Um Stafrænt Ísland
Markmið og framtíðarsýn
Ísland er meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Stafræn þjónusta er notuð til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar.
Stafræn þjónusta er skýr, örugg, einföld og hraðvirk. Upplifun notenda af þjónustunni stenst samanburð við þjónustu eins og hún gerist best. Almenningur og fyrirtæki í landinu komast beint að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks. Jafnframt minnka áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir.
Stefnur hins opinbera í stafrænni þróun og tæknimálum
1. Styðja við stofnanir á stafrænni vegferð
Styðja við stofnanir á stafrænni vegferð með ráðgjöf og innleiðingu kjarnaþjónusta Stafræns Íslands.
2. Þróa og reka stafræna innviði hins opinbera
Áframhaldandi þróun og rekstur á kjarnaþjónustum.
3. Einfalda líf fólks með því að setja notandann í forgang
Fræðsluhlutverk þannig að almenningur treysti og þori að nota þær þjónustur sem verða stafrænar. Skilji eigin ávinning.
Aukin samkeppnishæfni
Öruggari innviðir
Betri opinber þjónusta
Nútímalegra starfsumhverfi


Aukin samkeppnishæfni
Almenningur og fyrirtæki geti nýtt möguleika stafrænnar þjónustu og innviði hins opinbera til aukinnar nýsköpunar, verðmætasköpunar og lýðræðislegrar þátttöku.
Áherslur:
Almenningur og fyrirtæki hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem opinberir aðilar búa yfir og varða viðkomandi.
Samfélagið hefur þekkingu og kunnáttu á möguleikum tækninnar, svo sem stafrænna þjónustuleiða og gervigreindar.
Möguleikar stafrænna innviða eru nýttir til að auka lýðræðislega þátttöku með
gagnvirkni og samráði við almenning.Gögn hins opinbera eru aðgengileg og hagnýtt að teknu tilliti til
persónuverndarsjónarmiða og samþykkis einstaklinga.Stafræn þjónusta og nýjar lausnir eru þróaðar í samvinnu við fjölbreyttan hóp fyrirtækja og sérfræðinga, meðal annars með hagnýtingu opins hugbúnaðar.
Löggjöf gerir ráð fyrir stafrænni þjónustu og samskiptum.
Betri opinber þjónusta
Almenningur og fyrirtæki hafi jafnt aðgengi að framúrskarandi opinberri þjónustu sem er veitt út frá þörfum notenda á skilvirkan og hagkvæman hátt.
Áherslur:
Stafræn þjónusta er aðgengileg samfélaginu öllu og löguð að þörfum mismunandi hópa.
Stafræn samskipti, í gegnum Ísland.is, eru megin samskiptaleið hins opinbera við almenning og fyrirtæki.
Meginreglan er að einungis þurfi að skrá gögn einu sinni í samskiptum við hið opinbera og að gögn ferðist á milli stofnana í stað fólks.
Rekstur vefkerfa og stafrænnar þjónustu er hagkvæmur og uppfyllir hæstu
mögulegu öryggisskilyrði.Vefþjónustur og gagnaflutningslag hins opinbera er samræmt út frá tæknistefnu Ísland.is
Samhæfing og hagkvæmni hugbúnaðarlausna er tryggð.
Öruggari innviðir
Upplýsingatækni verði hagað á öruggan, skilvirkan og hagkvæman hátt í gegnum trausta innviði sem mæta bæði kröfum almennings til grunnþjónustu stofnana og stuðla að auknum sveigjanleika opinberrar þjónustu.
Áherslur:
Vinnubrögð í rekstri upplýsingatæknikerfa eru öguð og byggja á alþjóðlegum stöðlum.
Öflugir innviðir á sviði tækni styðja við markmið um öryggi, skilvirkni og
nýsköpun.Öruggasta tækni í gagnaflutningi og aðgangsstýringu að upplýsingum er hagnýtt.
Upplýsingar hins opinbera eru ávallt meðhöndlaðar út frá viðkvæmni- og öryggisstigi þeirra.
Grunnkerfi hins opinbera byggja á stöðluðum lausnum, sem víðtæk þekking og reynsla er af.
Nútímalegra starfsumhverfi
Opinberar stofnanir búi yfir nýjustu tæknilausnum og nútímalegu starfsumhverfi sem hvetur til framþróunar og sveigjanleika og er grundvöllur betra og skilvirkara vinnuskipulags. Jákvætt hugarfar ríkir gagnvart tækifærum nútímalegra starfshátta.
