttindum ársins 2024 á grundvelli skattframtals fyrir árið 2024 verður gert í vor og niðurstaðan birt í maí.
Hægt er að senda frekari fyrirspurnir um launamiða og uppgjör lífeyrisréttinda í gegnum Mínar síður TR.