Áherslur:
Opinberir starfsmenn hafa haldbæra þekkingu, hæfni og færni til að vinna í stafrænu starfsumhverfi og vinna að stöðugum umbótum og nýsköpun í starfi.
Opinberir vinnustaðir vinna í samræmdum skrifstofuhugbúnaði.
Starfsmenn vinna í verkefnamiðuðu starfsumhverfi.
Möguleikar nýjustu tækni, svo sem sjálfvirknivæðingar, eru að fullu nýttir með ábyrgum hætti.
Lífið færir okkur margar stórar stundir og það að stofna til fjölskyldu er ein þeirra. Á þeim tímamótum þurfum við öll á einn eða annan hátt að nýta okkur þjónustu hins opinbera. Sambúð, hjónaband, meðganga, fæðing, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar – allt á þetta sinn stað og að sama skapi fylgja þessu öllu samskipti við ólíkar stofnanir sem hafa ólíku hlutverki að gegna.
Á næstu árum mun stjórnsýslan öll og sú stafræna þjónusta sem hún veitir taka umfangsmiklum breytingum sem allar miða að því að þú getir nálgast hana á einfaldan og hraðvirkan hátt á einum stað, í gegnum Ísland.is. Í sumum tilvikum hafa stóru skrefin þegar verið tekin en í öðrum þarf enn að prenta út eyðublöð og flakka á milli staða til að koma þeim til skila. Því ætlum við að breyta.
Verðandi foreldrar munu hér fá hnitmiðaðar og skýrar upplýsingar um réttindi og þjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu. Á slíkum tímamótum er spennan mikil og fæst okkar sérstaklega áhugasöm um að eyða dýrmætum tíma í að flakka á milli vefsíðna til að finna út hver næstu skref eru þegar barnið er komið í heiminn. Þess mun ekki þurfa af því að Ísland.is lætur þig vita af ungbarnaverndinni, tímabókunum hjá heilbrigðisstofnun og að sjálfsögðu minna þig á þegar tímafrestur fyrir mikilvæg atriði eins og nafngjöf er að renna út.
Og eftir því sem lífi lítillar – eða stórrar – fjölskyldu vindur fram verður Ísland.is eini staðurinn sem þarf að leita til þegar fjölskyldan þarf á þjónustu stofnana ríkisins að halda: aðstoð sérfræðinga, vegabréfin að renna út, þegar börnin fara í skóla og þegar foreldrarnir fara að huga að starfslokum.
Ísland.is kemur til með að gefa þér þær upplýsingar sem þú þarft þegar þú þarft þær.
Það reynir á þolinmæðina að þræða í gegnum ótal upplýsingasíður, umsóknir og eyðublöð fram og til baka milli stofnana til þess eins að koma til dæmis prófskírteini frá einum stað til annars. Það flokkum við alls ekki sem stafræna þjónustu.
Það sem við köllum framúrskarandi stafræna þjónustu er þegar við gerum þér kleift að sjá um alla þessa einföldu hluti á Ísland.is; þegar Ísland.is sendir þér tilkynningu í appi um að þú þurfir að endurnýja vegabréfið þitt eða að þú eigir tíma hjá lækni kl. 9:40 í fyrramálið. Og það er einmitt það sem við ætlum að gera á næstu árum.
Á Ísland.is átt þú að geta í sjálfsafgreiðslu uppfært þau gögn sem til eru um þig hjá hinu opinbera. Að sama skapi ættirðu líka að geta sótt gögn sem þú þarft á að halda af því að stundum þarf bara að sækja sakavottorð til að skila með atvinnuumsókn – það geturðu reyndar gert nú þegar – en þú gætir þurft að sækja upplýsingar um fasteignir, bifreiðar, réttindi, námsferla, stöðu við ríkissjóð eða þau leyfi sem þú hefur.
Ísland.is ætlar að einfalda þetta allt: upplýsingaleitina, umsóknirnar og ferðalagið milli stofnananna. Þar geturðu haft beint samband við þjónustufulltrúa sem beinir þér á réttan stað þar sem þú getur afgreitt málið á örfáum mínútum. Og það skiptir engu máli hver þú ert, stafræn þjónusta á að vera aðgengileg öllum og allir hópar samfélagsins eiga að geta lausnir Ísland.is – líka eldra fólk, fólk með fötlun og þau sem eiga af einhverjum ástæðum í erfiðleikum með að nýta sér stafræna þjónustu. Ísland.is verður vefur sem er aðgengilegur öllum.
Þegar það er komið fer svo sannarlega minni tími í pappírsvinnu – tími sem þú getur notað í eitthvað miklu skemmtilegra.
Fyrirtækjarekstur er alls ekki einfaldur þegar kemur að öllu sem þarf að sækja um og standa skil á til hins opinbera. Til að byrja með þarf auðvitað að stofna fyrirtækið, skrá það og sækja um rekstrarleyfi, sannvottunarleyfi eða annars konar leyfi sem gera fyrirtækinu kleift að hefja starfsemina af fullum krafti. Eftir það taka skattar og skilagreinar við, launagreiðslur og annað tengt starfsfólkinu.
Þjónusta Ísland.is við fyrirtæki mun í framtíðinni taka stórum breytingum þar sem fyrirtækin geta einmitt sótt þjónustuna og gengið frá sínum málum á einum stað. Það verður auðveldara að fylgjast með stöðu við ríkissjóð, skila og sækja þær upplýsingar sem þarf varðandi lög og reglur í fyrirtækjarekstri á Íslandi.
Á Ísland.is koma fyrirtæki til með að geta sótt ráðgjöf um alla þjónustu hins opinbera sem tengist rekstrinum. Sprotafyrirtæki eiga að geta fengið upplýsingar um styrki á vegum ríkisins og öll fyrirtæki munu njóta ávinnings í formi hagræðingar með styttri og skilvirkari málsmeðferð innan kerfisins.
Fyrir fyrirtæki verður Ísland.is eini aðgangurinn sem þarf að muna til að ganga frá öllum málum.
Stafræn þróun Ísland.is er að sjálfsögðu til bóta fyrir fólkið í landinu, en ekki síður fyrir stofnanirnar sem veita þjónustuna sem það sækir. Þessi stafræna þróun gefur stofnununum raunveruleg tækifæri í uppbyggingu til framtíðar.
Þær breytingar sem Ísland.is vinnur nú að miða allar að því að hjálpa stofnunum að byggja upp innviði og hver einasta stofnun ríkisins kemur til með að geta nýtt Ísland.is til að bæta og efla þjónustu, gera hana aðgengilegri og notendavænni – ekki bara gagnvart þeim sem nýta sér þjónustuna heldur líka gagnvart þeim sem veita hana.
Stofnanir eiga að geta treyst því að þjónusta þeirra sé aðgengileg öllum, örugg og hraðvirk, að gögn séu örugg, að umsóknarferli og samskipti séu einföld og skýr með aðgangi að nýjustu uppfærslum á virkni í stöðugri þróun. Það kemur til með að skila sér í lægri rekstrarkostnaði og skilvirkari starfsemi allra stofnana ríkisins.
Það er jú töluvert fljótlegra að birta rafræn skjöl þar sem notandinn kemst til að skoða þau og skrifa undir strax en að senda þau í föstu formi landshluta á milli.
Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og unnið er að því markmiði að stafræn samskipti verði megin samskiptaleið almennings við hið opinbera.
Verkefnastofa um stafrænt Ísland, sem starfar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hefur það hlutverk að tryggja markmið ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Verkefnastofan vinnur með ráðuneytum, stofnunum og öðrum opinberum aðilum að því að efla stafræna þjónustu við almenning og tryggja þannig skýr, einföld og hraðvirk samskipti.
Helstu áherslusvið Stafræns Íslands eru:
Stafræn samskipti við almenning: Setja í loftið nýjan vef Ísland.is og stórefla stafræna þjónustu með nýrri ásýnd, léttara vörumerki í takt við tímann og framúrskarandi þjónustuupplifun.
Sjálfsafgreiðsla: Allir ferlar hins opinbera verði aðgengilegir í gegnum miðlæga þjónustugátt Ísland.is í sjálfsafgreiðslu innan þriggja ára.
Stafrænir innviðir: Innleiðing og virkjun gagnaþjónustulagsins Straumsins (X-Road), að fyrirmynd Eistlands og Finnlands, til að samræma vefþjónustur og gagnaflutningslag hins opinbera með opnum hugbúnaði.
Áætlað er að á næstu þremur til fimm árum geti ríkið sparað um 9,6 milljarða á ári í kjölfar innleiðingar á stafrænni þjónustu. Þjóðhagslegur ávinningur felur þó í sér enn meiri hagræðingu því bæði einstaklingar og fyrirtæki munu upplifa mikinn tímasparnað og einföldun í samskiptum sínum við hið opinbera, auk þess sem innleiðingin hefur jákvæð umhverfisleg áhrif. Sem dæmi má nefna að frá 1. maí 2020 munu stofnanir ríkisins senda alla reikninga rafrænt, sem mun spara um 200 milljónir árlega í prentkostnað og sendingargjöld.

